• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær á Nítjándu í golfskálanum. Er skemmst frá því að segja að félagið er bæði félagslega og fjárhagslega sterkt. Í skýrslu stjórnar var farið yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og var af ýmsu að taka enda viðburðaríkt ár að baki.

Rekstrarafkoma allra sjóða félagsins var jákvæð um samtals 285 milljónir og eiga vaxtatekjur þar töluverðan þátt enda vaxtastig hér á landi alltof hátt um þessar mundir. Félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt í félaginu á liðnum árum og eru nú tæplega 3.300. Það endurspeglast meðal annars í því að félagsgjöld jukust um 14,5% á milli ára. Það hefur verið stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins og það hefur verið gert undanfarin ár. Meðal annars hefur félagið á undanförnum 12 mánuðum keypt tvö ný sumarhús ásamt því að bjóða upp á niðurgreiðslu á svoköllum flugávísunum þar sem félagsmaður getur keypt 5 flugávísanir á 19.000 kr. hverja ávísun en raunvirði er 25.000 þannig að félagsmaðurinn sparar sér 30.000 kr. fullnýti hann sér þessa þjónustu. Sem dæmi þá voru 519 flugávísanir seldar frá maí í fyrra til ársloka sem þýðir að félagsmenn hafa sparað sér á fjórðu milljón vegna niðurgreiðslu félagsins.

Það kom einnig fram í skýrslu stjórnar að í gegnum sjúkrasjóðinn, menntastyrki og allar niðurgreiðslur sem orlofssjóður býður upp á voru 3.001 skráningar (skráðir styrkir, keypt veiðikort, útilegukort, hótelgjafabréf og flugávísanir) sem sýnir hversu vel félagsmenn eru meðvitaðir um þá þjónustu sem félagið er að veita. Það má áætla að stór hluti félagsmanna nýti sér þjónustuna á einn eða annan hátt þó vissulega geti verið sami einstaklingurinn á bak við nokkrar einingar.

Á hverjum aðalfundi hækkar stjórn félagsins styrki ef afkoma félagsins gefur tilefni til og þannig hefur það verið frá upphafi en félagið greiddi styrki sem námu 123,3 milljónum út á síðasta ári sem er aukning upp á 25% milli ára. Á þessum aðalfundi tilkynnti formaður félagsins að vegna jákvæðrar afkomu félagsins þá hafi verið ákveðið að frá og með 1. maí muni eftirfarandi styrkir hækka með þessum hætti:

  • Hámark sjúkradagpeninga hækkar úr 700.000 í 780.000 kr.
  • Styrkur vegna sálfræðiþjónustu hækkar úr 50.000 kr. í 100.000 kr.
  • Fæðingarstyrkur hækkar úr 155.000 kr. í 170.000 kr.
  • Styrkur vegna heilsufarsskoðunar hækkar úr 50.000 kr. í 55.000 kr.
  • Heilsueflingarstyrkur hækkar úr 50.000 kr. í 55.000 kr.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að stjórn félagsins er umhugað um að skila ætíð góðri afkomu félagsins til félagsmanna í formi hærri styrkja og aukinnar þjónustu úr orlofssjóði enda er það stefna stjórnar að reyna eftir fremsta megni að bjóða upp á góð réttindi og góða þjónustu, félagsmönnum til hagsbóta.

Að loknum fundi var fundargestum boðið upp á lambalæri og meðlæti. Myndir frá fundinu má sjá hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image