• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Aug

Stöðugleikasáttmálinn marklaust plagg

Eftirfarandi viðtal birtist á mbl.is við formann Verkalýðsfélags Akraness í dag.  Einnig var viðtal við formann félagsins í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hægt er að hlusta á viðtalið hér

„Forsendur stöðugleikasáttmálans eru brostnar. Hann er marklaust plagg og var raunar allt frá upphafi, innihaldið var ekkert. Það var í raun verið að fífla launþega með því að semja um 6.500 króna launahækkun og skella um leið á þá kjaraskerðingum upp á tugi þúsunda, launalækkunum, gjaldskrárhækkunum og fleiru,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur þingaði í morgun með forseta bæjarstjórnar Akraness og oddvita Framsóknarflokksins í bæjarstjórn vegna fyrirhugaðra sparnaðaráforma í rekstri bæjarins.  Þeirra á meðal eru verulegar breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða sem að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness, VLFA, munu hafa umtalsverð áhrif á launakjör þessara hópa. Starfsmenn munu samkvæmt tillögunum lækka í launum um 10% til 15%.

Formaður VLFA sendi fyrir nokkru bæjarráði og bæjarstjórn Akraness bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur vegna sparnaðaraðgerðanna. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda yrðu fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.  Oddvitar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akraness buðu formanni VLFA á sinn fund í morgun til að ræða fyrirhugaðar aðgerðir.

Sanngirni verði gætt

„Þetta var svo sem ágætur fundur. Ég gerði grein fyrir afstöðu okkar til tillagnanna og gerði alvarlegar athugasemdir við þessa fyrirætlan. Það hefur alltaf verið okkar skilningur að það ætti að slá skjaldborg um þá tekjulægstu. Viðmiðunartalan var 300 þúsund krónur en við höfum dæmi um einstakling sem er með um 280 þúsund krónur í mánaðarlaun sem þarf að sæta skerðingu upp á tæplega fjörutíu þúsund krónur á mánuði. Þetta er ekki sú sanngirni sem við gerum kröfu um að gætt verði,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

Stéttarfélagið hefur kallað eftir upplýsingum um hvað forstöðumenn bæjarstofnana, kennarar, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins þurfa að leggja af mörkum í hagræðingunni. Vilhjálmur segir að verið sé að vinna frekari tillögur á vegum bæjarins og ákveðið hafi verið að funda á ný þegar þeirri vinnu lýkur.

Það er með hreinustu ólíkindum að það hafi verið undirritaður stöðugleikasáttmáli sem ríkisvaldið, verkalýðshreyfingin, samtök atvinnulífsins og sveitarfélög vitna ítrekað í. Ég velti því fyrir mér hvort það sé stöðugleiki að lækka laun starfsmanna um tugi þúsunda, hækka gjaldskrár sveitarfélaga, jafnvel um tugi prósenta á sama tíma og launafólk má sæta gríðarlegri skerðingu vegna hagræðingaraðgerða. Er þetta það sem menn kalla stöðugleika og státa sig af?;“ spyr formaður VLFA.

Jarðsyngur stöðugleikasáttmálann

Vilhjálmur Birgisson segist jarðsyngja stöðugleikasáttmálann, allar forsendur hans séu foknar út í veður og vind.

„Þetta er bara í mínum huga algjörlega marklaust plagg. Ég tók ekki þátt í gerð þessa plaggs og ég hef alla tíð verið mótfallinn því að fresta umsömdum launahækkunum.

En minn skilningur var sá að með undirritun stöðugleikasáttmálans kæmu allir að borðinu. Það væri ekki hægt fyrir ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og svo framvegis, að varpa öllum sínum vanda beint út í verðlagið á sama tíma og launþegar horfa fram á gríðarlegt tekjutap og stóraukna greiðslubyrði. Þetta er enginn stöðugleiki,“ segir formaður VLFA.

Hann segir að allir verði að koma að borðinu. Það gangi ekki upp að olíufélögin tilkynni um hækkun á eldsneytisverði upp á 4 krónur hvern lítra í dag, meðan starfsmennirnir sem dæla bensíninu þurfi að gefa eftir af sínum launum. Þetta fari beint út í vísitöluna og íbúðalán almennings hækki.

Engin von gefin 

„Ég óttast að ástandið á næstu vikum og mánuðum eigi eftir að verða alveg skelfilegt. Það styttist í að frystingum lána ljúki og öðrum skammtímaaðgerðum sem gripið var til. Þá mun fólk almennt ekki geta staðið undir greiðslubyrðinni. Og það er með ólíkindum að hlusta á félagsmálaráðherra tilkynna fólki það að ekki verði um neinar leiðréttingar á skuldum að ræða. Fólki er ekki gefin nein von. Opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, þau ætla bara að varpa vandanum yfir á launþegana og heimilin í landinu. Þeir tekjulægstu eiga að sitja eftir í launum með stóraukna greiðslubyrði. Þetta endar varla nema með stórri bombu. Ég held að verkalýðshreyfingin ætti að vakna, þetta gengur ekki upp,“ segir formaður VLFA.

Hann segir að það verði að koma fólki til hjálpar. Með einum eða öðrum hætti þurfi að leiðrétta gengistryggð lán sem fólk tók. Þar komi til greina að færa gengisvísitöluna niður og gefa fólki kost á að breyta gengistryggðum lánum í krónulán.

„Það verður a.m.k. að gera eitthvað því fólkið hefur enga möguleika á að mæta sínum vanda með aukinni vinnu eða öðru slíku, því er ekki til að dreifa. Þvert á móti er verið að þrengja að möguleikum fólks til þess, eins og dæmin sanna hér á Akranesi“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

04
Aug

Fundað um breytingu á vinnutilhögun bæjarstarfsmanna

Starfsmenn Akraneskaupstaðar reiðir og sárirStarfsmenn Akraneskaupstaðar reiðir og sárirEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá skrifaði Verkalýðsfélag Akraness bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Hægt er að lesa bréfið hér.

Bæjarráð Akraneskaupstaðar tók Bréf Verkalýðsfélags Akraness, dags. 9. júlí 2009 fyrir á fundi 30. júlí og var lagt til að starfshópi um hagræðingu og sparnað falið að ræða við fulltrúa Verkalýðsfélagsins. Formaður vonar að þessi fundur verði mjög fljótlega enda er erindið afar brýnt.

Það verður ekki annað séð en að bæjaryfirvöld hafni því hins vegar að stofna vinnuhóp eins og VLFA lagði til vegna þeirra sparnaðaraðgerða sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 2. júlí sl. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda vildi félagið að yrðu  fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.

Það er morgunljóst að umræddar sparnaðaraðgerðir munu koma afar illa niður á þeim starfsmönnum bæjarins sem eru með hvað lægstu tekjurnar.  Sem dæmi þá hefur bæjarráð Akraneskaupstaðar ákveðið að breyta vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja. Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Það er skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni.

Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það ríkir mikil gremja á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar með þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda um breytingu á vinnutilhögun sem skerðir laun starfsmanna jafn skelfilega raun ber vitni.  Starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness vilja fá upplýsingar hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins.  Það getur ekki verið eðlilegt að ráðast ætíð á þá tekjulægstu þegar kemur að sparnaðarleiðum eins og þessar tillögur klárlega gera.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 300.000 kr. sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi og Verkalýðsfélag Akraness getur alls ekki sætt sig við þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda. 

29
Jul

Segjum nei við svartri atvinnustarfsemi

Samtök Iðnaðararins SI hafa nú hleypt af stokkunum auglýsingaátaki gegn svartri atvinnustarfsemi.  Stjón Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessu átaki enda er svört atvinnustarfsemi eitt af okkar helstu samfélagsmeinum.

Svarti markaðurinn hefur grafið undir eðlilegu samkeppnisumhverfi fyrirtækja og veikir réttarstöðu einstaklinga, bæði þeirra sem vinna svarta vinnu og þeirra sem kaupa svarta vinnu.

Á heimasíðu SI má finna upplýsingar um svarta atvinnustarfsemi og þá fjármuni sem þjóðarbúið verður af vegna hennar á hverju ári. Þessa fjármuni þurfum við öll að taka þátt í að borga með aukinni skattheimtu og samdrætti í þjónustu hins opinbera. 

Á ársgrundvelli er talið að samfélagið sé svikið um 40 milljarða á ári, já 40 þúsund milljónir, engin smá upphæð það. Þessi upphæð dugir t.d. til að greiða skólamáltíðir fyrir 40 þúsund grunnskólanemendur í 13 ár ! 

það er morgunljóst að nú þarf þjóðarbúið á öllum þeim fjármunum að halda sem því ber í því skelfingar ástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.  Það er með öllu óþolandi og ólíðandi að stunduð sé svört atvinnustarfsemi sem leiðir af sér að heiðarleg fyrirtæki eru ekki samkeppnishæf við þau fyrirtæki sem koma sér hjá því að greiða opinbergjöld.

Það er einnig mikilvægt fyrir launþega að vita að þeir eru að taka gríðarlega áhættu með slíku háttarlagi enda eru þeir ótryggðir ef eitthvað kemur fyrir.  Einnig eru þeir sem stunda svarta vinnu að verða af umtalsverðum réttindum sem þeir ávinna sér inn hjá sínum stéttarfélögum. 

Ríkið sem jú við sjálf  munar um 40 milljarða á ári.  Við erum að horfa upp á skerta þjónustu í heilbrigðiskerfinu, löggæslu og einnig er verið að skerða laun opinbera starfsmanna vegna samdráttar í tekjum ríkissjóðs og aukinnar skuldarbyði hjá hinu opinbera.  Það væri hægt að nota 40 milljarða til að efla atvinnu og standa vörð um velferðaþjónustuna.

Það er nauðsynlegt að allir taki þátt í að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi af hvaða toga sem hún kann að vera. Samfélagið þarfnast þessara fjármuna nú sem aldrei fyrr. Nánar má fræðast um átakið á heimasíðu SI.

28
Jul

Atvinnulausum fækkar

Fækkað hefur umtalsvert fólki á atvinnuleysisskrá hér á Akranesi að undanförnu og verða það að teljast afar ánægjuleg tíðindi í ljósi þess ástands sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi vítt og breitt um landið.

Ástæða þess að störfum hefur verið að fjölga er fyrst og fremst að þakka vinnslunni sem er tengd hvalveiðum en hátt í 150 manns starfa nú við vinnslu upp í Hvalfirði sem og hér á Akranesi.  Einnig er ekki nein vafi á að þau tryggju störf sem stóriðjan er að veita tryggir mikin stöðugleika í atvinnulífinu hér á Akranesi.

Mest urðu 333 atvinnulausir á Akranesi, í dag eru 259 án atvinnu eða í hlutastörfum 112 karlar og 147 konnur og hefur því atvinnulausum fækkað um 74 á síðustu mánuðum eða sem nemur 28,5%.  Því miður eru þessi störf í kringum hvalveiðarnar tímabundar og er reiknað með að veiðarnar og vinnslan standi eitthvað framí ágúst eða september.

27
Jul

Rætt um niðurskurð,atvinnuástand og kjaramál

Formaður VLFA í viðtali í þættinum SprengisandiFormaður VLFA í viðtali í þættinum SprengisandiFormaður Verkalýðsfélags Akraness var í gær í þættinum Sprengisandi ásamt Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra,Guðlaugu Kristjánsdóttur formanni BHM einnig var hringt í Ernu B. Friðfinnsdóttur formann FÍH og Friðbert Traustason formann
SSF.  Aðalmálefni þáttarins var um niðurskurð hjá hinu opinbera, atvinnumál og kjaramál.
 
Formaður félagsins kom víða við í þættinum í gær og fór t.d yfir atvinnuástandið á félagssvæði VLFA sem er að mörgu leiti mjög gott sé miðað við önnur landssvæði.  Hann nefndi í því samhengi hversu mikilvæg stóriðjan á Grundartanga er atvinnulífinu á Akranesi og einnig þeim upp undir 150 nýjum störfum sem fylgt hafa í kjölfar á hvalveiðum.
 
Formaður gerði einnig fyrirhugaðan niðurskurð á launakjörum starfsmanna Akraneskaupstaðar að umtalsefni og nefndi í því samhengi að það væri grátlegt að verið væri að skerða laun starfsmanna sem ekki næðu 300.000 kr. í mánaðarlaun.  Enda hefur það verið yfirlýst stefna stjórnvalda að slá skjaldborg um þá tekjulægstu.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sagði í þættinum í gær að langt væri í land hvað varðar efnahagsbata. Hann segir einnig að ofrausn hafi verið þegar sagt var að ríkið myndi ekki skerða ósamningsbundin laun yfir 400 þúsund krónum. Ráðherrann sagði að því miður ráði ríkið ekki við annað en teygja sig enn neðar og nefnir tvö til þrjú hundruð þúsund krónur í því samhengi.

Hægt að hlusta á Sprengisand hér

24
Jul

Kjarasamningur við Launanefnd sveitarfélaga samþykktur

Starfsmenn sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness hafa samþykkt  framlengingu og breytingar á kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga. Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í kosningunni greiddu atkvæði með samningum þrátt fyrir að innihald samningsins væri afar rýrt.

Flestir vita að sveitarfélögin standa því miður afar illa eftir að hafa hagað sér óskynsamlega í fjármálum á undanförnum árum og á þeirri forsendu var afar erfitt að vænta þess að ná miklum kjarabótum í þessum samningum.

Það ríkir hins vegar mikil reiði hjá bæjarstarfsmönnum með þá fyrirætlan bæjaryfirvalda að breyta vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja, skólaliða og annarra starfsmanna Akraneskaupstaðar sem hefur þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Það er grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Verkalýðsfélags Akraness hefur óskað eftir því við bæjaryfirvöld á Akranesi að þau hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það er sorglegt að horfa uppá það að almennt verkafólk verður fyrir stórkostlegri kjaraskerðingu á sama tíma og ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið.  Nei, verkafólk þarf að horfa uppá stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100% á sama tíma og það er lækkað í launum sem nemur tugum þúsunda á mánuði.

Það er ljóst að íslensku verkafólki er að blæða út sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi, ástandi sem verkafólk ber ekki nokkra ábyrgð á.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image