• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Sep

Hvaða veð og tryggingar liggja að baki 1.703 milljörðum til eignarhaldsfélaga

Rætt var við formann félagsins í fréttum Stöðvar 2 í gær vegna þeirrar firringar sem hefur átt sér stað í útlánum bankanna til eignarhaldsfélaga, en bankarnir hafa lánað eignarhaldsfélögum 1.703 milljarða, sem er litlu minna en hrein eign lífeyrissjóðanna í landinu, sem er 1.762 milljarðar.

Verkalýðsfélag Akraness krefst þess að fá upplýsingar um hvaða veð og tryggingar liggi að baki þessum útlánum, einfaldlega á þeirri forsendu að töluverðar líkur eru á því að þetta muni allt lenda á almenningi. Það liggur fyrir að þegar almennt launafólk getur ekki staðið við sínar skuldbindingar, þá er húsnæði þeirra gert upptækt og það er hundelt í áraraðir ef ekki áratugi. En snillingarnir sem standa á bak við eignarhaldsfélögin þeir virðast geta gengið hnarreistir frá sínum skuldum.

Í fréttum DV.is í dag kemur fram að fjármálaeftirlitið hefur nú til rannsóknar mál þar sem talið er að kerfisbundið hafi verið reynt að halda verði hlutabréfa uppi fyrir bankahrunið með því að senda röng og misvísandi skilaboð til markaðarins. Í fréttinni segir m.a.:

"Dæmi er um lánveitingar hjá Kaupþingi til eignarhaldsfélaga þar sem lánið var nýtt til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi og einu veðin voru bréfin sjálf. Dæmi um það eru kaup Holt Investments Ltd. eignarhaldsfélags Skúla Þorvaldssonar þar sem eini tilgangurinn hafi verið hlutabréfakaup í Kaupþingi. DV.is greindi frá því þann fyrsta ágúst síðastliðinn að Skúli hafi verið stærsti lántakandi Kaupþings í Lúxemborg en samkvæmt gögnum sem lekið var á vefsíðuna Wikileaks í sumar námu heildarlán til félaga hans um 750 milljónum evra, eða rúmlega 220 milljörðum króna."

Það er mjög mikilvægt að það verði upplýst hversu góð og haldbær veð og tryggingar liggi að baki þessum 1.703 milljörðum, sérstaklega þegar liggur fyrir að dæmi séu um að eignarhaldsfélögum hafi verið lánaðir tugir ef ekki hundraðir milljarðar til hlutabréfakaupa, með einungis veði í bréfunum sjálfum.

Það er sorglegt fyrir almennt launafólk að hlusta nú á ráðamenn þjóðarinnar halda því fram að ekki sé svigrúm til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna, í ljósi þess gríðarlega forsendubrests sem orðið hefur. Það virðist ætíð vera þannig að grálúsugur almúginn þarf að standa skil á sínu, en hvítflibbarnir virðast geta gengið frá sínum skuldum og skýlt sér á bak við handónýt lög um eignarhaldsfélög. Það er algerlega ljóst að þessu þarf að breyta og það tafarlaust.

Hægt er að lesa fréttina á DV.is í heild sinni hér.

23
Sep

Nýr starfsmaður á skrifstofu félagsins

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var auglýst eftir nýjum starfskrafti í 50% starf vegna aukinna verkefna og það er skemmst frá því að segja að hvorki fleiri né færri en 25 umsóknir bárust. Það var gríðarlega erfitt að velja úr þeim góða hópi sem sótti um, en niðurstaða stjórnar félagsins var að ráða Dagbjörtu Guðmundsdóttur í starfið. Stjórn félagsins vill þakka öllum umsækjendum fyrir þann áhuga sem þeir sýndu starfinu með umsókn sinni.

Sl. mánudag hóf Dagbjört störf á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness og vill stjórn félagsins bjóða Dagbjörtu hjartanlega velkomna til starfa hjá félaginu og hlakkar til ánægjulegs samstarfs með henni í framtíðinni.

21
Sep

Lán til eignarhaldsfélaga jafn há og eign lífeyrissjóðanna

Það var afar athyglisverð frétt sem birtist á Stöð 2 og Vísi.is nú um helgina og varðaði lán bankanna til eignarhaldsfélaga. Hægt er að lesa fréttina hér.. Í fréttinni kom fram að bankarnir hafa lánað eignarhaldsfélögum 1.703 milljarða króna og þar kom einnig fram að allt sé á huldu hvað varðar veð og tryggingar á þessum lánum.

Til að almenningur átti sig á því um hverslags gríðarlegar upphæðir eru hér að ræða þá er hrein eign lífeyrissjóðanna í dag í kringum 1.762 milljarðar. Það lýsir því hvers lags firring hefur átt sér stað í útlánastarfsemi bankanna til eignarhaldsfélaganna þegar lánveitingar séu orðnar jafnháar og eignir lífeyrissjóðanna, en eignir lífeyrissjóðanna hafa verið byggðar upp af öllu launafólki á síðustu 40 árum.

Hvernig má slík skuldsetning hafa átt sér stað? Hvaða útlánareglum fóru bankanir eiginlega eftir?

Það kom einnig fram í fréttinni að búið er að afskrifa um 85 milljarða og eru eftirtaldir aðilar nefndir í því samhengi:

  • Eignarhaldsfélagið Milestone 
  • Eignarhaldsfélag í eigu Bjarna Ármannssonar
  • Eignarhaldsfélagið Langflug sem Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins átti meirihluta í
  • Eignarhaldsfélagið Fons

Þessir 85 milljarðar sem þegar hafa verið afskrifaðir myndu duga til að greiða atvinnuleysisbætur í þrjú ár en áætlað er að greiddar verði út atvinnuleysisbætur fyrir 29 milljarða á næsta ári.

Það ætlar allt um koll að keyra hjá hinum ýmsu aðilum í þjóðfélaginu þegar hugmyndir um almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna eru ræddar.  Nei, almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna eru alls ekki framkvæmanlegar að mati ráðamanna þjóðarinnar og fleiri áhrifamanna í íslensku þjóðfélagi.

Öðru máli virðist gegna um afskriftir hjá eignarhaldsfélögum til að mynda félögum tengdum Bjarna Ármannssyni upp á 800 milljónir og skuldir hjá eignarhaldsfélaginu Langflugi sem Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins átti meirihluta í upp á 14 milljarða.  Ætlar einhver að halda því fram að Bjarni Ármannssson hafi ekki fjárhagslega burði til að standa skil á þessari skuld.  Nei, hann ætlar ásamt fleirum sér líkum að skýla sér á bakvið eignarhaldsfélögin sín og segir að það væri óábyrg meðferð fjármuna að greiða skuldina.  Ef hins vegar almennt launafólk stendur ekki við sínar skuldbindingar þá er það hundelt og getur sér hvergi um frjálst höfuð strokið í áraraðir.

Hvernig má það eiga sér stað að bankarnir hafi lánað 1.703 milljarða til eignarhaldsfélaga? Hvaða lánareglur giltu hjá bönkunum? Hvar voru eftirlitsaðilar, t.a.m. fjármálaeftirlitið? Getur verið að farið hafi verið eftir öllum lánareglum sem í gildi voru hjá bönkunum?

Það er eins og áður hefur komið fram með hreinustu ólíkindum að lánveiting til eignarhaldsfélaga hafi verið orðin jafnmikil og hrein eign lífeyrissjóðanna. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þetta mál verði að rannsaka og fá botn í.

19
Sep

Tillaga um stóraukið lýðræði við stjórnarkjör lífeyrissjóðanna

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum rétt í þessu tillögu sem lögð verður fyrir ársfund Alþýðusambands Íslands sem haldinn verður dagana 22. og 23. október nk.  Tillagan hefur nú þegar verið send forseta ASÍ en samkvæmt 24. grein laga ASÍ er kveðið á um að mál þau og tillögur sem einstök aðildarsamtök óska að tekin verði fyrir á fundinum, skuli send miðstjórn einum mánuði fyrir ársfund. Skal miðstjórn leggja mál þau og tillögur fyrir fundinn, ásamt umsögn sinni.

Tillaga Verkalýðsfélags Akraness gengur út á það að miðstjórn Alþýðusambands Íslands verði falið að vinna að því að atvinnurekendur hverfi úr stjórnum lífeyrissjóða og að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagar kjósi sér stjórnarmenn með beinni kosningu. Hægt að lesa tillöguna með því smella hér.

Það er mjög mikilvægt að í þessari tillögu er verið að stórauka lýðræðið þannig að allir sjóðsfélagar, bæði greiðendur og lífeyrisþegar, hafi möguleika á því að bjóða sig fram til stjórnarsetu í lífeyrissjóðum innan ASÍ.

Það eru komin 40 ár frá því að Alþýðusamband Íslands gerði fyrst samning sem kveður á um að atvinnurekendur skuli eiga helming stjórnarmanna á móti stéttarfélögunum. Fyrsti samningurinn var gerður 1969, sá samningur var síðar endurnýjaður 12. desember 1995 og í honum er einnig kveðið á um jafna skiptingu stjórnarmanna.

Í greinargerð með tillögu stjórnar og trúnaðarráðs VLFA segir m.a.:

Það er öllum ljóst að traust og trúverðugleiki lífeyrissjóðanna hefur beðið gríðarlega hnekki á undanförnum misserum. Þetta traust verður verkalýðshreyfingin að byggja upp aftur og einn liður í því að byggja upp traustið og trúverðugleikann á ný er að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóðanna,

Það eru engin haldbær rök fyrir því að atvinnurekendur skuli sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna. Það er t.a.m. afar óeðlilegt að atvinnurekendur séu að taka ákvörðun um fjárfestingarleiðir þegar liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar fulltrúa atvinnurekenda í sjóðunum geta klárlega skarast á við hagsmuni sjóðsfélaga.

Það þarf einnig að stórauka lýðræði innan lífeyrissjóðanna, það þarf að tryggja að hinn almenni sjóðsfélagi hafi tækifæri til að bjóða sig fram til stjórnarsetu að uppfylltum hæfniskröfum skv. 31. grein laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frá árinu 1997.

Það þarf að tryggja að stjórnarmenn verði kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum. Stóraukið lýðræði sjóðsfélaga er gríðarlega mikilvægur þáttur í að byggja upp traust og trúverðugleika lífeyrissjóðanna að nýju.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að atvinnurekendur hafa klárlega reynt að nýta sér lífeyrissjóðina í gegnum árin og nægir að nefna tilraun Baugs og FL Group til að stofna sér lífeyrissjóð fyrir sína starfsmenn vegna þess að þeir voru óánægðir með fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Í frétt á ruv.is frá árinu 2006 segir m.a. um það mál: “Þá ríkir mikil óánægja meðal stjórnenda Baugs og FL Group með fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem þeir telja beitt gegn sér og sínum félögum.” Sjá fréttina í heild sinni hér:

Í frétt á mbl.is um það mál frá árinu 2004 er haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs að hann telji “nauðsynlegt að ferskir vindar blási reglulega í stjórnum slíkra sjóða og þannig verði komið í veg fyrir að einstakir stjórnarmenn líti á sjóði sem þeirra eigin”.

Sjá þá frétt í heild sinni hér:

 

Á þessum fréttum sést að til eru atvinnurekendur sem klárlega gera allt til þess að verja sína hagsmuni með öllum tiltækum ráðum og er gríðarleg hætta á því að hagsmunir eigenda lífeyrissjóðanna, sem eru sjóðsfélagarnir, geti skaðast sökum þess. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness fái ekki örugglega fullan stuðning á ársfundi Alþýðusambands Íslands. 

Þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur fengið gríðarlega umfjöllun enda er hér um afar viðkvæmt mál að ræða bæði fyrir atvinnurekendur og þá sem farið hafa með völdin í lífeyrissjóðum landsmanna til þessa.

Fjallað var um tillöguna á mbl.is sjá hér.  Einnig var fjallað tillöguna á ruv.is hlusta hér og einnig viðtal við formann félagsins í Reykjavík síðdegis hlusta hér.

Að lokum var rætt við fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins um tillöguna á ruv í dag. Hlusta hér.

15
Sep

Enn hækkar matvaran

Enn eru miklar hækkanir á matvörum í verslunum, að því er fram kemur í nýrri mælingu verðlagseftirlits á vörukörfu ASÍ sem gerð var um sl. mánaðarmót. Við samanburð á mælingu verðlagseftirlitsins frá því í maí, hækkar vörukarfan um 2-5% hjá öllum verslunarkeðjum nema Nóatúni, þar sem karfan lækkar um 1%.

Hægt er að skoða niðurstöður í heild sinni með því að smella hér.

Það er sorglegt fyrir verkafólk sem og aðra launþega að horfa upp á verslunareigendur, ríki, sveitarfélög, tryggingafélög og olíufélög varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið á sama tíma og launþegar horfa fram á gríðarlegt tekjutap, stóraukna greiðslubyrði og skattahækkanir samhliða skerðingu á opinberri þjónustu.

Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á það að almennir launþegar voru þvingaðir til að fresta sínum áður umsömdu launahækkunum. Svo tala menn um stöðugleikasáttmála, sáttmála sem einungis hefur byggst á því að launafólk hefur orðið af sínum áður umsömdu launahækkunum.

14
Sep

Öflugur starfskraftur óskast í 50% starf á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness

Vegna aukinna verkefna óskar Verkalýðsfélag Akraness eftir öflugum starfskrafti í 50% starf á skrifstofu félagsins. Vinnutími er frá kl. 12 til 16.

Í starfinu felst þjónusta við félagsmenn, símsvörun, iðgjaldaskráning og tilfallandi verkefni.

Leitað er að einstaklingi sem er jákvæður, lipur í mannlegum samskiptum, tekur frumkvæði og getur unnið sjálfstætt. Góð tölvu- og enskukunnátta er nauðsynleg. Viðkomandi þarf að geta hafið störf strax.

Um framtíðarstarf er að ræða á lifandi vinnustað.

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur í símum 8651294 og 4309900.

Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 fimmtudaginn 17. september. Umsóknum skal skilað á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, 300 Akranes eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image