• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og var að þessu sinni farið á Snæfellsnesið. 

Það voru 100 félagsmenn sem ásamt þremur fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Ekið var sem leið lá til Borgarness en fyrsti viðkomustaður var kirkjan á Borg á Mýrum.

Þaðan var ekið til Stykkishólms og byrjað á því að skoða kirkjuna undir leiðsögn kirkjuvarðar en kirkjan er afar björt og falleg.

Næsti viðkomustaður var Hótel Stykkishólmur þar sem snæddur var hádegisverður. Boðið var upp á súpu og steiktan fisk og ríkti mikil ánægja með það sem á boðstólum var.

Frá Stykkishólmi var ekið um Skógarströnd sem leið lá til Eiríksstaða í Haukadal.  Þar var skoðað víkingasafnið að Eiríksstöðum í Haukadal sem var afar fróðlegt og gaman.

Umsjónarmaður staðarins segir fyrrverandi íbúa Eiríksstaða hafa verið einn af örfáum góðum útrásarvíkingum landsins.

Eiríksstaði byggði Eiríkur rauði og Þjóðhildur kona hans en á meðal sona þeirra var landkönnuðurinn Leifur heppni.

Eiríksstaðir voru vígðir árið 2000 í tilefni af því að þá voru þúsund ár liðin frá landafundum þeirra feðga. Af sama tilefni var þar opnað lifandi víkingasafn í svokölluðum Eiríksskála, sem byggður er að fyrirmynd fornra skálarústa á staðnum.

Að lokinni skoðun á víkingasafninu var ekið sem leið lá á Hótel Hamar þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti áður en haldið var heim á leið.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

08
Sep

N1 hafnar áskorun Verkalýðsfélags Akraness

Verkalýðsfélagi Akraness barst rétt í þessu bréf frá Hermanni Guðmundssyni, forstjóra N1, þar sem áskorun félagsins um að fyrirtækið standi við áður umsamdar launahækkanir vegna góðrar afkomu er svarað.

Í svarbréfi til félagsins segir m.a. þetta: "Það er rétt sem fram kemur í áskorunarbréfinu að afkoma N1 á fyrri hluta ársins var viðunandi. Það er hins vegar mikil óvissa um framhaldið. Á síðasta starfsári N1 varð tap af rekstrinum uppá 1.200 milljónir króna."

Einnig segir: "Skuldir fyrirtækisins hafa hækkað mikið á s.l. einu og hálfu ári eins og hjá öllum fyrirtækjum og heimilum landsins. Fyrirsjáanlegt er að á næstunni verður það hörð barátta að greiða þær niður þannig að þær komist aftur í fyrra horf."

Að endingu kemur fram í svarbréfinu: "Við munum bæta við laun okkar starfsfólks í samræmi við samkomulag sem gert var þ. 25. júní sl. á milli ASÍ og SA."

Formaður félagsins harmar þessa afstöðu forsvarsmanna N1, sérstaklega í ljósi þess að afkoma fyrirtækisins var eins og áður hefur komið fram góð á fyrstu 6 mánuðum þessa árs. Vissulega er það eflaust rétt hjá forstjóra fyrirtækisins að skuldastaða fyrirtækisins hefur hækkað mikið undanfarið. Rétt er að minna forstjóra N1 á að greiðslubyrði almenns verkafólks hefur stórhækkað á undanförnum misserum og á þeirri forsendu hefði verið mjög mikilvægt að verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum hefðu fengið sínar hóflegu launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Hins vegar kemur það formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að fyrirtæki nýti sér þann afslátt sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands gengu frá og gerir það að verkum að almennt verkafólk hefur orðið af allt að 100.000 kr. launahækkun.

Það hefur komið fram hér á heimasíðunni að VLFA er alfarið tilbúið að aðstoða fyrirtæki sem klárlega eiga í vandræðum vegna þess ástands sem nú ríkir, en það er engin ástæða til að gefa fyrirtækjum sem skila hundruðum milljóna í hagnað tækifæri til að komast hjá því að standa við gerða samninga.

Það er því miður grátlegt fyrir almennt verkafólk að verða af upp undir 100.000 kr. vegna linkindar samninganefndar ASÍ við endurskoðun kjarasamninga að undanförnu. Það átti klárlega að tryggja að vel stæð fyrirtæki myndu standa við gerða samninga, fyrirtæki sem starfa í útflutningi og fyrirtæki sem hafa möglunarlaust varpað sínum vanda beint út í verðlagið eins og til að mynda olíufélögin.

Hægt er að lesa bréf N1 sem Verkalýðsfélagi Akraness barst í dag með því að smella hér.

07
Sep

Beðið eftir svörum frá stjórn N1

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins sendi stjórn Verkalýðsfélags Akraness stjórn N1 áskorun um að fyrirtækið greiddi starfsmönnum sínum þær áður umsömdu launahækkanir sem hefðu átt að taka gildi 1. mars ef ekki hefði komið til samkomulags um frestun á milli samninganefndar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Áskorunin var send út sökum þess að N1 skilaði tæpum 500 milljónum í hagnað eftir skatta á fyrstu 6 mánuðum ársins. 

Það er skoðun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að þau fyrirtæki sem hafi fjárhagslega burði til að standa við þann hóflega gerða kjarasamning frá 17. febrúar 2008 eigi að standa við hann.

Einnig kom einnig fram hér á heimasíðunni að fjárhaglegt tjón almenns verkamanns vegna þessarar frestunar og linkindar í forystu ASÍ mun nema um eitt hundrað þúsund krónum og munar um minna fyrir verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum. 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness væntir þess að fá skriflegt svar frá stjórn N1 um þá áskorun sem félagið sendi frá sér, um leið og stjórn N1 hefur fjallað um erindi Verkalýðsfélags Akraness.

Hægt er að lesa áskorun stjórnar VLFA til stjórnar N1 með því að smella hér.

04
Sep

Árleg dagsferð eldri félagsmanna verður farin í næstu viku

Næstkomandi fimmtudag munu um 100 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness 70 ára og eldri halda í dagsferð sem félagið býður árlega upp á.  Lagt verður af stað kl. 9:00 frá Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum.

Þetta árið verður farið um Snæfellsnes og Dali. Áætluð heimkoma er um kl. 18:30.

Áð verður á nokkrum stöðum í ferðinni og m.a. boðið uppá léttan hádegisverð á Hótel Stykkishólmi. Boðið verður upp á aðrar veitingar um kaffileytið. Leiðsögumaður í ferðinni verður Björn Finsen.

Boðsbréf hefur verið sent til félagsmanna og fer skráning fram á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 eða í síma 430-9900 og stendur hún til kl. 12:00 á hádegi miðvikudaginn 9. september n.k.

Myndir og fréttir úr ferðinni verða settar inn hér á heimasíðunni við fyrsta tækifæri.

03
Sep

Var tilgangurinn að koma Sementsverksmiðjunni út af sementsmarkaðnum?

Ráðherrar í heimsókn í verksmiðjunni fyrir fáeinum dögum síðanRáðherrar í heimsókn í verksmiðjunni fyrir fáeinum dögum síðanEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa starfsmenn Sementsverksmiðjunnar samþykkt að fallast á tillögur framkvæmdastjóra verksmiðjunnar um að minnka starfshlutfall tímabundið niður í 50%. Þetta gera starfsmenn vegna þeirra erfiðleika sem fyrirtækið á nú við að etja sökum mikils samdráttar á byggingarmarkaði og ekki síður vegna þeirra grunsemda um að Aalborg Portland hafi hér á landi stundað undirboð á sementsmarkaðnum.

Það er staðreynd studd gögnum að danska fyrirtækið hefur selt sement undir markaðsvirði þegar það var að koma undir sig fótunum hér á landi. Rétt er að rifja upp viðtal í Nordjyllands Stiftstidende við forstjóra Aalborg Portland í Danmörku, Sören Vinter, í september 2002 kom fram sú gífurlega áhersla sem fyrirtækið legði á íslenska markaðinn enda hefði það náð 25 prósenta hlutdeild á aðeins tveimur árum. Í viðtalinu segir forstjórinn að hann líti á Ísland sem heimamarkað Aalborg Portland. Hann gekk svo langt að segja að til langs tíma litið yrði ekki pláss fyrir bæði Aalborg Portland og Sementsverksmiðjuna á íslenska markaðnum og Aalborg Portland sæi ákveðin tækifæri í yfirtöku á rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi.

Það er margt sem bendir til þess að það hafi verið tilgangur Aalborg Portland að koma Sementsverksmiðjunni út af markaðnum ef mark er takandi á viðtalinu hér að ofan.

Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að styða íslenska framleiðslu, verja íslensk störf og tryggja það að erlendir aðilar komi ekki hér inn á íslenskan markað og drepi niður íslenska framleiðslu með undirboðum sem einungis yrðu tímabundin.

Hægt er að lesa bréf framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar til viðskiptaráðs með því að smella hér.

01
Sep

Einhugur hjá starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar

Guðjón Guðjónsson aðaltrúnaðarmaður og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherraGuðjón Guðjónsson aðaltrúnaðarmaður og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherraAllir 45 starfsmenn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi samþykktu í atkvæðagreiðslu í gær að ganga að tilboði fyrirtækisins um að fara í hálft starf frá 1. nóvember til 1. febrúar næstkomandi. Allir sem einn starfsmenn fyrirtækisins fara í hálft stöðugildi þennan tíma og gildir það jafnt um framkvæmdastjóra sem alla aðra starfsmenn.

Stjórnendur og starfsmenn verksmiðjunnar funduðu síðastliðinn föstudag ásamt formanni Verkalýðsfélags Akraness og forstöðumanni Vinnumiðlunarinnar á Vesturlandi.

Það er ríkir mikill einhugur í röðum starfsmanna Sementsverksmiðjunnar að standa vörð um fyrirtækið í þeim þrengingum sem nú ríkja á byggingamarkaði og við atkvæðagreiðsluna kom það berlega í ljós.

Fjölmargir starfsmenn verksmiðjunnar hafa áratuga langan starfsaldur að baki og vilja þeir með þessu leggja sitt af mörkum til þess að fyrirtækið lifi af þær hremmingar sem nú ríða yfir byggingarmarkaðinn.

Í byrjun febrúar verður farið í ofnstoppsvinnu og gert ráð fyrir að hún taki um einn mánuð. Því má gera ráð fyrir að kveikt verði upp í ofni verksmiðjunnar í byrjun mars en sem fyrr verður ástandið á byggingamarkaðinum og eftirspurn eftir innlendu sementi sem ræður því.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image