• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Aug

Sementsverksmiðjan berst fyrir lífi sínu

Störf í hættuStörf í hættuÞað er óhætt að segja að sá mikli samdráttur sem nú er að eiga sér stað á byggingarmarkaðnum í kjölfar bankahrunsins sé að gera starfssemi Sementsverksmiðjunnar erfitt fyrir en töluverður samdráttur hefur verið á sölu sements á þessu ári.

Viðræður standa nú yfir við forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar um að lækka starfshlutfall starfsmanna tímabundið niður í 50% vegna þess samdráttar sem nú á sér stað í sölu á sementi.

Það vekur upp mikla furðu hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness og starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar að fyrirtæki sem er í eigu íslenska ríkisins skuli kaupa innflutt  sementi frá Danmörku á sama tíma verksmiðjan hér á Akranesi berst fyrir lífi sínu.

Það er Aalborg Portland Helguvík sem er íslenskt fyrirtæki í eigu Dana sem flytur inn sement frá Danmörku og hafa verið flutt inn rúm 20 þús tonn á þessu ári að verðmæti ca 240 milljóna í gjaldeyri.  Í fyrra var flutt inn um 111 þúsund tonn af dönsku sementi.

Helsti kúnni Aalborg sem flytur inn danska sementið er Steypustöðin h.f sem er í eigu Íslandsbanka og eins og flestir vita er Íslandsbanki í eigu ríkisins.

Það vekur einnig um mikla furðu að verið er að nota innflutt dansk sement í Hellisheiðarvirkjun sem Orkuveitan er að gera en rétt er að geta þess að Akranesbær á 5 % í Orkuveitunni.  Það er einnig verið að nota danska steypu við brúarsmíði yfir Hvítá á vegum Vegagerðar ríkisins. 

Það er ámælisvert að opinberir aðilar eins og ríkið og Orkuveita Reykjavíkur skuli ekki styðja íslenska framleiðslu og um leið leggja grunn að trygggari starfsemi Sementsverksmiðjunnar sem hefur þjónað okkur Íslendingum allt frá árinu 1958 eða í rúm 50 ár.

Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi úr innlendu hráefni og sparað þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi. Verði stoðunum kippt undan starfsemi verksmiðjunnar mun það hafa alvarlegar afleiðingar.  Um 50 manns og um 90 afleidd störf glatast, tækniþekking sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum verður að engu og sement sem er aðlagað að þörfum íslensks markaðar, víkur fyrir innfluttu sementi.  Rétt er að geta þess að íslenska sementið er um 95% íslenskt hráefni.

Það verður að standa vörð um þá framleiðslu og störf sem unnin er í Sementverksmiðjunni hér á Akranesi með öllum tiltækum ráðum enda hefur hún skilað íslensku samfélagi miklum arði og sparað gríðarlegan gjaldeyrir fyrir þjóðarbúið.  Íslenskt atvinnulíf má alls ekki við því að tapa fleirum störfum en orðið er og því verðum við að styðja íslenska framleiðslu.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur ríkisstjórn Íslands til að standa vörð um Sementsverksmiðjunna og sjá til þess að fyrirtæki í eigu ríksins styðji íslenska framleiðslu og um leið noti íslenskt sement.  Veljum Íslenskt.

Rætt var við formann félagsins í Reykjavík síðdegis í gær um málefni Sementsverksmiðjunnar. Hlusta hér

20
Aug

Reiðin kraumar á meðal almennings

Íslensk stjórnvöld verða að koma skuldsettum heimilum til hjálparÍslensk stjórnvöld verða að koma skuldsettum heimilum til hjálparFormaður Verkalýðsfélags Akraness telur það afar brýnt að íslensk stjórnvöld grípi tafarlaust til almennra ráðstafana til að leiðrétta verðtryggð og gengistryggð lán heimilanna.   Það er morgunljóst að forsendur að baki lánunum eru löngu brostnar og sífellt fleiri heimili landsins stefna í mjög alvarlegan greiðsluvanda.

Eins og fjallað hefur verið um hér á heimasíðunni áður þá geta heimili þessa lands alls ekki staðið undir því að horfa uppá hækkun á gengistryggðum húsnæðis og bílalánum sem nema í sumum tilfellum hækkunum yfir eitthundrað prósentum.

Það liggur fyrir að verið er að afskrifa skuldir fyrirtækja í stórum stíl á sama tíma og afskriftir fyrirtækja á sér stað segja stjórnvöld að ekki sé grundvöllur til að leiðrétta skuldir almennings.  

Það er einnig morgunljóst að almenningur er búin að fá nóg að því misrétti sem ríkt hefur í þessu landi á undanförnum áratugum.  Það liggur fyrir að það er búið að hygla fjármagnseigendum vel á undanförnum árum með afar háum innlánsvöxtum allt á kostnað þeirra sem skulda.  Þessu til viðbótar tryggðu stjórnvöld innistæður fjármagnseigenda með fjármunum almennings þegar lagðir voru 200 milljarðar í peningamarkaðssjóði í kjölfarið á bankahruninu. 

Að leiðrétta skuldir heimilanna virðist ekki koma til greina að hálfu stjórnvalda.  Slagorð eins og velferðabrú og slá skjaldborg um heimilin hafa verið orðin tóm til þessa.  Er það að slá skjaldborg um heimilin að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda út í verðlagið á meðan launþegar þurfa ekki aðeins að taka við gríðarlegri aukningu á greiðslubyrði heldur einnig að sæta skerðingum á sínum launakjörum?. Vart getur þetta verið velferðabrúin og skjaldborgin sem íslensk stjórnvöld eru ætíð að tala um.


Formaður finnur í sínu starfi að það er farið að krauma veruleg reiði á meðal verkafólks og almennings í þessu landi með það aðgerðaleysi sem virðist ríkja við að koma skuldsettum heimilum til hjálpar.  Stjórnvöld verða að taka á vanda heimilanna til að koma í veg fyrir að allt sjóði upp úr í haust og vetur.

17
Aug

Búið að veiða 83 langreyðar

Það er óhætt að segja að það sé líf og fjör bæði hvað varðar veiðar og vinnslu tengdum hvalveiðum.  En í morgun var búið að veiða 83 Langreyðar af þeim 150 sem reglugerðin heimilar.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að hvalveiðarnar hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið hér á Akranesi.  Hvalveiðarnar eru að skapa  rúmlega eitt hundrað störf og munar um minna í því árferði sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi.

Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur aflað sér er áætlað að vinna við vinnslu hvalaafurða standi í það minnsta til loka september.

14
Aug

Ísland í bítið

Gengistryggð lán hafa hækkað um allt að 100%Gengistryggð lán hafa hækkað um allt að 100%Það var afar fróðlegt að hlusta á þáttinn Ísland í býtið á miðvikudaginn sl.  en þar sat Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra fyrir svörum hjá þeim Heimi Karlssyni og Kolbrúnu Björnsdóttur.

Það er ekki annað hægt en að hrósa Heimi fyrir hans framstöðu í þættinum en hann krafði félagsmálaráðherra ítrekað eftir svörum um hvernig ríkisstjórnin hyggist aðstoða heimilin í landinu vegna þeirra hremminga sem gengið hafa yfir landið á síðustu misserum.  Það var sorglegt að heyra hversu málefna fátækur félagsmálaráðherra var þegar kom að því að svara hvernig ætti að hjálpa fólki sem tók gengistryggð lán sem hafa hækkað mörg hver yfir 100%

Fjölmargar fjölskyldur sem tóku ákvörðun um að endurnýja fjölskyldubílinn sinn á síðustu árum eru nú í skelfilegum málum sökum þess að gengistryggðu lánin hafa hækkað um og yfir 100%  Það hringdi maður inn í þáttinn hjá Heimi og Kollu og tjáði hann að hann hafi tekið gengistryggt bílalán uppá rúmar 5 milljónir og stæði lánið í dag í tæpum 12 milljónum.

Það var dapurlegt að heyra að félagsmálaráðherrann hefur lítil sem enginn úræði fyrir fjölskyldur sem svona er ástand fyrir. Það er morgunljóst að það var ekki almenningi að kenna að íslenska krónan hefur hrunið á undanförnum mánuðum og í dag stendur gengisvísitalan í 234 stigum og ekkert sem bendir til þess að breyting verði þar á til batnaðar næstu árin.  Á þeirri forsendu er ljóst að fjölmargar fjölskyldur munu alls ekki geta staðið við skuldbindingar sem hafa hækkað yfir 100%

Þessum hópi skuldara verður að koma til hjálpar, best væri að færa gengisvísitöluna niður í 150 stig eða svo og gefa fólki síðan kost á því að umbreyta lánunum í íslenskar krónur.  Formaður skorar á alla að hlusta á Ísland í býtið frá miðvikudeginum 12 ágúst.  Hægt hér Ísland Í bítið   

11
Aug

Störf í stóriðjum hættuleg og krefjandi

Vinnuslys varð í álverksmiðju Norðuráls á Grundartanga skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi. Verið var að skipta um skaut í keri.

Slysið varð með þeim hætti að verið var að skipta um skaut og vildi þá ekki betur til en svo að maðurinn rann til og lenti með báða fætur ofan í fljótandi deiglu. Maðurinn er nú til meðferðar á Landspítalanum. Er hann með alvarleg brunasár á báðum fótum, að sögn læknis.

Það hefur ætíð verið ljóst að störf í stóriðjum geta verið mjög hættuleg og krefjandi og á þeirri forsendu er afar mikilvægt að öryggismál starfsmanna í stóriðjum séu eins trygg og kostur er.

10
Aug

Mikil vinna í frystihúsi HB Granda

Töluverð vinna hefur verið í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi í sumar og var t.d unnið alla virka daga í júlí frá 6 að morgni til 18 að kveldi.  Síðustu tvö sumur hefur frystihúsinu verið lokað í allt 6 vikur vegna sumarleyfa, en í ár var ekki nein sumarlokun.

Það að ekki skyldi vera sumarlokun hafði jákvæð áhrif fyrir skólakrakkana og fengu vel á annan tug unglinga vinnu í sumar hjá HB Granda.  Þessi mikla vinna mun klárlega hjálpa unglingunum að stunda námið sitt í vetur og léttir á útgjöldum foreldra þeirra unglinga sem fengu vinnu hjá HB Granda í sumar, sem er afar jákvætt því víða hefur greiðslubyrði heimilanna aukist gríðarllega að undanförnu.

Starfsmenn HB Granda tjáðu formanni félagsins sem fór í vinnustaðaheimsókn í gær að verið væri að vinna Þorsk sem fluttur sé erlendis í flugi til Belgíu og Þýskalands.  Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að þær gengisbreytingar sem orðið hafa á gjaldmiðlinum er klárlega að hjálpa fyrirtækjum sem selja sínar afurðir erlendis umtalsvert.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image