• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jul

Laun hækka um 6.750,- en skerðast á móti um tugi þúsunda

Rétt í þessu skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir samning um framlengingu og breytingar á kjarasamningi félagsins við Launanefnd sveitarfélaga.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá velti formaður félagsins því alvarlega fyrir sér hvort hann ætti yfir höfuð að skrifa undir þennan kjarasamning vegna þeirrar ákvörðunar bæjarráðs Akraneskaupstaðar að breyta vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja. Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Verkalýðsfélag Akraness tók þá ákvörðun að skrifa undir þennan samning á þeirri forsendu að allflest stéttarfélög hafa þegar gengið frá framlengingu á kjarasamningi. Mun Verkalýðsfélag Akraness hins vegar reyna eftir fremsta megni að fá þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið á launakjörum starfsmanna Akraneskaupstaðar sem tilheyra VLFA breytt með einum eða öðrum hætti.

Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness skrifað bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Þegar þetta er skrifað hefur ekkert svar borist frá bæjaryfirvöldum. Hægt er að lesa bréfið hér.

Það er í raun og veru grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Það er skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.

Aðalatriði samningsins má sjá með því að smella á meira.

Samningurinn mun birtast í heild sinni hér á heimasíðunni á morgun.

Aðalatriði samningsins:

  • Gildistími samnings er 1. júlí 2009 – 30. nóvember 2010.
  • Ný launatafla tekur gildi frá 1. júlí 2009.
  • Launataxtar. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000 hækka 1. júlí 2009 og 1. nóvember 2009 um kr. 6.750.-  en hækka minna frá 180.000 kr. að 210.000. Laun umfram 210.000 kr í júlí og 220.000 kr. í nóvember 2009 taka ekki hækkunum.  Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000.-  hækka 1. júní 2010 um kr. 6.500.- en hækka minna að kr. 225.000. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu umfram kr. 225.000.- eru óbreytt.
  • Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu og ræstingu samkvæmt fermetragjaldi hækka, sjá nánar meðfylgjandi skjal.
  • Lágmarkslaun fyrir fullt starf skulu vera kr. 157.000.- frá 1. júlí 2009, kr. 165.000.- frá 1. nóvember 2010 og kr. 170.000.-  frá 1. júní 2010, fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun.
  • Orlofsuppbót árið 2010 verður kr. 25.800.- 
09
Jul

Verkalýðsfélag Akraness óskar eftir því að stofnaður verði vinnuhópur

Verkalýðsfélag Akraness sendi í dag bæjarráði og bæjarstjórn Akraness bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur vegna þeirra sparnaðaraðgerða sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 2. júlí sl. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda yrðu fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.

Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir þá blasir við gríðarleg skerðing hjá starfsmönnum íþróttamannvirkja og skólaliðum og ljóst að það ríkir töluverð gremja á meðal starfsmanna, en starfsmenn munu lækka samkvæmt þessum tillögum frá rúmum 10% upp í tæp 15%. Sem dæmi þá er einstaklingur sem er með 280.000 í mánaðarlaun skertur um rúmar 30.000 kr. á mánuði.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 300.000 kr. sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi.

Verkalýðsfélag Akraness kallar eftir upplýsingum um hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins.

Það er von Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld muni verða við þessari beiðni félagsins um að skipa vinnuhóp því það er grundvallaratriði að víðtæk sátt ríki um þær sparnaðaraðgerðir sem framundan eru og mjög mikilvægt að slegin verði skjaldborg um þá starfsmenn Akraneskaupstaðar sem hafa hvað lægstar tekjurnar.

07
Jul

Íhugar að skrifa ekki undir fyrirliggjandi kjarasamning

Á fundi bæjarráðs sem haldinn var fimmtudaginn 2. júlí 2009 voru samþykktar alls kyns sparnaðarleiðir fyrir bæjarsjóð. Það sem vakti sérstaka athygli formanns Verkalýðsfélags Akraness voru verulegar breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða sem mun klárlega hafa umtalsverð áhrif á launakjör þessara hópa.

Í fundargerð bæjarráðs kemur m.a. fram að frá 1. október nk. verði breyting á opnunartíma íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum, íþróttahússins við Vesturgötu og Bjarnalaugar. Opnunartími verði styttur um eina klukkustund virka daga og tvær klukkustundir laugardaga og sunnudaga. Lokað verði alla stórhátíðardaga og sérstaka frídaga.

Þessi ákvörðun þýðir það að starfsmenn íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar eru að lækka frá rúmum 10% upp í rétt tæp 15%. Formaður hefur dæmi um einstaka starfsmenn sem eru við þetta að lækka um 365.000 til 800.000 krónur á ársgrundvelli.

Það er algjörlega óviðunandi að starfsmaður sem er með 3.379.000 krónur í árslaun, eða 281.000 á mánuði skuli lækka í launum niður í 3.011.000 krónur á ársgrundvelli eða sem nemur 31.000 krónum á mánuði. Hér er um að ræða skerðingu á launum sem ekki ná 300.000 krónum á mánuði. Það er ljóst að skólaliðar grunnskólanna munu einnig verða fyrir umtalsverðri skerðingu.

Rétt er að geta þess að grunnlaun starfsmanns íþróttamannvirkja sem er 25 ára eru í dag 171.000 krónur.

Formaður átti í dag samtal við Gísla S. Einarsson bæjarstjóra Akraneskaupstaðar þar sem formaður gerði alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja og taldi formaður að það væri yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda og sveitastjórna að slá skjaldborg um þá starfsmenn sem ekki ná launum sem nema 300.000 krónum á mánuði.

Fram kom í máli bæjarstjóra að það væri hans persónulega mat að ekki ætti að hrófla við launum einstaklinga sem væru með undir 300.000 krónum á mánuði og tók hann undir með formanni að æskilegt hefði verið að launanefnd sveitarfélaga hefði mótað einhverja heildstæða stefnu fyrir öll sveitarfélög í landinu sem varðar niðurskurð á launakjörum starfsmanna.

Formaður tjáði bæjarstjóra að það væri grundvallaratriði að skipa vinnuhóp með þeim stéttarfélögum sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna, þar sem farið yrði yfir þessi mál. Því það er grundvallaratriði að víðtæk sátt náist á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar um þær sparnaðarleiðir sem fyrirhugaðar eru. Það er algjörlega ólíðandi að starfsfólk sem nær ekki 300.000 krónum í mánaðarlaun verði fyrir jafn mikilli skerðingu og raun ber vitni.

Formaður vill fá að sjá hvaða breytingum aðrir starfsmenn Akraneskaupstaðar taka á sínum launakjörum, t.d. forstöðumenn, starfsmenn í stjórnunarstöðum, kennarar og æðstu stjórnendur bæjarins.

Verkalýðsfélag Akraness hefur fullan skilning á því að sveitarfélög vítt og breitt þurfa að leita allra leiða til að vinna sig út úr því skelfingarástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Hins vegar gerir Verkalýðsfélag Akraness þá kröfu að slegin verði skjaldborg um þá starfsmenn sem eru undir 300.000 kr. í mánaðarlaun. Það er einfaldlega lítið sem ekkert hægt að taka af slíkum launum, þau rétt duga til lágmarksframfærslu miðað við þá gengdarlausu hækkun sem orðið hefur á greiðslubyrði fólks.

Því mun Verkalýðsfélag Akraness íhuga það sterklega að skrifa ekki undir kjarasamning sem nú liggur nánast klár fyrir við launanefnd sveitarfélaganna fyrr en þessi mál verða komin á hreint. Það hlýtur að vera skilningur á meðal allra að starfsmenn sem ná ekki 300.000 í mánaðarlaun geta á engan hátt tekið á sig skerðingu á sínum launum.

06
Jul

Ný spá hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum

Nú stendur yfir mesta samdráttarskeið í íslensku efnahagslífi á síðari tímum. Framundan eru tvö erfið ár þar sem landsframleiðsla dregst mikið saman og lífskjör rýrna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri spá Hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum til ársins 2012. Hagdeildin spáir ríflega 10% samdrætti í landsframleiðslu í ár og áframhaldandi samdrætti á fyrri hluta næsta árs, en að botninum verði náð á öðrum ársfjórðungi það ár og efnahagslífið byrji að rétta úr kútnum í framhaldinu.

Staða heimilanna er þröng, ráðstöfunartekjur lækka og atvinnuástand er afar slæmt. Útlit er fyrir að atvinnuleysi verði 9-10% næstu misserin þótt heldur dragi úr þegar líða tekur á spátímabilið. Háir vextir, veik króna, takmarkað aðgengi að lánsfé og minnkandi eftirspurn gerir rekstrarskilyrði fyrirtækja erfið. Þungar vaxtagreiðslur, vaxandi útgjöld vegna atvinnuleysis og samdráttur í tekjum valda verulegum hallarekstri hjá hinu opinbera á næstu árum.

Til þess að ná sem fyrst jöfnuði á ný í rekstri ríkis og sveitarfélaga er óumflýjanlegt að auka skatttekjur og draga umtalsvert úr útgjöldum hins opinbera. Verðbólga hjaðnar og verður komin í 4% í árslok og gengi krónunnar verður stöðugra en helst áfram hátt. Í spánni er gert ráð fyrir að Seðlabankinn haldi áfram að lækka stýrivexti þegar skýr merki sjást um að tekist hafi að endurvekja traust á íslenskt efnahagslíf og þá mun hann jafnframt létta á gjaldeyrishöftum í áföngum.

Það eru ekki til neinar töfralausnir á þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir en það skiptir miklu máli að takast strax á við erfiðleikana og vinna sig út úr þeim með markvissum hætti til þess að grafa ekki undan velferðarkerfinu og rýra lífskjör til framtíðar. Við megum ekki gleyma því að þótt á móti blási um stund, þá búum við yfir miklum mannauði og auðlindum sem standa óhögguð. Við eigum fiskinn í sjónum, orkuna í fallvötnunum og jarðvarmann og síðast en ekki síst vel menntaða, unga þjóð. Við höfum því alla burði til að vinna okkur út úr vandanum á skömmum tíma.

Takist okkur að auka trúverðugleika hagkerfisins eins og að er stefnt í nýgerðum stöðugleikasáttmála stjórnvald og aðila vinnumarkaðarins mun endurreisnin ganga hraðar en spáin gerir ráð fyrir. Áhrifin munu þá birtast í jákvæðari horfum á síðari hluta spátímans.

Hagspána má sjá í heild sinni hér.

Heimild ASÍ

03
Jul

Samið við ríkið

Rétt í þessu var skrifað undir samning um framlengingu og breytingar á kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og SGS f.h. aðildarfélaga.

 

Aðalatriði samningsins:

  • Gildistími samnings er 1. júlí 2009 – 30. nóvember 2010 með fyrirvara  um endurskoðun fyrir 31. október 2009.
  • Ný launatafla tekur gildi frá 1. júlí 2009.
  • Launataxtar. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að 180 þúsund hækka 1. júlí 2009 og 1. nóvember 2009 um kr. 6.750.- í hvort skipti en hækka minna að kr. 210.000.- sjá nánar meðfylgjandi skjal. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu umfram kr. 210.000.- eru óbreytt.  Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 285.000.-  hækka 1. júní 2010 um kr. 6.500.- en hækka minna að kr. 310.000. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu umfram kr. 310.000.- eru óbreytt.
  • Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu og ræstingu samkvæmt fermetragjaldi hækka, sjá nánar meðfylgjandi skjal.
  • Lágmarkslaun fyrir fullt starf skulu vera kr. 157.000.- frá 1. júlí 2009 og kr. 165.000.- frá 1. júní 2010 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun.
  • Orlofsuppbót árið 2010 verður kr. 25.800.- 
  • Persónuuppbót í desember 2009 verður kr. 45.600.- og í desember 2010 kr. 46.800.-
  • Fatapeningar og reiknitala kaupauka Vegagerðarinnar hækka um 0,7% þann 1. júlí nk., 0,6% 1. nóvember nk. og 1,5% 1. júní 2010.
  • Sáttanefnd skal skipuð sem tekur til umfjöllunar mál er varða stefnumarkandi túlkanir og álitaefni er varða framkvæmd og þróun samningsins.
  • Komið verður á samstarfi á sviði mannauðsmála.
  • Unnið verður að samræmingu á texta kjarasamninga.
  • Unnið verður að málefnum vaktavinnufólks á samningstímabilinu.
  • Lokið verður endurskoðun tryggingarskilmála og sameiginlegar reglur gefnar út á haustmánuðum.
  • Unnið verður að tölfræði- og upplýsingagjöf í samstarfi við Hagstofu og ráðgjafanefnd.

Aðildarfélög SGS munu kynna félagsmönnum samninginn á næstu dögum og vikum. Kjörgögn í sameiginlegri póstakvæðagreiðslu félaga SGS verða send út á næstu dögum ásamt kynningarefni. Stefnt er að því að sameiginlegri atkvæðagreiðslu um samninginn verði lokið 14. ágúst 2009. Félagsmenn eru hvattir til að greiða atkvæði um samninginn.

 

Hér má finna samninginn í heild og framkvæmdaáætlun.

03
Jul

Írskir dagar framundan

Írskir dagar hófust formlega í morgun þegar tæplega 200 börn frá leikskólum bæjarins komu saman í miðbænum, sungu og skemmtu sér. Hver leikskóli var klæddur í litum írska fánans og saman mynduðu börnin fánann á miðju Merkurtúninu. Þaðan var haldið í skrúðgöngu á Akratorg þar sem börnin tóku lagið með Gísla S. Einarssyni, bæjarstjóra og öðrum gestum sem fjölmenntu á torgið.

Mikið er um að vera í bænum núna um helgina, götugrill, kvöldvaka, tívolí, sandkastalakeppni, Akraneshlaupið og fjölskyldudagskrá í Skógræktinni er aðeins brot af því sem boðið verður upp á, lifandi tónlist verður út um allan bæ að ógleymdri Lopapeysunni víðfrægu. Dagskrána í heild sinni má finna hér.

Bæjarhátíðir sem þessi hafa fest sig í sessi víða um land og af samtölum við Skagamenn að dæma þá hafa þeir margir myndað sterkar taugar til þessarar skemmtilegu helgar og hefur hennar greinilega verið beðið með miklum spenningi á mörgum heimilum hér í bæ. 

Það er ekki síst á erfiðum tímum sem þessum sem nauðsynlegt er að lyfta sér upp öðru hverju, gleyma amstri hversdagsins og njóta þess að vera til.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness vill því hvetja félagsmenn sína til njóta komandi daga með jákvæðu viðhorfi, skemmta sér og sínum og lifa lífinu af hjartans lyst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image