• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Tillaga um stóraukið lýðræði við stjórnarkjör lífeyrissjóðanna Atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóðanna tafarlaust
19
Sep

Tillaga um stóraukið lýðræði við stjórnarkjör lífeyrissjóðanna

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum rétt í þessu tillögu sem lögð verður fyrir ársfund Alþýðusambands Íslands sem haldinn verður dagana 22. og 23. október nk.  Tillagan hefur nú þegar verið send forseta ASÍ en samkvæmt 24. grein laga ASÍ er kveðið á um að mál þau og tillögur sem einstök aðildarsamtök óska að tekin verði fyrir á fundinum, skuli send miðstjórn einum mánuði fyrir ársfund. Skal miðstjórn leggja mál þau og tillögur fyrir fundinn, ásamt umsögn sinni.

Tillaga Verkalýðsfélags Akraness gengur út á það að miðstjórn Alþýðusambands Íslands verði falið að vinna að því að atvinnurekendur hverfi úr stjórnum lífeyrissjóða og að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagar kjósi sér stjórnarmenn með beinni kosningu. Hægt að lesa tillöguna með því smella hér.

Það er mjög mikilvægt að í þessari tillögu er verið að stórauka lýðræðið þannig að allir sjóðsfélagar, bæði greiðendur og lífeyrisþegar, hafi möguleika á því að bjóða sig fram til stjórnarsetu í lífeyrissjóðum innan ASÍ.

Það eru komin 40 ár frá því að Alþýðusamband Íslands gerði fyrst samning sem kveður á um að atvinnurekendur skuli eiga helming stjórnarmanna á móti stéttarfélögunum. Fyrsti samningurinn var gerður 1969, sá samningur var síðar endurnýjaður 12. desember 1995 og í honum er einnig kveðið á um jafna skiptingu stjórnarmanna.

Í greinargerð með tillögu stjórnar og trúnaðarráðs VLFA segir m.a.:

Það er öllum ljóst að traust og trúverðugleiki lífeyrissjóðanna hefur beðið gríðarlega hnekki á undanförnum misserum. Þetta traust verður verkalýðshreyfingin að byggja upp aftur og einn liður í því að byggja upp traustið og trúverðugleikann á ný er að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóðanna,

Það eru engin haldbær rök fyrir því að atvinnurekendur skuli sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna. Það er t.a.m. afar óeðlilegt að atvinnurekendur séu að taka ákvörðun um fjárfestingarleiðir þegar liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar fulltrúa atvinnurekenda í sjóðunum geta klárlega skarast á við hagsmuni sjóðsfélaga.

Það þarf einnig að stórauka lýðræði innan lífeyrissjóðanna, það þarf að tryggja að hinn almenni sjóðsfélagi hafi tækifæri til að bjóða sig fram til stjórnarsetu að uppfylltum hæfniskröfum skv. 31. grein laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frá árinu 1997.

Það þarf að tryggja að stjórnarmenn verði kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum. Stóraukið lýðræði sjóðsfélaga er gríðarlega mikilvægur þáttur í að byggja upp traust og trúverðugleika lífeyrissjóðanna að nýju.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að atvinnurekendur hafa klárlega reynt að nýta sér lífeyrissjóðina í gegnum árin og nægir að nefna tilraun Baugs og FL Group til að stofna sér lífeyrissjóð fyrir sína starfsmenn vegna þess að þeir voru óánægðir með fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Í frétt á ruv.is frá árinu 2006 segir m.a. um það mál: “Þá ríkir mikil óánægja meðal stjórnenda Baugs og FL Group með fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem þeir telja beitt gegn sér og sínum félögum.” Sjá fréttina í heild sinni hér:

Í frétt á mbl.is um það mál frá árinu 2004 er haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs að hann telji “nauðsynlegt að ferskir vindar blási reglulega í stjórnum slíkra sjóða og þannig verði komið í veg fyrir að einstakir stjórnarmenn líti á sjóði sem þeirra eigin”.

Sjá þá frétt í heild sinni hér:

 

Á þessum fréttum sést að til eru atvinnurekendur sem klárlega gera allt til þess að verja sína hagsmuni með öllum tiltækum ráðum og er gríðarleg hætta á því að hagsmunir eigenda lífeyrissjóðanna, sem eru sjóðsfélagarnir, geti skaðast sökum þess. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness fái ekki örugglega fullan stuðning á ársfundi Alþýðusambands Íslands. 

Þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur fengið gríðarlega umfjöllun enda er hér um afar viðkvæmt mál að ræða bæði fyrir atvinnurekendur og þá sem farið hafa með völdin í lífeyrissjóðum landsmanna til þessa.

Fjallað var um tillöguna á mbl.is sjá hér.  Einnig var fjallað tillöguna á ruv.is hlusta hér og einnig viðtal við formann félagsins í Reykjavík síðdegis hlusta hér.

Að lokum var rætt við fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins um tillöguna á ruv í dag. Hlusta hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image