• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og var að þessu sinni farið á Snæfellsnesið. 

Það voru 100 félagsmenn sem ásamt þremur fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Ekið var sem leið lá til Borgarness en fyrsti viðkomustaður var kirkjan á Borg á Mýrum.

Þaðan var ekið til Stykkishólms og byrjað á því að skoða kirkjuna undir leiðsögn kirkjuvarðar en kirkjan er afar björt og falleg.

Næsti viðkomustaður var Hótel Stykkishólmur þar sem snæddur var hádegisverður. Boðið var upp á súpu og steiktan fisk og ríkti mikil ánægja með það sem á boðstólum var.

Frá Stykkishólmi var ekið um Skógarströnd sem leið lá til Eiríksstaða í Haukadal.  Þar var skoðað víkingasafnið að Eiríksstöðum í Haukadal sem var afar fróðlegt og gaman.

Umsjónarmaður staðarins segir fyrrverandi íbúa Eiríksstaða hafa verið einn af örfáum góðum útrásarvíkingum landsins.

Eiríksstaði byggði Eiríkur rauði og Þjóðhildur kona hans en á meðal sona þeirra var landkönnuðurinn Leifur heppni.

Eiríksstaðir voru vígðir árið 2000 í tilefni af því að þá voru þúsund ár liðin frá landafundum þeirra feðga. Af sama tilefni var þar opnað lifandi víkingasafn í svokölluðum Eiríksskála, sem byggður er að fyrirmynd fornra skálarústa á staðnum.

Að lokinni skoðun á víkingasafninu var ekið sem leið lá á Hótel Hamar þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti áður en haldið var heim á leið.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

Fréttir

Nýjar fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image