• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Sep

N1 hafnar áskorun Verkalýðsfélags Akraness

Verkalýðsfélagi Akraness barst rétt í þessu bréf frá Hermanni Guðmundssyni, forstjóra N1, þar sem áskorun félagsins um að fyrirtækið standi við áður umsamdar launahækkanir vegna góðrar afkomu er svarað.

Í svarbréfi til félagsins segir m.a. þetta: "Það er rétt sem fram kemur í áskorunarbréfinu að afkoma N1 á fyrri hluta ársins var viðunandi. Það er hins vegar mikil óvissa um framhaldið. Á síðasta starfsári N1 varð tap af rekstrinum uppá 1.200 milljónir króna."

Einnig segir: "Skuldir fyrirtækisins hafa hækkað mikið á s.l. einu og hálfu ári eins og hjá öllum fyrirtækjum og heimilum landsins. Fyrirsjáanlegt er að á næstunni verður það hörð barátta að greiða þær niður þannig að þær komist aftur í fyrra horf."

Að endingu kemur fram í svarbréfinu: "Við munum bæta við laun okkar starfsfólks í samræmi við samkomulag sem gert var þ. 25. júní sl. á milli ASÍ og SA."

Formaður félagsins harmar þessa afstöðu forsvarsmanna N1, sérstaklega í ljósi þess að afkoma fyrirtækisins var eins og áður hefur komið fram góð á fyrstu 6 mánuðum þessa árs. Vissulega er það eflaust rétt hjá forstjóra fyrirtækisins að skuldastaða fyrirtækisins hefur hækkað mikið undanfarið. Rétt er að minna forstjóra N1 á að greiðslubyrði almenns verkafólks hefur stórhækkað á undanförnum misserum og á þeirri forsendu hefði verið mjög mikilvægt að verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum hefðu fengið sínar hóflegu launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Hins vegar kemur það formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að fyrirtæki nýti sér þann afslátt sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands gengu frá og gerir það að verkum að almennt verkafólk hefur orðið af allt að 100.000 kr. launahækkun.

Það hefur komið fram hér á heimasíðunni að VLFA er alfarið tilbúið að aðstoða fyrirtæki sem klárlega eiga í vandræðum vegna þess ástands sem nú ríkir, en það er engin ástæða til að gefa fyrirtækjum sem skila hundruðum milljóna í hagnað tækifæri til að komast hjá því að standa við gerða samninga.

Það er því miður grátlegt fyrir almennt verkafólk að verða af upp undir 100.000 kr. vegna linkindar samninganefndar ASÍ við endurskoðun kjarasamninga að undanförnu. Það átti klárlega að tryggja að vel stæð fyrirtæki myndu standa við gerða samninga, fyrirtæki sem starfa í útflutningi og fyrirtæki sem hafa möglunarlaust varpað sínum vanda beint út í verðlagið eins og til að mynda olíufélögin.

Hægt er að lesa bréf N1 sem Verkalýðsfélagi Akraness barst í dag með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image