• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Nov

Bjarnargreiði

Nú hefur ríkisstjórn Íslands tilkynnt nýjar leiðir til lausnar greiðsluvanda heimilanna. Leiðir sem nefnast greiðslujöfnun, þak á lengingu lána, greiðsluaðlögun og sértæk skuldaaðlögun.

Hagsmunasamtök heimilanna héldu fund í Iðnó sl. mánudagskvöld. Þar kynnti félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, þessi nýju úrræði og það kom svo sem ekki á óvart að fundargestir létu óánægju sína berlega í ljós yfir þessum úrræðum sem félagsmálaráðherra kynnti.

Þegar þessi úrræði eru skoðuð þá liggur fyrir að ekki er verið að leiðrétta þann forsendubrest sem skuldarar hafa orðið fyrir vegna bankahrunsins heldur eru íslensk stjórnvöld einungis að tryggja að lánastofnanir fái örugglega allt sitt. Það á með öðrum orðum að tryggja það að alþýða landsins greiði allar sínar skuldir með góðu eða illu.

Ef við skoðum úrræðin fyrir bílalánin þá liggur fyrir að færa á gengisvísitöluna til 1. maí 2008, sem jú vissulega léttir á greiðslubyrði fólksins en lækkar ekki höfuðstól skuldarinnar vegna þess forsendubrests sem orðið hefur. Hægt er að lengja í láninu um 3 ár sem tryggir það að lánveitandinn fær örugglega allt sitt og ef svo ólíklega vill til að eitthvað stendur út af þá hefur lántakinn úrræði til að fá restina niðurfellda með því að skila lyklunum að bifreiðinni.

Ætla íslensk stjórnvöld að halda því að fram að það sé verið að hjálpa skuldsettum heimilum með þessum hætti? Ekkert er gert til að lagfæra þá gríðarlegu hækkun sem orðið hefur á skuldum heimilanna vegna bankahrunsins

Það gilda ekki sömu lögmál um fjármagnseigendur, þeir hafa verið tryggðir í bak og fyrir. Neyðarlögin tryggðu allar innistæður á bankabókum að fullu. Og rétt er að minna á að búið er að setja hundruð milljarða inn í peningamarkaðssjóðina og afskrifað tugi milljarða hjá eignarhaldsfélögum og nægir að nefna í því samhengi 800 milljónir hjá Bjarna Ármannssyni, 14 milljarða hjá Finni Ingólfssyni, 30 milljarða hjá Pálma Haraldssyni, 11 milljarða hjá Sigurði Bollasyni og áfram mætti lengi telja.

Svo halda menn því fram að það sé ekkert hægt að gera fyrir skuldsett heimili. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að á engan hátt sé að sætta sig við þetta lengur og full ástæða fyrir skuldsett heimili að láta heyra í sér með kröftugum hætti.

Það ber að þakka Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir sína ötulu baráttu í þessum málum og ljóst að það er full ástæða fyrir verkalýðshreyfinguna að fara að taka á þessum málum af fullum þunga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image