• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Nov

Vistvæn stóriðja

Í lok september lauk hvalvertíðinni og eins og fram hefur komið í fréttum veiddust 125 langreyðar af 150 hvala kvóta sem Hvalur hf fékk úthlutað.

Það er óhætt að segja það að veiðar á stórhveli hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum enda voru upp undir 150 manns sem fengu störf veiðunum tengdum og voru upp undir 80 manns héðan frá Akranesi sem unnu á vertíðinni.

Meðallaun þeirra sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og störfuðu hjá Hval hf voru 561 þúsund krónur á mánuði, að teknu tilliti til þeirra þriggja mánaða sem hávertíðin stóð yfir. Á þessu sést að tekjumöguleikar starfsmanna voru nokkuð góðir sérstaklega í því árferði sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Það ber hins vegar að geta þess að mikið vinnuframlag liggur að baki þessum tekjum starfsmanna Hvals.

Það má alveg halda því fram að veiðar og vinnsla á hval hafi verið hálfgerð stóriðja, enda skilaði starfsemin umtalsverðum útsvarstekjum fyrir Akraneskaupstað og einnig fyrir sveitafélögin hér í kring. 

Þetta sýnir hversu gríðarlega mikilvægt er að við nýtum okkar sjávarauðlindir að fengnu áliti Hafrannsóknarstofnunar og við eigum ekki undir nokkrum kringumstæðum að láta fámenna öfgahópa úti í heimi kúga okkur til þess að afsala okkur nýtingu á okkar auðlindum.

Nú hefur komið í ljós að ferðamannastraumur til landsins hefur aldrei verið jafn blómlegur og í ár og nægir að nefna í því samhengi að aldrei hafa fleiri farið í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík eins og í ár. Þetta sýnir einnig svo ekki verður um villst að veiðar á hvölum og hvalaskoðun geta klárlega farið saman án þess að skaða hvort annað.

Það ber að þakka Kristjáni Loftsyni forstjóra Hvals hf og öllu hans frábæra starfsfólki fyrir þeirra framlag til að skapa hér atvinnu og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar því það er þannig sem við vinnum okkur út úr þeim efnahagshremmingum sem við Íslendingar erum nú í. 

Nú er bara að vona að veiðar og vinnsla á hval hefjist fyrr á næsta ári og skili okkur Íslendingum jafn miklum ávinningi og vertíðin gerði sem nú er nýlokið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image