• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Nov

Starfsmönnum íþróttamannvirkja Akranesskaupstaðar sýnd ótrúleg lítilsvirðing

Bæjaryfirvöld sína starfsmönnum íþróttamannvirkja fantaskapBæjaryfirvöld sína starfsmönnum íþróttamannvirkja fantaskapEins og fram kom hér á heimasíðunni í sumar tilkynntu bæjaryfirvöld Akranesskaupstaðar sparnaðarleiðir sem lutu að styttingu á vinnutíma starfsmanna íþróttamannvirkja. Þessi stytting varð þess valdandi að laun þessara starfsmanna skertust um frá 30 þúsund krónum upp í tæpar 70 þúsund krónur á mánuði. Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness fyrir hönd sinna félagsmanna harðlega enda var verið að ráðast illilega á þá sem eru með hvað lægstu tekjurnar hjá Akraneskaupstað.

Nú hafa bæjaryfirvöld tilkynnt að þau hyggist ætla að leyfa starfsemi í íþróttahúsi bæjarins að Vesturgötu í tvær klukkustundir á viku og einnig í Bjarnalaug án þess að starfsmenn bæjarins séu til staðar. Þeir ætla sér með öðrum orðum að láta þjálfara viðkomandi íþróttahópa sem stunda æfingar á þessum tímum ganga í störf starfsmanna íþróttamannvirkja sem þeir hafa sinnt undanfarin ár og áratugi.  Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega í bréfi til bæjaryfirvalda sjá hér.

Þegar skerðingin á vinnutíma starfsmanna íþróttamannvirkja var tilkynnt í sumar var það eitthvað sem starfsmenn voru nauðbeygðir til að sætta sig við. Það að bæjaryfirvöld skuli voga sér að ætla að láta sjálfboðaliða ganga í störf starfsmanna sem eru með kjarasamningsbundin réttindi um þau störf sem um ræðir er með öllu ólíðandi og verður ekki látið átölulaust.

Það er líka ámælisvert, og er það vægt til orða tekið, að ætla sér að heimila íþróttaiðkun án þess að starfsmaður sé til staðar, öryggisins vegna. Enda liggur fyrir viðbragðsáætlun sem starfsmenn hafa undirgengist og er hluti af þeirra starfi. Því er alveg óhætt að velta því fyrir sér hver ber ábyrgð á því ef eitthvert alvarlegt óhapp verður ef ekki er starfsmaður til staðar.

Starfsmenn íþróttamannvirkja Akranesskaupstaðar hafa falið Verkalýðsfélagi Akraness að gæta hagsmuna sinna í þessu máli. Það mun félagið svo sannarlega gera og hefur nú þegar hafið undirbúning að því að fara með málið fyrir dómstóla, enda getur það ekki staðist neina skoðun að gengið sé á rétt starfsmanna íþróttamannvirkja með jafn skelfilegum hætti og hér er að gerast. Ef þetta verður látið átölulaust er allt eins víst að þetta sé fyrsta skrefið í því að láta sjálfboðaliða ganga í störf starfsmanna og á þeirri forsendu verður þetta mál varið af fullri hörku enda getur málið verið fordæmisgefandi.

Sú lítilsvirðing sem starfsmönnum íþróttamannvirkja er sýnd með þessari ákvörðun bæjaryfirvalda er með hreinustu ólíkindum og er gríðarleg reiði á meðal starfsmanna og sem dæmi hvað það varðar var haldinn fundur um þetta mál í síðustu viku sem endaði með því að stór hluti fundarmanna gekk út.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image