• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Oct

Kjarasamningsviðræður við Norðurál hafnar

Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls rennur út um áramótin og var fyrsti formlegi samningafundurinn haldinn í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Á þessum fyrsta fundi var afgreidd viðræðuáætlun og kemur meðal annars fram í þessari áætlun að samningsaðilar hafi það markmið að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir 15. desember næstkomandi. Nú verður tíminn einn að leiða það í ljós hvort að sú áætlun muni takast eður ei.

Ekki er ólíklegt að lögð verði mikil áhersla á launaliðinn í komandi viðræðum og mun Verkalýðsfélag Akraness leggja ofuráherslu á að launakjör Norðuráls verði með sambærilegum hætti og annarra fyrirtækja í samskonar iðnaði. Við annað er alls ekki hægt að una. 

Fram hefur komið í máli forsvarsmanna Norðuráls að erfitt verði að fara í launalið samningsins á meðan óvissa ríkir varðandi nýjan Orku-, auðlinda- og umhverfisskatt. Verkalýðsfélag Akraness getur ekki tekið þátt í því að þessi óvissa varðandi nýjan orkuskatt hafi áhrif á komandi kjaraviðræður, enda er ekki hægt að sætta sig við að aðgerðir Ríkisstjórnar Íslands í skattamálum hafi áhrif á kjarasamningsviðræður.

Rekstrarskilyrði álfyrirtækja hafa skánað töluvert á liðnum mánuðum og nægir að nefna í því samhengi að í febrúar 2009 var álverð pr. tonn 1260 dollarar en í dag er álverðið komið upp í 1900 dollara og hefur hækkað um rúm 50% á áðurnefndu tímabili. Það er alveg ljóst að jákvæð þróun á álverði að undanförnu mun gefa stéttarfélögunum byr undir báða vængi með að ná ásættanlegum kjarasamningi fyrir starfsmenn Norðuráls.

Næsti fundur er fyrirhugaður á næsta föstudag hjá ríkissáttasemjara.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image