• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Jun

Gleðitíðindi - vinnsla á hval hafin

Þau gleðitíðindi bárust í gær að fyrsta langreyðurin væri komin á land í Hvalfirði og það þýðir ekki nema eitt - að veiðar og vinnsla á hval eru komin á fulla ferð. Í tilefni af því fór formaður VLFA í vinnustaðarheimsókn í húsakynni HB Granda á Akranesi þar sem verið var að skera og ganga frá fyrsta hvalnum. Ríkti mikil ánægja meðal starfsmanna með að vertíðin væri nú hafin eftir tveggja ára stopp.

það er morgunljóst að hvalveiðarnar veita umtalsverða innspýtingu inn í atvinnulífið hér á Akranesi enda eru uppundir 200 manns sem koma að veiðum og vinnslu á þessari vertíð. Á vertíðunum 2009 og 2010 voru tekjumöguleikar starfsmanna mjög góðir enda voru meðallaun við vinnslu á hval hér á Akranesi yfir 700 þúsund krónur þó rétt sé að geta þess að umtalsvert vinnuframlag lá að baki slíkum launum. Unnið er á sólarhringsvöktum hér á Akranesi sem eru keyrðar áfram af tveimur vakthópum. Einnig eru tugir manna að störfum uppi í Hvalfirði þar sem líka er unnið á sólarhringsvöktum eðli málsins samkvæmt.

Það er alveg ljóst að þessar veiðar og vinnsla hafa umtalsverða þýðingu fyrir okkur Akurnesinga og reyndar samfélagið allt enda skila þessar veiðar sér til ríkis og sveitarfélaga meðal annars  í formi útsvarstekna. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á því að við þurfum að hafa hér fyrirtæki sem skapa gjaldeyristekjur því það er einungis þannig sem við náum að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa við.

Fyrirtækið Hvalur hf, undir dyggri stjórn Kristjáns Loftssonar, á þakkir skildar fyrir þá elju og atorkusemi við að halda þessum veiðum ætíð áfram þó oft hafi á móti blásið. Allavega erum við Akurnesingar afar þakklátir fyrir þessi atvinnutækifæri sem Hvalur hf býður okkur upp á. Það liggur fyrir að mun færri komust að en sóttu um að fá að starfa hjá Hval hf á þessari vertíð og það segir allt sem segja þarf hvað þennan atvinnumöguleika snertir. Myndir frá vinnslunni er hægt að sjá hér.

14
Jun

Verkafólk eins og hamstrar í búri!

Það er eins og við manninn mælt að þegar styttist í að kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru að verða lausir þá heyrast varnaðarorð vítt og breitt um samfélagið. Varnaðarorð sem byggjast á því að nú þurfi að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til handa verkafólki til að stöðugleiki ríki í íslensku samfélagi. Varnaðarorð í þessum anda hefur verkafólk ætíð þurft að heyra þegar kemur að kjarasamningum. Frægt er til dæmis þegar greiningastjórar bankanna sögðu í janúar 2008 að það yrði að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til að hér myndi ríkja stöðugleiki en þá voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði lausir. Hugsið ykkur, greiningastjórar bankanna vöruðu við því í byrjun hrunársins mikla árið 2008 að ef verkafólk fengi örlitla hækkun þá yrði stöðugleika í íslensku hagkerfi ógnað. Á sama tíma og þessi orð voru látin falla var nánast verið að ræna bankana innan frá sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag eins og allir þekkja og það beint fyrir framan nefið á þessum greiningastjórum sem höfðu mestar áhyggjur af því að verkafólk fengi einhverjar launahækkanir sem talandi væri um.

Fræg eru líka orð seðlabankastjóra þegar kjarasamningar voru lausir árið 2011 en þá lagði hann mikla áherslu á að kjarasamningarnir yrðu hófstilltir og að innistæða væri fyrir þeim því annars myndi stöðugleikanum verða ógnað. Á sama tíma og hann lét þessi orð falla var hann að stefna sínum eigin banka fyrir dómstóla og krefjast hundruð þúsunda í launahækkun á mánuði.

Og síðast í gær kemur nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og hvetur til þess að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum því innistæðulausir samningar leiði óhjákvæmilega til verðbólgu og verri lífskjara. Segir hann í þessu samhengi að „enginn sigri í launakapphlaupinu.“ Gott og vel, ugglaust margt til í þessu hjá framkvæmdastjóra SA. En málið er einfalt. Ef við skoðum kjarasamningana sem gerðir voru 2011 þá var til dæmis samið um 12 þúsund króna launahækkun á mánuði fyrir verkafólk það ár. Það var gengið frá svokallaðri samræmdri launastefnu, launastefnu sem gekk út á það að launafólk ætti að fá sambærilegar launahækkanir. En þetta sama ár og var samið um þessa 12 þúsund króna launahækkun til handa verkafólki þá hækkuðu stjórnendur, framkvæmdastjórar og æðstu stjórnendur fyrirtækja laun sín um 200-300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Það má því eiginlega segja að það væri nær fyrir Samtök atvinnulífsins að hvetja æðstu stjórnendur í fyrirtækjum til að gæta hófs í sjálfskömmtunarlaunahækkunum sínum heldur en að vara við að verkafólk sem er með skammarlega lág laun sem duga vart til lágmarksframfærslu fái einhverja leiðréttingu á sín laun.

Hlaupaleiðirnar misjafnar

Já, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði að enginn sigri í launakapphlaupinu. Það liggur fyrir og það er staðfest að nánast allir kjarasamningar sem gengið er frá hjá Ríkissáttasemjara eftir að samið hefur verið fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði eru mun innihaldsríkari heldur en kjarasamningar verkafólks. Þannig hefur þetta ætíð verið og því má segja að launakapphlaupið sem framkvæmdastjóri SA talar um byggist á því að hlaupaleiðir launþega séu afar mismunandi. Það má eiginlega segja að hlaupaleið verkafólks sé eins og fyrir hamstur í búri sem hleypur í hlaupahjólinu og kemst ekkert áfram á meðan hlaupaleið til dæmis æðstu stjórnenda í fyrirtækjum og sumra launahópa virðist liggja í því að þeim er keyrt í limmósínu í mark og þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því að svitna.

Ekkert verður gefið eftir

Það liggur fyrir að það þarf að laga kjör verkafólks eins og til dæmis þeirra sem starfa í fiskvinnslunni enda verður þar nægt svigrúm þar sem búið er að lækka sértæka veiðigjaldið um milljarða króna og því morgunljóst að þar verður innistæða fyrir þeim launahækkunum sem sækja þarf til handa fiskvinnslufólki. Það liggur einnig fyrir að afkoma útflutningsfyrirtækja hér á landi er mjög góð um þessar mundir og því morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki sjá neina ástæðu til þess að gefa þeim fyrirtækjum sem klárlega hafa svigrúm fyrir hækkun launa sinna starfsmanna neinn afslátt í komandi kjarasamningum. Vonandi er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sammála formanni Verkalýðsfélags Akraness í því að fyrirtæki eins og útflutningsfyrirtækin þar sem klárlega er innistæða fyrir launahækkun deili góðri afkomu með starfsmönnum í formi góðrar launahækkunar.

12
Jun

Fundi með forsætisráðherra lokið

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá boðaði forsætisráðherra formann félagsins til fundar í stjórnarráðinu og var sá fundur haldinn í morgun. Það er skemmst frá því að segja að þessi fundur var bæði góður og gagnlegur.

Eins og flestir vita hefur eitt aðalbaráttumál Verkalýðsfélags Akraness á undanförnum árum á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar verið afnám verðtryggingar á neytendalánum og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur. Því miður hafa þær tillögur og ályktanir sem VLFA hefur lagt fram á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum ekki hlotið hljómgrunn hjá forystu hreyfingarinnar. Á þeirri forsendu hefur formaður félagsins lýst yfir ánægju með að núverandi ríkisstjórn ætli að taka á þessum helstu baráttumálum Verkalýðsfélags Akraness.

Á fundinum í morgun ræddi forsætisráðherra tillögur er lúta að aðgerðaáætlun um skuldavanda heimilanna sem lögð var fram á þinginu í gær og er í 10 liðum. Þessi aðgerðaáætlun virðist í fljótu bragði vera í algjöru samræmi við þau loforð sem gefin voru út fyrir kosningar. Formanni VLFA líst vel á þetta aðgerðaplan og er fullur bjartsýni á að loksins muni sjá fyrir endann á þeim miskunnarlausa forsendubresti sem heimilin máttu þola og síðast en ekki síst að nú hilli undir afnám verðtryggingar á húsnæðislánum heimilanna. Skýrt er kveðið á um í þessari aðgerðaáætlun að skipaður verði starfshópur sem eigi að skila tillögum er lúta að afnámi verðtryggingar fyrir áramót.

Formaður félagsins ræddi fjölmörg önnur mál á fundinum er tengjast hagsmunum alþýðunnar, svosem komandi kjarasamninga og mikilvægi þess að bæta stöðu þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Benti formaður meðal annars á að mikilvægt væri að hækka persónuafslátt því það væri morgunljóst að það kæmi þeim tekjulægstu hvað best.

Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur enda var gott að eiga þetta samtal við forsætisráðherra og gat formaður ekki skynjað annað en að það væri fullur hugur hjá ríkisstjórninni að taka á þessum málum er lúta að skuldavanda heimilanna af fullri einurð og krafti. Enda er mjög mikilvægt að þetta taki eins skamman tíma og hægt þar sem skuldsett heimili geta ekki beðið í mjög langan tíma eftir aðgerðum. Formaður nefndi við forsætisráðherra að mikilvægt væri að fresta nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði til áramóta í ljósi þess að allir starfshópar sem skipaðir verða vegna skuldavanda heimilanna eigi að skila af sér niðurstöðum og tillögum seinnihluta þessa árs. Þá mun liggja fyrir hvernig endanleg aðgerðaáætlun mun líta út hvað varðar aðgerðir til handa heimilunum. Það var ekki annað að heyra á forsætisráðherra en að öll þessi mál væru svo sannarlega til skoðunar hjá ríkisstjórninni sem er vel.  

Forsætisráðherra er það fullkunnugt að formaður Verkalýðsfélags Akraness mun fylgjast vel með að öll þessi mál er lúta að hagsmunum alþýðunnar og skuldsettum heimilum fái farsælan endi og að staðið verði við gefin loforð. Enda mun formaður VLFA veita ríkisstjórninni fullkomið aðhald og vera gagnrýninn á ef hún fer út af sporinu hvað varðar lausn á vanda íslenskra heimila.

05
Jun

Formaður VLFA fundar með forsætisráðherra

Stjórnarráð ÍslandsStjórnarráð ÍslandsFormaður Verkalýðsfélags Akraness hefur fengið boð um að funda með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, í stjórnarráðinu næstkomandi miðvikudag og að sjálfsögðu þáði formaður boðið.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur eitt aðal baráttumál Verkalýðsfélags Akraness allt frá árinu 2008 verið afnám verðtryggingar á neytendalánum og að forsendubresturinn sem heimilin þurftu að þola í kjölfar efnahagshrunsins verði leiðréttur. Félagið hefur til dæmis lagt fram tillögur og ályktanir á vettvangi verkalýðshreyfingarninar á undanförnum árum hvað þessi mál varðar en því miður án mikils hljómgrunns. Fyrir kosningar höfðu hinir ýmsir stjórnmálaflokkar samband við formann VLFA og báðu hann um að halda erindi, meðal annars um þessi mál sem og önnur og að sjálfsögðu varð formaður ætíð við þeim beiðnum og sem dæmi hélt hann erindi fyrir Framsóknarflokkinn á einum 15 fundum fyrir síðastliðnar kosningar. 

Væntanlega verða þessi mál er lúta að aðgerðum til handa heimilanna til umræðu á þessum fundi og verður forvitnilegt að heyra í forsætisráðherra hvað það varðar. Það er morgunjóst að formaður mun styðja komandi ríkisstjórn í að koma til móts við heimilin og skuldsetta alþýðu eins og kostur er því það er mat formanns að afnám verðtryggingar og leiðrétting á forsendubrestinum sé eitt brýnasta hagsmunamál sem skuldsett alþýða þessa lands hefur staðið frammi fyrir fyrr og síðar.  

03
Jun

Tveir sjómenn heiðraðir í gær

Í tilefni sjómannadagsins í gær voru tveir sjómenn heiðraðir við hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju. Athöfnin hófst kl. 11 og voru þar heiðraðir þeir Sigvaldi Loftsson og Jóhann Þóroddsson sem báðir eiga að baki langa og farsæla starfsævi sem sjómenn.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi. Þar hélt sr. Eðvarð Ingólfsson stutta tölu og formaður sjómannadagsráðs, Tómas Rúnar Andrésson, lagði blómsveig að minnismerkinu. Fánaberar voru þeir Sigmundur Lýðsson og Haraldur Jónsson. Fyrr um morguninn var einnig farið að minnismerki um týnda sjómenn en það er staðsett í kirkjugarði Akraness. Þar var einnig lagður blómsveigur.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnismerki sjómanna.

Akraneskaupstaður bauð síðan þeim sem heiðraðir voru og mökum þeirra til kvöldverðar á Galito og ber að þakka fyrir það.

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

Myndir frá deginum má sjá hér en þær tók Ómar Traustason.

31
May

Sjómannadagurinn - leikskólabörn á Akranesi fengu harðfisk í morgun

Nú er Sjómannadagurinn að renna upp og af því tilefni fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness í morgun. Þar voru á ferðinni félagarnir Tómas Rúnar Andrésson og Sigmundur Lýðsson sem gáfu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk.

Aðrir dagskrárliðir tengdir sjómannadeginum eru þeir að eins og venjulega munu Slysavarnakonur á Akranesi halda upp á sjómannadaginn með glæsilegri kaffisölu í Jónsbúð sunnudaginn 2. júní milli kl. 13:30 og 16:00. 

Sjómannasunnudaginn sjálfan verður athöfn við minnisvarða um drukknaða og týnda sjómenn kl. 10:00 í kirkjugarðinum.

Kl. 11:00 verður Sjómannamessa í Akraneskirkju þar sem aldraðir sjómenn verða heiðraðir. Að messu lokinni verður gengið að Akratorgi og blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna.  Þessar athafnir eru kostaðar og í umsjón Verkalýðsfélags Akraness.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image