• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Apr

Fyrsta úthlutun orlofshúsa sumarið 2013!

Strax eftir helgi verður gengið frá fyrstu úthlutun umsókna um dvöl í orlofshúsum félagsins í sumar. Þeir sem ekki hafa þegar skilað inn umsókn geta gert það um helgina, annað hvort á Félagavefnum eða skilað umsókninni í bréfalúguna á Sunnubraut 13.  

Starfsfólk skrifstofu VLFA mun hefjast handa við úthlutun strax á mánudagsmorgun og verður úthlutun lokið fljótlega eftir hádegi. Nánari reglur um úthlutun er að finna hér. Allir umsækjendur fá sent bréf þar sem fram kemur hvort einhver vika hafi fallið í þeirra skaut eður ei, en notendur Félagavefs geta séð bókun á vefnum sínum eftir hádegi á mánudag, hafi þeir hlotið orlofshús í sumar.

11
Apr

Frambjóðendur Regnbogans í heimsókn á skrifstofu VLFA

Á kaffistofu Verkalýðsfélags Akraness skapast oft fjörugar umræður og þar eru allir velkomnir sem vilja. Á þessum árstíma, þegar frambjóðendur ríða um héruð og heimsækja fyrirtæki til að kynna sig og sín málefni vill umræðan á kaffistofunni óneitanlega snúast um kosningarnar sem framundan eru. Ekki er verra þegar frambjóðendur líta við í kaffi og taka þátt í umræðunni eins og þeir gera gjarnan.

Í dag komu í heimsókn á skrifstofu félagsins frambjóðendur Regnbogans, en það er nýtt framboð sem býður fram á landsvísu. Það voru þau Jón Bjarnason, alþingismaður og fyrrv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Arnþrúður Heimisdóttir, tamningakona og kennari frá Langhúsum Fljótum sem litu við fyrr í dag og áttu gott spjall á kaffistofunni. Formaður félagsins notaði tækifærið og kom á framfæri við frambjóðendur að brýnasta hagsmunamál íslenskra heimila væri afnám verðtryggingar og leiðrétting þess forsendubrests sem hrunið olli. Um þetta hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness ítrekað ályktað og hefur lagt fram slíkar ályktanir á öllum þingum og hvar sem því hefur verið við komið síðan árið 2008.

09
Apr

Gríðarleg stemmning á framboðsfundi Framsóknarflokksins í Garðabæ í gær

Formaður félagsins hefur verið að fara víða og halda erindi er lúta að afnámi verðtryggingar og skuldavanda íslenskra heimila. Hefur hann meðal annars haldið erindi fyrir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokk og framundan eru fundir hjá Dögun og Flokki heimilanna.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni eru ályktanir stjórnar- og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags AKraness afdráttarlausar hvað þessi málefni varðar. Frá árinu 2009 hefur VLFA lagt fram fjölmargar tillögur og ályktanir um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á þeim skelfilega forsendurbresti sem heimilin urðu fyrir. Í þessum ályktunum hefur einnig verið kveðið skýrt á um að setja verði vaxtaþak á húsnæðislán til heimilanna.

Í gær var haldinn gríðarlega fjölmennur fundur hjá framsóknarmönnum í Garðabæ og hélt formaður VLFA erindi þar. Á meðal ræðumanna voru auk formanns Ólafur Arnarson ritstjóri Tímaríms, Eygló Harðardóttir oddviti í Kraganum og formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Formaður VLFA fór víða yfir í erindi sínu og kom meðal annars fram að brýnasta hagsmunamál íslenskra heimila og alþýðu þessa lands væri að afnema verðtryggingu á neytendalánum, leiðrétta forsendubrest heimilanna og að þak verði sett á húsnæðislán. Það kom einnig fram í máli formanns að það þarf að taka af fullum þunga og hörku á erlendu vogunar- og hrægammasjóðunum og nota það svigrúm sem þar er til staðar til að leiðrétta þann miskunnarlausa forsendubrest sem heimilin hafa orðið fyrir. Það virðist ekki lengur vera ágreiningur á meðal manna um að þetta svigrúm verði til staðar heldur virðist ágreiningurinn núna lúta að því í hvað á að nota þetta svigrúm sem næst í samningum við hrægammasjóðina. Formaður sagði að í sínum huga væri það engin spurning að heimilin ættu að vera í algjörum forgangi hvað það svigrúm varðar og nota á það til að leiðrétta forsendubrestinn. Íslensk heimili og alþýða þessa lands hafa þurft að bera afleiðingar hrunsins þar sem ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur, orkufyrirtæki og aðrir þjónustuaðilar hafa varpað sínum vanda miskunnarlaust yfir á íslensk heimili.

Það kom einnig fram í máli formanns að heimilin eru tannhjól samfélagsins og því er gríðarlega mikilvægt að forsendurbresturinn verði leiðréttur þannig að heimilin fái súrefni á nýjan leik sem mun svo klárlega skila sér í aukinni verslun og þjónustu um leið og skuldafarganinu verður létt af heimilunum.

Það þarf ekki að velkjast í vafa um það að þetta er brýnasta hagsmunamál íslenskrar alþýðu og krafa kjósenda er skýr. Afnemið verðtryggingu og leiðréttið forsendubrest heimilanna. Annað verður ekki við unað.

Fjölmargir fundarmenn óskuðu eftir að formaður myndi setja þær glærur sem hann var með á fundinum hér inn á heimasíðuna. Í ljósi þess að hann á eftir að halda nokkur erindi á fleiri fundum verður beðið með það þar til þeim er lokið af kurteisi við þá sem eiga eftir að hlýða á erindið. Þegar fundunum er lokið sem formaður hefur gefið loforð fyrir að tala á munu þessar glærur verða settar inn á heimasíðuna þar sem þær verða aðgengilegar öllum.

05
Apr

Undirbúningur að stefnu fyrir félagsdómi gegn Elkem Ísland hafinn af fullum þunga

Verksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaVerksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni ákvað Verkalýðsfélag Akraness að stefna Elkem Ísland í ljósi þeirrar staðreyndar að þar er að störfum verktaki í daglegum störfum inni á athafnasvæði verksmiðjunnar og njóta starfsmenn umrædds verktaka ekki þeirra kjara sem um er getið í kjarasamningi Elkem Ísland. Á grundvelli þessa átti formaður VLFA fund með lögmanni félagsins þar sem hafinn var undirbúningur að því að stefna Elkem Ísland fyrir félagsdóm þar sem að Elkem hefur neitað félaginu um að ganga frá samkomulagi þar sem skýrt verði kveðið á um að verktökum sem starfi inni á svæðinu allt árið um kring séu tryggð þau kjör sem kveðið er á um í kjarasamningi Elkem Ísland.

Þessu hafnaði Elkem Ísland eins og áður sagði og vísaði þess í stað á kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði en í þeim samningi eru kjör langtum lakari heldur en gengur og gerist í stóriðjusamningunum almennt. Nægir til dæmis að nefna að dagvinnutími í stóriðjunum er 156 stundir en 173 stundir á hinum almenna vinnumarkaði. Þessu til viðbótar njóta starfsmenn stóriðja desember- og orlofsuppbóta sem eru mun hærri en á hinum almenna vinnumarkaði svo ekki sé talað um veikinda- og slysarétt.

Á þessari forsendu sér félagið sig knúið til þess að tryggja það að verktakar sem starfa inni á athafnasvæðum stóriðjanna allt árið um kring alla daga ársins komi ekki inn á svæðið og gjaldfelli áðurnefnd kjör. Þetta eru grafalvarleg tíðindi fyrir þá starfsmenn sem starfa í stóriðjunum því ef þetta er túlkun forsvarsmanna Elkem Íslands, að hægt sé að fá verktaka til að vinna dagleg störf og láta kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði gilda, þá er verið að ógna atvinnu og kjörum þeirra sem starfa í þessum stóriðjum gífurlega. Um leið er einnig verið að gjaldfella þá kjarabaráttu sem unnin hefur verið á liðnum árum og áratugum og þeim umtalsverða árangri sem náðst hefur varðandi bætt kjör í stóriðjunum.

Því er engin undankomuleið fyrir VLFA að mæta þessu af fullri hörku og verður það í fyrsta gang gert fyrir félagsdómi. Ef svo óheppilega vildi til að málið myndi tapast fyrir félagsdómi þá er morgunljóst að kjör starfsmanna í stóriðjunum verður að tryggja með afgerandi hætti í komandi kjarasamningum. Það er einnig ljóst að félagið mun aldrei skrifa undir kjarasamning þar sem opið verður fyrir að hægt sé að láta utanaðkomandi verktaka ganga í dagleg störf starfsmanna í stóriðjum á allt öðrum kjörum en um hefur verið samið í þessum fyrirtækjum.

02
Apr

Frambjóðendur Framsóknarflokks í heimsókn á skrifstofu félagsins

Í ljósi þess að nú eru einungis 24 dagar í Alþingiskosningarnar eru frambjóðendur stjórnmálaflokkanna farnir að láta vel heyra í sér og eins og undanfarin ár þá koma þingmenn og frambjóðendur oft í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness. Að sjálfsögðu taka starfsmenn VLFA ávallt vel á móti öllum frambjóðendum sem óska eftir því að koma í heimsókn á skrifstofuna og var engin undantekning á því þegar frambjóðendur Framsóknarflokksins, þau Ásmundur Daði Einarsson og Elsa Lára Arnardóttir, litu við í kaffispjall fyrr í dag.

Það er alltaf gaman þegar frambjóðendur sjá sér fært að koma í heimsókn og eðli málsins samkvæmt voru komandi kosningar mikið til umræðu og m.a. kosningaloforð framsóknarmanna um að afnema verðtrygginguna og leiðrétta þann skelfilega forsendubrest sem heimilin urðu fyrir. Enda er það mat formanns og ályktun stjórnar og trúnaðarráðs félagsins, að áðurnefnd mál séu eitt brýnasta hagsmunamál sem íslensk alþýða stendur nú frammi fyrir.

Formaður á von á því að fleiri frambjóðendur muni koma í heimsókn á næstu dögum, enda er alltaf gaman að taka þátt í umræðu er lýtur að hagsmunum íslensks launafólks og íslenskrar alþýðu, enda reynir félagið að leggja sig í líma við að tryggja hagsmuni íslensks launafólks eins vel og kostur er og er óhrætt við að koma þeim skilaboðum á framfæri við verðandi þingmenn þessarar þjóðar.

29
Mar

Ársfundur VLFA haldinn í kvöld

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn í kvöld á Gamla Kaupfélaginu kl. 18. Það er afar ánægjulegt að segja frá því að rekstur félagsins á liðnu ári gekk frábærlega og var rekstrarafgangur af heildarsamstæðu félagsins rétt tæpar 90 milljónir króna. Það skýrist að hluta til af fjölgun félagsmanna en á milli ára fjölgaði þeim um tæplega 300 manns. Iðgjöldin jukust samhliða því um tæpar 22 milljónir á milli ára.

Eins og áður sagði var rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins en það er stefna stjórnar VLFA að láta félagsmenn ætíð njóta ávöxtunar af góðri afkomu félagsins. Sem dæmi þá hækkaði stjórn félagsins fæðingarstyrkinn í fyrra um 100% og í ár ætlar stjórnin að taka upp styrk vegna tannlækninga frá og með 1. maí næstkomandi.  Sá styrkur fellur undir styrk vegna heilsufarðsskoðunar, nemur 50% af reikningi og er að hámarki 20.000 kr.

Stjórnin hvetur félagsmenn til að mæta á aðalfundinn því það skiptir máli að félagsmenn láti sig starf félagsins varða. Að afloknum venjubundnum aðalfundarstörfum mun félagið bjóða upp á lambalæri að hætti Gamla Kaupfélagsins með öllu tilheyrandi.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image