• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jul

Hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði – á kostnað launahækkana?

Fram kom í fréttum í gær að nýtt lífeyriskerfi væri nánast í höfn! Formaður telur þetta stórfréttir fyrir okkur í Verkalýðsfélagi Akraness sem höfum ekki heyrt neitt um að það væri botnlaus vinna í gangi við að búa til nýtt kerfi, en rétt er að geta þess að um 3000 félagsmenn VLFA eru að greiða í lífeyrissjóð og því væri betra að vita um hvað menn eru að tala.

Það veit á gott ef þeir aðilar sem stjórna lífeyriskerfinu eru farnir að átta sig á þeirri grafalvarlegu stöðu sem lífeyriskerfið er í, enda hafa þeir ætíð öskra hátt og skýrt að þetta sé besta kerfi í heimi þegar þeir verja kerfið!

Vandi kerfisins sást glöggt í árlegu yfirliti sem Fjármálaeftirlitið birtir yfir stöðu íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2012 og það er ætíð afar fróðlegt að skoða þessa skýrslu frá FME um stöðu lífeyriskerfisins. Formaður ítrekar að hann er ekki í nokkrum vafa um að lífeyriskerfið á í umtalsverðum vanda og undrast að ekki skuli vera fjallað meira um vanda kerfisins en raun ber vitni.
Það verður að segjast alveg eins og er að það er þónokkur mótsögn hjá FME þegar þeir segja í skýrslunni að lífeyriskerfið sé „öflugt“ en þó séu veikleikar til staðar.


Formaður vil byrja á því að spyrja hvernig getur lífeyriskerfið verið öflugt þegar tryggingarfræðileg staða sjóðanna er neikvæð uppá 674 milljarða? Já, takið eftir, lífeyriskerfið vantar 674 milljarða til að geta staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa lofað sínum sjóðsfélögum.

Bara hallinn á lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga er 574 milljarðar, enda eru þessir sjóðir með bakábyrgð skattgreiðenda, sem þýðir að þessi gríðarlegi halli mun springa framan í andlit íslenskra skattgreiðenda á næstu árum og áratugum. Hallinn hjá lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði er 100 milljarðar og það þrátt fyrir að búið sé að skerða lífeyrisréttindi m.a. verkafólks, sjómanna og iðnaðarmanna um 130 til 150 milljarða frá hruni. Já takið eftir, launþegar á hinum almenna vinnumarkaði þurfa að horfa upp á skerðingu sem nemur allt að 150 milljörðum á sínum lífeyrisréttindum og þurfa jafnframt að ábyrgjast lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna upp á 574 milljarða. Hvaða sanngirni og réttlæti er fólgið í þessu?

Já, lífeyriselítan segir að þetta sé besta kerfi í heimi. Besta kerfi í heimi hvað? Hvernig getur þetta verið besta lífeyriskerfi í heimi þegar það vantar tæpa 700 milljarða til að standa við skuldbindingar?

Fjármálaeftirlitið veit af þessum gríðarlega vanda enda hafa þeir lagt til að eitthvað verði gert til að stöðva þennan snjóbolta sem gerir ekkert annað en að stækka. Þeir hafa lagt til þrjár leiðir til að mæta þessum gríðarlega halla sjóðanna þ.e.a.s. að iðgjöld verði hækkuð, réttindi skert eða að lífeyrisaldur verði hækkaður. Ég ítreka spurningu mína, hvernig getur þetta verið öflugt kerfi og jafnvel það besta í heimi eins og sumir halda fram, í ljósi þessara ráðlegginga Fjármálaeftirlitsins til að mæta þessum gríðarlega halla?

Um hvað eru þessir aðilar sem eru vinna að nýju kerfi að tala?  Eru þeir að tala um að afnema ríkisábyrgðina af lífeyrisréttindum opinbera starfsmanna? Er verið að tala um að iðgjöldin á hinum almenna vinnumarkaði verði hækkuð úr 12% uppí 15,5%?  Hvernig ætla menn að leysa vanda LSR og sveitafélaga sem eru með halla uppá tæpa 600 milljarða? Málið er að lífeyriskerfið er ekki sjálfbært og nægir að skoða A deildina hjá LSR sem var stofnuð 1998 og átti að vera algerlega sjálfbær en á þessum 15 árum er hallinn hjá A deildinni 61 milljarður. Rétt er að rifja upp að FME gerði kröfu um að iðgjaldið yrði hækkað úr 15,5 í 19,5% hjá LSR til að mæta þessum halla en þessi krafa var gerð 2011.  Rétt er að geta þess að stjórnvöld fóru ekki eftir þessari ábendingu frá FME um að hækka iðgjaldið um 4% sem hefði kostað skattgreiðendur 4 milljarða á ári.

Formaður spyr sig, er launafólk tilbúið til að setja meira fjármuni inní þessa lífeyrishít á meðan kerfið er alls ekki sjálfbært eins og sagan sýnir svo ekki verður um villst? Er launafólk á hinum almenna vinnumarkaði tilbúið að hækka iðgjöldin um 3%?  Formaður dregur í efa að svo sé enda er þar með dregið úr möguleikum á launahækkunum eða hækkun í séreignina með því að nota 3% í samtryggingarkerfi lífeyrissjóðina. Enda kemur það fram í fréttum í dag hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði verði á kostnað launabreytinga. Þetta er stór spurning sem hinn almenni launamaður þarf að spyrja sig að: vill hann hækka samtrygginguna á kostnað launabreytinga?

Formaður telur það algjörlega galið að þeir sem hafa komið lífeyriskerfinu í þær ógöngur sem það er komið í eigi að koma með tillögur um úrbætur.  Hann hefur margoft sagt það áður að það verður að fá óháða aðila sem hafa það hlutverk að rannsaka þetta lífeyriskerfi algerlega og þessir aðilar þurfa að velta hverjum steini við í þeirri rannsókn. Þessi óháða nefnd þarf einnig að koma með tillögur til úrbóta enda er þetta kerfi alls ekki sjálfbært og staðfestir 700 miljarða halli það gjörsamlega. Stjórnvöld verða að hafa kjark og þor til að taka á þessu gríðarlega vandamáli og gera ekki eins og strútarnir sem stinga hausnum í sandinn þegar þeir verða varir við utanaðkomandi hættu.

05
Jul

Írskir dagar að hefjast í í dag

Nú eru að hefjast Írskir dagar á Akranesi og standa þeir yfir alla helgina. Mikil og fjölbreytt dagskrá verður í boði og ætti fólk á öllum aldri að finna eitthvað við sitt hæfi. Starfsmenn bæjarins hafa undanfarna daga unnið að því að skreyta bæinn og er óhætt að segja að hann sé einstaklega glæsilegur en búið er að hengja upp fána og aðrar skreytingar víðsvegar auk þess sem einstaklingar og verslanir hafa einnig tekið þátt í að setja írskan svip á bæinn með því að skreyta umhverfi sitt.

Á dagskránni um helgina eru til dæmis ýmsir tónlistarviðburðir, listasýningar og allskonar skemmtidagskrá fyrir börn en jafnframt eru fastir liðir eins og götugrill, brekkusöngur og lopapeysuballið á sínum stað. Ýmsar verslanir í bænum bjóða upp á tilboð og afslætti í tengslum við Írska daga og má búast við því að mikið líf verði í bænum alla helgina þrátt fyrir frekar leiðinlega veðurspá en við íslendingar látum slíkt ekki slá okkur útaf laginu. Dagskrá helgarinnar má finna hér.

Verkalýðsfélag Akraness óskar Akurnesingum sem og öllum gestum bæjarins góðrar helgar.

01
Jul

Ein af mikilvægustu þjónustum sveitarfélaga

Eitt af miklvægustu störfum sem unnin eru hjá sveitarfélögunum ár hvert eru þau störf sem vinnuskólakrakkarnir sinna að sumri til. Eitt af því sem íbúar hvers sveitarfélags sætta sig ekki við er að bærinn sem fólk býr í sé ekki snyrtilegur. Það sést fljótt hversu mikilvæg þessi störf eru sem krakkarnir í vinnuskólanum eru að sinna þegar sláttur hefur ekki átt sér stað um einhverja hríð. Það er gaman að sjá tugi vinnuskólakrakka á degi hverjum keppast við að halda bænum okkar hreinum og formaður félagsins er sannfærður um að þessir krakkar vinna svo sannarlega fyrir hverri krónu sem þau fá í kaup fyrir störf sín.

Það er mikilvægt fyrir stjórnendur sveitarfélaga að átta sig á mikilvægi þessarar þjónustu við bæjarbúa og tryggja ávallt að nægt fjármagn sé lagt í hana þar sem bæjarbúar gera ríka kröfu um að þessum störfum sé vel sinnt. Sem betur fer höfum við hér á Akranesi ekki þurft að kvarta yfir þessu þó alltaf megi deila um hvort nægt fjármagn sé sett í þessa þjónustu eður ei. Það er mat formanns að það þurfi að ganga frá samræmdum launatöxtum fyrir öll sveitarfélögin gagnvart þeim krökkum sem vinna í vinnuskólanum vítt og breitt um landið en eins og málum er háttað í dag eru greiðslur afar mismunandi eftir sveitarfélögunum.  

28
Jun

Félagið gerði allt sem það gat

Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaÍ gær skrifaði fyrrverandi starfsmaður ISS á Grundartanga, Málmfríður Guðrún Sigurvinsdóttir, góða grein í héraðsblaðið Skessuhorn undir fyrirsögninni „Til verkalýðsfélaga og vinnustaða á landinu.“

Hún var ein af fimm starfsmönnum ISS sem var sagt upp störfum eftir fjórtán ára starf. Fyrst starfaði hún hjá Íslenska járnblendifélaginu, síðan hjá Fang og nú síðast hjá ISS. Ástæða uppsagnarinnar var „skipulagsbreytingar“ að sögn fyrirtækisins. Formaður VLFA getur vel skilið þá gríðarlegu gremju sem ríkir á meðal þeirra starfsmanna sem lentu í þessum uppsögnum enda eru uppsagnirnar ógeðfelldar með öllu. Í greininni spyr höfundur til hvers launþegar séu að greiða í stéttarfélög ef ekki er hægt að koma í veg fyrir að verið sé að brjóta á starfsfólki. Hún tilgreinir sérstaklega að í sínu tilfelli hafi stéttarfélagið ekki náð að verjast því að henni ásamt fjórum öðrum konum var sagt upp störfum hjá ISS á Grundartanga.

Verkalýðsfélag Akraness verður seint sakað um að verja ekki hagsmuni sinna félagsmanna með kjafti og klóm og formaður vonar að sagan hingað til staðfesti það. Það sem greinarhöfundur er óánægð með er að félagið hafi ekki náð að koma í veg fyrir að þeim hafi verið sagt upp störfum. 

Það er mikilvægt að launafólk átti sig á þeirri köldu staðreynd að stéttarfélögin vítt og breitt um landið hafa engar lagaheimildir sem banna fyrirtækjum að segja upp starfsfólki, því miður.  Málið er að atvinnurekendur ráða algerlega hverja þeir ráða til sín og hverjum þeir segja upp störfum, þannig eru lögin og reglurnar á hinum almenna vinnumarkaði. Það eina sem fyrirtækjunum ber að uppfylla er að greiða starfsmönnum þann uppsagnarfrest sem starfsmenn hafa áunnið sér þegar uppsögn á sér stað, ef ekki er óskað eftir vinnuframlagi starfsmannsins á uppsagnartímanum.

Hins vegar liggur algerlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi ISS harðlega fyrir þessar siðlausu uppsagnir og skrifaði formaður m.a. pistil í apríl um þessar uppsagnir undir fyrirsögninni „Hafið þið skömm fyrir“ og því til viðbótar skrifaði formaður frétt sem birtist í félagsblaði VLFA sem kom út í maí þar sem þessar uppsagnir voru harðlega gagnrýndar. Þessu til viðbótar talaði formaður bæði við forsvarsmenn ISS og forsvarsmenn Elkem Ísland og gerði alvarlegar athugasemdir við þessar uppsagnir sem voru og eru algerlega siðlausar en því miður löglegar.

Ég get svo sannarlega skilið að þeir starfsmenn ISS sem unnu í mötuneytinu á Grundartanga séu sárir og svekktir yfir þessari framkomu hjá fyrirtæki eins og ISS sem vill kenna sig m.a við  heiðarleika og ábyrgð. Sér er nú hver heiðarleikinn og ábyrgðin að segja m.a góðum starfsmönnum upp störfum með starfsaldur sem spannar allt að 14 ár.

Ég get að lokum fullyrt að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert allt sem í valdi þess stendur til að verja þessi störf sem um ræðir, en sum mál eru einfaldlega þannig að félagið hefur ekki lagalegar heimildir til að verja sína starfsmenn eins og t.d þegar fólki er sagt upp störfum. Það er hægt að lesa um þá baráttu sem VLFA hefur háð á undaförnum 10 árum m.a. til að verja kjör og atvinnuöryggi þeirra sem starfa á Grundartangasvæðinu inni á vef félagsins www.vlfa.is. Sláið inn leitarorðinu Fang eða Klafi eða ISS, Elkem Ísland eða Norðurál og lesið þessa baráttu og þá sést af hverju það borgar sig að vera í stéttarfélagi. En formaður vill ítreka að alltaf má gera betur í hagsmunabaráttunni, en það er alltaf sorglegt þegar svona mál fá ekki farsælan endi og ég ítreka enn og aftur, ISS og Elkem Ísland hafið ævarandi skömm fyrir ykkar framkomu gagnvart áðurnefndum starfsmönnum.

27
Jun

Samtök atvinnulífsins vissu af falli krónunnar en...

Eins og allir vita þá liggur fyrir þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna en skuldsett alþýða er búin að bíða eftir þessum aðgerðum í fimm ár. Í þessari aðgerðaáætlun kemur fram að afnema á verðtrygginguna og leiðrétta á forsendubrest heimilanna sem varð vegna bankahrunsins.

Það þarf ekki að spyrja að því að þegar til stendur að gera eitthvað fyrir skuldsetta alþýðu þá sprettur sérhagsmunaelítan fram og öskrar hátt og skýrt að sauðsvartur almúginn skuli gjöra svo vel að borga sínar skuldir uppí topp því hér hafi enginn „forsendubrestur“ orðið.  Slíkt má klárlega lesa úr umsögn Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans.

Rétt er að geta þess að nokkrir af æðstu stjórnendum bankanna sitja í stjórnum Samtaka atvinnulífsins og því kemur það ekki á óvart að SA finni því allt til foráttu að gera eigi eitthvað fyrir heimilin í þessu landi

Orðrétt segja Samtök atvinnulífsins í sinni umsögn: „ Gengislækkun krónunnar árin 2008 og 2009 og verðlagshækkun í kjölfarið var alls ekki ófyrirséð.Samtök atvinnulífsins  og ýmsir greiningaraðilar bentu þvert á móti ítrekað á það, frá árinu 2005, að raungengi krónunnar væri allt of hátt og gengi krónunnar hlyti þar af leiðandi að falla mikið á komandi misserum“

Með þessu eru Samtök atvinnulífsins að segja við skuldsetta alþýðu að hún hafi átt að vita að raungengi krónunnar væri alltof hátt og myndi því falla mikið sem myndi leiða til mikillar verðbólgu og hækka verðtryggðar skuldir heimilanna. Með öðrum orðum það varð enginn forsendubrestur að mati Samtaka atvinnulífsins.

Já, þetta eru gríðarlegir snillingar hjá Samtökum atvinnulífsins sem vissu allan tímann að krónan ætti eftir að falla eins og steinn með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið og heimilin. Það vildi bara enginn hlusta á þá, "að þeirra sögn".

En bíðið nú við, Samtök atvinnulífsins skipa 50% af öllum stjórnarsætum í lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði. Eins og allir vita þá töpuðu lífeyrissjóðirnir 500 milljörðum vegna þess að þeir stigu trylltan dans með útrásinni. Skoðum þetta tap lífeyrissjóðanna betur í ljósi þeirrar staðreyndar að Samtök atvinnulífsins skipa 50% af stjórnarsætum sjóðanna og segjast hafa vitað um og varað við því að krónan ætti eftir að falla umtalsvert.

Tóku stöðu með krónunni

Rifjum upp gjaldmiðlasamninga lífeyrissjóðanna í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins hafa nú upplýst í sinni umsögn að þeir vissu að krónan myndi falla gríðarlega á árunum 2008 og 2009.  Formaður vill byrja á því að upplýsa að lífeyrissjóðirnir töpuðu í það minnsta 50 milljörðum af lífeyri launafólks á gjaldmiðlasamningunum, já takið eftir 50 milljörðum. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að íslensku lífeyrissjóðirnir gerðu tugmilljarða króna gjaldmiðlavarnarsamninga við Landsbankann, Kaupþing og Glitni fyrir bankahrun. Alls var staða gjaldmiðlasamninganna 2,2 milljarðar evra við bankahrun og hafði umfang þeirra tvöfaldast á einu ári. Með öðrum orðum, lífeyrissjóðirnir tóku stöðu með krónunni, sem þýddi að þeir högnuðust ef krónan styrktist en eins og allir vita þá féll krónan gríðarlega og tap sjóðanna varð því 50 milljarðar eins og áður sagði. 

 

Hvernig í himninum stendur á því að stjórnarmenn Samtaka atvinnulífsins í lífeyrissjóðunum gerðu gjaldmiðlasamninga þar sem veðjað var á að krónan myndi styrkjast í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins vissu samkvæmt umsögn sinni til Alþingis að krónan myndi falla gríðarlega.

Rannsaka verður þetta mál   

Mál hafa verið rannsökuð út af minna tilefni en þessu en hér var um 50 milljarða að ræða. Formaður telur því að rannsaka verði hví í ósköpunum lífeyrissjóðirnir gömbluðu með lífeyri launafólks í gjaldmiðlasamningunum í ljósi þessara upplýsinga sem SA telur sig hafa vitað - að krónan myndi falla.

Já, Samtök atvinnulífsins segja núna þegar til stendur að koma til móts við forsendubrest heimilanna að það hafi ekki orðið neinn forsendubrestur því allir hefðu átt að vita að krónan myndi falla. Það grátbroslega í þessu öllu saman er að lífeyrissjóðirnir báru fyrir sig forsendubresti þegar gera átti upp gjaldmiðlasamningana við slitastjórnir föllnu bankanna. Þeir byggðu sína vörn meðal annars á því að  sumir bankanna hefðu misnotað gjaldeyrismarkaðinn í upphafi árs 2008 til að fella krónuna. Rétt er að geta þess að sjóðirnir vildu gera gjaldmiðlasamningana upp á genginu 126,5 en bankarnir á því gengi sem var þegar samningarnir runnu út sem var langt yfir genginu 200. Með öðrum orðum, lífeyrissjóðirnir báru fyrir sig „forsendubresti“ og gleymum því ekki að 50% stjórnarmanna í lífeyrissjóðunum eru fulltrúar Samtaka atvinnulífsins.  

Hafi Samtök atvinnulífsins ævarandi skömm fyrir umsögn sína – að þykjast hafa vitað að krónan væri að falla eins og enginn væri morgundagurinn á sama tíma og fulltrúar þeirra í stjórnum lífeyrissjóðanna gömbluðu með lífeyri launafólks þar sem veðjað var á að krónan myndi styrkjast  sem gerði það að verkum að sjóðirnir töpuðu 50 milljörðum eins og áður hefur komið fram. Formaður spyr hver er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins að hafa látið slíkt gerast í ljósi þess að þeir telja sig hafa vitað af falli krónunnar? Því við skulum ekki heldur gleyma því að samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins er búið að skerða lífeyrisréttindi launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um í það minnsta 130 milljarða frá hruni.

Þessir snillingar koma svo núna og segja að sauðsvartur almúginn hefði átt að vita að verðtryggðar skuldir heimilanna myndu hækka gríðarlega vegna þess að þeir hafi verið búnir að vara við falli krónunnar. Málflutningur af þessu tagi er ekki boðlegur íslensku samfélagi og það hjá samtökum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Nei, þessi sérhagsmunaelíta segir að enginn forsendubrestur hafi orðið en fer síðan sjálf hálfgrenjandi og ber fyrir sig forsendubresti eins og til dæmis vegna gjaldmiðlasamninganna. Og ekki má heldur gleyma að Samtök iðnaðarins báru fyrir sig forsendubresti fyrir hönd verktaka við Orkuveituna og Reykjavíkurborg.

Við ríkisstjórnina vil formaður segja: Standið í lappirnar gagnvart þessari sérhagsmunaelítu sem hér vill öllu ráða og reynir að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum að alþýða þessa lands og skuldsett heimili fái einhverja leiðréttingu á því efnahagshruni sem hún ber ekki nokkra einustu ábyrgð á. Standið í lappirnar.

26
Jun

Atvinnuástandið á Akranesi nokkuð gott

Að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness geta Akurnesingar verið nokkuð ánægðir með það atvinnuástand sem ríkir á þeirra svæði um þessar mundir sé miðað við mörg önnur sveitarfélög hér á landi. Akurnesingar búa við þann munað að vera með gríðarlega sterkar stoðir í sínu samfélagi og má þar nefna Grundartangasvæðið með stóriðjurnar Elkem og Norðurál í broddi fylkingar en mörg önnur smærri fyrirtæki hafa verið að hefja starfsemi á svæðinu að undanförnu.

Þessu til viðbótar er nú hvalurinn kominn á fulla ferð og unnið er á sólarhringsvöktum bæði í Hvalfirði sem og hér á Akranesi við vinnslu á hvalafurðum en þessi starfsemi skilar uppundir 150 manns atvinnu fyrir utan afleidd störf sem eru fjölmörg. Ekki má heldur gleyma því að HB Grandi hefur hafið undirbúning að því að auka vinnsluna hér á Akranesi umtalsvert á þessu ári og því næsta sem væntanlega mun þýða fjölgun starfsmanna en talað er um að vinnslan muni fara úr um 3500 tonnum upp í allt að 6000 tonn á ársgrundvelli sem er umtalsverð aukning.

Á þessu sést eins og áður sagði að við Akurnesingar búum við nokkuð gott atvinnuástand og ekki spillir fyrir að þessir burðarstólpar sem hér hafa verið taldir upp eru allt fyrirtæki sem skapa íslensku þjóðarbúi gjaldeyristekjur en það er þannig sem við náum að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image