• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jul

Nýr leigumarkaður með aðkomu lífeyrissjóðanna

Nú liggur fyrir að á bilinu 40 – 50% íslenskra heimila eru með yfirveðsetningu á sinni húseign, eða eru með öðrum orðum tæknilega gjaldþrota. Á þeirri forsendu er formaður félagsins hugsi yfir þeirri skelfilegu stöðu sem skuldsett alþýða er í og hefur hann komist að þeirri niðurstöðu að vinna verði leynt og ljóst að því að hverfa frá þeirri sjálfeignarstefnu í húsnæðismálum sem ríkt hefur hér á landi í gegnum tíðina.

 Sjálfseignastefnan hefur gert það að verkum að alltof stór hluti þjóðarinnar hefur farið í gegnum gjaldþrot, eða er á barmi þess. Það liggur fyrir að verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili skelfilega og hefur hún séð til þess að húsnæðislán og önnur verðtryggð lán landsmanna hafa stökkbreyst í kjölfar hrunsins.

Á þeirri forsendu meðal annars telur formaður að ein lausnin á þessu vandamáli sé sú að hér verði byggður upp tryggur og heilbrigður leigumarkaður, það væri hægt að gera það með því að stofna leigufélög sem yrðu fjármögnuð með láni frá lífeyrissjóðunum. Markmið þessara leigufélaga væri ekki hagnaðarvon heldur að tryggja hér öruggan búseturétt fyrir leigjendur á góðum kjörum. Með aðkomu lífeyrissjóðanna að slíkum leigumarkaði myndi ásýnd lífeyrissjóðanna batna til mikilla muna, enda myndu þeir um leið taka þátt í að létta á byrðum sjóðsfélaga sinna með tryggari búseturétti og lægri leigukostnaði, en hingað til hafa allar fjárfestingar lífeyrissjóðanna runnið til atvinnulífsins með misgóðum árangri og er þar vægt til orða kveðið. Formaður telur að þessi lánveiting lífeyrissjóðanna ætti að geta verið eins trygg og hugsast getur og áhætta þeirra ætti því að vera afar takmörkuð.

Formaður er sannfærður um að það er þetta sem verkalýðshreyfingin á að beita sér fyrir af fullum þunga í gegnum aðkomu sína að lífeyrissjóðunum, því það er morgunljóst að þetta myndi koma félagsmönnum verkalýðshreyfingarinnar mjög vel, svo ekki sé talað um þá tekjulægstu sem eiga oft í erfiðleikum með fjármögnun á dýru húsnæði.

Nýr og öflugur leigumarkaður sem tryggir búseturétt til langframa á viðunandi kjörum þarf klárlega að vera  samvinnuverkefni stjórnvalda, lífeyrissjóðanna og verkalýðshreyfingarinnar. Með viljann að vopni er allt hægt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image