• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Aug

Níðst á þeim sem síst skyldi

Það er nöturlegt og dapurlegt til þess að vita að sífellt skuli níðst á þeim sem síst skyldi, en síðustu misserin hafa ítrekað komið upp mál þar sem verið er að hlunnfara starfsmenn í ræstingum. Þetta er sérstaklega dapurlegt í ljósi þess að þeir sem starfa við ræstingar eru einmitt þeir sem búa við hvað döprustu launakjör sem til eru íslenskum kjarasamningum og því af afar litlu að taka af einstaklingum sem sinna slíkum störfum. Það er lenska hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og hinum ýmsu stofnunum að þegar á að leita hagræðingar þá er það fyrsta sem kemur upp í huga stjórnenda að bjóða út ræstingar, mötuneyti, þvottahús og annað slíkt. Þetta gerir það að verkum að þessi hreingerningafyrirtæki fara að keppast innbyrðis um að fá verkin og það gera þau með því að bjóða oft og tíðum allt of lágt í verkin, sem leiðir það af sér að kjör þeirra sem starfa í greininni eru keyrð niður úr öllu valdi og þessir starfsmenn jafnvel, eins og áður hefur komið fram, hlunnfarnir.

Þau dæmi sem Verkalýðsfélag Akraness hefur fengið inn á borð til sín að undanförnu hafa leitt það í ljós að einstaklingar eru jafnvel ekki að fá greitt fyrir staðinn tíma, s.s. þann tíma sem þau inna af hendi fyrir sinn atvinnurekanda. Þetta er með ólíkindum því enginn launþegi sættir sig við að vinna án þess að fá greitt fyrir alla sína vinnustundir. Það er morgunljóst að félagið mun fara í þessi mál af fullum þunga því það er ekki hægt að sætta sig við vinnubrögð af þessu tagi og það má líka alveg varpa ábyrgðinni m.a. yfir á sveitarfélög sem eru að bjóða þessi verk út vitandi það fyrir víst að þær upphæðir sem boðið er í verkið standast oft á tíðum ekki nokkra skoðun og mun ekki gera neitt annað en bitna á þeim sem síðan inna störfin af hendi.

Er ekki kominn tími fyrir sveitarfélög, ríki og hinar ýmsu stofnanir að þegar á að leita hagræðingar, að horfa nú til einhverra annarra en þeirra sem síst skyldi. Hvernig væri að horfa og leita hagræðingar hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja og stofnana? Enda hljóta tækifærin að vera mun fleiri þar heldur en hjá ræstingarfólki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image