• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Mar

Framtalsaðstoð í fullum gangi

Nú er framtalsaðstoð í fullum gangi á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness og er hún vel nýtt eins og undanfarin ár, en þessi þjónusta hefur verið í boði fyrir félagsmenn án endurgjalds síðan árið 2004. Það er Björg Bjarnadóttir sem sér um þessa þjónustu.

Framtalsaðstoðin verður í boði eins lengi og þörf er á, en síðasti dagur til að skila framtali er 21. mars. Þeir sem þurfa frest geta sótt um hann á www.skattur.is og getur hann lengstur orðið til 3. apríl. Hægt er að bóka tíma í framtalsaðstoð í síma 4309900.

08
Mar

Elkem Ísland verður stefnt fyrir félagsdóm

Það er óhætt að segja umtalsverð reiði ríki á meðal starfsmanna Klafa, en það fyrirtæki sér um allar upp- og útskipanir fyrir Norðuráli og Elkem Ísland á Grundartangasvæðinu. Þann 1. mars síðastliðinn var starfsmönnum Klafa tilkynnt að Elkem Ísland hafi sagt upp þjónustusamningi við Klafa, en talað er um að þessi verkþáttur verði boðinn út í lokuðu útboði. Starfsmönnum var jafnframt tilkynnt um að til einhverra uppsagna myndi koma vegna þessa, en rétt er að geta þess að Klafi er í 50% eigu Elkem Ísland og 50% í eigu Norðuráls.

Það er þyngra en tárum taki að Elkem Ísland hefur í síauknum mæli boðið út hina ýmsu þætti í starfseminni sem unnir eru dags daglega á svæðinu, en það er m.a. að mati félagsins algerlega óheimilt. Það er grafalvarlegt mál þegar  launakjör sem ríkja á stóriðjusvæðinu eru gjaldfelld með þessari verktakavæðingu, en í stóriðjunum hafa í gegnum tíðina boðist umtalsvert betri laun en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Það er alveg ljóst að í kjarasamningum, bæði Klafa og Elkem Ísland, er skýrt kveðið á um að samningurinn taki til framleiðslu, viðhalds, skrifstofu og annarra þjónustustarfa í verksmiðju félagsins á Grundartanga, eða starfa sem eru keypt frá utanaðkomandi verktökum enda hafi þeir kaup og kjarasamning við verkalýðsfélögin. Verkalýðsfélag Akraness hefur sterkan grun um að núna sé verktakafyrirtæki að vinna dags daglega inni á svæðinu sem hafi ekki í gildi samning um kaup og kjör, eins og kveðið er á um að til þurfi þegar unnið er inni á athafnasvæði Elkem Ísland. Á þessari forsendu mun félagið stefna Elkem Ísland fyrir brot á kjarasamningi, fyrir að ráða verktaka sem ekki hefur í gildi kjarasamning vegna þeirra starfa sem umræddur verktaki sinnir á svæðinu dags daglega.

Það er sorglegt til þess að vita að margt bendir til þess að verktakar séu að reyna að gjaldfella þau kjör sem gilda á svæðinu, til að ná verkefnum yfir til sín og að sjálfsögðu verður því mætt af fullri hörku. Enda hafa stéttarfélögin þurft að hafa mikið fyrir því að ná þessum kjörum sem eru umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði og undirboð verktaka í þau störf verða ekki liðin, svo mikið er víst.

Nægir að nefna í þessu samhengi að starfsmenn sem vinna við ræstingar, þvottahús og í mötuneyti hjá Elkem Ísland á Grundartanga og tilheyrðu fyrirtækinu hér á árum áður, og fengu áður launahækkanir til samræmis við aðra starfsmenn Elkem Ísland, hafa núna eftir að fyrirtækið bauð þennan verkþátt út þurft að sæta því að tapa tugum þúsunda á mánuði. Skýringin felst í því að þessir starfsmenn hafa einungis fengið þær launahækkanir sem um hefur verið samið á almennum vinnumarkaði en ekki þær hækkanir sem um hefur verið samið fyrir starfsmenn stóriðja, en þær hækkanir eru langtum meiri en um hefur verið samið á almennum vinnumarkaði og munar eins og áður sagði tugum þúsunda á mánuði. Það er nöturlegt til þess að vita að forsvarsmenn Elkem Ísland hafi boðið út áðurnefnda verkþætti með þessum kjaraskerðingum sem umræddir starfsmenn hafa orðið fyrir, enda er það ætíð þannig að það er ráðist á þá sem síst skyldi þegar kemur að því að leita hagræðingar í rekstri.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla sem starfa hjá Elkem Ísland að átta sig á því að þetta er ekki einkamál starfsmanna Klafa eða þeirra sem starfa í mötuneyti fyrirtækisins að fyrirtækið sé nú að verktakavæða hin ýmsu störf. Þetta getur leitt til gjaldfellingar þeirrar áralöngu baráttu um hin ýmsu kjör sem á svæðinu gilda. Á þessari forsendu verða allir sem einn að setja hælana niður og koma í veg fyrir þessi áform, því formaður spyr sig: hvað ætla forsvarsmenn fyrirtækisins að verktakavæða næst? Ofnana? Starfsemina í filter? Eða eitthvað annað? Félagið mun mæta þessu af fullri festu og mun stefna Elkem Ísland fyrir félagsdóm vegna brota á kjarasamningi eins og áður hefur verið getið, enda mun félagið hvergi hvika frá því að verja réttindi starfsmanna sem vinna á svæðinu og verður öllum aðferðum beitt til þess.

05
Mar

Unnið á vöktum allan sólarhringinn við hrognatöku

Nú stendur yfir hátindur loðnuvertíðar en í gær byrjaði hrognataka og unnið er á vöktum allan sólarhringinn. Einnig er búin að vera veruleg törn hjá síldarbræðslufólkinu undanfarna daga en nú er verið að landa úr Faxa RE. Um leið og löndun úr honum verður lokið mun taka við löndun úr aflaskipinu Víkingi AK100 en hann liggur nú við höfn gjörsamlega smekkfullur og bíður löndunar.

Á yfirstandandi vertíð verða veidd um eða yfir 500 þúsund tonn og má áætla að aflaverðmæti þessarar vertíðar verði á bilinu 25-30 milljarðar króna en það eru svona verðmæti sem skila íslensku þjóðarbúi gjaldeyristekjum, gjaldeyristekjum sem gera það að verkum að við getum haldið uppi velferðarsamfélagi. Á þeirri forsendu er nöturlegt til þess að vita að verðtryggðar skuldir heimilanna skuli hafa hækkað um jafnmikið og þessi vertíð mun skila íslensku þjóðarbúi í gjaldeyristekjur. Það hlýtur hver og einn einasti Íslendingur að sjá að það er galið þegar verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 23 milljarða á einum mánuði og enginn virðisauki eða verðmætasköpun liggur að baki slíkri skuldaaukningu.

05
Mar

Skattframtalsaðstoð félagsins hefst 11. mars

Eins og undanfarin ár býður Verkalýðsfélag Akraness upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og eru félagsmenn nú þegar byrjaðir að skrá sig. Aðstoðin hefst mánudaginn 11. mars og stendur til föstudagsins 22. mars. Á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að félagsmenn panti sér tíma sem fyrst en á undanförnum árum hafa á annað hundrað manns nýtt sér þessa aðstoð félagsins á hverju ári. Hægt er að panta tíma með því að hringja á skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða koma við þar.  

27
Feb

Verðtryggingarvítisvélin að ganga frá íslenskum heimilum

Afstaða stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hvað varðar verðtrygginguna og kröfu um leiðréttingu á skuldavanda íslenskra heimila er hvellskýr. Á síðasta þingi ASÍ í október lagði stjórn og trúnaðarráð félagsins til dæmis fram ályktun um afnám verðtryggingar á neytendalánum til einstaklinga og að þak yrði sett á húsnæðisvexti til íslenskra heimila. Einnig var kveðið á um í þessari ályktun að stjórnvöld beittu sér fyrir því að leiðrétta þann skelfilega forsendubrest sem íslensk heimili urðu fyrir í kjölfar hrunsins vegna verðtryggingarinnar. Á þessu sést hver stefna Verkalýðsfélags Akraness er í þessum málum og þessu til viðbótar er félagið nú að láta reyna á lögmæti verðtryggingar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Það er engum blöðum um það að fletta að verðtryggingin hér á landi er að ganga af íslenskum heimilum dauðum en nú í febrúarmánuði liggur fyrir að neysluvísitalan er að hækka um 1,64% sem þýðir að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila munu hækka um allt að 23 milljarða og það einungis á 28 dögum. Þetta er álíka há upphæð og loðnuvertíðin sem stendur nú sem hæst mun skila íslenska þjóðarbúinu. Formaður VLFA hefur verið að kalla eftir því hjá stjórnmálamönnum í hverju þessi verðmætasköpun upp á 23 milljarða hækkun á verðtryggðar skuldir heimilanna er fólgin. Öll sjáum við raunverulega verðmætasköpun í kjölfar loðnuvertíðarinnar en það mun skila okkur gjaldeyristekjum inn í okkar samfélag. En það er formanni hulin ráðgáta í hverju þessi verðmætasköpun upp á 23 milljarða er fólgin. Það er líka rétt að benda á að meðalverðtryggðar húsnæðisskuldir í dag hjá heimilunum nema um 22 milljónum sem þýðir að höfuðstóll slíkra lána er að hækka um, takið eftir, 360 þúsund krónur og það einungis á þessum 28 dögum.

Já formaður félagsins talar algjörlega í anda samþykktar félagsins hvað varðar afnám verðtryggingar og skuldavanda heimilanna enda er það skoðun félagsins eins og áður sagði að verðtryggingarvítisvélin sé að ganga frá íslenskum heimilum dauðum. Það verður að afnema verðtrygginguna en samhliða því verður að setja vaxtaþak á húsnæðislán og einnig finna leið til að leiðrétta títtnefndan forsendubrest sem heimilin urðu fyrir. Það er mat formanns að öll orðræða stjórnmálaflokka um að draga úr vægi verðtryggingar sé til þess fallin að slá ryki í augu almennings með það að markmiði að viðhalda hér verðtryggingu um ókomin ár. Þess vegna ítrekar Verkalýðsfélag Akraness afstöðu sína um að afnema verður verðtryggingu á neytendalánum til heimila án tafar.   

26
Feb

Stöndum saman og rjúfum vítahring verðbólgunnar

Vertu á verði!  – stöndum saman og rjúfum vítahring verðbólgunnar

Verkalýðsfélag Akraness og önnur stéttarfélög innan ASÍ hefja í dag átak gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni – Vertu á verði. Almenningur og atvinnulífið eru hvött til að taka höndum saman og rjúfa vítahring verðbólgunnar. Átakinu er ætlað að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald í verðlagsmálum og vekja neytendur til aukinnar vitundar.

Á heimasíðu átaksins www.vertuaverdi.is geta allir sent inn ábendingar um verðhækkanir á fljótlegan og einfaldan hátt. Þannig getum við sameiginlega skapað mikilvægt aðhald, meðvitund og umræðu um verðlagsmál.

Það er hagsmunamál okkar allra að vera á verði og láta vita.

Verðbólgan versti óvinur launafólks

Launafólk er langþreytt á að hóflegar launahækkanir sem samið er um í kjarasamningum séu sífellt notaðar til að réttlæta miklar verðhækkanir og aukna verðbólgu. Við endurskoðun kjarasamninga nú í janúar lögðu fulltrúar launafólks mikla áherslu á að samstaða yrði meðal fyrirtækja og opinberra aðila um að sýna aðhald í verðhækkunum svo nýtilkomnar launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti launafólks.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að gera sína eigin verðkönnun til viðbótar þessu átaki þar sem fylgst verður með verðlagsþróun árfjórðungslega. En niðurstaða í þeirri könnun verður birt hér á heimasíðunni.

Allir þurfa nú að taka höndum saman – sýna ábyrgð og stöðva verðhækkanir – það gagnast okkur öllum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image