• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Feb

Öskudagur 2013

Það er skemmtilegur bragur á bæjarlífinu í dag þegar alls konar fígúrur hlaupa á milli húsa og syngja fyrir bæjarbúa og fá nammi að launum. Hér á Sunnubrautinni hefur verið líf og fjör í allan morgun og eftir því tekið að atriðin í ár eru sérstaklega vönduð og vel æfð. Það fer ekki á milli mála að krakkarnir eru upp til hópa metnaðarfull þegar kemur að búningum og söng og að sjálfsögðu er vel tekið á móti þeim þegar þau koma.

Búið er að setja myndir og myndbönd inn á Facebook-síðu Verkalýðsfélags Akraness, meðal annars er hægt að sjá eitt sérstaklega skemmtilegt atriði með því að smella hér.

12
Feb

34 sjómenn hjá HB Granda missa vinnuna

Forsvarsmenn HB Granda boðuðu sjómenn sína ásamt fulltrúum þeirra stéttarfélaga sem eiga félagsmenn sem starfa hjá fyrirtækinu til fundar á Grand hóteli í gær. Því miður var tilefni fundarins ekki jákvætt hvað varðar sjómenn fyrirtækisins en forstjóri fyrirtækisins tilkynnti að fækka þyrfti um 34 sjómenn vegna þess að afkoma í landvinnslunni er mun betri en þegar aflinn er unninn og frystur um borð í skipunum. Einnig nefndi forstjóri HB Granda að þessar skipulagsbreytingar séu tilkomnar vegna skerðingar á aflaheimildum.

Það kom fram hjá forstjóranum að á næsta ári muni félagið gera út þrjá frystitogara í stað fimm en fjóra ísfiskstogara í stað þriggja. Venusi sem er elsti togari félagsins verður lagt og Helgu Maríu AK verður breytt úr frystitogara yfir í ísfiskstogara. En þessar breytingar munu hafa í för með sér að 34 sjómenn munu missa lífsviðurværi sitt. Það er alveg ljóst að þeir 320 sjómenn sem nú starfa hjá fyrirtækinu munu þurfa að búa við visst óöryggi allt til 27. mars því það mun ekki liggja fyrir niðurstaða fyrr en þá um það hverjir það verða sem munu missa sitt lífsviðurværi.

Formaður er ekki í neinum vafa um að ein af ástæðum þess að fyrirtækið tekur þá ákvörðun að auka við landvinnsluna á kostnað vinnslu í frystitogurum sé vegna mikils launamunar á þeim sem starfa á frystiskipunum og þeirra sem starfa í landvinnslu í frystihúsum. Formaður hefur sagt það áður að launakjör fiskvinnslufólks eru til skammar og þau þarf að lagfæra í komandi kjarasamningum. Því miður þá voru unnin skemmdarverk í síðustu kjarasamningum en stefna Verkalýðsfélags Akraness var sú að laun fiskvinnslufólks yrðu lagfærð með afgerandi hætti þá en vegna hinnar svokölluðu samræmdu launastefnu þá var komið í veg fyrir það. Á þessari forsendu er gríðarlega mikilvægt að slík skemmdarverk verði ekki ástunduð í komandi kjarasamningum.

Það er ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki skuli leita hagræðingar í rekstri sínum þegar það liggur fyrri að umtalsvert meiri eftirspurn er eftir ferskum fiskafurðum heldur en frosnum og einnig vegna þeirra staðreynda að landvinnslan er að skila meiru heldur en sjófrystingin. Hins vegar er það slæmt fyrir samfélagið í heild sinni að 34 hálaunastörf skuli tapast við þessar skipulagsbreytingar.  

11
Feb

Formaður á fundi hjá Sjálfstæðismönnum vegna verðtryggingarinnar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur formaður félagsins verið beðinn um að halda erindi hjá fjölmörgum aðilum, jafnt stjórnmálaflokkum sem og félagasamtökum á undanförnum misserum og árum.

Um helgina hélt formaðurinn meðal annars erindi hjá Sjálfstæðismönnum í Kópavogi en ásamt formanni var Pétur Blöndal einnig með erindi. Erindi hans laut að kostum og göllum á verðtryggingu en erindi formanns fjallaði um skuldavanda heimilanna, afnám verðtryggingar og lífeyrissjóðina. Fram kom í máli Péturs að hann væri á móti verðtryggingu en eftir að hann hafði flutt erindið var nú ekki annað að skilja á honum en að hann teldi nauðsynlegt að viðhalda henni til að verja sparnaðinn hér á landi. Pétur sagði einnig að verðbólgan væri ekkert annað en sjúkdómseinkenni. Í ljósi þessara ummæla hans spurði formaður Pétur hvort það væri eðlilegt að ákveðnir aðilar, það er að segja lánveitendur, fjármálafyrirtækin og fjármagnseigendur séu bólusettir í bak og fyrir gegn þessum sjúkdómi og fái alla þá lyfjaGJÖF sem til þarf til að forðast þennan sjúkdóm en á sama tíma séu skuldararnir látnir kveljast eins og enginn sé morgundagurinn og fá ekki einu sinni líknandi meðferð við þessum sjúkdómi.

Formaður fór einnig yfir þá grafalvarlegu stöðu sem lífeyrissjóðskerfið okkar er í en eins og fram hefur komið í skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu þá er búið að skerða réttindi á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni og kerfið í heild sinni vantar 700 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar gagnvart sínum sjóðsfélögum. Formaður spurði í ljósi þessara staðreynda hvort það væri eðlilegt að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði sem mátt hefur þola áðurnefnda skerðingu þurfi einnig að taka á sig ábyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna en halli í lífeyrissjóðskerfi þeirra nemur um 600 milljörðum króna og er þessa mikla halla ekki einu sinni getið í ríkisreikningi.

Það kom skýrt fram í máli formanns að brýnasta hagsmunamál íslenskrar alþýðu í dag er afnám verðtryggingar og að sett verði vaxtaþak á óverðtryggða vexti vegna húsnæðiskaupa einstaklinga. Einnig er ekki hjá því komist að leiðrétta þann skelfilega forsendurbrest sem varð á skuldum heimilanna og kom fram í máli formanns að þar verði allir að koma að máli - fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, Seðlabankinn og ríkissjóður. Við megum ekki gera það sama og Japanir gerðu en þar var ekki tekið á skuldavandanum á sínum tíma sem hefur gert það að verkum að Japan hefur verið án hagvaxtar í ein 20 ár og þar hefur ríkt algjör stöðnun. Það er nefnilega mikilvægt að menn átti sig á því að það getur kostað íslenskt samfélag gríðarlega fjármuni að gera ekki neitt varðandi skuldavanda heimilanna og því er það dálítið undarlegt að menn spyrji aldrei út í þann kostnað.

06
Feb

Nýir kauptaxtar komnir á heimasíðuna

Búið er að uppfæra kauptaxta hér á heimasíðunni eftir því sem við á. Nú er hægt að sjá nýja taxta fyrir:

  • Almennan kjarasamning SGS við SA
  • Samiðn við SA
  • Sjómenn (SSÍ við LÍÚ)
  • Norðurál
  • ISS á Grundartanga
  • Starfsfólk í beitningu
  • Starfsfólk á bændabýlum
  • Starfsfólk á veitinga- þjónustu og greiðasölustöðum

Einnig er búið að setja inn:

06
Feb

Vestfirðingar styrkja málarekstur VLFA gegn verðtryggingunni

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var verðtryggingarmál Verkalýðsfélags Akraness þingfest í lok janúar. Um er að ræða afar umfangsmikið mál, en stefnan ein og sér taldi 29 blaðsíður. Fjölmörg stéttarfélög og einstaklingar hafa stutt fjárhagslega við þennan málarekstur, en búast má við að málið verði æði kostnaðarsamt.

Í dag bárust góðar fréttan vestan af fjörðum, en stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hefur ákveðið að styrkja málareksturinn myndarlega, eða um 250.000 krónur. Í heild eru styrkir vegna málarekstursins þá komnir yfir 1,5 milljón. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill senda kærar þakkir til félaga sinna á Vestfjörðum fyrir veittan stuðning.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image