• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Mar

Elkem Ísland hafnaði tilboði VLFA

Verksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaVerksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness í hyggju að stefna Elkem Ísland vegna þess að verktaki sem er að vinna inni á athafnasvæði Elkem á Grundartanga hefur ekki getað sýnt fram á að starfsmenn hans séu að starfa eftir þeim kjarasamningum sem á svæðinu gilda. Verkalýðsfélag Akraness sendi forsvarsmönnum Elkem Ísland erindi þar sem þess var krafist að fyrirtækið upplýsti eftir hvaða kjarasamningi umræddur verktaki væri að vinna enda er himinn og haf á milli þeirra kjara sem kveðið er á um í kjarasamningnum á hinum almenna vinnumarkaði og kjara stóriðjusamninganna.

Félaginu barst svar frá forsvarsmönnum Elkem þar sem fram kom að umræddir starfsmenn verktakafyrirtækisins væru að taka laun eftir kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði. Sá samningur er eins og áður sagði langtum lakari heldur en kjarasamningur Elkem Ísland við Verkalýðsfélag Akraness. Á þessari forsendu bauð Verkalýðsfélag Akraness Elkem Ísland að leysa málið með því að gengið yrði frá samkomulagi þar sem skýrt yrði kveðið á um að umræddir verktakar sem ynnu inni á athafnasvæði Elkem Ísland allt árið um kring myndu taka laun samkvæmt kjarasamningi Elkem Ísland. Félagið getur aldrei sætt sig við að verið sé að ógna starfskjörum starfsmanna Elkem með þeim hætti að hægt sé að taka inn verktaka á svæðið í dagleg störf sem kveða á um langtum lægri kjör og réttindi heldur en kveðið er á um í stóriðjusamningunum. Það tók forsvarsmenn Elkem viku að svara erindi félagsins og var því algjörlega hafnað. Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að ef fyrirtæki telur að hægt sé að fá verktaka inn á svæðið sem er að starfa allt árið um kring á miklu lakari kjörum heldur en kveðið er á um í stóriðjusamningunum þá er verið að stefna atvinnuöryggi og atvinnukjörum starfsmanna í stóriðjum í stórhættu.

Þessu verður mætt af fullri hörku og meðal annars liggur fyrir að þetta mál mun fara fyrir félagsdóm. Það liggur einnig fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki undir neinum kringumstæðum skrifa undir samning í komandi kjarasamningum þar sem ekki verður tryggt að þau kjör sem um hefur verið samið inni á athafnasvæði Elkem Ísland gildi fyrir alla sem þar starfa. Það er rétt að geta þess að VLFA er ekki að tala um eða krefjast þess að launakjör Elkem Ísland gildi fyrir verktaka sem koma tímabundið inn á svæðið í mjög skamman tíma heldur einungis verktaka sem eru að starfa allt árið inni á athafnasvæði fyrirtækisins og ganga í dagleg störf starfsmanna Elkem Ísland.

Hér er áratugalöng kjarabarátta í húfi því ef þetta verður látið átölulaust þá er verið að stefna atvinnuöryggi og kjörum þeirra sem starfa í stóriðjunum í stórhættu eins og áður sagði. Það er einnig mikilvægt fyrir forsvarsmenn Elkem Ísland að átta sig á því að það hefur verið gagnkvæmur skilningur á því að í stóriðjunum gilda betri kjör, bæði vegna þess að um mjög krefjandi störf getur verið að ræða sem og vegna þeirra ívilnana sem fyrirtækin hafa fengið i gegnum áratugina, meðal annars í formi jákvæðs raforkuverðs. Ef menn ætla að rjúfa þetta samkomulag þá getur það aldrei kallað á annað heldur en grjótharða afstöðu stéttarfélagana sem eiga aðild að þessum samningum. Eitt er víst, að VLFA er klárt í þann slag.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image