• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Apr

Undirbúningur að stefnu fyrir félagsdómi gegn Elkem Ísland hafinn af fullum þunga

Verksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaVerksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni ákvað Verkalýðsfélag Akraness að stefna Elkem Ísland í ljósi þeirrar staðreyndar að þar er að störfum verktaki í daglegum störfum inni á athafnasvæði verksmiðjunnar og njóta starfsmenn umrædds verktaka ekki þeirra kjara sem um er getið í kjarasamningi Elkem Ísland. Á grundvelli þessa átti formaður VLFA fund með lögmanni félagsins þar sem hafinn var undirbúningur að því að stefna Elkem Ísland fyrir félagsdóm þar sem að Elkem hefur neitað félaginu um að ganga frá samkomulagi þar sem skýrt verði kveðið á um að verktökum sem starfi inni á svæðinu allt árið um kring séu tryggð þau kjör sem kveðið er á um í kjarasamningi Elkem Ísland.

Þessu hafnaði Elkem Ísland eins og áður sagði og vísaði þess í stað á kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði en í þeim samningi eru kjör langtum lakari heldur en gengur og gerist í stóriðjusamningunum almennt. Nægir til dæmis að nefna að dagvinnutími í stóriðjunum er 156 stundir en 173 stundir á hinum almenna vinnumarkaði. Þessu til viðbótar njóta starfsmenn stóriðja desember- og orlofsuppbóta sem eru mun hærri en á hinum almenna vinnumarkaði svo ekki sé talað um veikinda- og slysarétt.

Á þessari forsendu sér félagið sig knúið til þess að tryggja það að verktakar sem starfa inni á athafnasvæðum stóriðjanna allt árið um kring alla daga ársins komi ekki inn á svæðið og gjaldfelli áðurnefnd kjör. Þetta eru grafalvarleg tíðindi fyrir þá starfsmenn sem starfa í stóriðjunum því ef þetta er túlkun forsvarsmanna Elkem Íslands, að hægt sé að fá verktaka til að vinna dagleg störf og láta kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði gilda, þá er verið að ógna atvinnu og kjörum þeirra sem starfa í þessum stóriðjum gífurlega. Um leið er einnig verið að gjaldfella þá kjarabaráttu sem unnin hefur verið á liðnum árum og áratugum og þeim umtalsverða árangri sem náðst hefur varðandi bætt kjör í stóriðjunum.

Því er engin undankomuleið fyrir VLFA að mæta þessu af fullri hörku og verður það í fyrsta gang gert fyrir félagsdómi. Ef svo óheppilega vildi til að málið myndi tapast fyrir félagsdómi þá er morgunljóst að kjör starfsmanna í stóriðjunum verður að tryggja með afgerandi hætti í komandi kjarasamningum. Það er einnig ljóst að félagið mun aldrei skrifa undir kjarasamning þar sem opið verður fyrir að hægt sé að láta utanaðkomandi verktaka ganga í dagleg störf starfsmanna í stóriðjum á allt öðrum kjörum en um hefur verið samið í þessum fyrirtækjum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image