• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Gríðarleg stemmning á framboðsfundi Framsóknarflokksins í Garðabæ í gær Frá fundinum í Garðabæ í gær. (Mynd: Eygló Harðardóttir)
09
Apr

Gríðarleg stemmning á framboðsfundi Framsóknarflokksins í Garðabæ í gær

Formaður félagsins hefur verið að fara víða og halda erindi er lúta að afnámi verðtryggingar og skuldavanda íslenskra heimila. Hefur hann meðal annars haldið erindi fyrir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokk og framundan eru fundir hjá Dögun og Flokki heimilanna.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni eru ályktanir stjórnar- og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags AKraness afdráttarlausar hvað þessi málefni varðar. Frá árinu 2009 hefur VLFA lagt fram fjölmargar tillögur og ályktanir um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á þeim skelfilega forsendurbresti sem heimilin urðu fyrir. Í þessum ályktunum hefur einnig verið kveðið skýrt á um að setja verði vaxtaþak á húsnæðislán til heimilanna.

Í gær var haldinn gríðarlega fjölmennur fundur hjá framsóknarmönnum í Garðabæ og hélt formaður VLFA erindi þar. Á meðal ræðumanna voru auk formanns Ólafur Arnarson ritstjóri Tímaríms, Eygló Harðardóttir oddviti í Kraganum og formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Formaður VLFA fór víða yfir í erindi sínu og kom meðal annars fram að brýnasta hagsmunamál íslenskra heimila og alþýðu þessa lands væri að afnema verðtryggingu á neytendalánum, leiðrétta forsendubrest heimilanna og að þak verði sett á húsnæðislán. Það kom einnig fram í máli formanns að það þarf að taka af fullum þunga og hörku á erlendu vogunar- og hrægammasjóðunum og nota það svigrúm sem þar er til staðar til að leiðrétta þann miskunnarlausa forsendubrest sem heimilin hafa orðið fyrir. Það virðist ekki lengur vera ágreiningur á meðal manna um að þetta svigrúm verði til staðar heldur virðist ágreiningurinn núna lúta að því í hvað á að nota þetta svigrúm sem næst í samningum við hrægammasjóðina. Formaður sagði að í sínum huga væri það engin spurning að heimilin ættu að vera í algjörum forgangi hvað það svigrúm varðar og nota á það til að leiðrétta forsendubrestinn. Íslensk heimili og alþýða þessa lands hafa þurft að bera afleiðingar hrunsins þar sem ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur, orkufyrirtæki og aðrir þjónustuaðilar hafa varpað sínum vanda miskunnarlaust yfir á íslensk heimili.

Það kom einnig fram í máli formanns að heimilin eru tannhjól samfélagsins og því er gríðarlega mikilvægt að forsendurbresturinn verði leiðréttur þannig að heimilin fái súrefni á nýjan leik sem mun svo klárlega skila sér í aukinni verslun og þjónustu um leið og skuldafarganinu verður létt af heimilunum.

Það þarf ekki að velkjast í vafa um það að þetta er brýnasta hagsmunamál íslenskrar alþýðu og krafa kjósenda er skýr. Afnemið verðtryggingu og leiðréttið forsendubrest heimilanna. Annað verður ekki við unað.

Fjölmargir fundarmenn óskuðu eftir að formaður myndi setja þær glærur sem hann var með á fundinum hér inn á heimasíðuna. Í ljósi þess að hann á eftir að halda nokkur erindi á fleiri fundum verður beðið með það þar til þeim er lokið af kurteisi við þá sem eiga eftir að hlýða á erindið. Þegar fundunum er lokið sem formaður hefur gefið loforð fyrir að tala á munu þessar glærur verða settar inn á heimasíðuna þar sem þær verða aðgengilegar öllum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image