• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Sep

Þess krafist að útgerðarfyrirtæki skili góðri afkomu til fiskvinnslufólks í komandi kjarasamningum

Fyrir helgi var haldin kjaramálaráðstefna Starfsgreinasambands Íslands þar sem til umfjöllunar var mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamningviðræðna.

Niðurstaða fundarins var sú að samið verði til skamms tíma vegna óvissu í efnahagsmálum og eru menn að horfa á samning sem myndi gilda í 6 til 12 mánuði.  Það hefur bæði  kosti og galla að semja til skamms tíma. En grundvallaratriðið, óháð því hvort samið verði til skamms eða lengri tíma, er að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem hér hefur viðgengist í áratugi og einnig að sótt verði af fullri hörku gagnvart þeim greinum sem hafa klárlega svigrúm til launahækkana eins og t.d. fiskvinnslan.

Það var því afar ánægjulegt að algjör einhugur var á kjaramálaráðstefnunni um að sækja á þessar greinar eins og fiskvinnsluna óháð því hversu langur samningstíminn verður. 

Það liggur fyrir að útgerðin er að skila sögulegum hagnaði ár eftir ár og nú er komið að fiskvinnslufólki að fá að njóta ávinningsins af góðri afkomu í greininni og ekki veitir af þar sem laun fiskvinnslufólks eru til skammar, en eftir 15 ára starf er starfmaður með um 250 þúsund í heildarlaun með bónus. Rétt er að geta þess að fleiri greinar í útflutningi eru að gera það gott um þessar mundir eins og t.d. ferðaþjónustan og því mikilvægt að laun í ferðaþjónustu hækki í samræmi við góða afkomu í greininni.

Það kom einnig skýrt fram á ráðstefnunni að ekki er vilji til að hækka iðgjöld í samtryggingu lífeyrissjóðanna og því fagnar formaður innilega, því það er algjörlega galið að hækka iðgjöldin á meðan lífeyrissjóðskerfið getur ekki sýnt fram á sjálfbærni.

Einnig kom fram að Starfsgreinasambandið vill ekki vera í samfloti með öðrum landssamtökum hvað launalið kjarasamninga ræðir. Ástæðan er sú að Starfsgreinasambandið hefur gríðarlega sterka stöðu hvað varðar sókn til launahækkana eins og t.d. í fiskvinnslunni og töldu ráðstefnumenn hag SGS betur borgið eitt og sér. Hins vegar voru menn sammála því að vera í samfloti með öðrum landssamböndum í sameiginlegum réttindamálum eins og t.d. því sem lýtur að stjórnvöldum.

Aðalmálið er samt sem áður það að mjög mikilvægt er að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem hér hefur ríkt um allanga hríð og launakjör þeirra tekjulægstu verði hækkuð allverulega í komandi kjarasamningum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image