• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Sep

Kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur mótað og samþykkt kröfugerð vegna kjarasamninga á hinum almenna vinnumakaði, en samningarnir renna út nú í lok nóvember.

Kröfugerð félagsins byggist á því að stíga stór skref í áttina að því að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum en félagið vill sjá lágmarkslaun hækka úr 204.000 kr. í 250.000 kr. eða sem nemur um 22,5% við undirritun samningsins. Félagið telur þetta vera ágætis fyrsta skref í að brjótast út úr vítahring láglaunastefnunnar.

Kröfugerðin byggist meðal annars á hugmyndum um nýja launatöflu fyrir verkafólk þar sem 16 lægstu launaflokkarnir í eldri töflu eru þurrkaðir út og byggð upp ný launatafla. Einnig eru starfsaldurshækkanir auknar, en í gömlu töflunni munar einungis rétt rúmum 3% á milli byrjanda og starfsmanns sem hefur starfað í 7 ár. Í nýju töflunni verður launamunurinn 7% á milli sjö ára taxta og byrjanda. Rétt er að geta þess að lægsti launataxti verkafólks í dag er einungis rétt rúmar 191 þúsund krónur fyrir fulla dagvinnu. 

Það verður að vera þjóðarsátt um að hækka launataxta verkafólks svo um munar því það sér hver einasti maður að þau lágmarkslaun og taxtar sem verkafólki er boðið uppá duga engan veginn til að verkafólk geti framfleytt sér og sínum.

Samfélagið í heild sinni verður að brjótast út úr vítahring láglaunastefnunnar og bjóða verkafólki mannsæmandi laun fyrir sína vinnu.  Það er alveg spurning hvort fyrirtæki sem ekki geta boðið sínum starfsmönnum uppá dagvinnulaun sem nema 250 þúsundum á mánuði eigi yfir höfuð tilverurétt á íslenskum vinnumarkaði.

Síðan má ekki gleyma því að það eru til atvinnugreinar sem geta svo sannarlega hækkað laun sinna starfsmanna svo um munar og nægir að nefna ferðaþjónustuna, sjávarútvegsfyrirtæki og stóriðjurnar.  Það er t.d. gríðarlegt sóknarfæri til að leiðrétta launakjör fiskvinnslufólks, enda er hagnaður útgerðarinnar mjög mikill um þessar mundir sem birtist m.a. í ofurarðgreiðslum til eigenda, nú er komið að fiskvinnslufólki að fá hluta í þessum ofurhagnaði! Hvernig má það t.d. vera að sérhæfður fiskvinnslumaður eða -kona séu einungis með 198.000 kr. í grunnlaun eftir 15 ára starf í ljósi þess mikla hagnaðar sem útgerðin er að skila?

Það er morgunljóst að það eru mikil sóknarfæri til að leiðrétta og lagfæra kjör verkafólks eins og í þeim atvinnugreinum sem nefnd voru hér að ofan og verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar og leiðrétta laun þessara aðila svo um munar. 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélag Akraness ítrekar það að nú verður samfélagið í heild sinni að vera sammála um að brotist verður út úr vítahring láglaunastefnunnar með markvissum skrefum.

Kröfugerðina í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image