• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Samfylkingarmennirnir Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness Árni Páll Árnason, Vilhjálmur Birgisson og Guðbjartur Hannesson
19
Sep

Samfylkingarmennirnir Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness

Í morgun komu Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar og Guðbjartur Hannesson fyrrv. velferðarráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins og átti formaður með þeim um 40 mínútna spjall um hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum launafólks og skuldsettra heimila.

Þetta var fínn fundur þar sem farið var yfir víðan völl, m.a. var fjallað um verðtrygginguna, skuldamál heimilanna, leigumarkaðinn, lífeyrissjóðina, Evrópusambandið og lágmarkslaun á Íslandi. Formaður fór yfir með þeim félögum hversu gríðarlega mikilvægt það væri að ná tökum á skuldavanda heimilanna og mikilvægi þess að afnema hér verðtryggingu á neytendalánum. Formaður upplýsti þá félaga um að þetta hafi verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness í fjöldamörg ár þar sem félagið hefur lagt fram fjölmargar tillögur og ályktanir um afnám verðtryggingar og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur.

Leigumarkaðinn bar einnig á góma og nauðsyn þess að byggja upp öflugan og heilbrigðan leigumarkað svo fólk hafi kost á öruggum búseturétti til langframa á viðráðanlegum kjörum.

Formaður fór einnig yfir það að lágmarkslaun á Íslandi eru skammarlega lág og velti þeim möguleika upp að ef verkalýðshreyfingunni tekst ekki að lagfæra hér lágmarkslaun þannig að þau nálgist þau neysluviðmið sem gefin hafa verið út, þá þurfi Alþingi jafnvel að grípa til lagasetningar þar sem kveðið verði á um lágmarkslaun á Íslandi. Því það er ekki hægt að bjóða verkafólki upp á laun sem eru langt undir öllum neysluviðmiðum sem gefin hafa verið út af opinberum aðilum.

Þeir félagar töldu afar mikilvægt að halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram, en formaður tjáði þeim að hans persónulega afstaða væri einfaldlega sú að spyrja ætti þjóðina að því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vildi halda áfram aðildarviðræðum eða ekki og ef þjóðin vildi halda áfram viðræðum þá yrði slíkur samningur lagður undir þjóðina í annarri atkvæðagreiðslu.

Formaður fór líka yfir þann vanda sem lífeyrissjóðskerfið stendur frammi fyrir, en frá hruni hafa lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði verið skertir um 130 - 150 milljarða króna, samt er tryggingafræðilegur halli þeirra yfir 100 milljarðar. Og þessu til viðbótar er rétt að geta þess að iðgjöld hafa verið hækkuð um 20% frá árinu 2006 á hinum almenna vinnumarkaði án þess að réttindaávinnslan hafi hækkað til samræmis við þá hækkun. Þetta sýnir að lífeyrissjóðskerfið er á engan hátt sjálfbært og þarf að endurskoðast algerlega frá grunni, því það er t.d. æði margt sem bendir til þess að ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna upp á 3,5% viðhaldi allt of háum vöxtum hér á landi.

Eins og áður sagði var þetta fínn fundur þar sem menn skiptust á skoðunum og telur formaður sig hafa getað komið mörgum álitamálum er lúta að hagsmunum alþýðunnar og skuldsettra heimila vel á framfæri við þá félaga og ítrekaði hann m.a. að mikilvægasta hagsmunamálið væri leiðrétting á forsendubrestinum og afnám verðtryggingar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image