• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Sep

Undirbúningur vegna komandi kjarasamninga að hefjast af fullum krafti

Bæta þarf kjör fiskvinnslufólks svo um munar í komandi kjarasamningumEins og allir íslenskir launþegar vita þá styttist nú óðfluga í að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renni út en það gerist í lok nóvember. Undirbúningur Verkalýðsfélags Akraness að mótun kröfugerðar er nú að hefjast af fullum þunga og hefur stjórn og trúnaðarráð félagsins verið kallað til fundar á næsta mánudag þar sem farið verður yfir hugmyndir að mótun kröfugerðar en stjórn og trúnaðarráð er aðal samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness.

Það er morgunljóst að komandi kjarasamningar verða erfiðir. Minnkandi kaupmáttur íslensks verkafólks er verulegt áhyggjuefni. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá er eitt af forgangsverkefnum í komandi kjarasamningum að lagfæra kjör almenns verkafólks í íslensku samfélagi. Verkafólks sem hefur mátt þola að fá einungis þær umsömdu prósentuhækkanir sem hafa verið í kjarasamingum. Almennt verkafólk hefur ekki verið að njóta þess launaskriðs sem sést hefur í hækkun á launavísitölunni. Það launaskrið virðist einskorðast við starfsfólk í fjármálageiranum og öðrum slíkum stofnunum. Nú síðast hækkuðu laun ríkisforstjóra um tugi prósenta eftir ákvörðun kjararáðs og í sumum tilfellum hækkuðu mánaðarlaun ríkisforstjóra um hærri upphæð heldur en heildarlaun fiskvinnslukonu sem starfað hefur í greininni í 15 ár. Hækkunin hjá Seðlabankastjóra nam til dæmis yfir 250 þúsund krónum á mánuði en áðurnefnd fiskvinnslukona rétt nær slíkum heildarlaunum á mánuði.

Það er hvellskýrt að það eru til greinar á íslenskum vinnumarkaði sem hafa klárlega burði til að lagfæra og leiðrétta launakjör sinna starfsmanna og nægir að nefna greinar eins og ferðaþjónustuna svo ekki sé talað um launakjör hjá fiskvinnslufólki. Það liggur til dæmis fyrir að hagnaður útgerðarfyrirtækja á Íslandi nam á síðasta ári yfir 60 milljörðum króna og á þeirri forsendu verður það meðal annars að vera eitt af forgangsverkefnunum í komandi baráttu að lagfæra kjör þeirra sem starfa í þeirri grein. Það er með öðrum orðum bullandi tækifæri hjá verkalýðshreyfingunni til að bæta stöðu áðurnefndra hópa í komandi kjarasamningum en til að það náist verður íslensk verkalýðshreyfing að standa saman sem einn maður og hvika hvergi frá þeirri kröfu að áðurnefndar greinar skili sínum ávinningi til sinna starfsmanna. Það liggur meðal annars fyrir að búið er að lækka auðlindagjald á útgerðina og það eitt og sér gefur útgerðinni svo sannarlega svigrúm til að skila góðri afkomu í vasa sinna starfsmanna.

Lágmarkslaun á Íslandi eru verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og í raun og veru samfélaginu öllu til ævarandi skammar en lágmarkslaun í dag nema 204 þúsund krónum og það sér hver einasti maður að á slíkum launum er á engan hátt hægt að framfleyta sér eða sínum. Lágmarkslaunin eru langt undir þeim neysluviðmiðum sem gefin hafa verið út. Á þeirri forsendu er afar brýnt að lágmarkslaun á Íslandi verði hækkuð umtalsvert og um það þarf að ríkja þjóðarsátt því misskiptingin á Íslandi hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og það má kannski segja að þær prósentuhækkanir sem hafa tíðkast í kjarasamingum á hinum almenna vinnumarkaði hafi algjörlega ýtt undir þessa misskiptingu. Tökum dæmi. Einstaklingur sem er með 1,1 milljón í mánaðarlaun og laun samkvæmt kjarasamingum hækkar um 4% í launum, þá fær slíkur einstaklingur hækkun sinna launa sem nemur 44 þúsundum en einstaklingur sem er á lágmarkslaunum og fær sömu prósentuhækkun fær einungis 8 þúsund króna hækkun og er hér um mismun að ræða sem nemur 36 þúsund krónum á mánuði. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hvernig prósentuhækkanir í kjarasamningum gera lítið annað en að auka bilið á milli þeirra sem hæstar tekjur hafa og þeirra sem eru tekjulægri. Því gæti það verið skynsamlegt að menn semji nú um fastar krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana í komandi kjarasamningum.

Grundvallaratriðið er hinsvegar það að verkalýðshreyfingin beri gæfu til að taka stöðu með sínum félagsmönnum og standi vörð um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og berjist af alefli fyrir því að kjör þessara aðila verði bætt svo eftir verði tekið. Verkalýðsfélag Akraness mun svo sannarlega reyna sitt allra besta til að svo verði.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image