• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Sep

Láglaunastefna og lífeyrissjóðir

Nú er mikið fjallað um þá láglaunastefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin ár og áratugi og t.d. hefur Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands skrifað margar greinar um að hækka þurfi lágmarkslaun hér á landi svo um munar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt bæði í ræðu og riti að lágmarkslaun og launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði séu verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og samfélaginu öllu til skammar.  En í dag eru lægstu launataxtar einungis rétt rúmar 191.000 kr. og lámarkstekjutrygging kr. 204.000.  Það sér hver einasti maður er það er ekki nokkur vegur fyrir þá sem starfa á slíkum launum að framfleyta sér eða sínum. En hvað veldur því að láglaunastefnan fær að viðgangast í íslensku samfélagi eins raun ber vitni um? Að sjálfsögðu ber verkalýðshreyfingin þar stóra ábyrgð.

Getur verið að Herdís Dröfn Baldvinsdóttir, sem er með doktorspróf í atvinnulífsfræðum og stjórnun hafi hitt naglann á höfuðið í doktorsritgerð sem hún skrifaði árið 1999 um Tengslanet fjárhagslegra afla á Íslandi. Í þeirri ritgerð gagnrýnir hún harðlega þau fjármálatengsl sem eru á milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins í gegnum stjórnir lífeyrissjóðanna. Herdís varpar því fram hvort tenging verkalýðshreyfingarinnar við lífeyrissjóðina geti hugsanlega haft þau áhrif að hér sé rekin láglaunastefna vegna þess að arðsemiskrafa þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir fjárfesta í er svo gríðarleg. Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir eiga orðið stóran hluta í flestum fyrirtækjum hér á landi, sem dæmi þá eiga lífeyrissjóðirnir uppundir 40% í Högum sem á meðal annars verslunarkeðjuna Bónus.

Getur verið að sú láglaunastefna sem rekin er í stórmörkuðum vítt og breitt um landið sé vegna arðsemiskröfu lífeyrissjóðanna á hendur þessara fyrirtækja? Hefur Herdís rétt fyrir sér um að tengsl verkalýðshreyfingarinnar við Samtök atvinnulífsins í gegnum lífeyrissjóðina sé orsakavaldur láglaunastefnunnar hér á landi? Þetta er alla vega eitthvað sem svo sannarlega þarf að rannsaka. Rétt er að vekja athygli á lokaritgerð tveggja nemenda við Háskólann í Reykjavík þar sem spurt var: Er 3,5% ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna raunhæft til framtíðar? En niðurstaða þeirra var sú að 3,5% ávöxtunarviðmið sé ekki rauhæft til framtíðar litið, enda er 3,5% töluvert fyrir ofan hagvöxt hér á landi síðustu ára En það vekur ennþá meiri athygli sem segir í niðurstöðum rannsóknarinnar að 3,5% vaxtaviðmiðið geri það að verkum að neikvæð tryggingafræðileg staða sjóðanna sé stórlega vanmetin sökum of hárrar ávöxtunarkröfu.

Það er æði margt sem bendir til þess að ef ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna yrði t.d. lækkað úr 3,5% niður í 2,5% sem er mun raunhæfari raunávöxtun, þá myndi það leiða af sér að skerða þyrfti réttindi sjóðsfélaga um allt að 20%. Með öðrum orðum er verið að lofa almenningi miklu hærri lífeyri vegna 3,5% ávöxtunarviðmiðsins heldur en verður svo á raunveruleika.

Því spyr formaður: hvaða hag hafa launþegar af því að vera með lífeyriskerfi sem hugsanlega murkar úr okkur lífið áður en kemur að töku lífeyris, m.a. vegna láglaunastefnu og glórulausra ávöxtunarviðmiða upp á 3,5% sem hugsanlega hefur gert það að verkum að vaxtakjör hér á landi eru miklu hærri en þau ella þyrftu að vera. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image