• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Oct

Formaður VLFA og VR funduðu með framkvæmdastjóra Bónus

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR áttu mjög góðan fund með Guðmundi Marteinssyni framkvæmdastjóra Bónus.

Umræðuefni fundarins var meðal annars verðlag í dagvöruverslunum og mikilvægi þess að okkur takist að verja lífskjarasamninginn sem við skrifuðum undir í vor og þar skiptir máli að verslun og þjónustuaðilar haldi verðlagshækkunum í algjöru lágmarki.

Fram kom í máli Guðmundar að Bónus muni klárlega gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja lífskjarasamninginn með því að lágmarka verðlagsbreytingar eins og kostur er.

05
Oct

127% hærra greitt fyrir síld í Noregi en á Íslandi!

Sjómenn og sjómannaforystan hafa um alllanga hríð haft sterkan og rökstuddan grun um að útgerðarmenn sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi séu ekki að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Í þessari frétt frá Aflafréttum kemur fram að uppsjávarskipið Margrét EA hafi landað norsk-íslenskri síld í Noregi tvívegis nýverið og fram kemur í fréttinni að Margrét EA hafi fengið 82 kr. fyrir kílóið í Noregi, en ef skipið hefði landað á Íslandi þá hefði verðið verið um 36 kr. Þetta þýðir á mannamáli að síld sem veidd er hér við land af íslensku skipi og siglir með aflann til Noregs fær 127% hærra fiskverð heldur en greitt er hér á landi!

Þetta hefur gríðarleg áhrif á ekki bara kjör sjómanna heldur einnig á samfélagið allt. Enda liggur fyrir að ef útgerðarmönnum sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi tekst að ákvarða fiskverð til sinna sjómanna sem er 127% lægra hér á landi en í Noregi er verið að hafa gríðarlegar upphæðir af ekki bara sjómönnum eins og áður sagði heldur einnig skatttekjur til ríkis og sveitafélaga sem og hafnargjöld sem taka mið af heildar aflaverðmæti.

Skoðum muninn ef Margrét EA hefði landað á Íslandi en ekki í Noregi og það bara á þessum tveimur túrum.


Aflaverðmætið hefði verið 99,8 milljónir ef aflanum hefði verið landað á Íslandi þar sem útgerðamenn ákveða einhliða fiskverðið, en af því að landað var í Noregi þá varð aflaverðmætið 227,4 milljónir.

Aflahluturinn til sjómanna hefði verið 18,1 milljón ef landað hefði verið á Íslandi, en ef því að landað var í Noregi varð aflahlutur sjómanna 41,4 milljónir eða 23,2 milljónum meira en ef landað væri á Íslandi.

Tap ríkis og sveitafélaga

En hvað tapa ríki og sveitarfélög vegna þess að útgerðarmenn svindla og svína á fiskverði til sjómanna í skjóli þess að veiðar og vinnsla eru á sömu hendi? Bara í Þessum tveimur túrum hjá Margréti EA nemur þetta 10,6 milljónum sem ríki og sveitarfélög fá meira vegna þess að landað var í Noregi en ekki á Íslandi.

Eins og áður sagði þá hefur lengi verið rökstuddur grunur um þetta svindl og ekki sé verið að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Þetta á ekkert bara við um verðlagningu á síld heldur einnig makríl og loðnu, en í fréttum í byrjun september á þessu ári þá upplýsti Verðlagsstofa skiptaverðs í skýrslu sem gefin var út um hver verðmunur á aflaverðmæti á makríl væri á milli Noregs og Íslands og kom fram að norðmenn hafa greitt 226% meira að meðaltali fyrir makrílinn á tímabilinu frá árinu 2012 til 2018, en mesti munur var tæp 300% á árinu 2018.

Þessi samantekt frá Verðlagsstofu var enn ein staðfesting á þessum rökstudda grun sjómanna um að útgerðir í uppsjávarveiðum á Íslandi ástundi gróft svindl og svínarí. Ekki bara á sjómönnum heldur einnig á samfélaginu öllu. Enda má klárlega áætla að á umræddu tímabili hefði verið haft af sjómönnum laun sem nema allt að 10 milljörðum og af ríki og sveitafélögum skatttekjum sem nema allt að 5 milljörðum!

Formaður VLFA ítrekar það enn og aftur að það eru ekki bara skipverjar sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa, heldur verða ríkissjóður og sveitarfélög af gríðarlegum skatttekjum.

Formaður skorar enn og aftur á stjórnvöld í ljósi alls þessa sem og að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur afhjúpað það svindl og svínarí sem viðgengst í verðmyndun á uppsjávarafla að hefja án tafar opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla á Íslandi.

Eitt er víst að menn hafa hafið opinberar rannsóknir yfir minna tilefni en þetta, enda tekjutap hjá ríkissjóði og sveitarfélögum mælt í milljörðum á umræddu tímabili!

05
Oct

Störfum í fiskvinnslu hefur fækkað um tæp sjö þúsund á 25 árum!!!

Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar vítt og breitt um hinar dreifðu byggðir þessa lands.

Nánast öll sjávarþorp og bæir hafa orðið fyrir barðinu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Öll vitum við hvernig einstaka útgerðarmenn hafa í gegnum árin og áratugina ekki vílað fyrir sér að selja kvótann frá sér og labba í burtu með jafnvel milljarða króna í vasanum.

Þessir sömu útgerðarmenn víla ekki heldur fyrir sér að skilja fólkið og heilu sveitarfélögin eftir bjargarlaus þar sem stór hluti lífsviðurværis fólksins og sveitarfélaganna er kippt í burtu á einni nóttu.

Eins og áður sagði eru fjölmörg þorp og sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa lent í klónum á græðgisvæðingunni í kringum framsalið á aflaheimildum og sum þessara sveitarfélaga hafa ekki enn jafnað sig eftir að allur kvótinn hefur verið tekin í burtu í skjóli græðginnar.

Það er svo sorglegt að stjórnmálamenn skuli láta þessa hluti átölulaust, enda er skýrt kveðið á í 1 gr. laga um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Takið eftir, tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu! Hvað skildu útgerðarmenn vera oft búnir að kolbrjóta þessa lagagrein? Mér er mjög hugleikið hvernig farið hefur verið með okkur Akurnesinga hvað þetta varðar, en ítreka að fjölmörg önnur sveitarfélög hafa einnig farið gríðarlega illa út úr þessu kerfi.

En árið 2004 voru 350 manns sem störfuðu við veiðar og vinnslu á Akranesi hjá Haraldi Böðvarssyni og þetta sama ár voru 170 þúsundum tonna landað í Akraneshöfn og þetta fyrirtæki greiddi 2,2 milljarða í laun. Í dag er allt farið!

Hvar er samfélagsleg ábyrgð útgerðarmanna? Og munum að markmið laganna er m.a. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Hugsið ykkur að fyrir 25 árum Þá störfuðu 9600 manns í fiskvinnslu á Íslandi en árið 2018 var þessi tala komin niður í 2900 sem þýðir að fiskvinnslustörfum í fiskiðnaði hefur fækkað um 6700 á 25 árum!

Vissulega gerir formaður sér grein fyrir að tækniframfarir eiga að sjálfsögðu einhvern þátt í þessari fækkun en alls ekki alla, enda hefur samþjöppun á aflaheimildum verið gríðarleg á undanförnum árum þar sem stórhluti aflaheimilda er kominn á örfáar hendur.

Einnig er með algjörum ólíkindum að við skulum heimila að verið sé að flytja 42 þúsund tonn af óunnum fiski erlendis. Rifjum enn og aftur upp 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en þar segir: „hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Er verið að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu með því að flytja 42 þúsund tonn óunninn á erlenda markaði? Nei að sjálfsögðu ekki og ljóst að ef þessi 42 þúsund tonn yrðu unnin hér á landi væri hægt að skapa hundruð fiskvinnslustörf fólkinu og sveitarfélögunum til mikilla hagsbóta.

Rifjum einnig upp að fram til september 2008 var svokallað útflutningsálag uppá 10% á allan fisk sem var sendur óunninn frá landinu, sem þýddi að ef útgerð flutti 100 tonn af óunnum fiski erlendis þurfti útgerðin að leggja 10 tonn í svokallað refsiálag.

Þetta útflutningsálag var til að verja störfin vítt og breitt um landið tryggja atvinnu fólksins og sveitarfélögunum til hagsbóta, en á óskiljanlegan hátt var þetta álag fellt á brott í september 2008 af stjórnmálaflokkum sem horfa fyrst og fremst á sérhagsmuni heldur en heildarhagsmuni.

Formaður VLFA er ekki í nokkrum vafa um að það verður að kalla eftir endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða eins og stjórnmálamenn tala um í hvert sinn sem útgerðamenn skilja eftir sig blóðuga slóð í hverju sveitarfélaginu vítt og breitt um landið með tilheyrandi atvinnumissi, en þetta gaspur stjórnmálamanna varir því miður einungis rétt í nokkra daga og svo er allt gleymt!

Þetta er óþolandi staða, en það fyrsta sem Alþingi getur gert er að koma á þessu 10% útflutningsálagi þannig að ekki sé verið að flytja atvinnu frá landinu til annarra landa. Við eigum að nýta allar okkar auðlindir til atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar en það gerum við ekki með því að flytja 42 þúsund tonn af óunnum fiski erlendis.

Verjum atvinnuna, fólkinu, sveitafélögunum og okkur öllum til hagsbóta!

30
Sep

Allt að 50 manns sagt upp hjá Ísfiski á Akranesi!

Formaður var rétt í þessu að koma af afar erfiðum starfsmannafundi sem forsvarmenn fiskvinnslufyrirtækisins Ísfisks héldu með starfsmönnum. En á þessum fundi þurfti fyrirtækið að tilkynna að öllum starfsmönnum væri sagt upp störfum frá og með mánaðarmótum, en um er að ræða uppundir 60 starfsmenn.

Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins, að allar uppsagnir séu gerðar með fyrirvara um að fyrirtækinu takist að endurfjármagna sig, en til þessa hefur það ekki tekist, en sú vinna er enn í gangi.

Það er óhætt að segja að þessi tíðindi séu enn eitt þunga höggið sem við Akurnesingar höfum þurft að þola í atvinnumálum á liðnum árum og misserum, en rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem fengu þessi tíðindi í dag, gengu í gegnum uppsagnir þegar HB Grandi lokaði og hætti allri starfsemi á Akranesi árið 2017.  Einnig er rétt að geta þess að Ísfiskur keypti hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda við Bárugötu á Akranesi haustið 2017 og flutti starfsemi sína frá Kársnesi í Kópavogi á síðata ári. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vinnslu á ýsu og sölu á mörkuðum erlendis, en hráefni til vinnslunnar er að stærstum hluta keypt á markaði. 

Það er lítið annað að gera, en að vona að forsvarsmönnum Ísfisks takist á næstu dögum og vikum að endurfjármagna sig, þannig að ekki komi til þessara uppsagna, en það er ljóst að lítið annað er hægt að gera í stöðunni núna, en að vona það besta, en búa sig undir það versta.

Það er engum vafa undirorpið að enn og aftur eru verulegar blikur á lofti hér á Akranesi í atvinnumálum. Það er ekki bara að það vofi yfir okkur að tæplega 50 fiskvinnslukonur og menn séu við það að missa lífsviðurværi sitt ef fyrirtækinu tekst ekki að endurfjármagna sig, heldur eru líka verið að ógna stórkostlega atvinnuöryggi og lífsviðurværi þeirra sem starfa hjá fyrirtækjunum á Grundartanga.

En eins og hefur komið fram þá hefur Landsvirkjun hækkað raforkuverð hjá Norðuráli og Elkem Ísland um 5 til 6 milljarða á ári, en þessi hækkun er nú þegar farinn að hafa verulega neikvæð áhrif á atvinnuöryggi og lífsviðurværi starfsmanna Elkem Ísland. En fyrirtækið hefur nú þegar tilkynnt að 10 til 15% fækkun starfsmanna muni koma til með svokallaðri náttúrlegri fækkun. Einnig liggur fyrir algert fjárfestingar stopp hjá fyrirtækinu vegna óvissu í raforkumálum fyrirtækisins.

Það er þyngra en tárum taki þessi staða sem er að teiknast upp í atvinnumálum okkar Akurnesinga, en viðbótarhækkun á raforku til stóriðjunnar á Grundartanga er eins og áður sagði milli 5 og 6 milljarðar sem er litlu minna er allur sjávarútvegurinn greiðir í auðlindagjöld.  Það liggur fyrir að þegar nánast öll framlegð fyrirtækjanna er þurrkuð upp vegna græðgisvæðingar Landsvirkjunar þá mun það leiða til þess að verið er að ógna lífsviðurværi og atvinnuöryggi fjölda fólks.

Formaður VLFA telur einsýnt að bæjarbúar á Akranesi þétti nú raðirnar, því við getum ekki endalaust látið fara svona með okkur þegar kemur að atvinnuöryggi og lífsviðurværi bæjarbúa.

Það er rétt að rifja upp að árið 2004 voru 250 manns í vinnu hjá fiskvinnslufyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni á Akranesi og það ár var landað um 170 þúsund tonnum og fyrirtækið greiddi á þriðja milljarð í laun. Núna er allt farið og næsta skemmdarverk sem nú er unnið að er að Landsvirkjun er að takast að eyðileggja rekstrarskilyrði stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga, sem mun valda okkur Akurnesingum og nærsveitungum ómældum skaða.

Eins og áður sagði telur formaður mikilvægt að bæjarbúar þétti raðirnar og á þeirri forsendu mun félagið skoða það alvarlega að halda íbúafund þar sem farið yrði yfir þessa alvarlegu stöðu sem er að teiknast upp í okkar atvinnulífi og á þann fund yrði að sjálfsögðu þingmönnum kjördæmisins boðið sem virðast þessa daganna ekki hafa miklar áhyggjur af stöðu mála hér á Akranesi !

15
Sep

Fundur í stjórnarráðinu

Forsetateymi Alþýðusambands Íslands fundaði með forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í stjórnarráðinu á föstudaginn.

Tilefni fundarins var að fara yfir innleiðingu aðgerða af hálfu stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninganna á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaðir voru þann 3. apríl sl.

En eins og flestir vita þá var aðkoma stjórnvalda að lausn kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði mjög yfirgripsmikil og er formanni VLFA og fyrsta varaforseta ASÍ til efs að stjórnvöld hafi áður komið jafn mikið að lausn á kjaradeilu eins í lífskjarasamningum.

Á fundinum var farið efnislega yfir yfirlýsinguna um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamningana og hvar hvert atriði væri statt.

En þessir yfirflokkar í yfirlýsingu stjórnvalda lúta að eftirfarandi atriðum:

  • Tekjuskattur
  • Fæðingarorlof
  • Barnabætur
  • Húsnæðismál
  • Lífeyrismál
  • Félagsleg undirboð
  • Hagstjórn vinnumarkaður og verðlag
  • Einföldum regluverks og eftirlit
  • Markviss skerf til afnáms verðtryggingar

 

Varðandi tekjuskattinn liggur fyrir að stjórnvöld eru að efna loforð sitt sem fram kom í yfirlýsingu stjórnvalda en nú liggur fyrir að tekjuskattur verður lækkaður um rúmar 10.000 krónur á tekjulægstu hópana. Framkvæmdin mun koma inn á tveimur árum en ekki þremur eins og talað var um, sem er gott enda lagði verkalýðshreyfingin hart að stjórnvöldum að hraða þessum lækkunum. Á ársgrundvelli munu ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu hækka um 120.000 kr. þegar þær verða komnar inn að fullu og aukning ráðstöfunartekna mun nema um 21 milljarði.

Fæðingarorlof mun lengjast úr níu mánuðum í tíu mánuði í byrjun árs 2020 og í byrjun árs 2021 verður fæðingarorlof orðið12 mánuðir.

Skerðingarmörk barnabóta munu hækka í 325 þúsund krónur á mánuði á árinu 2020 sem mun klárlega koma þeim tekjulægstu til góða.

Félagsleg undirboð: Tekið verði á kennitöluflakki á skilvirkan hátt og heimildir til refsinga verði auknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns. Stefnt er að því að unnt verði að leggja fram frumvarp á Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2020 sem tæki á þessum málum.

Varðandi yfirlýsingu stjórnvalda um að stíga markviss skerf til afnáms verðtryggingar kom fram að það liggi fyrir frumvarp sem bannar 40 ára jafngreiðslulán en þó með mjög víðrækum undanþágum. Það er ljóst að þessi drög að frumvarpi eru ekki í anda þess sem talað var um í aðdraganda lífskjarasamninganna og sagði fyrsti varaforseti á fundinum að hann liti á þessi drög sem svik ef þau yrðu að veruleika.

Niðurstaðan var að þessi mál yrðu skoðuð betur og mikilvægt er að sjá hvað kemur varðandi úrræði og aðgerðir til handa fyrstu kaupendum, því bann við 40 ára jafngreiðslulánum hanga eilítið saman við lausnir handa þeim hópi.

Heilt yfir var þetta góður fundur í stjórnarráðinu og ljóst er miðað við þennan fund að fullur vilji sé hjá stjórnvöldum að standa við sína yfirlýsingu í tengslum við lífskjarasamninganna en vissulega hef ég verulegar áhyggjur brotalöm geti orðið á yfirlýsingu varðandi að stíga markviss skref til afnáms verðtryggingar og eitt er víst að við það verður ekki unað.

15
Sep

Skattalækkun nemur allt að 120.000 á ársgrundvelli

Fjármálaráðherra kynnti nýtt fjárlagafrumvarp á mánudaginn síðastliðinn. Í frumvarpinu má sjá að nýtt skattþrep verður kynnt til sögunnar á næsta ári. Skattþrepið er lágtekjuskattþrep fyrir tekjur undir 325.000 krónur. Skattbreytingin verður gerð í tveimur þrepum, árin 2020 og 2021.

Barátta verkalýðshreyfingarinnar var að mestu skattalækkanir myndu koma til handa þeim sem væru á lægstu laununum og það viðrist hafa tekist.

Það getur hins vegar verið flókið að átta sig á því hvað þetta hefur að segja fyrir hvern og einn. Þess vegna viljum við benda á sniðuga reiknivél þar sem hver og einn getur séð hvaða áhrif þessar lækkanir hafa á sína afkomu.

Reiknivélina má nálgast hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image