• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Jan

Fjórði samningafundur með Norðuráli

Fjórði samningafundur Verkalýðsfélags Akraness við forsvarsmenn Norðuráls var haldinn mánudaginn 6. janúar síðastliðinn.

Á þessum fundi kom fram að forsvarsmenn Norðuráls hafna að viðhalda launavísitölunni með sama hætti og gert var í síðasta samningi á milli aðila og er óhætt að segja að það séu gríðarleg vonbrigði.

En formaður VLFA kom því skýrt á framfæri að forsenda fyrir nýjum kjarasamningi milli samningsaðila sé að launabreytingar starfsmanna haldi áfram að taka mið af launavísitölunni með sömu formerkjum og gert var í síðasta samningi. Á þessi kröfu verður ekki gerður afsláttur, en rétt er að geta þess að á þeim fundum sem Verkalýðsfélag Akraness hélt með starfsmönnum kom skýrt fram að ekki þýddi að leggja á borð fyrir starfsmenn kjarasamning þar sem þessi launavísitölutenging væri ekki inni.

En á fundinum kom einnig fram að fyrirtækið er tilbúið í fyrsta skipti að ræða þann möguleika að taka upp 8 tíma vaktakerfi í stað 12 tíma kerfisins eins og nú er. Hér er um mikla stefnubreytingu af hálfu forsvarsmanna Norðuráls að ræða.

En breyting sem byggist á því að fara yfir á 8 tíma vaktakerfi kallar á gríðarlega mikla vinnu og undirbúnings en hingað til hafa verið skiptar skoðanir hjá starfsmönnum um að breyta vaktakerfinu með þessum hætti. Hins vegar er æði margt sem bendir til þess alltaf séu fleiri og fleiri sem vilja breyta yfir í 8 tíma vaktakerfi enda ákall í samfélaginu fyrir að stytta vinnutíma hjá starfsfólki og gera vinnustaði fjölskylduvænni.

En núna er verið að skoða hvaða áhrif þessi breyting myndi hafa á laun starfsmanna, en það blasir við að þegar tekið er upp vaktakerfi þar sem vinnuskylda er einungis 145,6 vinnustundir á mánuði í stað 182 stunda þýðir það breytingar á launum. Allt þetta er til skoðunar núna en formaður er ekki í neinum vafa um að það yrði gríðarlega jákvæð breyting að fara úr 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma vaktarkerfi. Enda eru flest allar verksmiðjur komnar í svoleiðis vaktakerfi og síðast var vaktarkerfinu breytt hjá Fjarðaráli og er það mat starfsmanna að þessi breyting hafi gjörbreytt vinnustaðnum til hins betra.

Ekki er búið að boða til næsta fundar en menn eru að skoða öll þessi mál gaumgæfilega m.a. með því að heyra í starfsmönnum til að hlera hver vilji þeirra sé í sambandi við breytt vaktakerfi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image