• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Jan

Formaður fundaði með bæjarstjóra og oddvitum sveitarstjórnarflokkanna

Formaður félagsins óskaði eftir í síðustu viku að funda með öllum oddvitum sveitastjórnarflokkanna á Akranesi sem og bæjarstjóra, vegna þeirra grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga. En eins og flestum er kunnugt um rann kjarasamningurinn út á milli aðila 31. mars á síðasta ári og því hafa starfsmenn Akraneskaupstaðar verið samningslausir í 9 mánuði.

Bæjarstjóri brást hratt og vel við erindi VLFA og var þessi fundur haldinn þriðjudaginn 7. janúar. Á þessum fundi voru tvö mál til umfjöllunar; annars vegar kjarasamningur félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga og hins vegar nýfallinn dómur félagsdóms er lýtur að réttindum tímakaupsfólks hjá Akraneskaupstað.

Formaður VLFA fór ítarlega yfir stöðu í samningaviðræðunum við Samband íslenskra sveitafélaga og gerði oddvitunum algerlega grein fyrir því að sveitastjórnin gæti ekki skýlt sér á bak við samninganefnd sveitafélaga og vísað allri ábyrgð á hana. Það væri morgunljóst að ábyrgð kjörinna fulltrúa fyrir því að starfsmenn sveitafélagsins fái sínar kjarabætur liggja algerlega fyrir.

Formaður gerði bæjarstjóra og oddvitum grein fyrir því að ef ekki muni sjást til lands í þessum viðræðum á næstu dögum mun félagið hefja taktfasta og granítharðan undirbúning að verkfallsaðgerðum, enda eru þessi vinnubrögð ekki boðleg.

Formaður upplýsti að körfugerð félagsins byggðist að 99% á lífskjarasamningum sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði í apríl sl. og á þeirri forsendu einni saman væri óskiljanlegt með öllu hví það hefur tekið yfir 9 mánuði að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Formaður upplýsti einnig á fundinum að það væri með ólíkindum að Samband íslenskra sveitafélaga vilji ekki og hafni að svokallaður hagvaxtaauki verði inni eins og gert var í lífskjarasamningum. En hagvaxtaraukin er tannhjólið í lífskjarasamningum og formaður gerði bæjarstjóra og oddvitum flokkanna það algerlega ljóst að Verkalýðsfélag Akraness myndi aldrei skrifa undir kjarasamning þar sem hagvaxtaaukin yrði ekki inni.

Hann fór einnig yfir önnur atriði sem útaf standa, eins og t.d. að það komi ekki til greina að 13 mínúta stytting vinnuvikunnar komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. Janúar 2021, undir slíkan drátt á innleiðingu á þessu atriði yrði aldrei liðið af hálfu félagsins. En í heildina eru þetta einungis 4 til 5 atriði sem standa útaf og þar vega réttindi tímakaupsfólks einnig þungt.

Þegar formaður hafði gert ítarlega grein fyrir stöðunni í kjarasamningsviðræðunum vék hann að nýföllnum dómi Félagsdóms þar sem Akraneskaupstað var gert að greiða öllu tímakaupsfólki eingreiðslu sem samið var um árið 2016 og kom til útborgunar 1. febrúar á síðasta ári.

En fyrir algjöra tilviljun fékk formaður vitneskju um að umrædd einsgreiðsla uppá 42.000 kr. hafi ekki komið til tímakaupsfólks og rakti formaður framhaldið sem endaði eins og fyrr segir fyrir félagsdómi sem staðfesti allar dómskröfur félagsins og tók undir allan málatilbúnað félagsins. En þessi dómur gerir það að verkum að staðfest hefur verið að sveitafélög vítt og breitt um landið hafa þverbrotið á réttindum þessa fólks með því að nota bara dagvinnustundir til að reikna út ávinnslu til orlofs-og desemberuppbótar en dómur Félagsdóms kvað skýrt um að miða ætti við allt vinnuframlag starfsmanna ekki einungis hluta þess.

Formaður sagði einnig í þessu máli að það þýddi ekki fyrir sveitastjórnarmenn að skýla sér á bakvið Sambandið íslenskra sveitafélaga í þessu máli því nú væri fallinn dómur og því þyrfti að leiðrétta þessi brot afturvirkt og verði það ekki gert, þá mun VLFA stefna Akraneskaupstað aftur fyrir Félagsdóm. Fram kom hjá formanni að hann tryði ekki að sveitastjórn Akraneskaupstaðar myndi ekki una dómi félagsdóms og leiðrétta einnig ranglega útreiknaðar orlofs-og desemberuppbætur.

Vissulega gerir formaður sér grein fyrir að sveitarstjórn er vorkunn í málinu, enda eru þessar ólöglegu leiðbeiningar komnar frá Sambandi íslenskra sveitafélaga til sveitafélaganna vítt og breitt um landið. En þessu óréttlæti gagnvart tímakaupsfólki verður að vinda ofan af, ekki bara með því að leiðrétta þetta afturvirkt heldur einnig tryggja í kjarasamningi réttarstöðu tímakaupsfólks. Það liggur fyrir að ólöglegt er að mismuna starfsfólki eftir ráðningarformi eins og tíðkast hefur í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitafélaga um all-langa hríð.

Formaður upplýsti að hann myndi funda með Sambandi íslenskra sveitafélaga á næsta fimmtudag og ef ekkert kæmi úr þeim viðræðum þá myndi renna upp sú staða sem enginn hefur óskað sér sem eru undirbúningur að verkfallsaðgerðum.

Heilt yfir var þetta mjög góður fundur og ætlaði bæjarstjóri sem og oddvitar sveitafélagsins að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að viðræðurnar myndu skila árangri á næsta fundi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image