• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Oct

Fundað með starfsmönnum Norðuráls

Í gær hélt Verkalýðsfélag Akraness fund með starfsmönnum Norðuráls vegna komandi kjarasamninga en samningur félagsins við Norðurál rennur út um áramótin.

Nokkuð góð mæting var á fundinn en á fundinum fór formaður félagsins fór yfir hvaða árangur síðasti kjarasamningur skilaði starfsmönnum í launahækkanir. En fram kom í máli hans að síðasti samningur hafi verið einn sá besti sem félagið hefur gert frá því Norðurál hóf starfsemi sína á Grundartanga árið 1998.

Hann sýndi að síðasti samningur hefur skilað starfsmanni með 10 ára starfsreynslu rúmum 227 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum, en heildarlaun vaktavinnumanns eftir 10 ár með öllu fyrir 182 vinnustundir nema tæpum 800 þúsundum á mánuði.

Hann nefndi að það hafi verið góð ákvörðun að tengja launabreytingar starfsmanna við hækkun á launavísitölunni, en í þessum 5 ára samningi námu hækkanir starfsmanna rétt rúmum 42%

Hann fór einnig yfir að hann teldi mikilvægt að leggja ofuráherslu á að halda að notast við launavísitölu Hagstofunnar til launabreytinga til handa starfsmönnum Norðuráls.

Einnig fór hann yfir nokkur önnur atriði sem VLFA telur mikilvægt að leggja áherslu á í komandi kjarasamningum og voru fundarmenn á eitt sáttir með þær hugmyndir.

Nú liggur fyrir að hefja þarf viðræður fljótlega enda mikilvægt að reyna að láta nýjan kjarasamning taka við að þeim sem rennur út um áramótin

20
Oct

Byggðarstofnun tilbúið að lána Ísfiski, en að uppfylltu tveimur skilyrðum

Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að fiskvinnslan Ísfiskur á Akranesi hefur fengið jákvæða afgreiðslu lánsumsóknar hjá stjórn Byggðastofnunar.

Nú liggur fyrir að sú lánafyrirgreiðsla er háð að minnstakosti tveimur uppfylltum skilyrðum sem fyrirtækið þarf svigrúm til að mæta. Það veldur því að enn mun ríkja óvissa í eina til tvær vikur til viðbótar hvað framtíð fyrirtækisins varðar.

Formaður VLFA vill vera vongóður um að Ísfiskur muni takast að uppfylla þessi skilyrði þannig að hægt verði að tryggja áframhaldandi fiskvinnslu hjá Ísfiski en á fimmtatug starfsmanna starfa við fiskvinnslu Ísfisks á Akranesi og því skiptir miklu máli að þessari óvissu verði eytt sem allra fyrst.  En eitt af þessum skilyrðum lúta að því að hægt verði að lengja í kaupleigusamningi á húsnæði fyrirtækisins sem er í eigu Brims.

En VLFA varar við að fagna um og of fyrr en þessum skilyrðum verði uppfyllt og starfsfólkið verði kallað aftur til starfa en vonandi verður það á næstu dögum eða vikum.  En samkvæmt upplýsingum stendur til að funda með starfsmönnum á næsta þriðjudag til að fara yfir stöðuna.

17
Oct

Ótrúlegur málflutningur forstjóra Landsvirkjunar

Formaður Verkalýðsfélags Akraness var í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á síðasta mánudag þar sem hann ræddi um af hverju Landsvirkjun hafnaði því að svara fyrirspurn frá þingmanni um hversu miklum fjármunum Landsvirkjun væri búin að eyða við könnun á lagningu á sæstreng til Íslands. Einnig ræddi hann um þann ótta minn að gríðarleg hækkun á raforkuverði til Norðuráls og Elkem Ísland á Grundartanga muni ógna atvinnuöryggi og lífsviðurværi minna félagsmanna. 

Nýir raforkusamningar munu valda því að kostnaður við raforku til þessara tveggja fyrirtækja mun hækka samtals um eða yfir 5 milljarða á ári en sú upphæð er um 75% af öllum greiddum auðlindagjöldum í sjávarútvegi fyrir árið 2019.

Í hvert sinn sem formaður VLFA lýsir ótta sínum yfir því að verðstefna Landsvirkjunar í raforkumálum sé að ógna lífsviðurværi sinna félagsmanna kemur forstjóri Landsvirkjunar fram á opinberum vettvangi til að svara honum.

Engin undantekning varð á því eftir að formaður fór í þetta viðtal í Reykjavík síðdegis á mánudaginn en forstjóri Landsvirkjunar var mættur í viðtal í sama þætti daginn eftir.

Þau svör sem hann gaf í þessum þætti eru að dómi formanns ekki forstjóra Landsvirkjunar sæmandi enda laug hann vísvitandi að íslensku þjóðinni, meðal annars til að afvegaleiða umræðuna um eina af mikilvægustu auðlindunum sem íslenska þjóðin á sem eru orkuauðlindirnar.

Byrjum á svari forstjórans um af hverju Landsvirkjun neitar að upplýsa um hversu miklum fjármunum hefur verið eytt í að kanna lagningu á sæstreng til Íslands. En þar sagði forstjórinn að í raun sé sæstrengur bara venjulegur „viðskiptavinur“ - bara eins og hver annar viðskiptavinur fyrir Landsvirkjun og að upplýsa einstaka kostnað við einstaka viðskiptavini þegar verið sé að keppa í þessum samningaviðræðum sé einfaldlega mjög óskynsamlegt.

Takið eftir, forstjóri Landsvirkjunar neitar að svara fyrirspurn um kostnað vegna þess að hann lítur á sæstreng eins og hvern annan „viðskiptavin“! Í hvaða umboði er forstjóri LV að eyða jafnvel stórum upphæðum við að kanna lagningu á sæstreng þegar liggur fyrir að stjórnvöld eru á móti lagningu á slíkum sæstreng til Íslands?

Að skýla sér síðan á bakvið það að sæstrengur sé viðskiptavinur til að þurfa ekki að svara fyrirspurn þingmanns sem er að sinna sinni eftirlitsskyldu er grátbroslegt. Formaður trúir ekki öðru en að þingmenn láti Landsvirkjun ekki komast upp með að svara ekki þessari fyrirspurn, enda halda þessi rök ekki vatni.

Síðan víkur forstjóri Landsvirkjunar að því að svara áhyggjum formanns VLFA varðandi hækkun raforkukostnaðar til handa Elkem Ísland á Grundartanga. Enn og aftur byrjar forstjóri Landsvirkjunar á því að tala um að hann sé drifinn áfram af upplýsingagjöf frá Elkem, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann sakar formann VLFA um að ganga erinda stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga því hann sakaði formanninn einnig um að vera drifinn áfram af upplýsingagjöf frá Norðuráli þegar hann var að fjalla um verkfallið í Rio Tinto árið 2015. 

En þar fjallaði hann um að krafa Rio Tinto um að fá að bjóða út í verktöku mötuneyti og hafnarvinnu væri ekki ástæðan fyrir vanda fyrirtækisins heldur nýr raforkusamningur sem gerður var árið 2010. Nánast frá þeim tíma hefur Rio Tinto verið rekið með tapi og nemur tap fyrirtækisins síðustu 7 ár um eða yfir 15 milljörðum.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur semsagt í tvígang sakað formann um að vera mataðan á upplýsingum frá bæði Norðuráli og Elkem Ísland þegar ég fjalla um þessi mál. Þetta er algjör fjarstæða og það er eins og forstjóri Landsvirkjunar átti sig ekki á hlutverki forystumanna í stéttarfélögum, en eitt af aðalstörfum okkar er að verja atvinnuöryggi og lífsviðurværi okkar félagsmanna og það er ég að gera, enda er klárlega verið að ógna lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna í þessum iðnaði.

Skoðum síðan annað sem hann sagði í þessu viðtali en það var að Landsvirkjun væri að bjóða Elkem Ísland hagstæðasta raforkuverð sem í boði væri í heiminum í dag. Það sem forstjóri Landsvirkjunar sleppir að nefna er að t.d. í Noregi þar sem verðið í dag er um 41 dollari á MW er norska ríkið að endurgreiða raforku vegna CO2 um 11 dollara á MW og einnig segir hann ekki frá því að flutningskostnaður er um 4 dollurum lægri á MW en hér á landi. Þannig að í Noregi er orkufrekur iðnaður sem notar endurnýjanlega orku að greiða um 27 dollara fyrir MW þegar þessir þættir hafa verið teknir með.

Það er hins vegar rétt að geta þess að framvirka verðið í Noregi næstu ár eru um 36 dollarar á MW en þá á eftir að draga frá endurgreiðsluna vegna CO2 uppá tæpa 11 dollara sem þýðir að afhent til iðnaðar óverðtryggt er um 25 dollarar, sem er minna en meðalverð til LV árið 2018 sem 28,3 dollarar. Það er rétt að geta þess til viðbótar þá eru langtímasamningar til 10 ára með enn hagstæðari raforkuverð en þessi.

Það er rétt að ítreka að í ársreikningi Landsvirkjunar 2018 kemur fram að meðaltalsverð til iðnaðar eru 28,3 dollarar með flutningi.

Formanni reiknast til að Elkem sé að greiða um eða yfir 33 dollara fyrir MW í nýjum samningi og því er þessi staðhæfing forstjóra Landsvirkjunar algert bull. 

Forsjóri LV sagði einnig að verðið sem Elkem hafi verið að greiða hafi einungis verið helmingur af kostnaðarverði LV og með nýja raforkuverðinu sé verðið ennþá undir kostnaðarverði Landsvirkjunar.

Að forstjóri Landsvirkjunar skuli voga sér að leggja svo rakalausa þvælu á borð fyrir þjóðina er með ólíkindum. Hér lýgur forstjóri Landsvirkjunar meðvitað að þjóðinni enda er hann að tala um kostnaðarverð á nýrri virkjun.

Skoðum fjárhagsstöðu Landsvirkjunar. Í dag er eigið fé um 300 milljarðar, LV hefur greitt niður skuldir fyrir 160 milljarða á 7 árum og hagnast um 60 milljarða og á þessum sjö árum hefur fyrirtækið greitt 12 milljarða í arð til ríkissjóðs. Takið eftir að þessi sami forstjóri sem segir að raforkuverðið sé selt undir kostnaðarverði rekur fyrirtæki sem verður skuldlaust eftir 4 ár. Já, skuldlaust eftir 4 ár!

Eftir þennan grátur forstjórans spurði annar þáttastjórnandinn í Reykjavik síðdegis: „Er þá verið að gefa raforkuna“? Svar forstjóra LV var alveg kostulegt: „Það er semsagt undir kostnaðarverði, já, það er undir kostnaðarverði.“ Þáttastjórnandanum fannst hann ekki fá alveg skýrt svar svo hann spurði aftur: „Er verið að borga með raforkunni?“ Svar forstjóra LV var örlítið mildara núna en hann sagði orðrétt: „Nei, við erum ekki að fá eðlilega arðsemi á okkar eignir.“

Já, ýjar að því að verið sé að gefa raforkuna á sama tíma og það liggur fyrir að Landsvirkjun verði skuldlaus eftir 4 ár að hans eigin sögn og með eigið fé upp á 300 milljarða og 60 milljarða hagnað á síðustu 7 árum. Það er grafalvarlegt að hann skuli ýja að því að verið sé að gefa raforkuna til orkufreks iðnaðar þegar liggur fyrir að þessi iðnaður er gullkálfur fyrir Landsvirkjun og greiðir þangað um 45 milljarða á hverju ári. 

Elkem greiddi fyrir nýjan samning á ári fyrir sín 127 MW um eða yfir 3 milljarða en eftir nýjan samning mun þessi upphæð nema um 4,3 milljörðum sem er hækkun upp á um eða yfir 1,3 milljarð á ári. En rétt er að geta þess að meðaltalshagnaður Elkem frá árinu 1998 er 781 milljón á ári. Það þarf ekki mikla snillinga í hagfræði til að sjá að svona meðaltalshagnaður dugar vart til að mæta raforkuhækkun upp á 1,3 milljarð á ári.

Nú liggur fyrir að starfsmönnum Elkem Ísland á Grundartanga hefur verið tilkynnt að til að mæta þessum gríðarlegri hækkun á raforku muni fyrirtækið grípa í róttækra mótvægisaðgerða t.d. með því að lækka launakostnað um 322 milljónir á ári sem er lækkun um rúm 15%. Það verður m.a. gert með því að fækka starfsmönnum um 15% Einnig hefur fyrirtækið tilkynnt um fjárfestingarstopp, nema það sem lýtur að nauðsynlegu viðhaldi búnaðar og einnig mun þetta koma niður á þeim fyrirtækjum sem eru að þjónusta fyrirtækið.

Það liggur semsagt fyrir að þessi gríðarlega raforkuhækkun mun valda því að skera á niður launakostnað um 322 milljónir á ári sem þýðir að skatttekjur til ríkis-og sveitafélaga munu lækka um 119 milljónir á ári. Það má áætla að sveitafélögin verði af 45 milljónum í skatttekjur.

Það er þetta sem formaður VLFA hefur áhyggjur af, það er að segja að verið sé að leggja atvinnuöryggi og lífsviðurværi sinna félagsmanna í stórkostlega hættu vegna græðgisvæðingar Landsvirkjunar og ef forstjóri Landsvirkjunar skilur það ekki þá verður hann að eiga það við sig.

Formaður vill að það komi skýrt fram að honum er "skítsama" um eigendur þessara fyrirtækja en mér er alls ekki sama um atvinnuöryggi og lífsviðurværi minna félagsmanna!

Það er reyndar rétt að benda á það í lokin að þegar forstjóri Landsvirkjunar var spurður um það hvort það væri ekki eins að selja raforku í gegnum sæstreng og að selja fisk óunninn úr landi, hvort ekki væri heppilegra að búa til störf hér á landi.

Svar forstjóra Landsvirkjunar var kostulegt eins og annað sem hann sagði í þessu viðtali en hann sagði m.a. þetta: „Kannski lykillinn að því hvað fiskiðnaðurinn er farsæll sé að verðmætasti fiskurinn sem við seljum úr landi er lítið sem ekkert unninn hér á landi og fluttur ferskur í flugi úr landinu.“

Svo sagði hann: „Verðmæti verða einnig til á annan hátt en að „vinna“, þau verða líka til með því að fá gott verð.“

Takið eftir, atvinna handa fólkinu í landinu skiptir forstjóra Landsvirkjunar litlu sem engu máli, bara að selja allar auðlindir þjóðarinnar óunnar úr landi, hæsta verðið er það sem skiptir máli, skítt með atvinnuna handa fólkinu, hagsmuni sveitarfélaganna og heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar, þeim má fórna á altari egósins hjá forstjóra Landsvirkjunar.

En nú er tími til kominn að íslenskir stjórnmálamenn og stjórnvöld grípi í taumana í þessu máli áður en það verður of seint og þúsundir fjölskylda missi lífsviðurværi sitt og leggja afkomu sveitafélaga sem byggja tekjustofna sína á þessum iðnaði nánast í rúst.

15
Oct

Markmið lífskjarasamningsins var að vextir myndu lækka

Eitt að aðalmarkmiðum með lífskjarasamningum var að ná niður vöxtum á Íslandi og ná þannig að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og einnig að auðvelda fyrirtækjum að standa undir þeim launabreytingum sem um var samið með því að létta á fjármagnskostnaði þeirra.

En eins og flestir vita þá hafa stýrivextir Seðlabankans lækkað um 1,255 frá því að lífskjarasamningurinn var undirritaður.

Það má segja að markmið lífskjarasamningsins við að skapa vaxtalækkun hafi tekist að hluta til þótt hæglega megi segja að viðskiptabankarnir þrír hafi ekki skilað þessari vaxtalækkun Seðlabankans að öllu leiti og það nema síður sé. Í því samhengi má nefna að verðtryggðir húsnæðisvextir hafa lækkað um einungis 0,5% frá því að lífskjarasamningurinn var undirritaður. En þó má segja að þessi lækkun hafi skilað um 17.000 kr. lækkun á mánuði af 40 milljóna húsnæðisláni eða 200.000 á ári.

Þó er er rétt að vekja athygli á skýrslu frá Íbúðarlánasjóði en þar kemur fram að innan lífeyrissjóðanna hafa vextir á óverðtryggðum lánum lækkað að meðaltali um 0,92 prósentustig. Minnst hafa þau kjör lækkað frá maímánuði um 0,5 prósentustig á föstum vöxtum til þriggja ára hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum og mest um 1,7 á samskonar lánum hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Innan bankakerfisins hafa óverðtryggðir vextir húsnæðislána lækkað að meðaltali um eitt prósentustig frá því í maí, eða frá 0,75 prósentustigum á föstum vöxtum til þriggja ára hjá Landsbankanum og upp í 1,3 prósentustig á föstum vöxtum til fimm ára hjá Íslandsbanka.

Lægstu kjör á verðtryggðum fasteignalánum hafa lækkað bæði innan lífeyrissjóðanna og bankanna um 0,5 prósentustig frá því í byrjun maí. Hagstæðustu vaxtakjör sem bjóðast á verðtryggðum fasteignalánum innan lánakerfisins eru líkt og almennt hefur verið frá miðbiki ársins 2015 innan lífeyrissjóðanna. Þar eru lægstu breytilegu verðtryggðu vextir komnir niður í 1,64% og hagstæðustu kjör á óverðtryggðum lánum standa nú í 4,6% vöxtum.

Það er gríðarlega mikilvægt að neytendur og heimili endurfjármagni sig í ljósi þess að vextir hafa verið að lækka og morgunljóst að í sumum tilfellum geta heimili aukið ráðstöfunartekjur sínar um hundriði þúsunda á ársgrundvelli, sem var jú eitt af aðalmarkmiðum okkar sem stóðum að lífskjarasamningum.

14
Oct

Fundað með Seðlabankastjóra Íslands

Formenn Verkalýðsfélags Akraness og VR áttu mjög góðan fund með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og Rannveigu Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra á síðasta föstudag. Umræðuefni fundarins var m.a. verkefnin framundan og mikilvægi þess að stjórnendur peningamála séu í góðu sambandi við verkalýðshreyfinguna.

Þetta var afar góður fundur en eins og margoft hefur komið fram var eitt að lykilatriðum í lífskjarasamningum að ná niður vaxtastiginu hér á landi og hefur Seðlabankinn staðið við sitt í þeim efnum. En eins og flestir vita þá hafa stýrivextir Seðlabankans verið lækkaðir um 1,25% eftir að lífkjarasamningarnir voru undirritaðir en því miður hafa sérstaklega viðskiptabankarnir þrír ekki skilað því til neytenda,heimilanna og fyrirtækjanna nema að litlu leiti.

08
Oct

Formaður VLFA fundaði með atvinnuveganefnd Alþingis

Formaður félagsins var boðaður á fund hjá atvinnumálanefnd Alþingis þar sem umræðuefnið var m.a. sú mikla aukning sem er að eiga sér stað hvað varðar útflutning á óunnum fiski.

En samkvæmt gögnum sem formaður aflaði sér hjá Fiskistofu fyrir fundinn þá var útflutningur á fiski árið 2016 tæp 24 þúsund tonn, árið 2017 var útflutningur 33 þúsund tonn og árið 2018 var útflutningur kominn í 47 þúsund tonn en áætlað er að útflutningur fyrir árið 2019 verð rúmlega 50 þúsund tonn.

Það er morgunljóst að það er sorglegt að verið sé að flytja svona mikið magn af óunnum fiski á erlenda markaði enda liggur fyrir að hægt væri að skapa allt að 500 ný störf í fiskvinnslu ef þessi fiskur yrði unninn hér á landi.

Formaður fór víða í máli sínu á fundinum með atvinnuveganefnd Alþingis, m.a. vék hann að þeirri staðreynd að á 25 árum hefur störfum í fiskvinnslu fækkað um 6700,  en fyrir 25 árum voru 9600 manns sem höfðu fiskvinnslu að aðalstarfi en í fyrra var þessi fjöldi kominn niður í 2900.

Formaður vék einnig að því hvernig fyrirkomulag við stjórn fiskveiða hefur leikið hinar ýmsu sjávarbyggðir afar grátt og tók sem dæmi að á Akranesi hafi 350 manns haft atvinnu af veiðum og vinnslu hjá útgerðafyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni árið 2004 og það ár hafi 129 þúsundum tonna verið landað á Akranesi og fyrirtækið greiddi um 2,2 milljarða í laun.

Árið 2004 sameinaðist HB&CO útgerðafyrirtækinu Granda í Reykjavík en við sameininguna fór HB&CO með um 20 þúsund tonn af bolfiski inní sameininguna en núna er allt farið! Formaður gagnrýndi stjórnmálamenn harðlega þar sem skýrt er kveðið á um í 1 gr. laga um stjórn fiskveiða að markmið lagana sé m.a. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. 

 

Það getur ekki verið í anda laganna að nánast á einni nóttu er allt lífsviðurværi fólks flutt úr sveitafélaginu yfir í annað og það með skelfilegum afleiðingum fyrir alla sem fyrir því urðu sem og samfélagið allt.

Formaður félagsins vék einnig sérstaklega að verðlagningu á uppsjávarafla en það er að mati formanns ástundað stórfellt svindl enda hefur Verðlagsstofa skiptaverðs bent á það í skýrslu sem gefin var út að frá árinu 2012 til 2018 hafi verðmunur á ferskum makríl milli Íslands og Noregs verið að meðaltali 226% Íslandi í óhag.

Formaður benti einnig á að þetta ætti ekki eingöngu við makríl enda hefði íslenskt skip sem nýverið landaði síld í Noregi fengið 82 krónur fyrir kílóið, á meðan útgerðir hér á landi greiða einungis í kringum 36 krónur. Útgerðir sem eru með veiðar og vinnslu á sömu hendi hafa á ótrúlegan hátt komist upp með að greiða langt um lægra fiskverð miðað við Noreg og Færeyjar.

Með þessu er ekki bara verið að hafa fé af sjómönnum heldur benti formaður þingmönnum sem sitja í atvinnuveganefnd á þá staðreynd að með þessu væri verið að hafa skatttekjur af ríkissjóði og sveitafélögum sem og hafnargjöld, enda miðast þau við aflaverðmæti.

Formaður nefndi á fundinum að hann teldi fulla þörf á að t.d. atvinnuveganefnd myndi láta fara fram óháða rannsókn á þessu þótt vissulega megi segja að sú rannsókn hafi nú þegar verið framkvæmd af Verðlagstofu skiptaverðs sem sýndi og sannaði að svindlið og svínaríið á verðlagningu á uppsjávarafla ríður ekki við einteyming.

Á óskiljanlegan hátt virtust þingmenn ekki hafa nokkurn áhuga á þessum upplýsingum þrátt fyrir að formaður telji að frá árinu 2012 til 2018 hafi ríki og sveitafélög orðið af nokkrum milljörðum í skatttekjur vegna þess að ekki er verið að greiða rétt fiskverð miðað við það sem önnur lönd eru að greiða fyrir sömu fisktegundir.

 

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image