• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Feb

Formenn, VLFA, VR og bæjarstjóri Akranes funda með íbúum sem leigðu hjá Heimavöllum á morgun

Á morgun mun formaður Verkalýðsfélags Akraness, bæjarstjórinn á Akranesi og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR funda með íbúum á Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 vegna þess neyðarástands sem hefur skapast eftir að Heimavellir ákváðu að selja allar leiguíbúðir félagsins hér á Akranesi.

Formaður og bæjarstjórinn hafa verið að reyna að aðstoða þá einstaklinga sem eru að lenda í klónum á þessari siðlausu ákvörðun Heimavalla m.a. með því að leita að íbúðum til leigu handa þessum einstaklingum sem þarna eiga í hlut.

Það hefur gengið nokkuð vel og verða möguleikar í stöðunni kynntar fyrir íbúum á fundinum á morgun. Einnig mun formaður VR fara yfir hugmyndir að nýjum svokölluðum hlutdeildarlánum.

En til upprifjunar á málinu þá hefur formaður fjallað um þá framkvæmd sem leigufélagið Heimavellir gerðu og þann ótrúlegan gjörning og siðlausa athæfi sem laut að því að selja bæði Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 með þeim afleiðingum að nánast 26 fjölskyldur er í fullkominni angist og kvíða vegna þess að þau verða húsnæðislaus á næstu mánuðum.

Eins og flestir vita þá keyptu Heimavellir þessar íbúðir af Íbúðalánasjóði og sérkjörum á sínum tíma með þeim formerkjum að tryggja öflugan og tryggan leigumarkað hér á Akranesi.

En nú örfáum árum síðar hafa Heimavellir pakkað saman og selt nánast allar eignir sem þeir fengu á sérkjörum frá Íbúðalánasjóði á sínum tíma.

En hvað skyldi nú Heimavellir hafa selt íbúðirnar á til nýrra eigenda? Jú, ég hef aflað mér þær upplýsingar og hef kaupsamninga undir höndum og þar kemur í ljós að 18 íbúðir að Holtsflöt 4 voru seldar á 582 milljónir sem gerir að meðaltali rétt rúmar 32 milljónir á íbúð! En rétt er að geta þess að fasteignamat fyrir árið 2020 var rétt tæpar 860 milljónir eða 276 milljónum undir fasteignamati eða 47%.

Heimavellir seldu einnig 8 íbúðir á Eyrarflöt 2 til sömu aðila á 190 milljónir sem gerir að meðaltalsverð á pr. íbúð var 23,7 milljónir. Hins vegar nemur fasteignamat fyrir árið 2020 á þessum 8 íbúðum á Eyrarflötinni um 260 milljónum eða 37% undir fasteignamati.

Með öðrum orðum þá seldu Heimavellir þessum nýju eigendum Eyrarflöt 2 og Holtsflöt 4 þessar tvær blokkir 341 milljónum undir fasteignamati. En rétt er að geta þess að Holtsflöt 4 var byggð árið 2007 og er meðaltals fermetri á íbúð á Holtsflötinni 123 fermetrar. Eyrarflöt 2 var byggð árið 2004 og meðalfermetri á íbúð 78,6 fermetrar.

Það sem líka vekur undrun mína er að Íbúðarlánasjóður virðist blessa söluna á Eyrarflötinni því það voru kvaðir sem kváðu á um að óheimilt væri að hafa eigendaskipti á íbúð sem hvílir lán til leiguhúsnæðis, nema að til komi samþykki stjórnar Íbúðalánssjóðs. Það er ekki að sjá annað en að stjórn Íbúðalánssjóðs hafi heimilað þessi eigendaskipti og það þrátt fyrir að selja eigi allar íbúðirnar!

Það er algjörlega með ólíkindum að Heimavellir skuli hafa vogað sér að selja þessar eignir langt undir fasteignamati án þess að bjóða leigjendum kaup á íbúðunum með sama gríðarlega afslætti og þarna átti sér stað. Siðleysið og vanvirðingin gagnvart sínum leigjendum er algert og það er eins og forsvarsmenn Heimavalla hafa algerlega gleymt þeirri staðreynd að á bakvið þennan gjörning eru manneskjur og barnafólk sem þurfa að þjást og lifa við mikinn kvíða við að finna sér og sínum þak yfir höfuðið.

Ég ítreka enn og aftur það sem ég hef áður skrifað um þetta mál hafi Heimavellir algera skömm fyrir þessa ómanneskjulegu framkomu gagnvart grandalausum leigjendum!

29
Jan

Sjötti samningafundur við Norðurál var í gær

Í gær var haldinn sjötti kjarasamningafundurinn með forsvarsmönnum Norðuráls og hafa viðræðurnar gengið þokkalega til þessa.

Aðalfókusinn á síðustu fundum hefur verið á þær hugmyndir að breyta vaktakerfinu í kerskála og steypuskála - úr 12 tíma vaktakerfi í 8 tíma vaktakerfi eins og tíðkast í öllum sambærilegum verksmiðjum í orkusæknum iðnaði.

En hér yrði um gríðarlega breytingu um að ræða ef samkomulag næst en í 12 tíma vaktakerfinu eru starfsmenn að skila 182 vinnustundum á mánuði en í 8 tíma vaktakerfinu er starfsmenn að skila 145,6 vinnustundum á mánuði.

Þetta myndi leiða af sér að á nýju 8 tíma vaktakerfi myndu starfsmenn skila að meðaltali að frádregnu orlofi 1552 vinnustundum í stað 1876 vinnustundum á ári,  sem þýðir að vaktavinnumenn í Norðuráli myndu vinna 324 vinnustundum minna en þeir gera á 12 tíma vaktakerfinu. Sem þýðir einnig að starfsmenn skila að jafnaði 27 vinnustundum minna á mánuði eða heilum 2 mánuðum minna á ári en í 12 tíma vaktakerfinu.

Það er morgunljóst og sést á öllum hinum verksmiðjunum að þetta 8 tíma vaktakerfi er mun manneskjulegra og fjölskylduvænna að ógleymdu því að það er lýðheilsumál að draga úr miklu vinnuframlagi vaktavinnufólks sem vinnur alla daga ársins jafnt að degi, kveldi eða nóttu.

Hins vegar liggur fyrir að aðalkrafa starfsmanna NA er að samið verði með sama hætti og í síðasta kjarasamningi hvað launabreytingar varðar en þar verið að tala um að laun starfsmanna Norðurál hækki í takt við launavísitölubreytingar.

Næsti fundur hefur verið boðaður þriðjudaginn 4  febrúar.

23
Jan

100% þeirra sem kusu um kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitafélaga sögðu já!

Rétt í þessu lauk kosningu Verkalýðsfélags Akraness vegna kjarasamnings félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga, en þeir sem heyra undir þennan kjarasamning eru félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað, Hvalfjarðasveit og dvalar-og hjúkrunarheimilinu Höfða.

Það er skemmst frá því að segja að gríðarleg ánægja er með samninginn, sem endurspeglast í því að allir þeir sem kusu um samninginn sögðu já við samningum.

Það er afar ánægjulegt að sjá, að þeir félagsmenn sem heyra undir þennan kjarasamning við sveitafélögin skuli vera sammála forystu félagsins um ágæti þessa samningsins. Það er mat formanns félagsins að þessi samningur sé félagsmönnum afar góður þar sem verið er að stíga þétt og jöfn skerf í því að lagfæra kjör þeirra sem starfa hjá sveitafélögunum, en byggist á hugmyndafræðinni sem samið var um í Lífskjarasamningum.

Þessi niðurstaða gerir það að verkum að um næstu mánaðarmót munu starfsmenn fá eingreiðslu og afturvirkni sem hljóðar samtals uppá 151.000 krónur fyrir fullt starf sem og að laun munu hækka að lágmarki um 17.000 kr.

.

Á kjörskrá voru: 402 og 62 kusu eða 15,42%  - JÁ sögðu 62 eða 100%  Vissulega hefði þátttaka í atkvæðagreiðslu samningsins mátt vera meiri en engu að síður er niðurstaðan afdráttarlaus og það er forysta Verkalýðsfélags Akraness gríðarlega ánægð með.

22
Jan

Fimmti samningafundur vegna kjarasamnings við Norðurál haldinn í gær

Fimmti samningafundur stéttarfélaganna með forsvarsmönnum Norðuráls var haldinn í gær.

Aðalumræðuefnið á þessum samningafundi laut að því að hvort vilji væri fyrir því að halda áfram viðræðum að því að taka upp 8 tíma vaktakerfi í kerskála og steypuskála eins og tíðkast í öllum sambærilegum verksmiðjum á Íslandi.

Niðurstaðan var að halda þeirri vinnu áfram, en rétt er að geta þess að þetta er mjög flókið viðfangsefni enda um gríðarlega mikla breytingu um að ræða. En frá upphafi verkasmiðjunnar hefur verið 12 tíma vaktakerfi þar sem starfsmenn skila 182 tímum á mánuði en í 8 tíma vaktakerfinu er vinnustundafjöldin einungis 145,6 vinnustundir á mánuði. Hér munar hvorki meira en 36,4 vinnustundum á mánuði, miðað við það vaktakerfis er nú er við lýði og þess sem aðrar verksmiður vinna eftir.

Í dag er vinnuskylda starfsmanna 156 vinnustundir á mánuði þannig að starfsmenn fá fasta yfirvinnu í dag upp á 26 tíma en þeir munu eðli málsins falla niður og síðan þarf að finna lausn á tímanum á milli 156 tíma vinnuskyldunnar og 145,6 tímanna sem unnir eru í 8 tíma vaktakerfinu. En það er mjög mikilvægt að ná að eyða langflestum svokölluðum bætivöktum þannig að vinnuskylda starfsmanna verði ekki fleir en þessar 145,6 vinnustundir.

Þetta er það sem við erum að vinna að og ef þetta kerfi nær í gegn þá má áætla aðstarfsmenn muni vinna um 340 vinnustundum minna á ársgrundvelli en þeir gera í dag, sem þýðir að starfsmenn munu vinna rúmum 2 mánuðum minna á ársgrundvelli en þeir gera í 12 tíma vaktakerfinu.

Það er mat samninganefndar að 8 tíma vaktakerfið sé mun fjölskyldu- og manneskjuvæna en það kerfi sem nú er við lýði. Það er ákall í þjóðfélaginu að gera vinnustaði fjölskylduvænni með því að stytta vinnutíma og þá sérstaklega hjá vaktavinnufólki og þessi leið yrði svo sannarlega stórt skref í þeirri viðleitni.

En að sjálfsögðu skipta launin miklu máli, en með minni vinnu eru útborguð laun eðlilega lægri og gefa fyrstu útreikningar formanns Verkalýðsfélags Akraness til kynna að útborguð laun muni lækka á bilinu 50 - 60 þúsund á mánuði, en það skýrist að starfsmenn vinna 36 vinnustundum minna á mánuði sem nemur heili vinnuviku!  En ef starfsmenn taka auka vaktir sem nema 26 tímum munu þeir ekki verða fyrir lækkun launa.

En þessar umræður eru á viðkvæmu stigi og það getur brugðið til beggja átta en samninganefndin er algerlega einhuga um að láta á þetta reyna og leggja þetta síðan fyrir starfsmenn.

Rétt er að geta þess að starfsmenn Fjarðaráls skiptu úr 12 tíma vaktakerfi í 8 tíma kerfi og hefur það heppnast gríðarlega vel og er almenn ánægja meðal starfsmanna um þá breytingu.

Að sjálfsögðu kom aðalkrafa starfsmenna einnig til umræðu á þessum fundi sem lýtur að launavísitölutengingunni, en Norðurál hefur hafnað henni eins og hún var meðhöndluð í síðasta kjarasamningi. Formaður hefur áréttað að þetta sé forgangskafa sem ekki verði kvikað frá.

21
Jan

Kynningafundur um nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitafélaga var haldinn í gær

Í gær hélt Verkalýðsfélag Akraness kynningarfund um nýgerðan kjarasamning sem gildir fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðasveitar og dvalarheimilisins Höfða.

Fundurinn var haldinn á Gamla kaupfélaginu en á fundinum fór formaður ýtarlega yfir helstu atriði samningsins. Helstu atriði samningsins eru eftirfarandi:

  • 1. janúar 2020 hækka launataxtar um 17.000 kr.
  • 1. apríl 2020 hækka launataxtar um 24.000 kr.
  • 1. janúar 2021 hækka launataxtar um 24.000 kr.
  • 1. janúar 2022 hækka launataxtar um 25.000 kr.
  • 1. janúar 2023 hækka launataxtar um sömu upphæð og um verður samið á hinum almenna vinnumarkaði en þessi kjarasamningur gildir til 30. september 2023.

Leiðrétting vegna afturvirkni samningsins nemur 90.000 kr. fyrir fullt starf og kemur til útborgunar 1. febrúar næstkomandi.

Það var einnig samið um svokallaðan félagssjóð sem virkar þannig að launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum starfsmanna. Greiðsla úr sjóðnum fer fram 1. febrúar ár hvert. En fyrsta greiðsla úr sjóðnum kemur strax til útborgunar 1. febrúar næstkomandi og verður sú upphæð 61.000 kr. fyrir fullt starfshlutfall. Upphæðin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall.

Samtals munu því starfsmenn í fullu starfshlutfalli fá samtals 151.000 kr. greiddar út 1. febrúar fyrir afturvirkni og þennan nýja Félagssjóð.

Formaður fór einnig yfir að í þessum kjarasamningi var samið um að svokallaður hagvaxtaauki myndi einnig gilda fyrir félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit eins og um var samið í Lífskjarasamningum.

Formaður fór einnig ítarlega yfir að samið var um styttingu vinnuvikunnar með þeim hætti að frá 1. apríl 2020, mun hver vinnudagur styttast um 13 mínútur. Akraneskaupstaður og Verkalýðsfélag Akraness eru sammála um að vinna að því að taka upp svokallaðan mínútubanka. Þar sem starfsmenn geta safnað sér upp mínútum sem birtist á launaseðli starfsmanns.

Eins og áður sagði er stefnt að því að inneign mínútna verði sýnileg á launaseðli hvers starfsmanns og stefnt er að því að nokkrir kostir verði í boði um hvernig starfsmenn muni nýta sér uppsöfnun á 13 mínútna styttingu á dag. Fólk getur stytt hverja vinnuviku um 65 mínútur, eða safnað upp í heila daga. En rétt er að geta þess að þessi 13 mínútna stytting nemur um 7 heilum auka frídögum yfir árið fyrir fullt starf. Nánari útfærsla á þessu verður unnin í nánu samstarfi við Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit og vonandi liggur endanleg útfærsla fyrir 1. apríl.

Þetta voru helstu atriði í þessum nýja samningi, en rétt er vekja sérstaka athygli á því að tvær launahækkanir koma til á þessu ári, önnur sem nemur 17.000 kr. og hin eftir þrjá mánuði uppá 24.000 krónur. Þannig að á næstu þremur mánuðum munu launataxtar hækka um 41 þúsund krónur. Einnig er rétt að vekja athygli á því að innan eins árs hafa launataxtar starfsmanna Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðasveitar sem eru með 6% persónuálagsstig hækkað um tæpar 69.000 kr. á mánuði.

Formaður tók nokkur dæmi eins og t.d. að þá hækka grunnlaun sundlaugarvarða með 6% persónuálagsstigum frá undirritun til 1. janúar á næsta ári í launaflokki 128 úr 355.133 kr. í 424.033 og hafa því hækkað á einu ári um 68.920 krónur á einu ári.

Það kom fram í máli formanns að hann telji að þetta sé afar góður kjarasamningur þótt alltaf megi gera betur og baráttan fyrir bættum kjörum verkafólks lýkur aldrei.

Ekki var annað að heyra á félagsmönnum að þeir séu mjög sáttir með samninginn en það er ljóst að verið er að stíga jöfn og þétt skerf í að lagfæra kjörin í þessum mikilvægu störfum sem unnin er víða í stofnunum sveitarfélaganna.

Rétt er að minna félagsmenn sem taka laun eftir þessum kjarasamningi að hægt er að kjósa um kjarasamninginn fram til kl 16:00 fimmtudaginn 23. Janúar á skrifstofu félagsins.

21
Jan

Samninganefnd Sjómannasambands Íslands samþykkti ályktun

Í gær kom samninganefnd sjómanna saman í húsakynnum Alþýðusambands Íslands, en á þessum fundi var samninganefndin að leggja lokahönd á kröfugerð á hendur samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Algjör samstaða var um kröfugerðina og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum samningarnefndarmanna.

Það er ljóst að þetta verða erfiðar viðræður en eitt að aðalmálunum lýtur að verðlagningu á sjávarafurðum sem og að sjómenn fái eins og aðrir launamenn sama framlag í lífeyrissjóð en sjómönnum vantar 3,5% upp á.

Á fundinum í gær var mikið rætt um verðlagningu á uppsjávarafla og þann gríðarlega verðmun sem er á milli Íslands, Noregs og Færeyja íslenskum sjómönnum í óhag.

Á fundinum var samþykkt ályktun sem bar heitið „Glataðir milljarðar“.

 

Ályktunin er eftirfarandi:

 

Glataðir milljarðar?

„Samninganefnd Sjómannasambands Íslands skorar á íslensk stjórnvöld að láta fara fram óháða rannsókn á söluvirði afurða í íslenskum sjávarútvegi.

Miðað við fréttir undanfarinna mánaða má ætla að milliverðlagning á sjávarfangi sé mjög algeng. Ætla má að íslenskt þjóðarfélag verði af gríðarlegum fjármunum ef rétt reynist. Það er því skýlaus krafa samninganefndar Sjómannasambands Íslands að fram fari vönduð, óháð opinber rannsókn á endanlegu söluvirði útflutnings sjávarafurða og hvað af raunverulegum verðmætum skilar sér til Íslands.

Einnig áréttar samninganefnd Sjómannasambands Íslands áhyggjur sínar af endurvigtunarleyfum fiskvinnsluhafa á Íslandi. Ítrekað hefur verið sýnt fram á mismun á ísprósentu. Mjög mikill munur hefur verið staðfestur ef Fiskistofa stendur yfir eða ekki.

Í þessum málum báðum eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir bæði sjómenn og þjóðfélagið í heild sinni“

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image