• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Mar

Starfsgreinasamband Íslands og samninganefnd ríkisins skrifa undir kjarasamning

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 18 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við samninganefnd ríkisins með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023.

Þetta eru gleðitíðindi að tekist hafi loksins að klára þennan samning en nú eru liðnir 11 mánuðir frá því samningurinn rann út. Rétt er að geta þess sérstaklega að samningurinn er afturvirkur frá 1. apríl 2019, sem þýðir að launafólk hjá ríkinu þarf ekki að líða fyrir það fjárhagslega að svona lengi hafi dregist að ganga frá nýjum kjarasamningi. Hins vegar er rétt að geta þess að í júlí á síðasta ári kom inná greiðsla uppá 105 þúsund fyrir fullt starf sem dregst frá greiðslunni vegna afturvirkninnar.

Þetta er afar flókinn kjarasamningur sem byggist m.a. á því að verið er að gera mikla breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks og einnig vegna þess að tekin verður upp ný launatafla sem byggir á álagsþrepum en ekki aldursþrepum. Þessar breytingar verða gerðar í samræmi við upptöku á nýjum stofnannasamningi sem á eftir að gera á hverri stofnun fyrir sig.

En í þessum kjarasamningi verður öllum tryggðar að lágmarki 90 þúsund króna launahækkun á samningstímanum.

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

  • Laun hækka í samræmi við lífskjarasamninginn og hækka frá 1. apríl 2019.
  • Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
  • Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
  • Vinnuvika vaktavikufólks verður 36 stundir m.v. fullt starf og nýtt launamyndunarkerfi tekið upp. Breytingar á fyrirkomulagi vaktavinnu sem býður upp á manneskjulegra umhverfi með styttri vinnuviku, þar sem miðað er að bættri heilsu, auknu öryggi og betri samþættingu einkalífs og vinnu.
  • Tekin er upp ný launatafla sem byggir á álagsþrepum en ekki aldurþrepum, í tengslum við það eru stofnannasamningar endurskoðaðir og er ráðstafað allt að 142 milljónum króna vegna þessa.
  • Framlag í orlofssjóð hækkar.
  • Fellt út ákvæði um að heimilt sé að láta fólk gista í tjöldum.
  • Persónuuppbót sem greiðist 1. maí ár hvert og nemur 50.450 kr. fyrir fullt starf árið 2020. Desemberuppbót hækkar úr 115.850 kr. árið 2019 í 124.750 kr. árið 2022. Tekið er upp nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.
  • Tryggt var að hagvaxtarauki sé einnig í þessum kjarasamningi eins og öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið. 

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 26. mars.  Atkvæða greiðsla verður auglýst innan skamms.

Hér má skoða samningin

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image