• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Feb

Kjarasamningur við Elkem Ísland kynntur starfsmönnum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá var skrifað undir nýjan kjarasamning við Elkem Ísland 13. Apríl síðastliðinn og á síðasta miðvikudag kynnti formaður VLFA samninginn fyrir starfsmönnum.

En tveir kynningarfundir voru haldnir á Gamla kaupfélaginu þar sem formaður fór yfir innihald samningsins en gildistími samningsins er einungis eitt ár og rennur út um næstu áramót.

Kjarasamningurinn er með svona stuttan gildistíma vegna þess að fyrirtækið treystir sér ekki í lengri samning vegna óvissu í raforkumálum en eins og fram hefur komið fékk fyrirtækið umtalsverða hækkun á raforkusamningum við Landsvirkjun en hún nemur um 1,3 milljarði á ári.

Þessi kjarasamningur er því gerður í ljósi þessara aðstæðna og munu laun starfsmanna hækka um 2,5% frá 1. janúar 2020 auk þess verður orlof starfsmanna aukið og tvær svokallaðir skilavaktir aflagðar.

Kosningu um kjarasamninginn lýkur á næsta miðvikudag.

14
Feb

Verkalýðsfélag Akraness lánar fyrrverandi starfsmönnum Ísfisk tæpar 10 milljónir

Rétt í þessu gekk Verkalýðsfélag Akraness frá lánagreiðslum til 35 fyrrverandi starfsmanna Ísfisk sem ekki höfðu fengið laun né uppsagnarfrestinn sinn greiddan frá fyrirtækinu frá því í september í fyrra.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var Ísfiskur tekið til gjaldþrotaskipta nýverið og því var orðið endalega ljóst að vangreidd laun myndi ekki verða greidd frá fyrirtækinu. Margir starfsmenn hafa eðlilega lent í miklum hremmingum vegna þessa eins og alltaf gerist þegar fyrirtæki verða gjaldþrota.

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú unnið að því útbúa launakröfur fyrir félagsmenn sína í þrotabú fyrirtækisins og nema þær kröfur um 42 milljónum króna, en ef ekkert verður til í þrotabúi fyrirtækisins mun Ábyrgðarsjóður launa ábyrgjast vangreidd laun starfsmanna.

Í ljósi þessara hremminga og vandræða sem þetta hefur valdið fyrrverandi starfsmönnum Ísfisks ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að lána öllum starfsmönnum sem vildu lán að fjárhæð 250 þúsund með veði í kröfu á Ábyrgðarsjóð launa.

Stór hluti starfsmanna þáðu þetta boð félagsins og nemur lánveitingin tæpum 10 milljónum króna og er stjórn félagsins mjög ánægð með að geta aðstoðað þessa félagsmenn sína, sem hafa sumir hverjir þurft að taka yfirdráttarlán til aðgeta framfleytt sér og sínum.

Það er stefna stjórnar að standa ætíð með sínum félagsmönnum þegar svona mál koma upp en þetta er í þriðja sinn sem félagið hleypur undir bagga með sínum félagsmönnum þegar fyrirtæki sem það starfar hjá fer í gjaldþrot.

14
Feb

Áttundi samningafundur við Norðurál haldinn í gær

Áttundi samningafundurinn vegna kjarasamnings Norðuráls var haldinn í gær. Á þessum fundi var haldið áfram að fara yfir stöðuna sem lýtur að því að bjóða starfsmönnum möguleika á því að skipta um vaktakerfi eða úr 12 tíma kerfi yfir í 8 tíma kerfi. Þessi vinna er á lokametrunum.

Einnig voru aðrar kröfur ræddar í gær og kom formaður því á framfæri við forsvarsmenn Norðuráls að mikilvægt væri nú að klára samninginn þannig að hægt væri að leggja hann í dóm starfsmanna Norðuráls.

Vonast formaður til þess að á næsta fundi sem verður á fimmtudaginn í næstu viku að það fari að sjást til lands í þessum viðræðum þótt vissulega sé nokkur atriði ókláruð og brugðið getur til beggja átta hvað þau atriði varðar.

Það er hins vegar rétt að geta þess að þessar viðræður hafa gengið bara nokkuð vel til þessa þrátt fyrir að viðfangsefnið sé afar flókið enda um mikla kerfisbreytingu að ræða hvað vaktarkerfið varðar.

14
Feb

Kjarasamningur við Elkem Ísland undirritaður í gær

Í gær undirritaði Verkalýðsfélag Akraness, ásamt trúnaðarmönnum og hinum stéttarfélögunum sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem Ísland undir nýjan kjarasamning við forsvarsmenn Elkem.

Það er skemmst frá því að segja að kjarasamningurinn gildir einungis til næstu ármóta sem var ósk fyrirtækisins. En eins og kom fram hér á heimsíðunni í október á síðasta ári þá hækkaði raforkusamningur fyrirtækisins við Landsvirkjun gríðarlega eða sem nam 1,3 milljarði á ári.

Forstjóri Elkem sagði í kjölfarið á fundi að fyrirtækið þyrfti að grípa til róttækra hagræðingaraðgerða m.a. með því að fækka starfsmönnum um 15%. Hann sagði einnig að framtíð fyrirtækisins myndi ráðast á næstu 12 til 14 mánuðum og á þessari forsendu treysti fyrirtækið sér ekki til að gera lengri kjarasamning.

Þessi kjarasamningur er því gerður í ljósi þessara aðstæðna og munu laun starfsmanna hækka um 2,5% frá 1. Janúar 2020 auk þess verður orlof starfsmanna aukið og tvær svokallaðir skilavaktir aflagðar.

Verkalýðsfélag Akraness mun kynna kjarasamninginn næsta miðvikudag (19. febrúar) og verða tveir fundir haldnir á Gamla Kaupfélaginu, en sá fyrri hefst klukkan 13:00 og sá síðari klukkan 18:30.

10
Feb

Tímakaupsfólk hjá Akraneskaupstað fékk leiðréttingu á eingreiðslum sem nam rúmum 3,2 milljónum

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá kom upp ágreiningur við Sambands íslenskra sveitafélaga um það hvort tímakaupsfólk ætti rétt á eingreiðslu sem kom til útborgunar í febrúar í fyrra.

Verkalýðsfélag Akraness hélt því staðfastlega fram að tímakaupsfólk ætti eins og aðrir starfsmenn sveitafélaganna rétt á umræddri eingreiðslu en Samband íslenskra sveitafélaga var á öndverðu meiði hvað það varðaði.

Verkalýðsfélag Akraness sá sig knúið að fara með málið fyrir Félagsdóm og er skemmst frá því að segja að dómurinn tók undir allar dómskröfur félagsins í málinu.  Núna er búið að greiða eingreiðsluna til tímakaupsfólks á Akranesi og nemur leiðréttingin í heildina 1.347.970 kr.

Eftir að þessi dómur í Félagsdómi var kveðinn upp kom í ljós að önnur eingreiðsla sem greidd var út í ágúst á síðasta ári vegna dráttar á nýjum kjarasamningi var ekki heldur rétt reiknuð út hjá tímakaupsfólki og gerði Verkalýðsfélag Akraness athugsemdir við hana við Akraneskaupstað.  Ekki var ágreiningur um að sú eingreiðsla væri vitlaust reiknuð út og var hún því leiðrétt og nam sú leiðrétting 1.855.304 kr.

Samtals hefur því Verkalýðsfélag Akraness náð að verja réttindi tímakaupsfólks í þessum tveimur málum að fjárhæð 3.203.274 kr.

En leiðréttingum vegna vangreiddra launa hjá tímakaupsfólki er ekki lokið, því leiðrétta á eftir útreikning á orlofs-og desemberuppbótum tvö ár aftur í tímann.

08
Feb

Tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði VLFA lauk í gær

Í gær lauk tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði fyrir trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness.

Á þessu námskeiði var kenndur þriðji hluti námskeiða fyrir trúnaðarmenn,  en þessi hluti laut að lestri á launaseðlum og launaútreikningum sem kennt var fyrri daginn, en síðari dagurinn laut að almannatryggingum og lífeyrissjóðum.

Það voru 14 trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness sem voru skráðir á þetta námskeið,  það skiptir öll stéttarfélög miklu máli að vera með öfluga trúnaðarmenn enda eru þeir tengiliðir stéttarfélaganna inn á vinnustaðina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image