• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jun

Gengur lítið í viðræðum við Norðurál

Þrátt fyrir langar samningaviðræður við forsvarsmenn Norðuráls hefur ekki enn tekist að klára nýjan kjarasamning til handa starfsmönnum fyrirtækisins. En rétt er að geta þess að kjarasamningurinn rann út um síðustu áramót og eru því að verða liðið hálft ár frá því samningurinn rann út.

Vissulega ber þó að geta þess að Kórónufaraldurinn tafði viðræður um nokkrar vikur en það afsakar samt ekki að ekki sé enn búið að ganga frá nýjum samningi.

Það ber þó að geta þess að áhrif kórónufaraldursins hefur haft áhrif ekki bara hvað varðar töf á viðræðum heldur einnig á sjálfa kröfugerðina. En eins og flestir sem fylgjast með kjörum starfsmanna Norðuráls þá samdi félagið um svokallaða launavísitölutengingu í kjarasamningunum sem gerður var 2015 og áður en faraldurinn skall á var þetta ein af aðalkröfum félagsins að halda þeirri tengingu inni áfram.

Launabreytingar í síðasta kjarasamningi miðuðust við 95% af launavísitölunni sem Hagstofan birtir mánaðarlega, en frá 2015 til 2019 gaf launavísitalan að meðaltali 5,92% launahækkun til handa starfsmönnum Norðuráls.

En eins og áður sagði að eftir að kórónufaraldurinn skall á þá breytti Verkalýðsfélag Akraness kröfugerð sinni enda fóru að renna á formann félagsins tvær grímur um að ekki væri skynsamlegt að halda áfram að tengja launabreytingar starfsmanna við 95% af launavísitölunni. Ástæðan var m.a. sú að á árinu 2015 til 2019 var eitt mesta hagvaxtarskeið sem verið hefur á íslenskum vinnumarkaði frá bankahruninu, en núna er íslenskt efnahagslíf að sigla inní einn mesta efnahagssamdrátt síðustu 100 ára bara svo sé vitnað beint í Seðlabankann og fjármálaráðuneytið.

Þetta mun að öllum líkindum leiða til þess að launavísitalan mun ekki skila miklu enda líklegt að margar atvinnugreinar þurfi að lækka launakostnað sem mun skila sér í mun minni hækkunar launavísitölunnar en gert var ráð fyrir.

Þessu til viðbótar má nefna að starfsmenn Norðuráls taka laun sín eftir svokölluðu taxtakerfi en á liðnum árum þá hafa launataxtar bæði á almennum vinnumarkaði sem og hjá opinbera markaðnum hækkað umtalsvert meira en launavísitalan hefur verið að skila. Það gerist vegna þess að á undanförnum árum þá hefur verið samið um krónutöluhækkanir á launataxta í stað prósentuhækkana sem þýðir að hlutfallslega hafa launataxtar hækkað um meira en önnur laun í prósentum talið.

Þessu til viðbótar þá gefa launabreytingar sem samið var um í lífskjarasamningum miklu meiri hækkanir en launavísitalan mun nokkurn tíma geta gefið í þessum árferði og á þeirri forsendu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að gera þá sanngjörnu kröfu að samið yrði með sama hætti og gert var í lífskjarasamningum og 95% af vinnumarkaðnum hefur undirgengist.

Ef Verkalýðsfélag Akraness myndi semja um launavísitölutengingu þá myndi sú hækkun skila einungis rétt rúmum 13 þúsund króna hækkun á lægsta launataxta starfsmanna Norðuráls en lífskjarasamningurinn myndi tryggja 24 þúsund króna hækkun eða 11 þúsundum meira en launavísitalan myndi gera.

Síðan er fullkomin óvissa hvað launavísitalan verður á þessu ári og því næsta en við vitum að launahækkun lífskjarasamningsins myndi skila aftur 24 þúsund króna hækkun 1. Janúar 2021 og 25 þúsund króna hækkun 1. Janúar 2022.

Það er með ólíkindum að Norðurál skuli hafna því að koma með sömu launahækkanir og allir aðrir á vinnumarkaðnum hafa undirgengist en félagið er ekkert að fara fram á meira en það sem lífskjarasamningurinn kvað á um. Það sem hins vegar vekur ekki minni furðu er að Samtök atvinnulífsins sem eru einnig með í þessum viðræðum leggja ofuráherslu á að stéttafélögin semji um tengingu við launavísitöluna. Það yrði fróðlegt að sjá hvað Samtök atvinnulífsins myndu gera í næstu kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði, ef t.d. hátekjuhóparnir innan VR gerðu kröfu um að tengja laun sín við launavísitöluna.  Það er hins vegar morgunljóst að prósentuhækkanir gagnast hátekjuhópnum mun betur en lágtekjuhópunum og því verður eins og áður sagði fróðlegt að sjá viðbrögð SA ef þessi karfa myndi koma upp hjá hópum sem eru með háartekjur.

 

Það er klárt mál eftir skoðun félagsins að launavísitalan hefur skilað mun minna en launahækkanir á launatöxtum hefur skilað, en formaður hefur gert samanburð aftur til ársins 1998 sem sannar mikinn mun á milli þessara leiða.

Næsti fundur verður á næsta þriðjudag og ljóst að ef ekkert gerist á þeim fundi er allt eins líklegt að skráð verði árangurslaus fundur hjá ríkissáttasemjara og farið að huga að aðgerðum til að knýja í gegn sanngjarnan kjarasamning í anda lífskjarasamningsins sem nánast allur vinnumarkaðurinn hefur undirgengist eins og áður hefur komið fram.

Formaður VLFA hefur farið yfir alla þessa tölfræði með forsvarsmönnum Norðuráls og SA sem og þá staðreynd að rekstrarforsendur Norðuráls eru um þessar mundir mjög góðar miðað við ástand í efnahagslífi heimbyggðarinnar vegna kórónufaraldursins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image