• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Júlí

Kosið um yfirvinnubann og verkfall hjá félagsmönnum VLFA í Norðuráli

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál ítrekað reynt að ná samkomulagi við Norðurál um nýjan kjarasamning en nú eru liðnir 6 mánuðir frá því kjarasamningur starfsmanna rann út.

Búið er að funda oft og títt að undanförnu til að ná fram nýjum kjarasamningi, undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Á fundi síðasta þriðjudag lögðu stéttarfélögin fram lokatilboð sem byggðist á grunni lífskjarasamningsins, en á þeim fundi kom tilkynning frá Norðuráli um að þessu lokatilboði stéttarfélaganna hafi verið hafnað af hálfu forsvarsmanna Norðuráls.

Í ljósi þessarar höfnunar á lokatilboðinu hefur verið bókað hjá ríkissáttasemjara árangurslausar viðræður sem þýðir á mannamáli að stéttarfélögin hafa samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur heimild til að hefja undirbúning að kosningu um allsherjar yfirvinnubann og verkfalls á meðal starfsmanna Norðuráls.

Það liggur fyrir að tilboð Norðuráls er umtalsvert lægra en þær kauptaxtahækkanir sem um var samið í lífskjarasamningum og er það þyngra en tárum taki að jafn öflugt fyrirtæki eins og Norðurál skuli voga sér að hafna að hækka kauptaxtakerfi sinna starfsmanna með sama hætti og yfir 90% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera.

Eins og flestir vita þá hækkuðu grunnlaunataxtar verkafólks í lífskjarasamningum með eftirfarandi hætti:

  • Árið 2020 24.000 kr.
  • Árið 2021 24.000 kr.
  • Árið 2022 25.000 kr.
  • Samtals:   73.000 kr.

 

Norðurál hafnar alfarið að semja í anda lífskjarasamningsins og vill miða launabreytingar við 95% af launavísitölu Hagstofunnar og koma með aukalega handa verkamönnum 2000 kr. fyrir árið 2020 og 3000 kr. fyrir árið 2021. Norðurál vill gera 5 ára samning þar sem miðað verði síðan við 95% af launavísitölunni á samningstímanum.  Við vitum að launavísitalan var 4,25% í fyrra en Norðurál gerir ráð fyrir að launavísitalan verði 4,58% fyrir árið 2020 og 4% árið 2021. Þetta þýðir að launahækkanir fyrstu þrjú ár samningsins yrðu með eftirfarandi hætti ef forsendur Norðuráls ganga eftir:

  • Árið 2020 15.118 kr.
  • Árið 2021 17.829 kr.
  • Árið 2022 13.664 kr.
  • Samtals:   46.611 kr.

Á þessu sést að Norðurál ætlast til þess að byrjandalaun starfsmanna Norðuráls hækki um 26.389 kr. minna en lífskjarasamningurinn myndi gefa og það er eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness getur ekki, vill ekki og ætlar ekki að sætta sig við.

Það er þannig að prósentuhækkanir hafa valdið því að byrjandalaunataxti í Norðurál er að sogast niður í það sama og lægsti launataxti á íslenskum vinnumarkaði og er langt undir byrjendalaunum hjá verkafólki sem starfar hjá ríki, sveitafélögum, Faxaflóahöfum, Elkem, Klafa og svona mætti lengi telja.

Það er algjörlega ótækt að grunnlaun í Norðuráli séu að sogast þarna niður, enda getur vinna í stóriðjum verið kerfjandi, hættuleg og loftgæði eru alls ekki þau hreinustu sem þekkjast á íslenskum vinnumarkaði. Á þessum forsendum m.a. eiga launakjör í stóriðjum að vera mjög góð og hærri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði.

Það eru hinir almennu starfsmenn sem fyrst og fremst skapa arðsemi fyrirtækja og til fróðleiks þá hefur Norðuráli gengið gríðarlega vel rekstrarlega séð frá því fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi. Frá því að fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi árið 1998 hefur það skilað um 100 milljörðum í hagnað.

Það liggur líka fyrir að rekstrarforsendur fyrirtækisins eru mjög góðar um þessar mundir en samkvæmt móðurfélaginu þarf Norðurál á Grundartanga að meðaltali 1360 dollara fyrir tonnið af áli til að vera rekið á núlli.

Í dag er álverð um 1600 dollarar fyrir tonnið sem þýðir að framlegð Norðuráls verður milli 8 til 10 milljarðar miðað við þessar forsendur sem móðurfélagið gaf í apríl lok. Á þessu sést að það eru engar forsendur til þess að Norðurál hækki ekki laun til samræmis við lífskjarasamninginn eins og nánast allur vinnumarkaðurinn hefur undirgengist.

Það liggur fyrir að frá árinu 1998 hafa lægstu launataxtar á almenna vinnumarkaðnum hækkað um 388% á meðan byrjanda launataxti í Norðuráli hefur hækkað um 263% og 10 ára launataxtinn um 305%. Starfsmaður sem er búinn að starfa frá 1998 hjá Norðuráli hefur hækkað um 327% með starfsaldurshækkunum. Á þessu sést að það er umtalsvert minna en launahækkun kauptaxta á almenna vinnumarkaðnum og rétt að geta þess að launavísitala Hagstofunnar hefur hækkað um 336% frá árinu 1998 og 95% af launavísitölunni gefur einungis 319%

Á þessu sést að launavísitalan er að hækka umtalsvert minna en kauptaxtar og því er ekki ráðlegt að tengja við launavísitöluna eins og gert hefur verið því þá sogast launataxtar niður eins og við erum nú að verða vitni að.

Á fundinum hjá ríkissáttasemjara var bókað árangurslaus fundur og því munu Verkalýðsfélag Akraness og VR funda með starfsmönnum í næstu viku þar sem farið verður yfir stöðuna og mjög líklegt er að kosið verði um allsherjar yfirvinnubann og síðan verkfallsaðgerðir samkvæmt grein 11.8.2 í kjarasamningi félaganna við Norðurál.

Báðir fundirnir hefjast klukkan 20:20 og er gríðarlega mikilvægt að starfsmenn fjölmenni oft hefur verið nauðsyn að sýna samstöðu en nú er það skilyrði!

VLFA og VR munu funda á næsta mánudag og miðvikudag með starfsmönnum á Gamla kaupfélaginu og hefjast fundirnir kl. 20.20 þar sem farið verður yfir þessi mál öll.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image