• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Jul

Stéttarfélögin lögðu fram lokatilboð til Norðuráls í gær

Fundað var í deilu stéttarfélaganna við Norðurál í gær í húskynnum ríkissáttasemjara, en það er óhætt að segja að búið sé að funda oft í þessari deilu, enda eru liðnir 6 mánuðir frá því kjarasamningurinn rann út.

Nú er ljóst að það fer að draga til ögurstundar í þessari deilu, en eins og staðan er í dag þá ber talsvert á milli samningaaðila. Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt ofuráherslu á að grunntaxtar verkamanna taki hækkunum eins og gert var í lífskjarasamningum en því hafa Norðurálsmenn og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins alfarið hafnað til þessa.

Norðurál og fulltrúi SA vilja tengja launabreytingar við launavísitölu, en við þær efnahagslegu hamfarir sem nú eru uppi hér á landi sem og víðsvegar um heimsbyggðina vegna Covid 19 er algerlega galið að tengja launabreytingar við umrædda vísitölu.

Það er reyndar grátbroslegt að alþjóðlegt stórfyrirtæki eins og Norðurál skuli hafna að semja eins og allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera og bjóða launabreytingar sem eru umtalsvert lægri en samið var um í lífskjarasamningum.

Það er í raun sprenghlægilegt að Samtök atvinnulífsins sem tóku þátt í því skapa og fæða lífskjarasamninginn skuli nú ekki vilja kannast við króann og leggja hins vegnar til að semja um launabreytingar sem miðast við hækkun launavísitölunnar. Það verður fróðlegt að sjá þegar kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verða lausir eftir tvö ár hvort SA verði þá tilbúið að semja við hálaunahópanna t.d. hjá VR um launavísitöluhækkanir.

Á fundinum í gær lögðu félögin fram lokatilboð til Norðuráls sem byggist á lífskjarasamningum og ef því tilboði verður hafnað eða gerð tilraun til lækkunar á því munu stéttarfélögin lýsa yfir árangurslausum fundi hjá ríkissáttasemjara og funda með starfsmönnum þar sem lagt verður til að kosið verði um að hefjast aðgerða til að knýja fram sanngjarna og réttlátar kröfur stéttarfélaganna sem allur vinnumarkaðurinn hefur nú þegar undirgengist.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image