• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Apr

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að standa vörð um heimilin og launafólk

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að standa vörð um heimilin og launafólk vegna óvissunnar sem nú ríkir vegna Kórónufaraldursins.

 

  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness vill að þak verði sett á vísitölu neysluverðs við útreikning á verðtryggðum húsnæðislánum, í ljósi þess að samfélagið er hugsanlega að sigla inní eina dýpstu efnahagslægð síðustu 100 ára.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja að íslensk heimili eigi kost á að sækja um greiðsluhlé, bæði hvað varðar afborganir af lánum, sem og leigu húsnæðis í allt að eitt ár.
  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness skorar á að stjórnvöld að standa við loforð sín sem gerð voru samhliða Lífskjarasamningum er lúta að nýjum hlutdeildarlánum, sem og bann á 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að þau beiti sér af fullum þunga fyrir því að fjármálakerfið skili stýrivaxtalækkun Seðlabankans að fullu til neytenda og fyrirtækja.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja afkomu launafólks sem t.d. eru með undirliggjandi sjúkdóma og falla ekki undir lög um hlutabætur eða um laun í sóttkví.

Greinargerð:

Óvissan í íslensku efnahagslífi sem og óvissan á íslenskum vinnumarkaði kallar á að heimilin verði varin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti. Það er ekki bara að óvissa um þessa þætti heldur liggur einnig fyrir að grunnur neysluvísitölunnar er svo bjagaður að vart er mark á neysluvísitölunni takandi, enda fjöldinn allur af undirvísitölum neysluvísitölunnar orðin óvirkur vegna gjörbreytts neyslumynstur almennings. Íslensk heimili eiga að njóta vafans við þessar fordæmalausu aðstæður og því á að festa neysluvísitöluna við neðrivik mörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Það er mat stjórnar VLFA að hér fari ekki saman hljóð og mynd hjá stjórnvöldum og Seðlabankanum, enda lítið mál að setja slíkt þak á neysluvísitöluna til varnar heimilunum ef ekki sé gert ráð fyrir að á slíkt þak muni reyna á. Stjórn VLFA trúir ekki öðru en að núverandi stjórnvöld tryggi að fortíðarvandi verðtryggingar eins og gerðist í hruninu verði ekki látið raungerast með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensk heimili.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Nú liggur fyrir að uppundir 50 þúsund einstaklingar eru komnir að fullu eða að hluta á atvinnuleysisbætur með tilheyrandi tekjuskerðingum og á þeirri forsendu er afar mikilvægt að heimilum sem þess þurfa verði boðið uppá að taka greiðsluhlé í allt að 12 mánuði til að forða fólki frá því að missa húsnæði sín. Hægt er að setja afborganir sem safnast upp á umræddu tímabili ofan á höfuðstólinn og lengja í lánum þeirra til jafns við greiðsluhléið sem viðkomandi nýtir sér.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Í Lífskjarasamningunum skuldbundu stjórnvöld sig með aðgerðapakka þar sem m.a. var loforð um að koma til móts við fyrstukaupendur með svokölluðum hlutdeildarlánum. Það er afar mikilvægt að koma þessu frumvarpi í gegn enda mun það örva byggingarmarkaðinn og hjálpa fyrstukaupendum eða eignast þak yfir höfuðið. Það var líka loforð um að banna hinn baneitraða kokteill sem 40 ára verðtryggðu jafngreiðslulán en núna er tækifærið að stíga þau skerf samhliða frumvarpinu um hlutdeildarlánin.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Eitt af aðalmarkmiðum Lífskjarasamningsins var að semja með þeim hætti að hægt yrði að ná niður vaxtastiginu til að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og fyrirtækja. Það tókst en stýrivextir Seðlabankans voru 4,5% þegar Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir en eru í dag 1,75% og hafa því lækkað um 2,75%. Það sorglega í þessu er að bæði viðskiptabankarnir og lífeyrissjóðirnir hafa því miður einungis skilað litlum hluta af þessari vaxtalækkun til neytenda og fyrirtækja og því mikilvægt að stjórnvöld grípi inní og krefji fjármálageirann að skila vaxtalækkuninni í meira mæli til heimila og fyrirtækja.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Það eru mjög margir sem eiga hvorki rétt á launum vegna þess að þau falla ekki undir lög um hlutabætur né lög um laun í sóttkví, vegna þess að það er með undirliggjandi sjúkdóma, eða eru með langveik börn og framvegis að fara í sjálfskipaða sóttkví. Þessum hópi mega stjórnvöld alls ekki gleyma í þeim úrræðum sem á eftir að kynna.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

15
Apr

Breytingar á kjörum iðnaðarmanna 1. apríl

Samkvæmt kjarasamningum fyrir iðnaðarmenn sem gerðir voru við Samtök atvinnulífsins í fyrravor verður tekinn upp virkur vinnutími 1. apríl næstkomandi. Starfsmaður í fullu starfi fær greiddar 37 vinnustundir á viku fyrir fullt starf. Deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33 tímar. Jafnframt er í samningum heimild til að semja um 36 stunda vinnuviku. 

Við upptöku virks vinnutíma eru 37 klst. greiddar að jafnaði á viku m.v. fullt starf í stað 40 klst. og deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33. Tímakaup í dagvinnu  hækkar því um 8,33% eða sem nemur greiðslu fyrir kaffitíma sem færist yfir í tímakaup fyrir virkan vinnutíma, kaffitímar verða áfram teknir með sama fyrirkomulagi og áður, 35 mínútur á hverjum virkum degi. Ef færri tímar eru greiddir á viku / mánuði m.v. fullt starf skal reikna hækkun þannig að dagvinnulaun fyrir 37 klst. á viku / 160 klst. á mánuði verði þau sömu og áður var greitt fyrir fleiri tíma. Þar sem starfsmaður nýtur aukagreiðslna m.v. 40 klst. á viku (t.d. verkfæra- eða fatagjalds) taka þær hækkun 8,33% til samræmis.

Engar breytingar eru gerðar á fyrirkomulagi kaffihléa í yfirvinnu, þau verða áfram greiddur tími og sé unnið í þeim greiðist tilsvarandi lengri tími sem unninn er.

Sjá nánar hér

14
Apr

Orlofshús VLFA sumarið 2020

Nú er búið að opna fyrir umsóknir sumarhúsa fyrir sumarið 2020.

Við munum ekki senda út bæklinga og umsóknareyðublöð þetta árið, en félagsmönnum er meira en velkomið að nálgast það hjá okkur á Sunnubrautinni, þrátt fyrir að skrifstofan sé lokuð, þá erum við samt í vinnu og getum afhent þetta.

Hvernig á að sækja um :

  • Það er hægt að sækja um á félagavefnum, þar er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.
  • Það er hægt að senda okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
  • Það er hægt að hringja í okkur í síma 430-9900
  • Það er hægt að fylla út umsókn og senda okkur, umsóknin er hér
  • Hér er hægt að nálgast bæklinginn okkar á rafrænu formi

Það borgar sig að ferðast innanlands í sumar, enda hljótum við að fá alveg bongóblíðu þetta sumarið.

Við viljum líka minna á að félagsmenn VLFA geta keypt bæði Veiðikortið og Útilegukortið á ca 50% afslætti hjá okkur. 

Einnig erum við með gistimiðana eins og fyrri ár.  

09
Apr

Samkvæmt Lífskjarasamningum hækka launataxtar um 24.000 kr. frá 1. apríl

Launataxtar Verkalýðsfélags Akraness samkvæmt Lífskjarasamningum hækkuðu um 24.000 kr. samkvæmt launatöflu í samræmi við kjarasamning stéttarfélagsins við Samtök atvinnulífsins þann 1. apríl síðastliðinn. Aðrir launaliðir sem kveðið er á um í kjarasamningi, svo sem bónusar í fiskvinnslu, hækkuðu um 2,5%.

 

Rétt er einnig að minna á að launataxtar félagsins við ríkið, Akraneskaupstað, Hvalfjarðasveit og Dvalar-og hjúkrunarheimilið Höfða, munu einnig hækka frá 1. apríl um 24.000 kr. að lágmarki.

 

Eiga hækkanirnar að koma til útborgunar í launum fyrir aprílmánuð, sem í flestum tilfellum eru greidd út eftir á eða mánaðamótin apríl-maí.  Næsta hækkun á launatöxtum í þessum kjarasamningum kemur síðan til framkvæmda 1. janúar 2021 eða eftir 8 mánuði og nemur sú hækkun einnig 24.000 kr.

 

Verkalýðsfélag Akraness hvetur félagsmenn til að gæta að því að hækkanirnar séu greiddar að fullu og birtist með réttum hætti á launaseðli aprílmánaðar þegar hann er gefinn út af atvinnurekanda.

 

Í samræmi við ofangreindan kjarasamning gildir einnig eftirfarandi frá 1. apríl.

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf skal vera 335.000 kr.

06
Apr

Verkalýðsfélag Akraness fer að tilmælum Almannavarna og afturkallar leigusamninga í orlofshús um páskanna.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að afturkalla alla leigusamninga um páskanna eftir að skýr tilmæli komu frá Almannvörnum um að stéttfélögin leigi ekki út orlofshús sín um páskanna.

VLFA telur sig bera skyldu til að halda áfram að taka ábyrga af­stöðu gagn­vart út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar. Því för­um við að til­mæl­um stjórn­valda og drög­um samn­ing­ana til baka meðal annars til að minnka hættu á slys­um á þjóðveg­um lands­ins og hægja á út­breiðslu veirunn­ar.

Að sjálfsögðu mun félagið endurgreiða öllum þeim sem voru búnir að fá úthlutað um páskanna, en nánast allir sem félagið hefur haft samband við sýna þessu fullkomin skilning. Okkur ber siðferðisleg skylda að fara að tilmælum Almannavarna og því þurfum við að taka þessu erfiðu ákvörðun.

Rétt er að geta þess að fjölmörg stéttarfélög hafa gert hið saman þ.e.a.s fara að tilmælum Almannavarna og afturkalla leigusamninga um páskanna.

02
Apr

Formaður VLFA segir af sér sem 1. varaforseti ASÍ

Verjum störfin, verjum kaupmáttinn og verjum heimilin

Hér að neðan eru skrif formanns Verkalýðsfélags Akraness frá því í gær, þar sem hann útskýrir afhverju hann tók þá ákvörðun að segja af sér sem 1. varaforseti ASÍ.

"Í morgun var viðtal við forseta ASÍ á RUV þar sem hún segir að ASÍ hafi hafnað tillögu Samtaka atvinnulífsins um að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrisgreiðslum verði lækkað tímabundið til að bregðast við verri rekstrarskilyrðum fyrirtækja vegna kórónuveirufaraldursins.  En orðrétt sagði forseti ASÍ einnig í þessu viðtali:  „þetta er of alvarleg aðgerð til að hægt sé að grípa til hennar“

Ég verð að lýsa undrun minni á þessum orðum því á fundi síðasta föstudag lagði forseti ASÍ fram tillögu um að fresta öllum launahækkunum á íslenskum vinnumarkaði tímabundið.  Það vekur því forundrun mína að telja það í lagi að leggja fram tillögu um að fresta og taka allar launahækkanir af launafólki á öllum íslenskum vinnumarkaði, en segja núna nokkrum dögum síðar að það sé of „alvarlega aðgerð“ að lækka mótframlag atvinnurekenda tímabundið í lífeyrissjóð.

Þessi staða sem er að teiknast upp á íslenskum vinnumarkaði er vægast sagt hrollvekjandi, enda er alltof stór hluti tannhjóla atvinnulífsins við það að stöðvast og ég tel það ábyrgðarlaust að gera ekki neitt til að verja störf launafólks. En í dag eru 23 þúsund manns komnir í skert hlutastarf og uppundir 15 þúsund á fullar atvinnuleysisbætur.

Þessi staða á vinnumarkaðnum er nú þegar orðin mun verri en hún varð í hruninu og það er ljóst að við verðum að finna leiðir til að verja störfin, verja kaupmáttinn og verja heimilin. Við verðum að finna leiðir til að verja lífsviðurværi og síðast en ekki síst atvinnuöryggi launafólks eins og kostur er á meðan þessi faraldur gengur yfir.

Það liggur fyrir að fjölmargir atvinnurekendur hafa óskað eftir við stéttarfélögin að við þessar fordæmalausu aðstæður sem við eigum nú við að etja verði að fresta þeim launahækkunum sem eiga að koma til framkvæmda á morgun.

Ég hef alltaf sagt að það komi ekki til greina, enda þarf launafólk á þessum launahækkunum á að halda. Hins vegar höfum við Ragnar Þór hjá VR viljað fara aðra leið vegna þess skelfingar ástands sem ríkir á vinnumarkaðnum vegna faraldursins.

Sú leið byggist á því að í stað þess að fresta launahækkuninni þá verði mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð lækkað úr 11,5% í 8% tímabundið meðan faraldurinn gengur yfir. En markmiðið með þessari leið væri að verja atvinnuöryggi launafólks og tryggja um leið að launahækkanir skili sér til launafólks sem og að verja kaupmátt okkar félagsmanna.

Það er rétt að vekja athygli á því að krafa okkar fyrir slíkri leið að lækka mótframlagið tímabundið var háð því skilyrði að vísitölutengja þá frestun sem þýðir að ef t.d. verslun og þjónusta hefði varpað kostnaðarhækkunum út í verðlagið í miklu mæli þá hefði þetta úrræði dottið niður að hluta til.  Sem sagt lífeyrisleiðin var með verðlagsvörn fyrir okkar félagsmenn til að verja kaupmátt okkar félagsmanna.

En aðalmarkmiðið með þessari aðgerð væri að verja störf við þessar fordæmalausu aðstæður sem við stöndum nú frammi fyrir á íslenskum vinnumarkaði og ef þessi aðgerð myndi leiða til þess að okkur tækist að verja 200, 400, 500 eða jafnvel þúsundir starfa þá væri hún skynsamleg. 

Það er ábyrgðarlaust að gera ekki neitt enda er vinnumarkaðurinn að breytast í blóðugan vígvöll og það bitnar eins og alltaf á almennu launafólki eins og tölur Vinnumálastofnunnar staðfesta.

Ég skynjaði í samtölum mínum við stjórnvöld á undanförnum dögum að það væri fullur vilji þeirra til að styðja við, ef verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur næðu saman, með nokkrum aðgerðum eins og að koma hlutdeildarlánunum í gegn sem Covid mál sem og að verja heimilin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti.

Það má því segja að þessi skynsama leið sem lækkun mótframlags í lífeyrissjóðina hefði fangað alla þessa þrjá þætti þ.e.a.s verja störfin, verja kaupmáttinn og verja heimilin.

Mér finnst það þyngra en tárum taki að hafa lagt fram tillögu um taka tímabundið launahækkanir af launafólki í stað þess að fara þessa lífeyrisleið sem skilar eins og áður hefur komið fram sama ávinningi.  En það virðist vera sem sumir í verkalýðshreyfingunni líti á lífeyrissjóðina sem „heilaga“ sem aldrei megi gagnrýna né snerta. 

Í ljósi alls þessa og þess djúpstæða ágreinings milli hluta aðila í samninganefnd ASÍ hef ég með miklum trega sent forseta ASÍ bréf þar sem fram kemur að ég segi af mér sem 1. varaforseti ASÍ.

Að lokum vil ég segja að ég hef sem 1. varaforseti ASÍ hef lagt mig allan fram við vinna heiðarlega og af krafti við verja hagsmuni launafólks og ítreka það er mig tekur sárt að þurfa að taka þessa ákvörðun núna því ég veit að baráttunni fyrir hagsmunum launafólks lýkur aldrei!

Sendi öllum þeim sem er að missa lífsviðurværi sitt og verða fyrir skerðingu á starfshlutfalli ósk um að þetta ótrúlega ástand gangi fljótt yfir og okkur takist saman að lágmarka þau áföll sem launafólk verður fyrir vegna faraldursins.

Stöndum saman um að verja störfin, verja kaupmáttinn og verja heimilin!"

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image