• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jun

Gengur lítið í viðræðum við Norðurál

Þrátt fyrir langar samningaviðræður við forsvarsmenn Norðuráls hefur ekki enn tekist að klára nýjan kjarasamning til handa starfsmönnum fyrirtækisins. En rétt er að geta þess að kjarasamningurinn rann út um síðustu áramót og eru því að verða liðið hálft ár frá því samningurinn rann út.

Vissulega ber þó að geta þess að Kórónufaraldurinn tafði viðræður um nokkrar vikur en það afsakar samt ekki að ekki sé enn búið að ganga frá nýjum samningi.

Það ber þó að geta þess að áhrif kórónufaraldursins hefur haft áhrif ekki bara hvað varðar töf á viðræðum heldur einnig á sjálfa kröfugerðina. En eins og flestir sem fylgjast með kjörum starfsmanna Norðuráls þá samdi félagið um svokallaða launavísitölutengingu í kjarasamningunum sem gerður var 2015 og áður en faraldurinn skall á var þetta ein af aðalkröfum félagsins að halda þeirri tengingu inni áfram.

Launabreytingar í síðasta kjarasamningi miðuðust við 95% af launavísitölunni sem Hagstofan birtir mánaðarlega, en frá 2015 til 2019 gaf launavísitalan að meðaltali 5,92% launahækkun til handa starfsmönnum Norðuráls.

En eins og áður sagði að eftir að kórónufaraldurinn skall á þá breytti Verkalýðsfélag Akraness kröfugerð sinni enda fóru að renna á formann félagsins tvær grímur um að ekki væri skynsamlegt að halda áfram að tengja launabreytingar starfsmanna við 95% af launavísitölunni. Ástæðan var m.a. sú að á árinu 2015 til 2019 var eitt mesta hagvaxtarskeið sem verið hefur á íslenskum vinnumarkaði frá bankahruninu, en núna er íslenskt efnahagslíf að sigla inní einn mesta efnahagssamdrátt síðustu 100 ára bara svo sé vitnað beint í Seðlabankann og fjármálaráðuneytið.

Þetta mun að öllum líkindum leiða til þess að launavísitalan mun ekki skila miklu enda líklegt að margar atvinnugreinar þurfi að lækka launakostnað sem mun skila sér í mun minni hækkunar launavísitölunnar en gert var ráð fyrir.

Þessu til viðbótar má nefna að starfsmenn Norðuráls taka laun sín eftir svokölluðu taxtakerfi en á liðnum árum þá hafa launataxtar bæði á almennum vinnumarkaði sem og hjá opinbera markaðnum hækkað umtalsvert meira en launavísitalan hefur verið að skila. Það gerist vegna þess að á undanförnum árum þá hefur verið samið um krónutöluhækkanir á launataxta í stað prósentuhækkana sem þýðir að hlutfallslega hafa launataxtar hækkað um meira en önnur laun í prósentum talið.

Þessu til viðbótar þá gefa launabreytingar sem samið var um í lífskjarasamningum miklu meiri hækkanir en launavísitalan mun nokkurn tíma geta gefið í þessum árferði og á þeirri forsendu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að gera þá sanngjörnu kröfu að samið yrði með sama hætti og gert var í lífskjarasamningum og 95% af vinnumarkaðnum hefur undirgengist.

Ef Verkalýðsfélag Akraness myndi semja um launavísitölutengingu þá myndi sú hækkun skila einungis rétt rúmum 13 þúsund króna hækkun á lægsta launataxta starfsmanna Norðuráls en lífskjarasamningurinn myndi tryggja 24 þúsund króna hækkun eða 11 þúsundum meira en launavísitalan myndi gera.

Síðan er fullkomin óvissa hvað launavísitalan verður á þessu ári og því næsta en við vitum að launahækkun lífskjarasamningsins myndi skila aftur 24 þúsund króna hækkun 1. Janúar 2021 og 25 þúsund króna hækkun 1. Janúar 2022.

Það er með ólíkindum að Norðurál skuli hafna því að koma með sömu launahækkanir og allir aðrir á vinnumarkaðnum hafa undirgengist en félagið er ekkert að fara fram á meira en það sem lífskjarasamningurinn kvað á um. Það sem hins vegar vekur ekki minni furðu er að Samtök atvinnulífsins sem eru einnig með í þessum viðræðum leggja ofuráherslu á að stéttafélögin semji um tengingu við launavísitöluna. Það yrði fróðlegt að sjá hvað Samtök atvinnulífsins myndu gera í næstu kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði, ef t.d. hátekjuhóparnir innan VR gerðu kröfu um að tengja laun sín við launavísitöluna.  Það er hins vegar morgunljóst að prósentuhækkanir gagnast hátekjuhópnum mun betur en lágtekjuhópunum og því verður eins og áður sagði fróðlegt að sjá viðbrögð SA ef þessi karfa myndi koma upp hjá hópum sem eru með háartekjur.

 

Það er klárt mál eftir skoðun félagsins að launavísitalan hefur skilað mun minna en launahækkanir á launatöxtum hefur skilað, en formaður hefur gert samanburð aftur til ársins 1998 sem sannar mikinn mun á milli þessara leiða.

Næsti fundur verður á næsta þriðjudag og ljóst að ef ekkert gerist á þeim fundi er allt eins líklegt að skráð verði árangurslaus fundur hjá ríkissáttasemjara og farið að huga að aðgerðum til að knýja í gegn sanngjarnan kjarasamning í anda lífskjarasamningsins sem nánast allur vinnumarkaðurinn hefur undirgengist eins og áður hefur komið fram.

Formaður VLFA hefur farið yfir alla þessa tölfræði með forsvarsmönnum Norðuráls og SA sem og þá staðreynd að rekstrarforsendur Norðuráls eru um þessar mundir mjög góðar miðað við ástand í efnahagslífi heimbyggðarinnar vegna kórónufaraldursins.

09
Jun

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í dag

Rétt í þessu lauk aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness en fundurinn var haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Í skýrslu stjórnar fór formaður ítarlega yfir liðið starfsár og kom fram í máli hans að starfsemi og rekstur félagsins hafi á árinu 2019 gengið mjög vel. Fram kom að félagsmenn VLFA séu alls 3100 með gjaldfrjálsum félagsmönnum.

Fram kom í máli formanns að 1250 félagsmenn hafi fengið greitt úr sjúkrasjóði félagsins, 318 félagsmenn hafi nýtt sér menntastyrki frá félaginu, 328 félagsmenn nýttu sé niðurgreiðslu er lýtur að veiðikorti, útilegukorti og afsláttarmiðum á Fosshótelum og að lokum þáðu 100 eldri félagsmenn boð um dagsferð sem félagið býður eldri félagsmönnum árlega uppá.

Þetta þýðir að um 65% af heildar félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness nýttu sér þjónustu félagsins að einhverju leyti og eru þessi atriði fyrir utan alla aðstoð sem veitt er daglega á skrifstofu félagsins, sem og þá sem nýtta sér fría lögfræðiaðstoð sem félagið býður sínum félagsmönnum uppá. Það má klárlega færa góð og gild rök fyrir því að yfir 80% félagsmanna hafi notið þjónustu félagsins, með einum eða öðrum hætti á liðnu starfsári.

Það kom líka fram á aðalfundinum að félagið hefur fest kaup á nýju húsnæði að Þjóðbraut 1, en nýja húsnæðið er alls 311 fermetrar.  Húsnæðið er hluti af  versluninni  Model en verslunin er að minnka við sig um þessa 311 fermetra. Húsnæðið að Sunnubraut 13 þar sem skrifstofa félagsins er nú til húsa er orðið of lítið, enda er neðri hæð húsnæðisins einungis rétt rúmir 100 fermetrar. Það kom fram í máli formanns að nýja húsnæðið verður afhent um mánaðarmótin, en þá er eftir vinna við að stúka það niður, gera fundarherbergi og skrifstofur fyrir starfsmenn, en áætlað er að félagið flytji um mánaðarmótin ágúst/september. Hér er um flott framtíðarhúsnæði að ræða fyrir félagið, en rétt er að geta þess að Sunnubraut 13 fer uppí kaupverðið og einnig má það koma fram hér að eignin að Kirkjubraut 40 sem VLFA átti, var selt á þessu ári. Fjármunir af þessum sölum er síðan notaðir til að fjármagna þessi kaup og endurbætur að Þjóðbraut 1. Það er mikilvægt að félagið sé með góða staðsetningu, gott aðgengi og góða aðstöðu fyrir starfsemi sína, en félagið verður 100 ára 2024 og því mikilvægt að húsnæði félagsins uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi stéttarfélaga nú til dags.

Það kom líka fram í skýrslu stjórnar að félagið stendur vel, bæði félagslega sem og fjárhagslega, en heildar rekstrarafgangur af allri samstæðu félagsins nam 168 milljónum og eigið fé Verkalýðsfélags Akraness nemur rúmum 1,6 milljarði.

04
Jun

Fundað í kjaradeilu Norðuráls hjá ríkissáttasemjara

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vísuðu stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls, deilu sinni til ríkissáttasemjara í síðustu viku. En þar á undan höfðu samningsaðilar fundað sextán sinnum saman og má því segja að þetta hafi verið sautjándi samningafundur deiluaðila.

Það sem útaf stendur í þessari deilu er atriði sem lúta að launalið samningsins en Verkalýðsfélag Akraness og VR eru samstiga í því að samið verði við Norðurál í anda þeirra krónutöluhækkana eins og gert var í lífskjarasamningum. En fyrir Kórónufaraldurinn var krafa stéttarfélaganna að samið yrði með sambærilegum hætti og gert var í síðasta samningi þ.e.a.s með tengingu við launavísitöluna.

En á fundinum í morgun rakti formaður VLFA ítarlega ástæðu þess að félagið vill ekki tengja launabreytingar sinna félagsmanna við launavísitöluna en aðalástæðan liggur í því að íslenskt samfélag er að sigla inní eitt mesta efnahagssamdrátt síðustu 100 ára að mati Seðlabankans með tilheyrandi atvinnuleysi og kaupmáttarrýrnun launafólks næstu 2 til 3 ára.

Einnig liggur fyrir að þróun hækkunar á kauptöxtum jafnt á almenna vinnumarkaðnum sem og hjá ríki og sveitarfélögum  og öðrum viðmiðunarhópum frá árinu 2014 til 2020 hefur sýnt að launahækkanir taxtakerfisins virðast skila sér illa inní hækkun launavísitölunnar.

Því miður hafa forsvarsmenn Norðuráls til þessa hafnað að semja í anda lífskjarasamningsins og er það miður. En á fundinum í morgun kom skýrt fram að VLFA og VR ætla ekki, vilja ekki og geta ekki samið með öðrum hætti en eins og gert var í lífskjarasamningum. Við vitum hvað þær launabreytingar munu skila okkar félagsmönnum en höfum ekki hugmynd um hvernig launavísitalan mun þróast á næstu vikum, mánuðum eða árum vegna þessa ástands sem uppi er á alþjóðavísu vegna Covid 19.

Formaður átti góðan fund með félagsmönnum sínum í gær en fundurinn var haldinn í Bíóhöllinni og fékk formaður skýrt umboð frá sínum félagsmönnum að fylgja fast eftir að samið yrði með sambærilegum hætti og gert var í lífskjarasamningum.

Næsti fundur hjá ríkissáttasemjara verður miðvikudaginn 10. júní 2020.

29
May

Fundur í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Norðuráli eru minntir á fundinn á næsta miðvikudag, þar sem alvarlega staða í kjaraviðræðum við Norðurál verður til umfjöllunar.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 3. júní og hefst klukkan 17.00 en fundurinn verður haldinn í Bíóhöllinni á Akranesi.

Formaður mun gera ítarlega grein fyrir stöðunni og fara vel yfir hana og hvetur formaður alla sem tök hafa á að mæta. Þetta er hálfgerð skyldumæting, því nú reynir á samstöðu meðal félagsmanna!

29
May

Kjaradeilu félagsins við Norðurál vísað til ríkissáttasemjara

Á síðasta mánudag var haldinn sautjándi samningafundur vegna kjarasamnings stéttarfélagana við Norðurál.

Eins og fram hefur komið þá hefur lítið þokast áfram í viðræðunum þrátt fyrir að 5 mánuðir séu liðnir frá því að kjarasamningurinn rann út á milli aðila.

Vissulega er þó rétt að geta þess að Kórónufaraldurinn hefur eðlimálsins samkvæmt tafið viðræðurnar en það réttlætir samt ekki þann mikla seinna gang sem hefur einkennt viðræðurnar. Þau atriði sem helst eru eftir liggja að launaliðnum en aðalkrafan var að laun starfsmanna myndu halda áfram að taka mið af hækkun á launavísitölunni eins og samið var um í kjarasamningum 2015.

Hins vegar eftir að Kórónufaraldurinn skall á með öllum þeim efnahagslegu hamförum þá runnu tvær grímur á formann Verkalýðsfélags Akraness að ekki væri skynsamlegt að semja um tengingu við launavísitöluna þegar efnahagslífið er að sigla inní eina mestu efnahagskreppu síðustu 100 ára eins og Seðlabankinn hefur ítrekað bent á með tilheyrandi skerðingu launa og atvinnumissi.

Á þeirri forsendu ákvað VLFA og VR að breyta kröfugerð sinni er lýtur að hækkun kauptaxta og gera kröfu um að laun starfsmanna hækki með sama hætti og samið hefur verið um í svokallaða lífskjarasamningi. Með sömu útfærslu og ríki, sveitafélög, Faxaflóahafnir og fleiri hópar hafa undirgengist.

Ástæðan fyrir því að meðal annars VLFA og VR vilja semja í anda Lífskjarasamningsins er þríþætt.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að framundan er eitt mesta samdráttarskeið á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku efnahagslífi í hartnær 100 ár eins og áður hefur komið fram og því afar ólíklegt að launavísitalan muni skila starfsmönnum miklum launabreytingum á næstu tveimur til þremur árum.

Í öðru lagi þá hefur formaður VLFA skoðað launabreytingar hjá fjölmörgum hópum sem taka laun eftir launatöxtum eins og starfsmenn Norðuráls gera. Í þeirri skoðun kemur fram að launataxtar t.d. á hinum almenna vinnumarkaði og opinbera markaðnum hafa hækkað mun meira en launavísitalan hefur gert t.d. frá 2014 til 2019. Ástæðan er einföld, áhersla hefur verið á að hækka taxtalaun í kjarasamningum almennt meira en önnur laun og svo virðist vera sem launahækkanir á launatöxtum skili sér frekar illa inn í mælingu á launavísitölunni.

Í þriðja lagi þá liggur fyrir að lífskjarasamningurinn þar sem samið var um fastar krónutöluhækkanir hjá öllum þeim sem taka laun eftir launatöxtum var mjög góður og myndu slíkar hækkanir skila starfsmönnum ásættanlegum launahækkunum á næstu þremur árum.

Það kom hinsvegar formanni VLFA verulega á óvart að forsvarsmenn Norðuráls og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins höfnuðu alfarið að semja í anda Lífskjarasamningsins eins og 95% af öllum íslenskum vinnumarkaði hefur nú þegar gert.

Samkvæmt öllum fyrirliggjandi gögnum þá er það staðreynd að lægsti launataxti Norðuráls hefur á liðnum árum dregist verulega aftur úr öðrum lágmarks launatöxtum á íslenskum vinnumarkaði vegna þess að áhersla verkalýðshreyfingarinnar á liðnum árum hefur verið á sérstaka hækkun á taxtalaunum og því miður hefur launavísitalan ekki fangað þessa umfram hækkun á launatöxtum nema að litlu leyti.

Á samningafundinum með forsvarsmönnum Norðuráls lýsti formaður forundrun sína að stórfyrirtæki eins og Norðurál og Samtök atvinnulífsins skuli hafna að semja við starfsmenn Norðuráls eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur nú þegar undirgengist að gera. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að blessunarlega er Norðurál með góðar rekstrarforsendur um þessar mundir, þrátt fyrir erfiðar markaðsforsendur.

Það er alveg morgunljóst að VLFA og VR, ætla ekki, geta ekki og vilja ekki semja um minna en þær launabreytingar sem lífskjarasamningurinn gaf og í ljósi þessa djúpstæða ágreinings var ákveðið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/1938 

Ríkissáttasemjari hefur nú þegar boðað til fundar á næsta fimmtudag.

21
May

Aðalfundur VLFA verður haldinn 9. júní á Gamla kaupfélaginu

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn þriðjudaginn 9. Júní kl. 17:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:

  • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  • Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
  • Reglugerðabreyting á sjúkrasjóði.
  • Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image