• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Dec

Málverk af fólkinu sem kom að stofnun Verkalýðsfélags Akraness

Eins og flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness vita þá flutti félagið starfsemi sína frá Sunnubraut 13 og yfir á Þjóðbraut 1 í nóvember síðastliðnum.

Í tilefni þess ákvað stjórn félagsins að fá okkar frábæra listamann hann Bjarna Þór til að mála fyrir okkur málverk með Akranes- og verkalýðsívafi til að prýða móttökuna á skrifstofu félagsins.

Það er óhætt að segja að það hafi Bjarna Þór svo sannarlega tekist gríðarlega vel eins og honum er einum lagið, en að sjálfsögðu er okkar gullfallega Akrafjall í bakgrunni en hugmyndin að málverkinu er komin frá því þegar verkafólk á Akranesi vann oft á tíðum við afar erfið skilyrði við að þurrka saltfisk á Breiðinni um 1924.

Það er rétt að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness var stofnað árið 1924 af harðduglegu verkafólki sem háði baráttu fyrir lífshagsmunum sínum og heimila sinna og því má segja að fólkið sem prýðir þetta fallega málverk sé m.a. verkafólkið sem kom til stofnfundar félagsins í Báruhúsinu árið 1924.

En stofnfundur félagsins var haldinn þann 9. október 1924 en þá komu saman til fundar í Báruhúsinu á Akranesi allmargir sjómenn og verkafólk. Þetta voru menn sem sóttu sjóinn ýmist á litlum vélbátum eða opnum árabátum og verkafólk sem vann flest langa vinnudaga við fiskverkun.

Síðan eru liðin rúm 96 ár og á þeim tíma hafa orðið hreint ótrúlegar breytingar og margir sigrar í baráttunni fyrir bættum kjörum til handa verkafólki náðst fram og eiga þessir brautryðjendur verkalýðsbaráttunnar stóran þátt í þeim sigrum.

Mikilvægt er að gleyma ekki þeirri baráttu sem verkafólk á þessum tíma háði og þeirra mikilvæga hlutverki varðandi stofnun félagsins.

Stjórn félagsins vill þakka okkar frábæra listamanni Bjarna Þór fyrir glæsilegt málverk sem mun prýða skrifstofu félagsins um ókomin ár.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image