• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Aug

VLFA hafnar að pumpa meira inní lífeyrishítina

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni sem og í fjölmiðlum þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá samkomulagi við Samband íslenskra sveitafélaga 23. júlí síðastliðinn.

Samkomulagið gekk út á m.a. að tryggja að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit fengu 105.000 króna eingreiðslu vegna þess hversu lengi hefur tekið að ganga frá nýjum kjarasamningi. En þessi eingreiðsla var fyrirframgreiðsla vegna þess dráttar sem orðið hefur á við að ganga frá nýjum samningi.

Samkomulagið laut einnig að Þeim ágreiningi sem önnur félögin innan Starfsgreinasambands Íslands hafa átt við Samband íslenskra sveitafélaga og lýtur að svokölluðum lífeyrisauka sem SGS telur að Sambandið hafi verið búið að skuldbinda sig til að greiða. Það er óhætt að segja að þetta sé afar flókið mál, en eina sem er öruggt í þessu máli er að Samband íslenskra sveitafélaga hefur viðurkennt að hafa verið búið að skuldbinda sig til að leggja til 1,5% til launabreytingar samkvæmt rammasamkomulagi sem gert var árið 2015. Hins vegar hafnar sambandið alfarið að hafa verið búið að samþykkja að þetta yrði gert með sambærilegum hætti og ríki og Reykjavíkurborg gerðu eða nánar tilgetið í gegnum svokallaðan lífeyrisauka.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að enginn gögn liggi fyrir í málinu sem staðfestir að Samband íslenskra sveitafélaga hafi verið búið að samþykkja að fara sömu leið og ríki og Reykjavíkurborg. Það liggja hins vegar fyrir gögn að Samband íslenskra sveitafélaga hafnaði að fara slíka leið.

Það er hins vegar rétt að segja það strax í upphafi að Verkalýðsfélag Akraness vill ekki sjá að setja þessi 1,5% inn sem lífeyrisauka, en 1,5% er sú meðaltalshækkun sem það kostar að fara þá leið.

Félagið vill hins vegar nota þetta svigrúm til að hækka laun sinna félagsmanna sem starfa hjá áðurnefndum sveitafélögum og í samkomulaginu sem VLFA gerði 23 júlí er skýrt kveðið á um að sambandið er tilbúið að hækka launataxta um þessi 1,5% til viðbótar þeim launabreytingum sem samið verður um.

Þetta þýðir að t.d. skólaliði mun fá rúmar 5.000 króna hækkun á sínum grunnlaunum á mánuði vegna þessa 1,5% hækkunar eða sem nemur rúmum 60.000 á ári. Þessi 1,5% mun t.d. skila skólaliða sem vinnur alla sína starfsævi hjá sveitafélaginu um 5 milljónum.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á þessum staðreyndum, en ef þetta yrði sett inní lífeyrisauka eins og SGS vill gera þá myndu allir starfsmenn sem hófu störf hjá sveitafélögunum eftir 1. Júní 2017 ekki fá neitt, en þeir sem voru fyrir þann tíma í starfi myndu njóta lífeyrisávinnings. VLFA er alls ekki tilbúið að skilja alla félagsmenn eftir sem hófu störf eftir umræddan tíma með ekki neitt og búa þannig í raun til tvöfalt lífeyriskerfi eftir því hvenær þú hófst störf. Rétt er að geta þess að starfsmannavelta hjá sveitafélögunum er umtalsverð.

Hins vegar vill VLFA að allir félagsmenn okkar fái þessa 1,5% hækkun og engum verði mismunað, enda mikilvægt að reyna allt sem hægt er til að lyfta kjörum starfsmanna sveitafélaganna upp enda kjör hjá sveitafélögunum ein þau lökustu sem þekkjast á íslenskum vinnumarkaði.

Það er einnig mat félagsins að það séu alveg takmörk fyrir því hversu gríðarlegum fjármunum eigi endalaust að pumpa inní þetta lífeyriskerfi, en nú þegar eru félagsmenn að greiða 15,5% og þeir sem eru með séreignasparnað uppá 6% eru að greiða 21,5% af sínum heildartekjum inní kerfið.

Það er mikilvægt að allir átti sig á því um hvað þetta mál snýst en 15,5% sem allir starfsmenn sveitafélaga hafa verið að greiða í lífeyrissjóð áttu að duga fyrir því að starfsmenn ættu að eiga rétt á 76% af meðaltekjum sínum á starfsævi frá sínum lífeyrissjóði. Hins vegar hefur komið í ljós að svo er ekki vegna tryggfræðilegs halla á sjóðunum og þessi lífeyrisauki á að nota til að uppfylla loforð sem búið var að gefa sjóðsfélögum. VLFA er alls ekki tilbúið eins og áður sagði að pumpa meira inní þessa lífeyrishít þar sem endalaust er verið að setja meiri fjármuni inn til að réttlæta „ágæti“ kerfisins.

Eins og áður sagði höfnum við þessari leið og viljum nýta þessa fjármuni sem standa til boða til að hækka strax laun allra félagsmanna okkar sem starfa hjá sveitafélögnum um þessi 1,5% sem skilar eins og áður sagði rúmum 60.000 krónum á ári og yfir starfsævina um 5 milljónum og munar um minna.

Félagið ítrekar einnig að það komi ekki til greina að skilja hluta okkar félagsmenna eftir eða eins og áður hefur komið fram nær þessi lífeyrisauki ekki til starfsmanna sem hófu störf hjá sveitafélögunum eftir 1. júní 2017.

Það er einnig rétt að geta þess að þeir félagsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit sem formaður hefur talað við eru algerlega sammála því að nota þessi 1,5% til að hækka launin strax en ekki setja þetta inní lífeyrishítina enn og aftur.

01
Aug

Lokað föstudaginn 2. ágúst

Skrifstofa félagsins verður lokuð föstudaginn 2. ágúst vegna sumarleyfa.

Við opnum aftur kl 8 þriðjudaginn 6. ágúst

30
Jul

Stjórnarkjör 2019

Samkvæmt 29. gr.laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2019, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 12. ágúst nk. Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar sem hægt er að skoða hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn samkvæmt 29. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness.

23
Jul

Félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit fá allt að 105.000 kr. eingreiðslu

Í dag undirritaði formaður Verkalýðsfélags Akraness samkomulag við Samband íslenskra sveitafélags sem tryggir öllum félagsmönnum VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit 105.000 kr. eingreiðslu sem kemur til útborgunar 1. ágúst.

Umrædd eingreiðsla er tilkomin vegna þess að samningsviðræður hafa dregist, en eins og flestir vita þá rann samningur á milli samningsaðila út 31. mars. Þessi eingreiðsla er innágreiðsla vegna væntanlegs kjarasamnings á milli aðila sem verður trúlega kláraður um miðjan ágúst mánuð, nema eitthvað óvænt komi upp í viðræðum milli aðila.

Eingreiðslan greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Starfsmenn í fæðingarorlofi og tímakaupsfólk mun einnig eiga rétt á umræddri greiðslu og miðast eingreiðslan hjá tímakaupsfólki við unnar vinnustundir á áðurnefndu tímabili.

Í þessu samkomulagi var einnig samið um að Samband íslenskra sveitafélaga fellst á að hækka launatöflu um 1,5% og mun sú hækkun koma til viðbótar öðrum hækkunum á launatöflu aðila.

Formaður félagsins er afar ánægður með að hægt hafi verið að tryggja að félagsmenn VLFA fengju umrædda eingreiðslu um næstu mánaðarmót og einnig að hægt hafi verið að tryggja að 1,5% komi til hækkunar á launatöflu til viðbótar öðrum launahækkunum sem eftir á að semja um.

Það liggur fyrir að krafa Verkalýðsfélags Akraness er að launahækkanir verði með sambærilegum hækkunum og samið var um í Lífkjarasamningum sem og svokallaður hagvaxtarauki.

Ákveðið var að funda næst 13. ágúst og er formaður verulega bjartsýnn að það takist fljótt og vel að ganga frá nýjum kjarasamningi enda ekki viðunandi að kjarasamningsviðræður séu búnar að dragast í hartnær fjóra mánuði.

Formaður vill þakka bæjarstjóra Akraneskaupstaðar fyrir að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að hægt væri að ganga frá þessu samkomulagi sem tryggir tekjulægstu starfsmönnum sveitafélagsins margnefnda eingreiðslu.

03
Jul

Verkalýðsfélag Akraness stefnir Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir félagsdóm

Verkalýðsfélag Akraness hefur stefnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir félagsdóm vegna brota á kjarasamningi sem félagið gerði við sambandið þann 5. febrúar 2016.

En málið lýtur að öllum starfsmönnum sem starfa hjá sveitarfélögum sem eru svokallað tímakaupsfólk en í samningum frá árinu 2016 var samið um eingreiðslu að fjárhæð 42.000 kr. sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019.

Þessi eingreiðsla kom til vegna þess að ákveðið var að lengja gildistíma kjarasamningsins um 3 mánuði og átti þessi eingreiðsla að dekka það tekjutap sem hlaust að því að lengja í samningum.

En orðrétt segir um þessa eingreiðslu í samningum frá 2016:  „Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.

Það ótrúlega gerist síðan að þegar til eingreiðslunnar kemur í febrúar á þessu ári þá túlkar Samband íslenskra sveitarfélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að allir sem taka laun eftir tímakaupi en ekki föstum mánaðarlaunum eigi ekki rétt á þessari eingreiðslu.

Nokkrir félagsmenn sem starfa sem tímakaupsfólk hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit höfðu samband við Verkalýðsfélag Akraness og óskuðu skýringa hví þessi eingreiðsla hefði ekki skilað sér til þeirra.

Í framhaldi af þessum athugsemdum okkar félagsmanna sem starfa hjá umræddum sveitarfélögum var haft samband bæði við Akraneskaupstað sem og Hvalfjarðarsveit og svör þeirra voru á þá leið að þetta væri túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga að tímakaupsfólk ætti ekki rétt á þessari eingreiðslu.

Formaður félagsins fundaði með Samráðsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og krafðist skýringa hví tímakaupsfólk hefði ekki fengið umrædda 42.000 króna eingreiðslu eins og aðrir starfsmenn sveitarfélaganna. Enda kemur skýrt fram í greininni um eingreiðsluna að um kjarasamningsbundna eingreiðslu sé að ræða sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.

Þessi túlkun hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að tímakaupsfólk hafi ekki átt rétt á eingreiðslu stenst ekki nokkra skoðun, enda varð tímakaupsfólk að sjálfsögðu fyrir tekjutapi alveg eins og starfsfólk sem tekur laun föstum mánaðarlaunum.

Mat Verkalýðsfélags Akraness og lögmanns félagsins er hvellskýrt: það er að tímakaupfólk eigi klárlega rétt á eingreiðslunni miðað við starfstíma og starfshlutfalli. Enda afar auðvelt að finna út hvert réttur tímakaupsfólks til eingreiðslunnar er hafi það verið í starfi í desember 2018 og janúar 2019. Sem dæmi þá ætti tímakaupsmaður sem uppfyllir þessi skilyrði og unnið t.d. 86 tíma í janúar 2019 rétt á að fá  50% af þessri 42.000 króna eingreiðslu.

Það er þyngra en tárum taki hvernig Samband íslenskra sveitarfélaga hagar sér gagnvart tekjulægsta fólkinu sem sinnir gríðarlega mikilvægum störfum fyrir sveitarfélögin en stór hluti þeirra sem eru tímakaupsfólk sinnir störfum í félagsþjónustu með fötluðum.

Það er líka dapurlegt hvernig fulltrúar sveitarfélaganna skýla sér á bakvið Samband íslenskra sveitarfélaga þegar upp koma erfið ágreiningsmál en í þessu máli liggur fyrir að umrædd eingreiðsla var til þess að bæta starfsmönnum upp tekjutap vegna þess að samningurinn var lengdur um 3 mánuði og því fráleitt að halda því fram að tímakaupsfólk eigi að fá eingreiðsluna til að brúa það tekjutap sem hlaust að því að lengja samninginn um þessa þrjá mánuði.

Rétt er geta að um umtalsvert fordæmismál er að ræða því ein af rökum Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir því að greiða ekki tímakaupsfólki þessa eingreiðslu var að Ríkið og Reykjavíkurborg gerðu það ekki, en kjarasamningur þeirra var einnig lengdur um þrjá mánuði og því samið um samskonar eingreiðslu í samningum hjá ríkinu og Reykjavíkurborg.

30
Jun

Eingreiðsla til ríkisstarfsmanna vegna dráttar á nýjum kjarasamningi

Samninganefnd SGS og Samninganefnd ríkisins hafa komist að samkomulagi um að endurskoða viðræðuáætlun milli aðila og stefna að því að ljúka kjarasamningi fyrir 15. september næstkomandi.

Meginástæðan fyrir þessari framlengingu er sú að á vettvangi heildarsamtaka launafólks er nú verið að ræða launaþróunartryggingu, breytt fyrirkomulag vinnutíma og fleiri veigamikil atriði. Þessi vinna hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir og því er þessi endurskoðun nauðsynleg.

Jafnframt hefur náðst samkomulag um að vegna þess hve langt er síðan gildistími síðustu samninga rann sitt skeið þá verði greidd eingreiðsla að upphæð 105 þúsund kr. fyrir fullt starf þann1. ágúst 2019. Sú greiðsla er hluti af fyrirhuguðum launabreytingum þegar þar að kemur.

Flestir félagsmenn sem starfa hjá ríkinu vinna á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og munu þeir því fá umrædda eingreiðslu 1. ágúst næstkomandi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image