• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Apr

Mikið annríki framundan í starfsemi félagsins

Mikið annríki er framundan í starfsemi félagsins en undirbúningur fyrir aðalfund félagsins stendur nú yfir.  Verið er að leggja lokahönd á reikninga félagsins og er allt útlit fyrir að síðasta rekstrarár sé það albesta í sögu félagsins. 

Einnig er verið að vinna að breytingum á reglugerð sjúkrasjóðs en til stendur að fjölga um allt að þrjá nýja styrki til félagsmanna.  Er það gert í ljósi góðrar afkomu sjóðsins.

Vinna við úthlutun á orlofshúsum fyrir sumarið nær hámarki í þessum mánuði en að undanförnu hafa streymt inn umsóknir frá félagsmönnum og virðist vera mjög góð ásókn í orlofshús félagsins fyrir komandi sumar.

Undirbúningur er einnig hafin að fullu vegna 1. maí hátíðarhaldanna og allt útlit fyrir að hátíðarhöldin verði með sambærilegu sniði og undanfarin ár, en metþátttaka var í hátíðarhöldunum í fyrra. 

Vinna við fréttablað félagsins mun hefjast á næstu dögum og mun það berast öllum félagsmönnum sem og öllum Akurnesingum rétt fyrir 1. maí .  Verkalýðsfélag Akraness gefur tvö blöð út á ári annars vegar fyrir 1. maí og hins vegar rétt fyrir jól.

Það var núverandi stjórn sem tók þá stefnu að gefa út fréttablað, en það hafði vart þekkst áður í sögu félagsins.  Hægt er að skoða öll fréttablöðin á heimasíðu félagsins en þau eru til vinstri á síðunni undir liðnum Fréttablöð.

06
Apr

Breytingar fyrirhugðar á bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Formaður félagsins ásamt aðaltrúnaðarmanni Íslenska járnblendifélagsins funduðu með forstjóra ÍJ og mannauðsstjóra fyrirtækisins.  Tilefni fundarins var að fara yfir tillögur sem Verkalýðsfélag Akraness hafði lagt fram sem lutu að breytingum á bónuskerfi fyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa þættir í núverandi bónuskerfi ekki verið að virka eins og samningsaðilar væntust til.  Þess vegna lagði félagið fram tillögur um breytingar á bónuskerfinu með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi.

Samningsaðilar voru sammála um að D liður bónuskerfisins yrði skipt út fyrir nýjan þátt að undangengu samþykki trúnaðartengiliða.  D liður bónussins lítur að hittni í málmhreinsun en sá liður bónussins hefur einungis gefið 0,25% en sá þáttur getur gefið allt að 1,5%.

Eins og áður sagði þá stendur til að taka þann D liðinn út og taka nýjan þátt inn er lítur að fjarvistaslysum, nánar tiltekið H1 og H2 tölur.  Formaður félagsins er ekki í nokkrum vafa um að þessi breyting er til umtalsverða bóta fyrir starfsmenn.  Formaður mun funda með trúnaðartengiliðum strax eftir páska og kynna þessar hugmyndir fyrir þeim, ef trúnaðartengiliðir eru sammála þessari breytingu mun hún taka gildi frá og með 1. apríl 2007.  

04
Apr

Starfsmenn Akraneskaupstaðar eiga von á fimm miljóna króna glaðningi frá bæjarráði!

Bæjarráð Akraneskaupstaðar ákvað á fundi sínum 30. mars sl. að nýta sér ekki lengur heimild til að draga persónuálag starfsmanna bæjarins frá þeim eingreiðslum sem Launanefnd sveitarfélaga samþykkti að greiddar yrðu frá 28. janúar 2006.  Umræddar persónuálögur hafa allir þeir starfsmenn sem voru í starfi hjá Akraneskaupstað fyrir undirritun síðasta kjarasamnings.

Það er alveg ljóst að þessi ákvörðun bæjarráðs hefur mjög jákvæð áhrif á launakjör þeirra starfsmanna sem eiga hlut að máli.

Bæjarráð samþykkti einnig að þessi ákvörðun skildi verða afturvirk eða nánar tiltekið frá 28. janúar 2006.   Það mun þýða að Akraneskaupstaður mun endurgreiða í heildina tæplega fimm milljónir króna til starfsmanna Akraneskaupstaðar.  Hefur formaður heimildir fyrir því að einstaka starfsmenn muni fá endurgreiðslu sem numið getur tugum þúsunda. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness getur ekki annað fagnað þessari ákvörðun bæjarráðs.  Einfaldlega vegna þess að það er ætíð ánægjulegt þegar kjarabætur koma óvænt til launþega og það á miðju samningstímabili.  

Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi ákvörðun mun hafa mjög jákvæð áhrif á þá starfsmenn bæjarins sem eru með hvað lægstu launin. 

Rétt er að minna á að bæjarráð samþykkti ekki alls fyrir löngu að greiða þeim sem taka laun eftir launaflokkum 115, 116 og 117 eingreiðslur frá 5000 kr á mánuði uppí 6000 kr. og eru þær eingreiðslur umfram samþykktir Launanefndar sveitafélaga frá 28. janúar 2006.

Það ber að fagna þeirri stefnu sem bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur tekið hvað varðar hækkanir til þeirra sem lægstu hafa tekjurnar, þó vissulega megi alltaf gera enn betur í þeim efnum. 

03
Apr

Fundað með Michael Tanchuk forstjóra Norðuráls

Í morgun hélt Michael Tanchuk forstjóri Norðuráls ásamt Rakel Heiðmarsdóttur starfsmannastjóra fyrirtækisins kynningu á hinum ýmsu málefnum er lúta að starfsemi fyrirtækisins fyrir formönnum þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls.

Fram kom í máli Michael Tanchuk forstjóra að hann leggur gríðarlega mikla áherslu á öryggismál fyrirtækisins með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi.  Kynnti hann fyrir formönnum félaganna hinar ýmsu leiðir og hugmyndir í því að bæta öryggismál fyrirtækisins og sagði að öryggismál starfsmanna Norðuráls væru forgangsmál hjá sér.

Formaður félagsins fagnar þessum áformum hjá forstjóra Norðuráls og telur að hægt sé að bæta öryggismál starfsmanna töluvert.  Það er afar mikilvægt að allir leggist á eitt um bæta öryggismál fyrirtækisins þar sem slysatíðni á síðasta ári var því miður alltof há. Reyndar er eitt slys einu of mikið.  Það fór hins vegar ekki á milli mála að það er einlægur vilji forstjórans að bæta öryggismál fyrirtækisins með það að markmiði að útrýma slysum í verksmiðjunni.

Einnig var rætt um fyrirhuguð fíkniefnapróf sem til stendur að taka á starfsmönnum fyrirtækisins.  Afstaða félagsins til þess máls er hvellskýr. Ef lögfræðideild ASÍ og Persónuvernd skrifa uppá að slík fíkniefnapróf stangist ekki á við lög og reglugerðir þá sér félagið enga meinbugi á slíkri lyfjaskimun. 

02
Apr

Glæsileg útkoma félagsins úr könnun Capacent Gallup

Í byrjun mars 2007 framkvæmdi Capacent Gallup könnun fyrir SGS um viðhorf félagsmanna til starfsemi aðildarfélaga SGS og hvaða áherslur félagsmenn vilja sjá í starfi þeirra. Endanlegt úrtak var 1229 félagsmenn landsbyggðarfélaga SGS víðs vegar um landið. Fjöldi svarenda var 721 og var svarhlutfall 58,7%. 

Það er óhætt að segja að útkoma Verkalýðsfélags Akraness hafi verið glæsileg í þessari könnun Capacent Gallup.  Ein spurningin í könnuninni hljóðaði eftirfarandi:  

Á heildina litið finnst þér stéttarfélagið standa sig vel eða illa?  Svarmöguleikarnir voru Mjög vel, Frekar vel, Hvorki né, Frekar illa, Mjög illa

Einungis eitt stéttarfélag innan Starfsgreinasambands Íslands kom betur út úr þessari spurningu heldur en Verkalýðsfélag Akraness. Skipting á milli svarmöguleikanna hjá Verkalýðsfélagi Akraness var eftirfarandi:

Mjög vel 40,5%
Frekar vel 45,2%
Hvorki né 9,5%
Frekar illa 2,2%
Mjög illa 2,2%

Á þessu sést að 85,7% félagsmanna sem tóku þátt í könnuninni eru ánægðir með starfsemi Verkalýðsfélags Akraness.  Eins og áður sagði er það næstbesti árangurinn innan SGS en 20 stéttarfélög innan SGS tóku þátt í könnuninni. 

Hægt er að skoða samantekt þeirra sem eru ánægðir með starfsemi félaganna hjá öllum félögum innan SGS með því að smella á meira.

 

1. Verkalýðsfélag Húsavíkur 96%
2. Verkalýðsfélag Akraness 85,7%
3. Stéttarfélag Vesturlands 82,7%
4. Samstaða Blöndós 80,7%
5. Eining-Iðja Akureyri 74,7%
6. Aldan Sauðárkrókur 73,7%
7. Vlf-og sjómannaf Bolungavíkur 72,3%
8. Verkalýðsfélagið Báran Selfossi 70,9%
9. Afl-Starfsgreinafélag Austurlands 70,7%
10. Vaka Siglufirði 70%
11. Efling- stéttarfélag Reykjavík 69,8%
12. Verkalýðsfélag Vestfirðinga 66%
13.-14. Verkalýðsfélag Suðurlands 62,5%
13.-14. Verkalýðsfélag Snæfellsbæjar 62,5%
15. Hlíf, Hafnarfirði 56,4%
16. Verkalýðsfélagið Þorlákshöfn 55%
17. Vökull stéttarfélag, Hornafirði 54,8%
18. Drífandi, Vestmannaeyjum 50%
19. Verkalýðs- og sjómannaf. Keflav. 47,4%
20. Verkalýðsfélag Grindavíkur 33%
     

Eins og sést á þessu er niðurstaðan afar hagstæð fyrir Verkalýðsfélag Akraness og sýnir að stjórn félagsins er á réttri leið. Þessi árangur hefði ekki náðst nema með samstilltri stjórn og góðum starfsmönnum og er mikil hvatning um að gera ennþá betur.

30
Mar

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn til HB Granda

Formaður félagsins fór á vinnustaðafund hjá HB-Granda.  Stjórn félagsins leggur mikla áherslu á að vera í eins góðu sambandi við sína félagsmenn og mögulegt er og var þessi heimsókn einn liður í því.  Formaður átti gott spjall við starfsmenn og trúnaðarmenn vinnustaðarins. 

Forsvarsmenn HB Granda hafa í hyggju að breyta fyrirkomulagi á greiðslu orlofslaunua starfsmanna og eru ekki allir starfsmenn á eitt sáttir við þá breytingu.  Formaður fór yfir þetta mál með starfsmönnum og vinnur nú að lausn á því máli í fullri sátt við starfsmenn og einnig í mjög góðu samráði við starfsmannastjóra HB Granda. 

Allt bendir til þess að farsæl lausn náist í þessu máli enda fullur vilji hjá forsvarsmönnum HB Granda að leysa málið í góðu samráði við trúnaðarmenn og Verkalýðsfélagið.  Formaður hefur lagt fram tillögur til lausnar á málinu og eru eins áður sagði yfirgnæfandi líkur á málinu verði landað báðum aðilum til góðs.

Eins og áður sagði leggur félagið mikla áherslu á að vera í góðu sambandi við sína félagsmenn og hefur formaður þá reglu að heimsækja sem flest af stóru fyrirtækjunum í það minnsta einu sinni í mánuði.  Formaður félagsins hvetur starfsmenn fyrirtækja til að hafa samband við skrifstofu félagsins, óski þeir eftir að formaður komi í vinnustaðaheimsókn.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image