• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Dec

Útrýmum fátækt úr íslensku samfélagi

Í skýrslu sem forsætisráðherra lét gera um fátækt barna hér á landi kemur fram að um 4600 börn eða rétt tæp 7% allra barna á Íslandi búa við fátækt. Hjálparstofnun Kirkjunnar hefur einnig sagt að um 3000 barnafjölskyldur búi við fátækt á Íslandi í dag.  Það verður að segjast alveg eins og er að það er þjóðarskömm að hér á landi skuli tæplega 7% barna búa við fátæktarmörk og það hjá þjóð sem státar sig af því að vera ein af ríkustu þjóðum heims.

En hvað er það sem veldur því að hér á landi skuli 3000 fjölskyldur búa við fátækt?  Vissulega eru að öllum líkindum margir samverkandi þættir sem valda því að fólk býr við fátækt hér á landi t.d atvinnuleysi og langvarandi veikindi, sumir þessara einstaklinga búa við skerta starfsorku og einnig er rétt að nefna þær aðstæður sem einstæðir foreldrar þurfa að búa við.

En það eru sannarlega fleiri þættir sem valda fátækt hér á landi og lúta þeir þættir að íslenskum stjórnvöldum.  Það liggur fyrir að íslensk stjórnvöld leggja mun minna en aðrar Norðurlandaþjóðir til velferðarmála, t.d eru barnabætur hér á landi með þeim lægstu sem þekkjast á Norðurlöndunum.  Það þekkist heldur ekki á hinum Norðurlöndunum að tekjutengja barnabætur eins og gert er hér á landi. Ekki er nóg með að þær séu tekjutengdar hér heldur eru skerðingamörkin afar lág.  Einnig ber að nefna að skattleysismörkin hafa ekki fylgt verðlagsþróun sem hefur gert það að verkum að skattar á meðaltekjur og lágar tekjur hafa aukist umtalsvert á liðnum árum.  Hins vegar hefur ekki staðið á ríkisvaldinu að aðstoða þá sem eru efnameiri og nægir þar að nefna að hátekjuskattur og eignaskattur hafa nýlega verið aflagðir. Rétt er að vekja athygli á því að þegar endurskoðun á kjarasamningum fór fram í sumar náði verklýðshreyfingin samkomulagi við ríkisstjórnina um að skattleysismörkin skuli framvegis fylgja verðlagsþróun. Þetta er mjög mikilvægt atriði fyrir þá tekjulægstu.

Það er alveg ljóst að ef ríkisstjórn Íslands myndi  verja meiri fjármunum til velferðarmála þá myndi það leiða af sér mun minni fátækt en raunin er í dag.

Við í verkalýðshreyfingunni verðum líka skoða það sem okkur stendur næst og það eru lágmarkslaunin en það hefur verið skoðun formanns félagsins lengi að þau séu einfaldlega allt of lág.  Það þýðir ekki fyrir okkur sem erum í forsvari í verkalýðshreyfingunni að benda eingöngu á ríkisvaldið þegar umræðan um fátækt ber á góma.  Það sér það hver maður að það er nánast útilokað að lifa á þeim lágmarkslaunum sem nú eru í gildi á íslenskum vinnumarkaði en lágmarkslaun í dag eru einungis 123 þúsund á mánuði fyrir fullt starf.  Það er alls ekki hægt að bjóða íslensku verkafólki upp á lágmarkslaun sem vart duga fyrir lágmarksframfærslu.    

Það verður að vera forgangskrafa í næstu kjarasamningum að hækka lágmarkslaun til jafns við þau markaðslaun sem nú eru almennt í gildi á íslenskum vinnumarkaði.  Til að það takist þurfa laun að hækka í það minnsta um 30% við undirritun nýs kjarasamnings.

Nú þurfa íslensk stjórnvöld, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin að leggjast á eitt til að útrýma fátækt úr íslensku samfélagi.  Stjórnvöld þurfa að leggja meira til velferðarmála og verkalýðshreyfingin þarf að berjast með oddi og egg fyrir verulegri hækkun lágmarkslauna. Með því mun okkur takast að útrýma fátækt úr íslensku samfélagi.

11
Dec

Fréttablað félagsins kemur út í næstu viku

Fréttablað Verkalýðsfélag Akraness kemur  út í næstu viku, en verið er að leggja lokahönd á blaðið þessa dagana. 

Í blaðinu verður farið yfir helstu mál sem félagið hefur verið að vinna að á síðustu mánuðum.  Einnig er er farið yfir þá þjónustu sem félagið er að veita sínum félagsmönnum bæði hvað varðar orlofssjóð sem og réttindi úr sjúkrasjóði félasins.  Blaðinu verður dreift í öll hús í póstnúmeri 300 og 301.  

08
Dec

Aftur í nám, 11 nemendur útskrifuðust í gær

Nú í haust hefur 13 manna hópur stundað nám á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Bar námið heitið "Aftur í nám".  Í gær fór fram útskrift hjá þeim nemendum sem höfðu klárað námið og voru það 11 nemendur, en tveir munu klára á næstu dögum.  Námsskráin var samin af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.  Sú sem hafði veg og vanda af þessu verkefni heitir Erla Olgeirsdóttir.

Markmiðið með þessu námi er að styrkja fullorðna sem glíma við lestrar-og skriftarörðugleika, til að takast á við frekari nám og/eða geta mætt auknum kröfum í atvinnulífinu.

Þetta var í fyrsta sinn sem boðið er uppá slíkt nám hér á Vesturlandi.  Verkalýðsfélag Akraness tók þátt í því að styrkja þetta verkefni sem Símenntunarstöð Vesturlands stóð fyrir af miklum myndarskap.

07
Dec

Forgangsverkefni í næstu kjarasamningum að hækka lágmarkstaxta til samræmis við markaðslaun

Formaður félagsins hefur að undanförnu verið að benda á það að í næstu kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði þurfi að hækka lágmarkslaun til samræmis við þau markaðslaun sem eru í gildi á vinnumarkaðnum í dag. 

Þessi skoðun formannsins byggð á þeirri staðreynd að markaðslaunin eru í verulegri hættu vegna þess að aðgengi atvinnurekanda að ódýru vinnuafli erlendis frá er afar auðvelt um þessar mundir.  Í dag telur Vinnumálastofnun að um 20 þúsund erlendir starfsmenn séu á íslenskum vinnumarkaði.

Eins og margoft hefur komið fram í máli formanns félagsins er alveg ljóst að þetta mikla innstreymi af ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu ógnar því markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði á undanförnum áratugum. 

Starfsgreinasamband Íslands lét gera könnun á meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS í haust.  Í þeirri könnun kom fram að dagvinnulaun karla eru að meðaltali 176 þúsund krónur á mánuði.  Lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu í dag eru 123 þúsund á mánuði sem þýðir að lágmarkstaxtar þyrftu að hækka um rétt rúm 30%.

Að undanförnu hafa einstaka stjórnmálamenn tekið undir það sem formaður félagsins hefur verið að segja um það hversu mikilvægt það er að hækka lágmarkstaxta upp að markaðslaunum.  T.d hefur Magnús Þór Hafsteinsson hjá Frjálslyndum verið að benda á það hversu áríðandi það er fyrir verkalýðshreyfinguna að verja markaðslaunin.  Í Íslandi í bítið á þriðjudaginn var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur frá Samfylkingunni og taldi hún það nauðsynlegt að lágmarkstaxtar yrðu hækkaðir til samræmis við markaðslaun. Hægt er að sjá viðtalið með því að smella hér.

Það er afar ánægjulegt að stjórnmálamenn séu sammála formanni Verkalýðsfélagi Akraness um að verja þurfi markaðslaunin hjá íslensku verkafólki í næstu kjarasamningum.  Nú er bara að vona að forustumenn í verkalýðshreyfingunni séu einnig sammála því að þetta sé forgangsverkefni í næstu kjarasamningum.

05
Dec

Góður fundur var haldinn í gærkveldi

Í gærkveldi var haldinn mjög góður fræðslufundur um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.  Það var Magnús M. Norðdahl deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands sem sjá um að þann þátt fundarins.

Fundarmönnum gafst góður tími til að spyrja lögfræðing ASÍ spurninga og nýttu fundarmenn sér það nokkuð vel.  Mikið var rætt um öryggismál á vinnustöðum.  Einnig voru málefni erlends vinnuafls mjög mikið rædd og fór ekki á milli mála að fundarmenn hræðast almennt þann mikla innflutning sem orðið hefur á ódýru erlendu vinnuafli hingað til lands að undanförnu.

Það er vitað að um 20 þúsund erlendir starfsmenn starfa hér á landi um þessar mundir.  Það er alveg ljóst að það verður erfitt fyrir íslenskt verkafólk að keppa við erlent ódýrt vinnuafl sem kemur frá Austur - Evrópu um störf þegar samdráttur verður á íslenskum vinnumarkaði.  Einfaldlega vegna þess að stór hluti erlends vinnuafls er settur á berstrípaða lágmarkstaxta og sættir sig við það.

Formaður félagsins ítrekaði þá skoðun sína á fundinum að eina leiðin til að bjarga þeim markaðslaunum sem nú er verið að greiða á íslenskum vinnumarkaði er að færa lágmarkastaxtana upp að markaðslaunum.  Til að það takist þurfa taxtarnir að hækka um allt að 50%.

Það kom einnig fram hjá formanni félagsins að til að það takist verður öll verkalýðshreyfingin að standa þétt saman í þeirri baráttu. 

04
Dec

Verkalýðsfélag Akraness minnir á fræðslufundinn í kvöld kl. 20:15 !

Stóriðjudeild Verkalýðsfélags Akraness heldur opinn fræðslufund fyrir félagsmenn sína í kvöld að Kirkjubraut 40, 3. hæð kl: 20:00. 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi: 

 Magnús M. Norðdahl  deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands mun vera með fyrirlestur um eftirfarandi þætti:

  • Vinnustöðvanir   
  • Forgangsréttarákvæði kjarasamninga
  • Launamaður eða verktaki
  • Veikindaréttur, slys og skaðabætur

Önnur mál.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta.  Boðið verður uppá kaffiveitingar.

Stjórn Stóriðjudeildar

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image