• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jan

Fiskvinnslunámskeið var haldið í síðustu viku

Á föstudaginn var úskrifuðust 6 starfsmenn HB Granda sem sérhæfðir fiskvinnslumenn en námskeið stóð yfir síðustu vikuna í desember.  Námskeiðið veitir 3% launahækkun fyrir þá sem útskrifast sem sérhæfðir fiskvinnslumenn.

Formaður félagsins var einn af leiðbeinendum námskeiðsins.  Sá hann um að fara yfir réttindi og skyldur á vinnumarkaðnum og einnig kynnti hann fyrir þeim sem sátu námskeiðið hvaða þjónustu félagið er að veita sínum félagsmönnum.

29
Dec

Fundað verður um fíkniefnapróf Norðuráls næsta fimmtudag

Formaður félagsins hefur í dag verið að kynna sér hvort forsvarsmönnum Norðuráls sé yfir höfuð heimilt að taka fíkniefnapróf af öllum starfsmönnum fyrirtækisins eins og forsvarsmenn Norðuráls hafa í hyggju.  Formaðurinn hefur t.d. leitað eftir upplýsingum hjá Persónuvernd og lögmanni ASÍ um hvort fyrirtækinu sé heimilt að framkvæma slík lyfjapróf án þess að það liggi fyrir rökstuddur grunur um neyslu ólöglegra lyfja.

Lögmaður ASÍ dregur það í efa að fyrirtækinu sé stætt á að framkvæma slík lyfjapróf án þess að það liggi fyrir grunur um brot starfsmannanna á neyslu fíkniefna.

Einnig átti formaðurinn samtal við starfsmannastjóra Norðuráls þar sem þessar fyriráætlanir Norðuráls voru ræddar.  Ákveðið hefur verið að stéttarfélögin fundi með forsvarsmönnum Norðuráls um málið á næsta fimmtudag og mun lögmaður ASÍ sitja þann fund.

Forsvarsmenn Norðuráls kynntu þessar áætlanir um fíkniefnaprófið ekki fyrir Verkalýðsfélagi Akraness, en um 300 starfsmenn Norðuráls tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness.  Á fundinum á næsta fimmtudag verður farið yfir málið í heild sinni.   Væntanlega munu stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls óska eftir áliti frá Persónuverndum það hvort fyrirtækinu sé heimilt að framkvæma fíkniefnapróf á öllum starfsmönnum án þess að grunur um brot liggi fyrir. 

29
Dec

Ný verðkönnun frá verðlagseftirliti VLFA

Í morgun fór starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness á stúfana og gerði nýja verðkönnun í fjórum verslunum á Akranesi. Verslanirnar sem um ræðir eru Kaskó, Skagaver, Samkaup Strax (Grundaval) og Krónan. Verslun Einars Ólafssonar neitaði að taka þátt í könnuninni. Vert er að taka fram að hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Þar sem nú nálgast áramót og því tilefni til að gera vel við sig og sína í mat og drykk var matarkarfa Verkalýðsfélagsins stækkuð frá því síðast og verð athugað á 45 vörutegundum. Þar sem þessar vörutegundir voru ekki til í öllum fjórum verslununum reyndist nauðsynlegt að fækka þeim niður í þær 36 vörutegundir sem fengust í öllum fjórum verslununum.

Niðurstöður þessarar könnunar eru þær að Kaskó var með ódýrustu matarkörfuna og kostaði hún þar kr. 14.547. Matarkarfan í Skagaveri kostaði kr. 15.167, í Krónunni kostaði hún kr. 15.912 og í Samkaup-Strax kostaði hún kr. 17.471.

Hægt er að skoða könnunina í heild sinni hér.

28
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar haldinn í gærkvöldi

Aðalfundur sjómannadeildar var haldinn í gærkvöldi. Meðal fundarefnis voru venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál. Kosið var í stjórn deildarinnar og eftirtaldir hlutu kosningu:

Jóhann Örn Matthíasson, ritari

Már Vilbergsson, vararitari

Elías Ólafsson, meðstjórnandi

Sveinbjörn Rögnvaldsson, varameðstjórnandi

Úr stjórn gekk Gísli Jón Bjarnason þar sem hann hefur hætt sjómennsku og vill Verkalýðsfélag Akraness þakka honum fyrir góð störf á liðnum árum. Á fundinum var einnig rætt um hin ýmsu réttindamál sjómanna og Jóhann Örn Matthíasson gerði grein fyrir helstu málum sem rædd voru á Sjómannaþingi sem haldið var í Reykjavík fyrr í vetur. Einnig gerði formaður félagsins fundarmönnum grein fyrir starfsemi félagsins á síðasta ári og kom fram í máli formanns að afkoma félagsins hefur verið afar góð og hefur félagið tekið algerum stakkaskiptum frá því ný stjórn tók við fyrir þremur árum.

28
Dec

Stjórn og trúnaðarráð hélt sinn árlega jólafund í gær

Jólatrúnaðarráðsfundur var haldinn í gær og hófst fundurinn kl. 18.00.  Formaður félagsins fór yfir það helsta sem gerst hefur í starfsemi félagsins á árinu sem nú er að líða.

Fram kom í máli formanns að árið hefur verið Verkalýðsfélagi Akraness afar hagstætt, t.d. hefur verið gríðarleg fjölgun í félaginu á liðnu ári.  Einnig kom fram hjá formanni að mjög erilsamt hefur verið hjá starfsmönnum félagsins á þessu ári og greinilegt að félagsmenn nýta sér þjónustu félagsins í auknu mæli, sem er afar jákvætt.  

27
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar haldinn í kvöld

Aðalfundur sjómannadeildar verður haldinn í kvöld og hefst fundurinn kl. 20:00.

Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf sem og önnur mál.  Fundurinn er haldinn í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Sjómenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image