• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Dec

Jólakveðja!!

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness sendir félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á komandi ári.

21
Dec

Kaskó lægstir í verðkönnun sem Verkalýðsfélagið framkvæmdi í dag

Í dag var gerð ný könnun á vegum félagsins og var athugað verð á 50 vörutegundum úr flestum vöruflokkum í fjórum verslunum á Akranesi. Verslanirnar sem um ræðir eru Kaskó, Skagaver, Samkaup Strax (Grundaval) og Krónan. Verslun Einars Ólafssonar neitaði að taka þátt í þeirri könnun sem hér er birt. Vert er að taka fram að hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Til að hægt væri að taka mark á verðsamanburði milli þessara verslana reyndist nauðsynlegt að fækka vörutegundum um þær sem ekki fengust í öllum verslunum og því voru að lokum 28 vörutegundir í matarkörfu Verkalýðsfélagsins.

Niðurstöður könnunarinnar eru þær að ódýrust var matarkarfan í Kaskó en þar kostaði hún kr. 10.505. Í Skagaver kostaði karfan 11.653, í Krónunni kostaði hún kr. 12.163 og í Samkaup-Strax kostaði hún kr 13.591. Karfan kostaði því að meðaltali kr. 11.978. 

Verðlagseftirlit Verkalýðsfélags Akraness mun á næstu dögum og vikum gera reglulegar verðkannanir í þessu verslunum til að fylgjast með verðlagsþróun félagsmönnum sínum sem og öðrum neytendum hér á Akranesi til hagsbóta.

Hægt er að skoða könnunina í heild sinni með því að smella hér.

21
Dec

Öflugt verðlagseftirlit á Akranesi

Þann 1. mars nk. verða gerðar breytingar á opinberum álögum á matvöru þegar matarskatturinn svokallaði verður lækkaður úr 14% niður í 7%. Mikilvægt er að þessar aðgerðir stjórnvalda skili sér til heimila í landinu í formi lægra vöruverðs í verslunum.

Til að fylgjast með því að hvaða leyti þessi lækkun skilar sér í vasa neytenda hefur verðlagseftirlit ASÍ, í samráði við aðildarfélög sín, hrundið af stað viðamiklum verðmælingum um allt land. Þessar mælingar verða framkvæmdar reglulega fram á mitt næsta ár. Tilgangurinn er fyrst og fremst að fylgjast með þeim breytingum sem verða á vöruverði innan hverrar verslunar á næstu mánuðum en síður að bera saman verð á milli einstakra aðila.

Starfsmaður á vegum Verkalýðsfélags Akraness fór í síðustu viku í allar verslanir á Akranesi í þessum tilgangi og var vel tekið á öllum stöðum. Þegar gagnasöfnun er lokið verða niðurstöður mælinganna birtar á heimasíðu félagsins um leið og þær liggja fyrir.

Áætlað er að umrætt lækkun á virðisaukaskatti eigi að geta skilað neytendum um 6-7 milljörðum á ári. Því er afar mikilvægt að halda úti öflugu eftirliti þannig að umrædd virðisaukalækkun skili sér í vasa neytenda en ekki til verslunareigenda.

19
Dec

Samkomulag undirritað við Fjöliðjuna

Í morgun undirrituðu Verkalýðsfélag Akraness og Stéttarfélag Vesturlands samkomulag við vinnu og hæfingarstaðinn Fjöliðjuna. Þar starfar fólk sem er fatlað og með skerta starfsorku. Með samkomulagi þessu er verið að staðfesta þau starfskjör sem starfsmenn Fjöliðjunnar hafa notið á undanförnum árum. Kjör þeirra miðast við kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka Atvinnulífsins.

Við undirritun samningsins lýsti formaður félagsins yfir mikilli ánægju með það góða starf sem unnið er af starfsmönnum Fjöliðjunnar og minnti starfsmenn á að þeir væru fullgildir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness. Hann hvatti þá eindregið til að nýta sér þá þjónustu sem félagið hefur upp á að bjóða. Þó nokkuð margir starfsmenn hafa t.a.m. nýtt sér orlofshús félagsins.

Í ljósi þeirra staðreynda að þarna er unnið gríðarlega gott starf fyrir fatlaða einstaklinga ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að styðja Fjöliðjuna um 100.000 krónur og tók Þorvarður Magnússon forstöðumaður Fjöliðjunnar við ávísun úr hendi formannsins. Upplýsti Þorvarður að þessar 100.000 krónur yrðu eyrnamerktar starfsmönnum og sagði hann að þegar vora tæki myndu starfsmenn Fjöliðjunnar nota þetta framlag til að gera sér glaðan dag. Einnig afhenti formaður félagsins öllum starfsmönnum spil merkt Verkalýðsfélagi Akraness. Að lokum sagði formaður að stjórn Verkalýðsfélags Akraness væri stolt af því að hafa starfsmenn Fjöliðjunnar innan félagsins enda væri þar um harðduglega félagsmenn að ræða.

16
Dec

Verkalýðsfélag Akraness kemur færandi hendi!

Í byrjun þessa árs gerði Verkalýðsfélag Akraness mjög góðan viðskiptasamning við Landsbankann á Akranesi.  Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði 500 þúsund krónur til Verkalýðsfélags Akraness ár hvert á samningstímanum.

Stjórn félagsins ákvað í samráði við Landsbankann að þessum fjármunum skuli varið til góðgerðamála.  Á stjórnarfundi sem haldinn var 14. desember sl. var ákveðið hvaða aðilar skyldu fá styrk úr þessum sjóði félagsins í ár.  Þeir sem fá styrk í ár eru eftirfarandi:

  • Styrktar- og líknarsjóður Akraneskirkju 100 þúsund krónur.  (Eyrnamerkt þeim sem minna mega sín fyrir þessi jól)
  • Björgunarfélag Akraness 100 þúsund krónur.
  • Fjöliðjan 100 þúsund krónur.
  • Fyrr í vetur var unglingadeild SÁÁ veittur 100 þúsund króna styrkur.
  • Einnig fengu önnur góðgerðafélög smærri styrki úr þessum sjóði.

Nánar verður fjallað um þessar styrkveitingar Verkalýðsfélags Akraness í félagsblaðinu sem kemur út á fimmtudaginn kemur.

14
Dec

Laun pólskra verkamanna hækka um allt að 70%

Í dag átti formaður félagsins fund með pólskum verkamönnum sem starfa hér á Akranesi.  Tilefni fundarins laut að hinum ýmsu réttindamálum hjá pólsku starfsmönnunum og naut formaðurinn aðstoðar túlks frá Póllandi.

Þessir pólsku verkamenn eru leigðir til byggingarverktaka hér á Akranesi frá fyrirtæki í Kópavogi sem ekki hefur tilskilinn leyfi frá Vinnumálastofnun til að reka starfsmannaleigu hér á landi.  Formaður félagsins hefur verið í sambandi við Vinnumálastofnun vegna þessa máls. 

Ráðningarsamningar pólsku verkamannanna sýndu að þeir fá einungis greitt eftir lágmarkstöxtum.

Félagið hefur verið í góðu sambandi við byggingarverktakann sem leigði pólsku verkamennina frá fyrirtækinu sem hefur aðsetur í Kópavogi.  Byggingarverktakanum var ekki kunnugt um að fyrirtækið sem leigði honum pólsku verkamennina hefði ekki tilskilin leyfi frá Vinnumálastofnun.  Byggingarverktakinn sá ekki um launagreiðslu til pólsku starfsmannanna heldur greiddi beint til  fyrirtækisins sem sjá um að leigja þeim  pólsku verkamennina.

Byggingarverktakinn hefur boðið að ráða alla pólsku verkamennina í beint ráðningarsamband og hætta viðskiptum við fyrirtækið sem ekki hefur tilskilin leyfi til að starfrækja starfsmannaleigu hér á landi. Pólsku verkamennirnir hafa nú þegar þegið það boð. 

Við það hækka laun pólsku verkamannanna um allt að 70%, eða úr rúmum 730 kr. uppí 1.241 kr. á dagvinnutímann. Formaður félagsins hefur aðstoðað byggingarverktakann við að útbúa nýja ráðningarsamninga handa pólsku starfsmönnunum og eins og áður sagði er þeim þar með tryggð hækkun sem nemur allt að 70%.

Það er afar ánægjulegt þegar hægt að að verja þau markaðslaun sem eru í gildi á íslenskum vinnumarkaði eins og raunin varð í dag.  Því ef fyrirtæki nýta sér erlent vinnuafl til komast hjá því að greiða hefðbundin markaðslaun mun það klárlega hafa slæmar afleiðingar á launkjör íslenskra verkamanna þegar til lengri tíma er litið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image