• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Nov

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óttast um öryggi þeirra sem hafa aðsetur í iðnaðarhúsnæðum

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað pólska verkamenn sem búa í iðnaðarhúsnæði að Dalshrauni 13 í Hafnafirði.  Vill Verkalýðsfélag Akraness þakka fréttastofu Stöðvar 2 fyrir að vekja máls á þessu vandamáli einfaldlega vegna þeirrar stórhættu sem getur skapast ef eldur brýst út í iðnaðarhúsnæði þar sem fólk hefur aðsetur án vitundar slökkviliðs.

Á heimasíðu félagsins hefur verið bent á þetta vandamál og þá hættu sem af þessu getur skapast.

Það er óheimilt að gefa starfsleyfi fyrir starfsmannabústað í iðnaðarhúsnæði samkvæmt hollustuháttarreglugerð nr. 941/2002.

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið í mjög góðu samstarfi við heilbrigðisfulltrúa Akraneskaupstaðar hvað varðar eftirlit með iðnaðarhúsnæði sem nýtt er sem íbúðarhúsnæði fyrir erlenda starfsmenn.  Eftir ábendingu hefur heilbrigðisfulltrúi Akraneskaupstaðar nú þegar lokað tveimur iðnaðarhúsnæðum sem notuð hafa verið sem gistiaðstaða fyrir erlenda verkamenn á forsendu áðurnefndar reglugerðar.

Annar staðurinn sem um ræðir er fyrrum sólbaðsstofa og voru á milli 10 til 12 Litháar sem þar gistu.  Í eftirlitsferð sem lögreglan og heilbrigðisfulltrúi fóru á umræddan stað kom í ljós að svo virtist sem einn erlendi starfsmaðurinn svæfi í einum af þeim ljósabekkjum sem voru á staðnum.

Á hinum staðnum bjuggu 4 til 6 pólverjar á stað sem hafði ekki heldur nein leyfi sem íbúðarhúsnæði. Eins og áður sagði þá hefur heilbrigðisfulltrúi Akraneskaupstaðar bannað að þessi iðnaðarhúsnæði skuli vera notuð sem gistiaðstaða fyrir erlenda verkamenn.

Í stjórn Verkalýðsfélags Akraness situr stjórnarmaður sem hefur starfað í slökkviliði bæjarins í áratugi. Hefur hann lýst yfir verulegum áhyggjum með þann mikla fjölda erlendra starfsmanna sem hefur aðsetur í iðnaðarhúsnæði vítt og breitt um landið.  Benti þessi stjórnarmaður VLFA á að ef eldur brýst út í iðnaðarhúsnæði þá óttaðist hann að slökkviliðsmenn almennt hefðu ekki hugmynd um hvort einhverjir séu inni í brennandi iðnaðarhúsnæðinu eða ekki, einfaldlega vegna þess að í lögum er óleyfilegt að búa í iðnaðarhúsnæði.  Það var samróma álit stjórnar VLFA að hér getur verið um tifandi tímasprengju um að ræða og afar brýnt að tekið verði fast á þeim aðilum sem eru að leigja iðnaðarhúsnæði undir slíka starfssemi án heimildar.  

21
Nov

Félagsmenn athugið! Desemberuppbót skal vera búið að greiða eigi síðar en 15. desember

Desemberuppbót - færð þú það sem þér ber?  Verkalýðsfélag Akraness hvetur sína félagsmenn til að fylgjast vel með hvort desemberuppbót sé rétt greidd.  Endilega hafið samband við skrifstofu félagsins og fáið upplýsingar séu þið ekki viss hver réttur ykkar er.   

Almenni markaðurinn: 40.700 Kr.
Samiðn: 40.700 Kr.
Ríkissamningurinn: 40.700 Kr.
Akraneskaupstaður: 59.729 Kr.
Norðurál: 99.605 Kr.
Íslenska járnblendið 99.605 Kr.
Klafi: 99.605 Kr.
Fang: 99.605 Kr.
Sementsverksmiðjan: 80.340 Kr.

Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi:

Starfsfólk með skemmri starfstíma skal fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn. Þá á starfsmaður sem lætur af starfi á árinu vegna aldurs eða eftir 12 vikna samfellt starf hjá sama vinnuveitanda á árinu rétt á að fá, við starfslok, greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu.

17
Nov

Krafan í næstu kjarasamningum á að vera sú að lágmarkstaxtar hækki um allt að 40%

Nú er einungis rétt rúmt ár þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út, nánar tiltekið 31. desember 2007.  Það er ljóst að undirbúningur fyrir komandi kjarasamningagerð mun væntanlega hefjast fljótlega á næsta ári.

Það er mat formanns VLFA að aðalkrafan í næstu kjarasamningagerð á hinum almenn vinnumarkaði eigi að vera sú að færa lágmarkstaxta upp að þeim markaðslaunum sem eru almennt í gildi á hinum almenna vinnumarkaði.  Til þess þurfa lágmarkstaxtar að hækka í það minnsta um 30% til 40% við undirritun nýs kjarasamningsins.

Umtalsverð hækkun á lágmarkstöxtum verður að nást í næstu kjarasamningagerð til að koma í veg fyrir þann gríðarlega ávinning sem atvinnurekendur hafa haft af því að ráða ódýrt erlent vinnuafl frá Austur - Evrópu á berstrípaða lágmarkstaxta.  Það er alvitað að stór hluti þess erlenda vinnuafls sem hingað kemur til starfa hefur verið sett á lágmarkslaun.  Sú þróun hefur ekki gert neitt annað en að grafa undan því markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði og gjaldfella launakjör íslenskra launþega.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur heilshugar undir þau orð sem Steingrímur J Sigfússon sagði í ræðu á Alþingi 28.apríl en þar sagði hann orðrétt:

"Það vita t.d allir að laun ófaglærða verkamanna eru á hraðri niðurleið, líka Íslendinga, vegna þess að þeir eru pressaðir niður á sömu kjör og hægt er að flytja inn Pólverja eða Eystrasaltsbúa á.  Fróðir menn segja mér að tímakaupið hafi jafnvel lækkað um 250-300 kr. á einu ári"

Við þessari slæmu þróun verður verkalýðshreyfingin að bregðast af alefli og það gerir hún með því að gera skýlausa kröfu um stórhækkun á lágmarkstöxtum.  Verkalýðshreyfingin þarf að standa fast á þessari kröfu og hvika hvergi í þeim efnum. 

Dr. Lilja Mósesdóttir skrifaði grein í Morgunblaðið 10. nóvember 2006 þar sem hún kom inn á þessa kröfu um að færa laun nær greiddu kaupi.  Formaður VLFA tekur algerlega undir allt sem kemur fram kemur hér að neðan. Hér kemur bútur úr þessari grein sem birtist í Morgunblaðinu 10. nóv:

"Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi komi í veg fyrir að fjölgun innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði hafi neikvæð áhrif á laun. Að öðrum kosti mun andúð Íslendinga á innflytjendum aukast. Íslenska launakerfið sem byggir á lágum viðmiðunartöxtum sem síðan eru yfirborgaðir er illa til þess fallið að taka á þessu “nýja” vandamáli og býður reyndar upp á að áhrif innflytjenda á greidd laun verði meiri hér á landi en annars staðar. Eftir því sem innflytjendum fjölgar verður þrýstingurinn meiri á heimamenn að samþykkja strípaða taxta fyrir vinnu sína. Það er því löngu orðið tímabært að taxtar verði hækkaðir í samræmi við greidd laun í öllum stéttum og að eftirlit með launagreiðslum einstakra atvinnurekenda verði stóreflt".

16
Nov

Starfsmannaleigum hefur fjölgað um 10 frá 1. maí 2006

Samkvæmt upplýsingum sem Verkalýðsfélag Akraness hefur fengið frá Vinnumálastofnun þá hefur starfsmannaleigum fjölgað um 10 frá því að lögum um frjálst flæði launafólks frá ríkjum ESS var aflétt 1. maí sl. 

Fyrir 1. maí voru 21 starfsmannaleiga skráð, en í dag eru þær orðnar 31 sem er eins og áður sagði fjölgun um 10. 

Fyrir 1. maí voru 344 starfsmenn sem voru ráðnir til fyrirtækja í gegnum starfsmannaleigur.  Frá 1. janúar hafa 1068 starfsmenn komið hingað til starfa í gegnum starfsmannaleigur sem er fjölgun uppá 724 starfsmenn.  Vinnumálastofnun telur að milli 10 til 11% þeirra nýju erlendu starfsmanna sem hingað hafa komið til starfa séu í gegnum starfsmannaleigur.

Einnig kom fram hjá Vinnumálastofnun að um 100 nýir erlendir starfsmenn koma hingað til starfa í hverjum mánuði í gegnum starfsmannaleigu.  Það kom líka fram að um 20 starfsmenn séu afskráðir í hverjum mánuði sem geri að nettó fjölgun á starfsmönnum sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur eru í kringum 80 í hverjum mánuði.

Í Blaðinu í dag er viðtal við félagsmálaráðherra þar sem hann segir orðrétt: 

"Alþýðusamband Íslands eru heildarsamtök verkalýðsfélaganna.  Þegar ákvörðunin var tekin var haft samband við ASÍ og Samtök atvinnulífsins.  Bæði samtökin studdu ákvörðunina, einkum með það fyrir augum að draga úr starfsmannaleigum sem milliliði fyrir fólkið sem hingað kom"

Félagsmálaráðherra og forsvarsmenn ASÍ studdu ákvörðunina um frjálst flæði launafólks frá ríkjum ESS, einkum með það fyrir augum að draga úr starfsmannaleigum sem milliliði fyrir erlenda starfsmenn eins fram kom í viðtali við ráðherra í Blaðinu í dag. 

Það er alveg ljóst að sú von um að starfsmannaleigum mynda fækka í kjölfar á því að takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum ESS hefur alls ekki gengið eftir eins og tölur frá Vinnumálastofnun sanna. 

Í lögum um starfsmannaleigur er ekki kveðið á um að starfsmannaleigur þurfi að skila inn ráðningarsamningum inn til Vinnumálastofnunar af þeim starfsmönnum sem koma hingað til starfa í gegnum starfsmannaleigur.   Hins vegar getur Vinnumálastofnun kallað eftir ráðningarsamningum ef svo ber undir.  

Atvinnurekandi sem ræður erlendan starfsmanna í beint ráðningarsamband frá ríkjum ESS þarf að skila inn til Vinnumálastofnunar ráðningarsamningi  þar sem sýnt er fram á að laun og önnur starfskjör séu tryggð samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum.   Eins og áður sagði þarf ekki að skila inn ráðningarsamningi ef starfsmaður er ráðinn í gegnum starfsmannaleigu.  Með öðrum orðum þá er minna eftirlit með starfsmönnum sem koma í gegnum starfsmannaleigur heldur en þeirra sem ráðnir eru í beint ráðningarsamband.  Það er undarlegt að tilkynningaskylda starfsmannaleigna sé minni í ljósi þess að mönnum hefur verið tíðrætt um að fleiri brot  séu framin á launakjörum erlendra starfsmanna, sem koma í gegnum starfsmannaleigur. 

Hægt er að sjá skiptingu á þeim starfsmönnum sem starfa á vegum starfsmannaleigna eftir skráðum starfsheitum með því að smella á meira og einnig hvaða starfsmannaleigur eru skráðar hjá Vinnumálstofnun

Skráðar starfsmannaleigur

NafnLandTengiliðurSkráðir starfsmenn
2b ehf Ísland Eiður Eiríkur Baldvinsson 53
Alhjúkrun ehf Iceland Dagmar Jónsdóttir 34
Assista Iceland Iceland Birgit Raschhofer 6
Connway ltd., útibú á Íslandi United Kingdom Dennis Gilijamse 23
Epalmo Europa Lda Portugal Rui Vieira 142
Ethnic Care ApS Denmark Sigríður Þorsteinsdóttir 1
F.H Verk ehf Ísland Claudia Vennemann 51
Foral Scandic s.r.o Czech Republic Eyþór Jósepsson 25
GM Staffing ehf. Iceland Johnny Mortensen 2
Holtan Industrier AS Norway Gunnhildur Harpa Hauksdóttir 5
ID Geotermia, útibú á Íslandi Hungary Baldur Gylfason 5
Intjob (Framkvæmdaráð) Iceland Stefán Kjærnested 16
Jobzone Bygg & Anlegg AS Norway Eric Roggenkamp 6
Kleomis Lithuania Kleopas Minelga 27
Kraftafl ehf Iceland Georg Georgiou 7
Liðsinni ehf. Iceland María Bragadóttir 20
MCR Building Services Ltd Ireland Michael Coffey 24
NETT - Nova Emp. de Trabalho Temporário, Lda. Portugal Fernando Costa 150
RAIS Vinnumiðlun Iceland Hjálmar Kjartansson 25
Rimec Ltd Ireland Mark Lundgren 37
Select Serviços -I Portugal Fernando Jorge Costa Veran Sousa 115
UAB Marius ir partnerai Lithuania Vytautas Lipskas 15
Útrás ehf Iceland Sigurður G. Ringsted 17
Voot Import - Export ehf Iceland Óskar Þórðarson 65

Starfsmannaleigur sem hafa ekki enn skráð neina starfsmenn

NafnLandTengiliður
Ethnic Care Island ehf. Iceland Gunnar J. Magnússon
Foral Ísland ehf. Ísland Eyþór Ragnar Jósepsson
MG Contracts EHF Iceland Thomas James Mc Gowan
Oceanwide Haraship Danmark Denmark Grímur Agnarsson
People Select Aviation Limited Bretland Magnús Már Harðarson
Temporary Work Company Iceland Jón Ingi Jóhannesson
Transwork Polish manning office Poland Ingi Torfi Sigurðsson

 

Starfsheiti og aldur      
       
Starfsmannaleigur - skipting eftir skráðum starfsheitum
       
  Fjöldi hlutfall  
Verkamenn 369 35,2%  
Trésmiðir 201 19,2%  
Hjúkrunafræðingar 69 6,6%  
Vinnuvélastj. Vörubílstj. 68 6,5%  
Rafsuðumenn 48 4,6%  
Blikksmiðir 47 4,5%  
Pípulagningamenn 43 4,1%  
Sérh. Byggingaverkamenn 41 3,9%  
Kjötiðnaðarmenn 39 3,7%  
Rafvirkjar 36 3,4%  
Steypu- og járnamenn 24 2,3%  
Járnsmiðir 16 1,5%  
Kranastjórar 15 1,4%  
Málarar 10 1,0%  
Sjúkraliðar 6 0,6%  
Aðstoðarmenn rafvirkja 5 0,5%  
Birgðaverðir 4 0,4%  
Flokkstjórar 4 0,4%  
Múrarar 2 0,2%  
Gólflagningamenn 2 0,2%  
       
  1049    
       
       
Aldursskipting starfsmannaleiga    
       
  Fjöldi Hlutfall  
18-19 8 1%  
20-29 247 23%  
30-39 358 34%  
40-49 284 27%  
50-59 150 14%  
60-66 21 2%  
       
Samtals 1068  
13
Nov

Er óheftur innflutningur á erlendu vinnuafli hingað til lands farinn að hafa neikvæð áhrif á launakjör íslenskra launþega?

Það kom formanni félagsins ekki á óvart að umræða um málefni erlends vinnuafls skyldi blossa upp í íslensku samfélagi eins gerðist í síðustu viku.  Reyndar vekur það furðu hjá formanni félagsins hvernig einstaka aðilar í þjóðfélaginu hafa brugðist illa við þeirri umræðu sem lýtur að erlendu vinnuafli.   Þessir sömu aðilar hafa talað um að verið sé að ala á kynþáttafordómum og ótta í garðs erlends vinnuafls með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað að undaförnu. 

Umræðan um erlent vinnuafl á ekki að snúast um trúarbrögð eða litarhátt fólks.  Umræðan á að snúast um íslenskan vinnumarkað og hvaða áhrif og afleiðingar óheftur innflutningur á erlendu vinnuafli hefur á launakjör íslenskra launþega.  Einnig á umræðan að snúast um hvernig hægt er að koma í veg fyrir að óprúttnir atvinnurekendur misbjóði erlendu verkafólki bæði hvað varðar aðbúnað sem og önnur starfskjör.

Ætla þingmenn og aðrir stjórnmálamenn að halda því fram að óheftur innflutningur á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu hafi ekki slæm áhrif á það markaðslaunakerfi sem hefur verið við lýði hér á landi á undanförnum árum og áratugum?

Er óeðlilegt að íslenskir launþegar hafi áhyggjur af sinni afkomu þegar tekið er tillit til þess að um 10 þúsund erlendir starfsmenn hafa komið inn á íslenskan vinnumarkað og það bara í ár?  Það er vitað að stórhluti þeirra erlendu starfsmanna sem hingað koma til starfa eru settir á berstrípaða lágmarkstaxta, en ekki á þau markaðslaun sem gilda á viðkomandi starfssvæði.   Þessu til viðbótar er verið að þverbrjóta á réttindum erlends verkafólks bæði hvað varðar aðbúnað og önnur starfskjör og þau brot eiga sér stað um land allt, eins og margoft hefur komið fram hjá stéttarfélögunum og fjallað hefur verið um á Alþingi.

Hvað sagði ekki Atli Gíslason þingmaður VG í ræðu á Alþingi þar sem fjallað var um atvinnu og búsettu launafólks frá EES?

"Ég vil nefna dæmi um verkamannahóp sem var að vinna í Reykjavík með 400 kr. jafnaðarkaup á tímann, vann 16 tíma á sólarhring, klæðalítill og aðbúnaðurinn allur í skötulíki.

Ég hitti þessa útendinga næstum á hverjum degi, veit nákvæmlega hver staða þeirra er, tel fram fyrir þá og sinni þeim á alla kanta.  Ég þoli ekki að sjá Pólskan verkamann vinnandi  á Seltjarnarnesi í 15 stiga gaddi fyrir 400 kr. á tímann og búa svo í gámi.  Það þarf ekkert að kanna eða rannsaka".

Það eru svona dæmi sem verkalýðhreyfing er búin að vera að benda á allt síðasta ár.  Það eru brot af þessu tagi sem eru að gjaldfella launakjör hjá íslenskum launþegum og sérstaklega hjá verkafólki. 

Að sjálfsögðu hefur óheftur innflutningur á ódýru vinnuafli slæm áhrif á launakjör íslenskra verkamanna.  Hvað sagði ekki Guðmundur Þ Jónsson varaformaður Eflingar í viðtali við Fréttablaðið 3. apríl sl.   Laun erlendra verkamanna í byggingariðnaði hafa lækkað um 30% að undaförnu.  Einnig kom fram í viðtalinu að laun íslenskra byggingaverkamanna væru byrjuð að lækka. 

Hvað sagði Steingrímur J Sigfússon þingmaður Vinstri-grænna í ræðu á Alþingi þar sem fjallað var um atvinnu og búsettu launafólks frá EES?

 "Það vita t.d allir að laun ófaglærða verkamanna eru á hraðri niðurleið, líka Íslendinga, vegna þess að þeir eru pressaðir niður á sömu kjör og hægt er að flytja inn Pólverja eða Eystrasaltsbúa á.  Fróðir menn segja mér að tímakaupið hafi jafnvel lækkað um 250-300 kr. á einu ári"

Formaður VLFA óttast að íslenskir verkamenn og iðnaðarmenn séu byrjaðir að missa störf sín vegna þess hve aðgengi atvinnurekenda að ódýru erlendu vinnuafli er orðið auðvelt.

Nánast öll verkalýðshreyfingin benti í sínum ályktunum á að óheftur innflutningur á ódýru vinnuafli myndi grafa undan því markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði og um leið gjaldfella launakjör hjá íslenskum launþegum.  

Hvað mun gerast þegar samdráttur verður á íslenskum vinnumarkaði? Verða það íslenskir verkamenn sem starfa á hefðbundnum markaðslaunum sem munu fyrstir missa atvinnuna eða verða það erlendir starfsmenn sem sætta sig við að starfa á berstrípuðum lágmarkstöxtum og jafnvel vel undir þeim?  Formaður Verkalýðsfélags Akraness hræðist að það verði íslenskt verkafólk sem verði undir í þeirri baráttu. 

Þetta er  ástæðan fyrir því að 70% þjóðarinnar vill að innflutningi á erlendu vinnuafli verði stjórnað með einum eða öðrum hætti. 

Formaður félagsins spyr, eru íslenskir launþegar að ala á kynþáttafordómum með því að hafa áhyggjur launakjörum sínum og jafnvel störfum sínum, í kjölfar þeirrar sprengingar sem orðið hefur á erlendu vinnuafli hingað til lands?

09
Nov

Alþýðusamband Íslands studdi að takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá ríkjum EES yrði aflétt þvert á vilja fjölda stéttarfélaga

Í Morgunblaðinu í gær er haft eftir framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands, Gylfa Arnbjörnsyni, að ASÍ og SA  hafi sameiginlega stutt það að takmarkanir á frjálsri för launafólks frá EES yrðu afnumdar frá 1. maí sl.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir undrun sinni á því að ASÍ skuli hafa stutt það að takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum EES yrði aflétt.  Sú undrun byggist á því að fjöldi stéttarfélaga varaði stórlega við því að takmörkunum yrði afétt.  Reyndar áttar formaður VLFA sig ekki alveg á því hver afstaða ASÍ var í þessu máli.  Í fréttum 20. apríl 2006 er haft orðrétt eftir Halldóri Grönvold:  

"Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir það hreint og skýrt að stjórnvöld hefðu átt að nýta heimild til að fresta gildistöku þessara laga svo að það mætti undirbúa þetta mál betur"

Ef fréttin er rétt er greinilegt að aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og framkvæmdastjórinn eru ekki að tala sama máli.

En skoðum hvaða stéttarfélög vöruðu við því að takmörkunum yrði aflétt. Þau voru eftirfarandi: Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Húsavíkur, Verkalýðsfélag Borgarness, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, AFL – Starfsgreinafélag Austurlands, Félag járniðnaðarmanna, Efling - Stéttarfélag, Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, BSRB, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands, Iðnnemasamband Íslands og Landssamband Samiðnar. 

Í ljósi þess að öll þessi stéttarfélög vöruðu við því að takmörkunum yrði aflétt þá spyr formaður Verkalýðsfélag Akraness hvernig í ósköpunum hægt sé að segja að sátt hafi verið á milli aðila vinnumarkaðarins um að aflétta takmörkunum á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum EES eins og haldið hefur verið fram. Það verður að segjast alveg eins og er að vinnubrögð ASÍ eru stórfurðuleg í ljósi þess að fjöldi aðildarfélaga ASÍ varaði stórlega við því að takmörkunum yrði aflétt og spurning er hvaða heimild ASÍ hafði til að styðja þennan gjörning þvert á vilja fjölda aðildarfélaga sinna.

En skoðum vegna hvers stéttarfélögin voru á móti því að takmörkunum yrði aflétt og eru hér að neðan bútar úr ályktum frá hinum ýmsu félögum.

Ályktun frá aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness 

"Aðalfundurinn telur að því markaðslaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum sé stórlega ógnað ef það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi fer í gegn óbreytt.

 

Aðalfundur telur það einnig óskiljanlegt af hverju verið er að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli eins og fram kemur í fyrirliggjandi frumvarpi félagsmálaráðherra. Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir rík skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa stéttarfélögin þar víðtækra hagsmuna að gæta"

Fjölmennur félagsfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti eftirfarandi ályktun 27. maí sl.

"Fundurinn lýsir miklum vonbrigðum með að eftir óvandaðan undirbúning af hálfu stjórnvalda á nú að keyra þetta stórmál í gegnum þingið á örfáum dögum.  Efling-stéttarfélag hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að stéttarfélögunum sé áfram gert kleyft að fylgjast með beinum hætti með ráðningarkjörum útlendinga hjá fyrirtækjum hér á landi. Nýleg dæmi sýna að til eru atvinnurekendur sem þverbrjóta hér lög og kjarasamninga á vinnumarkaði. Frjálst flæði vinnuafls við þessar aðstæður mun hafa þau áhrif að þrýsta kjörum og réttindum launafólks á vinnumarkaði niður á við."

Ályktun frá Verkalýðsfélagi Borgarness

"Fundurinn bendir á að íslensk stjórnvöld eru illa í stakk búin til að taka á vandamálum sem án vafa mun fylgja þessari opnun nú. Aukið flæði launafólks frá láglaunasvæðum Austur-Evrópu kemur einnig til með að lækka markaðslaun í landinu og grafa undan íslensku velferðarkerfi."

 

Ályktun frá Verkalýðfélagi Húsavíkur

"Verkalýðsfélag Húsavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við að innlendur vinnumarkaður verði opnaður 1. maí fyrir milljónum íbúa átta þjóða í Austur Evrópu. Verkalýðsfélag Húsavíkur telur íslenskan vinnumarkað ekki tilbúinn til að taka við auknu flæði launafólks 1. maí. Þess vegna telur félagið eðlilegt að fresta gildistöku reglnanna um nokkur ár og tíminn notaður til að setja skýrar reglur sem kveði á um ábyrgð."

 
Ályktun AFLs – Starfsgreinafélags Austurlands

Ársfundur trúnaðarmanna AFLs – Starfsgreinafélags Austurlands skorar á stjórnvöld að fresta gildistöku reglna um frjálst flæði launafólks frá nýjum aðildarríkjum EB um allt að 3 ár. Fundurinn bendir á að reynslan hefur sýnt að íslensk löggjöf er ekki tilbúin til að taka á málum sem upp hafa komið og í ljósi mikillar þenslu er hætt við að aukið, eftirlitslaust, flæði launafólks frá láglaunasvæðum Austur Evrópu, myndi grafa undan grundvallaratriðum velferðarkerfisins.

1.maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Iðnnemasambands Íslands.

Opnun vinnumarkaðar

Verkalýðssamtökin og atvinnurekendur hafa deilt hart um hvort við erum að keyra hjól atvinnulífsins of hratt með erlendu vinnuafli með ófyrirséðum afleiðingum. Mörg rök hníga að því að ekki hafi verið farið nógu varlega. Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að nýta ekki aukinn aðlögunarfrest gagnvart nýjum löndum Evrópusambandsins orkar mjög tvímælis. Hún ein og sér getur þýtt það að mun erfiðara verði að fylgjast með launakjörum útlendinga hér á landi. Að stjórnvöld skuli ekki hafa fyrirvara gagnvart eftirliti með notendafyrirtækjum og þjónustusamningum býður hættunni heim. Opinn vinnumarkaður veldur því að erfiðara er að standa vörð um réttindi og kjör launafólks. Það er staðreynd að nokkur hópur atvinnurekenda notar tækifærið til að brjóta á réttindum launafólks. Í skjóli leyndar þrífast mannréttindabrotin. Áhrifin eru þegar farin

að segja til sín með lækkandi launum í vissum atvinnugreinum. Gegn því verður barist með oddi og egg.

Ályktun um opnun vinnumarkaðar 12.4 2006

 

"Fundur í Félagi járniðnaðarmanna haldinn þriðjudaginn 11. apríl varar eindregið við því að innlendur vinnumarkaður verði galopnaður fyrir milljónum íbúa átta þjóða í Austur Evrópu þann 1. maí nk.

Með því að falla frá skilyrði um atvinnuleyfi má búast við að fjöldi erlendra starfsmanna streymi á innlendan vinnumarkað. Sumir atvinnurekendur munu eflaust nýta sér þessa aðstöðu til að koma sér upp ódýru vinnuafli og pressa á lækkun þeirra launa sem hafa verið á vinnumarkaðnum. Hætta er á að hömlulaust framboð á starfsfólki frá þessum löndum ýti undir gerviverktöku, lækkun markaðslauna og atvinnuleysi.

Fundurinn telur að forsendur fyrir opnun vinnumarkaðar séu að lögfest verði ábyrgð fyrirtækja sem nota erlent starfsfólk varðandi kjör og skattskil og að settar verði skorður við gerviverktöku".

 

 Frétt sem birtist í fréttablaði Félags iðn- og tæknigreina í apríl 2006

" Eins og fram hefur komið í fréttum mun félagsmálaráðherra opna á frjálsa för launafólks sem kemur frá nýjustu aðildarríkjum Evrópusambandsins þann 1. maí n.k. Ljóst er að ekki náðist fram nema hluti þeirra krafna sem verkalýðshreyfingin setti fram og því líklegt að erfiðir tímar sér framundan. Mjög erfitt verður að hafa eftirlit með innflutningi á vinnuafli og sérstaklega bagalegt að verkkaupendum sé ekki gert skylt að ganga úr skugga um að verktakar fari að íslenskum lögum og reglum á vinnumarkaði. Hætt er við mikilli óánægju og jafnvel árekstrum ef þrengir að á íslenskum vinnumarkaði og ljóst að erfitt verður að verja þau launakjör sem menn hafa náð umfram kjarasamninga.

Félag iðn- og tæknigreina lagði mikla áherslu á að ASÍ legðist gegn frumvarpinu ef ekki næðist að tryggja að áherslur verkalýðshreyfingarinnar næðu fram að ganga."

Þessu til viðbótar sendu nokkur stéttarfélög umsagnir til félagsmálanefndar Alþingis Þar sem þau vöruðu eindregið við því að takmörkunum yrði aflétt.  Eins og hefur komið fram er óskiljanlegt að ASÍ skuli hafa studd það að takmörkunum yrði aflétt í ljósi þeirra staðreynda að fjöldi stéttarfélaga varaði við því að takmörkunum yrði aflétt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image