• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Vinnumálastofnun kallar eftir gögnum frá fyrirtæki Fundir með forstjóra Vinnumálastofnunar frá því í fyrra. Einnig eru á myndinni ásamt formanni félagsins, Guðrún Gísladóttir Svæðisvinnumiðlun, Guðmundur Páll Jónsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar
30
Jan

Vinnumálastofnun kallar eftir gögnum frá fyrirtæki

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness haldið úti nokkuð öflugu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem starfa á félagssvæði VLFA og eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Eftirlitið gengur út á það að tryggja að ekki sé verið að brjóta á réttindum þeirra erlendu starfsmanna sem starfa á okkar félagssvæði. 

Einnig gengur eftirlitið út á að kanna hvort þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn séu að uppfylla þau lagaskilyrði sem til þarf til að hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  T.d. hvort búið sé að skrá erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunnar eins og lög kveða á um og einnig hvort fyrirtæki séu að reka starfsmannaleigu án þess að hafa heimildir til slíks.

Nú þegar hefur Verkalýðsfélag Akraness bent Vinnumálastofnun á eitt fyrirtæki sem var að starfa á félagssvæði VLFA án tilskilinna leyfa.  Vinnumálastofnun fór í það mál af fullri einurð og hörku og kom í ljós að grunsemdir Verkalýðsfélags Akraness voru á rökum reistar þar sem viðkomandi fyrirtækið hafði ekki heimild til að starfa sem starfsmannaleiga.

Formaður félagsins hefur nokkuð sterkar grunsemdir um að annað fyrirtæki sé að starfa sem starfsmannaleiga án þess að hafa heimildir til slíks.  Hefur félagið nú þegar gert Vinnumálastofnun viðvart hvað varðar þessar grunsemdir. 

Fulltrúi frá Vinnumálastofnun og Vinnueftirliti ríkisins heimsóttu viðkomandi fyrirtæki í síðustu viku og mun Vinnumálastofnun í framhaldinu kalla eftir gögnum frá umræddu fyrirtæki til að kanna hvort verið sé að brjóta lög um starfsmannaleigur.

Formaður félagsins er afar ánægður með hvernig Vinnumálastofnun tekur á þeim málum sem komið hafa upp á félagssvæði VLFA, en vinnubrögð Vinnumálastofnunar hafa einkennst af fagmennsku og ákveðni. 

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að félagsleg undirboð og brot á réttindum erlendra starfsmanna verður ekki látið átölulaust á félagssvæði Verklýðsfélags Akraness.  Ef ekki er tekið hart á slíkum brotum mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alla íslenska verkamenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image