• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Oct

Ársfundi ASÍ lauk í gær

Ársfundi ASÍ lauk í gær.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var megin þema þessa fundar hnattvæðingin og íslenskur vinnumarkaður. 

Einnig voru fleiri mál til umræðu eins og t.d breytingar á skipulagi hjá Alþýðusambandi Íslands.  Tillagan gekk út það að  fjölgað yrði úr 15 manna miðstjórn í 31, reiknað var með að miðstjórn kæmi saman fjórum sinnum á ári.  Einnig var í tillögunum gert ráð fyrir að stofnuð yrði 11 manna framkvæmdastjórn sem yrði skipuð forseta, varaforseta, formönnum landssambanda og þriggja stærstu aðildarfélaga.

Ef þessi tillaga hefði verið samþykkt þá hefði einungis einn landsbyggðar fulltrúi átt sæti í framkvæmdastjórn ASÍ og aðeins ein kona.  Það var að mati fulltrúa þeirra félaga sem komu af landsbyggðinni algerlega óásættanlegt.  

Einnig var í tillögunni búið að eyrnamerkja þá aðila sem áttu að eiga sæti í framkvæmdastjórn Alþýðusambandsins.  Fannst mörgum það ekki beint lýðræðislegt að í lögum ASÍ væri nánast búið að ákveða hverjir eigi sæti í framkvæmdastjórn sambandsins.  

Það kom því fulltrúum Verkalýðsfélags Akraness ekki mikið á óvart að áðurnefndar lagabreytingar skyldu hafa verið felldar.

Það þýðir samt sem áður ekki svo að menn sé á eitt sáttir með það skipulag sem nú er við lýði hjá ASÍ, þó svo að þessar skipulagsbreytingar hafi verið felldar.   

26
Oct

Ársfundur ASÍ hófst í morgun

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hófst í morgun með ávarpi frá forseta ASÍ, Grétari Þorsteinssyni.  Einnig flutti Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ávarp.  Verkalýðsfélag Akraness hefur rétt á fjórum fulltrúum á ársfundinn og eru þeir Vilhjálmur Birgisson, Þórarinn Helgason, Tómas Rúnar Andrésson og Björgólfur Einarsson.

Megin þema þessa ársfundar er Ísland og hnattvæðingin.  Á fundinum verður farið yfir þau áhrif sem hnattvæðingin hefur haft á íslenskt samfélag.  Það er alveg ljóst að hnattvæðingin hefur bæði kosti og galla hér á landi.  

Íslenskir launþegar hafa svo sannarlega orðið varir við áhrif hnattvæðingarinnar hér á landi, en hún birtist okkur í stórauknu flæði erlends verkafólks frá hinum ýmsu ríkum.

Hnattvæðingin hefur gert það að verkum að aðgengi atvinnurekanda að ódýru erlendu vinnuafli hefur stóraukist.  Því miður hafa sumir atvinnurekendur og reyndar alltof margir nýtt sér bága stöðu þessa fólks.  Sagan sýnir okkur að það er verið að brjóta á erlendu verkfólki út um allt land, bæði hvað varðar laun sem og önnur starfkjör.  

Verkalýðshreyfingin verður í heild sinni að skera upp herör gegn þeim atvinnurekendum sem vísvitandi brjóta á réttindum erlends vinnuafls sem hingað kemur til starfa.  Verkalýðshreyfingin getur ekki horft uppá það að áratuga löng barátta fyrir bættum réttindum og kjörum íslenskra verkamanna, verði gjaldfelld með auknu aðgengi að ódýru erlendu vinnuafli.    

25
Oct

Þjóðarhagsmunir í húfi að Íslendingar ráði sjálfir yfir sínum auðlindum!

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju eftir 17 ára hlé.

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa árlega mörg undanfarin ár lagt til veiðar á langreyði og hrefnu og gert tillögu um veiðikvóta fyrir þessi dýr.  Það er mat formanns félagsins að við Íslendingar getum á engan hátt sætt okkur við það að utanaðkomandi aðilar stjórni því hvernig við nýtum okkar eigin auðlindir.  Er þetta mat formannsins byggt á grundvelli þeirra staðreynda að vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar telja stofnstærð bæði hrefnu sem og langreyðar þoli umtalsverðar veiðar.

Hin ýmsu náttúruverndarsamtök hafa náð að telja almenningi í trú um að hvalir séu í verulegri útrýmingarhættu en það er þvert á það sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa sagt.  Við Íslendingar getum ekki á nokkurn hátt látið kúga okkur til þess að nýta ekki þær auðlindir sem við eigum á forsendum sem eru klárlega rangar og ekki byggðar á nokkrum vísindalegum rökum.

Formaður félagsins spyr sig líka hvað ef náttúrusinnar myndu fara að halda því ranglega fram að aðrir nytjastofnar okkar Íslendinga væru í útrýmingarhættu t.d þoskurinn, ýsan, síldin og jafnvel loðnan. Ættum við Íslendingar að láta undan náttúruverndarsinnum og hætta veiðum á ofangreindum fiskistofnum.  Nei, það er mat formanns félagsins að hér sé um þjóðarhagsmuni okkar Íslendinga að ræða. Það verður að vera ákvörðun okkar hvernig við nýtum okkar auðlindir en að sjálfsögðu á sú ákvörðun að vera byggð á vísindalegum rökum.

Það er afar mikilvægt að ríkisstjórn Íslands fari í þá vinnu af fullum krafti að upplýsa umheiminn um að hér eru ekki hafnar veiðar á dýrum sem eru í útrýmingarhættu, heldur veiðar sem byggðar eru á faglegu mati færustu vísindamanna á þessu sviði.  

20
Oct

Trúnaðarmannanámkeiðinu lýkur í dag

Trúnaðarmannanámskeiðið sem Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið fyrir lýkur í dag.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hófst námskeið á mánudaginn var og er liður í gera trúnaðarmenn vel hæfa til að gegna sínu starfi.

Í gær kom lögfræðingur ASÍ, Ingvar Sverrisson, og var með erindi um vinnurétt og fór yfir nýlega dóma sem tengjast vinnurétti.  Formaður félagsins var með erindi á miðvikudaginn um þá kjarasamninga sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og þá þjónustu sem er í boði hjá félaginu.

Það er alveg óhætt að segja að sá hópur sem sækir þetta námskeið sé afar áhugasamur og vonandi mun námskeið þetta nýtast þeim að takast á við þau verkefni sem fylgir því að vera trúnaðarmaður.

16
Oct

Trúnaðarmannanámskeið hófst í morgun

Í morgun hófst trúnaðarmannanámskeið á vegum Verkalýðsfélags Akraness.  Námskeiðið mun standa framá föstudag.

Fyrir hádegi var fjallað um samskipti og einelti  á vinnustöðum, var það í umsjón Aðalheiðar Sigurjónsdóttur.  Eftir hádegi fer Haukur Harðarson yfir starf og stöðu trúnaðarmanna.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggur mikla áherslu á að trúnaðarmenn félagsins séu vel í stakk búnir til að takast á við þau verkefni sem geta lent inná borði trúnaðarmanna.  Námskeið þetta er einn liður í þeirri vinnu.

13
Oct

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar ákvörðun Elkem um að hefja framleiðslu magnesíumkísilmálms á Grundartanga

Stjórn Elkem í Noregi ákvað á fundi sínum rétt í þessu að flytja starfsemi einnar verksmiðju fyrirtækisins í Noregi til Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga sem einnig er í eigu Elkem.

Ingimundur Birnir forstjóri Íslenska járnblendifélagsins segir að við þessa breytingu skapist um fjörtíu ný störf á Grundartanga og nauðsynlegt verði að fjárfesta fyrir um þrjá milljarða og áætlað er að velta fyrirtækisins aukist um 3,5 milljarða króna án þess að orkuþörf verksmiðjunnar aukist.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun Elkem vegna þess að vinnsla á FSM mun tryggja Íslenska járnblendifélaginu mun stöðugri rekstrur heldur verið hefur að mati þeirra sem til þekkja.  En rekstur ÍJ hefur ætíð verið nokkuð sveiflukennur.  Einnig er það afar ánægjulegt að við þessa stækkun mun störfum fjölga um allt að 40 manns.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image