• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Sep

Lausir bústaðir um næstu helgi

Athygli félagsmanna er vakin á því að vegna forfalla eru bústaðir félagsins í Svínadal og í Húsafelli lausir til umsóknar núna um helgina.

Hægt er að skoða lausar vikur undir liðnum orlofshús hér vinstra megin. Einnig er bent á að myndir af flestum bústöðum félagsins eru komnar undir liðinn myndir hér til vinstri.

06
Sep

Áhugavert námskeið á vegum Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi

Í október hefst námskeið ætlað einstaklingum sem glíma við lestrar- eða skriftarörðugleika og eru á vinnumarkaði, en hyggjast fara í nám eða aftur í nám.  Námskeiðið er 95 kennslustundir og munu nemendur fara í sjálfsstyrkingu, íslensku, tölvu- og upplýsingatækni og í svokallaða Davis leiðréttingu. 

Davis leiðrétting er aðferð sem kennd er við Ron Davis sem sjálfur var lesblindur en tókst að þróa aðferðir til að hjálpa sér og öðrum í námi og daglegu lífi. 

Markmiðið er að auka hæfni til náms og stuðla að jákvæðu viðhorfi til áframhaldandi náms. Tilgangur þess er að styrkja sjálfstraust námsmanna, þjálfa þá í lestri og skrift með aðferðum Ron Davis og búa þá undir frekari þjálfun eftir að námskeiðinu lýkur.

“Aftur í nám” er ætlað þeim sem eru komnir af unglingsaldri og glíma við lestrar- og skriftarörðugleika.

Engar kröfur eru gerðar til lágmarks skólagöngu áður en nám hefst og námsmenn gangast ekki undir formleg próf. Kennt er 2x í viku frá kl. 17:00 – 20:00.  Námskeiðið stendur fram í byrjun desember og lýkur með útskrift. 

Kennt er í FVA. Hægt er að skrá sig á heimasíðu Símenntunarmiðstöðvarinnar www.simenntun.is.  Námsvísir Símenntunarmiðst.er væntanlegur og er hann borinn í öll hús á Vesturlandi. Þar má finna nánari upplýsingar um námskeiðið.  Námskeiðið kostar 46.000 þúsund. 

Rétt er að minna fullgilda félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness á að þeir sem starfa eftir kjarasamningum félagsins og Samtaka atvinnulífsins eiga rétt á styrk frá félaginu sem nemur 75% af  námskeiðskostnaðnum.  Þannig mun umrætt námskeið kosta einungis 11.500 kr. fyrir fullgilda félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness. 

05
Sep

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar launahækkunum fyrir þá tekjulægstu hjá Akraneskaupstað

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þeirri ákvörðun Bæjarráðs Akraneskaupstaðar að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin.  Eftir þeim upplýsingum sem formaður félagsins hefur þá eru það þeir starfsmenn sem taka laun eftir launaflokkum 115, 116 og 117 sem fá umræddar hækkanir og eru þær á bilinu 2,5 til 3%. 

Vissulega hefði verið ánægjulegt að sjá lagfæringu á launakjörum þeirra sem starfa á launaflokkum alveg upp í 122.  Það eru þessir hópar sem hvað lægstu launin hafa. 

Sveinn Kristinsson bæjarráðsmaður Samfylkingarinnar lét bóka að hann teldi samþykktina óheppilega. Vísaði hann til þess að í vor samþykkti bæjarstjórn samhljóða að verða við tilmælum Starfsmannafélags Akraness um að ef félagið sameinaðist Starfsmannafélagi Reykjavíkur myndu bæjaryfirvöld samþykkja fyrir sitt leyti að kjarasamningar yrðu á hendi hins sameinaða stéttarfélags. Mikilvægt sé að þessar viðræður félaganna verði til lykta leiddar áður en bæjaryfirvöld hafa afskipti af kjaramálum félagsins enda sé kjarasamningur í gildi. Þá kemur fram í bókun Sveins að hann telji nauðsynlegt að hækka laun hinna lægstlaunuðustu hjá bænum en telur sameiningu stéttarfélaganna farsælli leið til þess.

Það vekur reyndar furðu formanns félagsins að Sveinn Kristinsson skuli telja það koma sér betur fyrir þá sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.  Formaður félagsins gerði fyrrverandi bæjarráði grein fyrir því fyrir kosningar að þeir starfsmenn sem lægstu hafa launin hjá Akraneskaupstað myndu sáralítinn ávinning hafa af því að sameinast suður til Reykjavíkur.  Í sumum tilfellum eins og hjá ræstingafólki myndi sameining fela í sér tekjulækkun.

Hins vegar upplýsti formaður félagsins Svein og þá sem áttu sæti í bæjarráði að stjórnendur, millistjórnendur og forstöðumenn myndu hækka um tugi þúsunda við það að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. 

Einnig er rétt að minna á að Karl Björnsson hjá Launanefnd sveitafélaga sagði í viðtali við Skessuhornið á sínum tíma að sameining Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar og Starfsmannafélags Reykjavíkuborgar myndi þýða sáralitla breytingu fyrir þá sem lægstu launin hafa.  Hins vegar myndu hæstu launin hækka umtalsvert.    

Það er formanni félagsins alveg fyrirmunað að skilja hvernig Sveinn getur talið það farsælast fyrir þá tekjulægstu að sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar á grundvelli þeirra staðreynda sem hann hefur verið upplýstur um.

Rétt er að minna á að stjórn Verkalýðsfélags Akraness bauð Starfsmannafélagi Akraneskaupstaðar að hefja viðræður um sameiningu eða samstarf. Það telur formaður félagsins mun farsælla fyrir ófaglærða starfsmenn Akraneskaupstaðar. Því miður reyndist ekki vilji fyrir því hjá stjórn STAK.

04
Sep

Formaður félagsins fór í eftirlitsferð í þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu

Formaður félagsins fór og heimsótti þau fyrirtæki á Akranesi sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Að þessu sinni voru aðallega byggingarfyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn til skoðunar.

Það er alveg ljóst að umfjöllun Blaðsins undanfarið um kennitöluleysi, réttindi og aðbúnað erlends vinnuafls hefur gert það að verkum að atvinnurekendur eru að taka við sér hvað þessa þætti varðar.

Verkalýðsfélag Akraness er nú að vinna úr þeim upplýsingum sem fengust í þessum vinnustaðaheimsóknum og er m.a. að athuga hvort fyrirtækin hafa tilkynnt starfsmennina til vinnumálastofnunar eins og lög kveða á um.    

01
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna farin í gær

Í gær fóru um 100 eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness í dagsferð í boði félagsins. Í þetta sinn var farið um Reykjanesið og heppnaðist ferðin afskaplega vel. Veðrið lék við ferðalangana sem í fylgd Jóhönnu Þórarinsdóttur leiðsögumanns skoðuðu sig um á svæðinu.

 

Steinunn Kolbeinsdóttir við myndina

Þegar leiðsögumaðurinn var komin upp í rútuna í Keflavík var ekið sem leið lá yfir Miðnesheiði. Fyrsti áfangastaður var Hvalsneskirkja þar sem fróðleikur var fenginn um kirkjuna sjálfa og Hallgrím Pétursson sem var prestur þar um tíma. Síðan var ekið um Romshvalanes í gegnum Sandgerði út í Garð þar sem Byggðasafnið á Garðsskaga var skoðað. Þar er einnig mikið vélasafn sem vakti athygli margra. Sérstaklega er skemmtilegt að minnast þess að á byggðasafninu rákust ferðalangarnir óvænt á málverk af Steinunni Kolbeinsdóttur sem einmitt var með í för. Málverkið var gert árið 1940 eftir ljósmynd af Steinunni þar sem hún situr við rokkinn sinn.

Eftir áhugavert stopp á Garðsskaga var ekið til Keflavíkur þar sem boðið var upp á hádegisverð á veitingastaðnum Ránni. Að hádegisverði loknum var farið Reykjaneshringinn, ekið um Hafnir, Álfubrúin, Reykjanesviti og Valahnúkur skoðaður og stoppað við Gunnuhver. Þaðan var ekið framhjá Grindavík og í Bláa Lónið þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti áður en lagt var af stað upp á Skaga.

Myndir frá ferðinni verða settar inn á síðuna von bráðar.

30
Aug

Verkalýðsfélag Akraness styrkir unglingastarf SÁÁ um 100.000 kr

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á stjórnafundi í gærkveldi að styrkja unglingastarf SÁÁ um 100.000 kr. 

Rökin fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness skuli telja sér það skylt að styðja við bakið á unglingastarfi SÁÁ blasa raunar allstaðar við.  Tugir einstaklinga af okkar félagssvæði sem hafa átt um sárt að binda sökum ofneyslu áfengis eða fíkniefna hafa notið aðstoðar og hjálpar SÁÁ .

Stjórn Verklýðsfélags Akraness er stolt af því að geta lagt unglingastarfi SÁÁ lið í því góða starfi sem þar er unnið. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image