• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jun

Formannafundur hjá Starfsgreinasambandinu var haldinn í gær

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands funduðu í gær.  Tilefni fundarins var að fara yfir stöðuna við Samtök atvinnulífsins vegna endurskoðunar á kjarasamningum.  Einnig var til umræðu aðkoma ríkisstjórnarinnar að hugsanlegu samkomulagi við Samtök atvinnulífsins.

Það liggur orðið fyrir að í nýjum taxtaviðauka munu launataxtar hækka um 15 þúsund krónur og mun það gilda fyrir alla  kjarasamninga og sérkjarasamninga sem félagið hefur gert við Samtök atvinnulífsins.  

Hafi starfsmaður hinsvegar einhverskonar viðbótargreiðslur sem ekki er getið um í kjarasamningum þá hefur atvinnurekandi heimild til að draga viðbótargreiðsluna frá sem nemur allt að 15 þúsund krónum.    

Það náðist hinsvegar að tryggja að fastir afkastahvetjandi bónusar sem ekki er getið um í kjarasamningum í fiskvinnslunni komi ekki til lækkunar á 15 þúsund króna taxtaviðaukanum.  Með þessu er nánast öllum sem starfa í fiskvinnslu tryggð 15 þúsund króna taxtahækkun.

Formaður félagsins telur að miðað við aðstæður geta félagsmenn nokkuð vel við unað þó svo að vissulega hefði við formaðurinn viljað sjá en og meiri hækkanir til okkar félagsmanna.

Staðan er því þannig núna að verkalýðshreyfing er orðin nokkuð sátt við drögin að samkomulagi  við Samtök atvinnulífsins.  Því miður er ekki hægt að segja það sama með aðkomu ríkisins að þessu samkomulagi.  Þó er það vissulega  ánægjulegt að lagfæring mun koma á vaxta-og barnabótakerfið sem mun klárlega skila okkar félagsmönnum töluverðum ávinningi.   Ríkisstjórnin hefur því miður hafnað nýju skattþrepi handa þeim tekjulægstu og við það á verkalýðshreyfing afar erfitt með að sætta sig við.  Formaður félagsins telur það mjög mikilvægt að persónuafslátturinn verði verðtryggður og þá kröfu eigum við að gera á ríkisstjórnina. 

Stjórn félagsins mun halda félagsfund þar sem samkomulagið verður kynnt fyrir félagsmönnum þegar það liggur endanlega fyrir.

21
Jun

Festa lífeyrissjóður stofnaður á Akranesi

Á mánudaginn sl. var haldinn á Akranesi stofnfundur Festu lífeyrissjóðs. Sjóðurinn varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Vesturlands og Lífeyrissjóðs Suðurlands. Lífeyrissjóður Suðurlands var sameinaður úr Lífeyrissjóði Suðurnesja og Lífeyrissjóði Suðurlands um mitt síðasta ár.  Stjórnir sjóðanna hófu viðræður í apríl á síðasta ári og á vormánuðum síðasta árs var skipuð sérstök viðræðunefnd sem í sátu stjórnarformenn og framkvæmdastjórar sjóðanna auk eins stjórnarmanns frá hvorum sjóði. Einnig komu tryggingafræðingar sjóðanna að málinu.

Á stofnfundinum kom fram að markmið með sameiningu sjóðanna sé að auka hagkvæmni í rekstri, bæta áhættudreifingu og ávöxtun eigna og hámarka með þeim hætti þau lífeyrisréttindi sem sjóðirnir geta veitt sjóðsfélögum sínum. Einnig að stærri sjóður sé betur í stakk búinn til þess að veita þá þjónustu sem nú er krafist. Í stofnefnahagsreikningi hins nýja sjóðs þann 1. janúar 2006 var hrein eign til greiðslu lífeyris rúmlega 39,4 milljarðar króna og verður sjóðurinn því í hópi stærstu lífeyrissjóða landsins.

 

Heimili og varnarþing hins nýja sjóðs verður í Reykjanesbæ en skrifstofa sú sem Lífeyrissjóður Vesturlands rak á Akranesi verður rekin þar áfram. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Gylfi Jónasson sem áður var framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vesturlands. Kristján Gunnarsson er formaður stjórnar sjóðsins og Bergþór Guðmundsson varaformaður. Aðrir stjórnarmenn eru Ragna Larsen, Þórarinn Helgason, Bergþór Baldvinsson og Sigrún Helga Einarsdóttir. 

19
Jun

Stofnfundur hjá Lífeyrissjóði Vesturlands og Lífeyrissjóði Suðulands haldinn í dag

Þann 16. maí sl. samþykkti aðalfundur Lífeyrissjóður Vesturlands að sameinast Lífeyrissjóði Suðurlands.  Í dag er haldinn aukaársfundur hjá Lífeyrissjóði Suðurlands sem er í raun stofnfundur hins nýja Lífeyrissjóðs.  Á fundinum í dag verður t.b. kynnt nýtt nafn á hinum nýja sjóði og einnig mun verða kosið í stjórn sjóðsins.  Fundur er haldinn í fundarsal HB-Granda hér á Akranesi. 

19
Jun

Formannafundi frestað beðið eftir haldbærum upplýsingum frá ríkisstjórninni

Fyrirhugðum formannafundi hjá Starfsgreinasambandinu sem átti að vera á morgun hefur verið frestað til miðvikudags.  Eitt mál átti að vera til umræðu en það lítur að kjaramálum sem tengjast endurskoðun kjarasamninga.  Ákveðið var að fresta fundinum vegna þess að ekki liggur ennþá fyrir hver aðkoma ríkisstjórnarinnar verður í fyrirhuguðu samkomulaginu við Samtök atvinnulífsins.  Góð aðkoma ríkisstjórnarinnar er forsenda fyrir því að samkomulag náist við SA og eðlilega vilja aðildarfélög SGS fá að sjá hvert innlegg ríkisstjórnarinnar verður í áðurnefndu samkomulagi.

16
Jun

Boðað hefur verið til formannafundar í Starfsgreinasambandi Íslands nk. þriðjudag

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands hafa verið boðaðir til formannafundar á þriðjudaginn kemur.  Einungis eitt mál verður á dagskrá, en það er staðan í kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins og aðkoma ríkisstjórnarinnar að hugsanlegu samkomulagi við SA.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar nokkuð bjartsýnir að það náist samkomulag við Samtök atvinnulífsins.  Hins vegar liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort  aðkoma ríkisstjórnarinnar að samkomulaginu sé nægileg til að forða uppsögn kjarasamninga í haust.  Væntanlega mun það skýrast á fundinum á þriðjudaginn.

15
Jun

Ríkisstjórnin hafnar nýju láglaunaskattþrepi, hins vegar vafðist ekki fyrir ríkisstjórninni á sínum tíma að afnema eignar-og hátekjuskatt

Á mbl.is í dag er haft eftir Hannesi G. Sigurðssyni hjá Samtökum atvinnulífsins að líkur séu á að samkomulag náist um hærri greiðslu en sem nemur 12 þúsund krónum í svo kölluðum taxtaviðauka.  Hversu mikið sú hækkun mun nema kom ekki fram í fréttinni.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur látið hafa það eftir sér að 15 þúsund króna hækkun á taxtaviðauka sé algert lágmark hvað varðar þann þátt samkomulagsins. 

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá þarf að tryggja þeim sem starfa í tímamældri ákvæðisvinnu sambærilega hækkun og boðið er í taxtaviðaukanum.  Einnig þarf að tryggja að umsamdar viðbótargreiðslur, t.d afkasta- eða frammistöðutengdir bónusar skerðist ekki, þó svo að ekki sé getið um þær viðbótagreiðslur í kjarasamningum.  Þetta er lykilatriði til að hægt verði að ganga að tilboði Samtaka atvinnulífsins. 

Reyndar er formaður félagsins ekki ýkja svartsýnn á að það náist að lagfæra það tilboð sem SA hefur lagt fram þannig að verkalýðshreyfingin verið nokkuð sátt.  Hins vegar hræðist formaður félagsins mun meira að aðkoma ríkisstjórnarinnar verði ekki með þeim hætti sem verkalýðshreyfingin geti sætt sig við.  Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur hafnað nýju láglaunaskattþrepi og einnig hafa þeir hafnað því alfarið að endurskoða eftirlaunafrumvarpið sem samþykkt var 2003 við litla hrifningu hjá meginþorra þessa þjóðar.  Enda eru eftirlaun æðstu ráðamanna þessarar þjóðar ekki í neinum takti við það sem gerist hjá hinum almenna launamanni.  Ekki vafðist það fyrir núverandi ríkisstjórn að afnema hátekjuskattinn og eignarskattinn.  Hins vegar tók það  ekki langan tíma hjá ríkisstjórninni að hafna verkalýðshreyfingunni um nýtt skattþrep fyrir lægstu launin.  Það er rétt að minna á að það er einungis tæpt ár í alþingiskosningar og íslenskt verkafólk verður ekki búið að gleyma þeirri höfnun og einnig verður íslenskt verkafólk ekki búið að gleyma því hvernig núverandi ríkisstjórn lagfærði skattkerfið fyrir eigna- og hátekjufólk. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image